IKEA

Fórum í IKEA í dag. Markmiðið aðeins eitt, að kaupa baðskáp fyrir handklæði. Stutt ferð. Emil í Kattholti og Lína langsokkur tóku á móti okkur með blöðrum og nammi. Á leiðinni upp rúllustigann yfirbugaði neonlýsingin sólarljósið. Eftir nokkur skref til viðbótar vorum við kominn inn í völundarhúsið.

Endalausir ranghalar þar sem maður gengur í gengum hvert rýmið af fætur öðru hlaðið varningi sem maður er ekki að leita að. Eins og rottur í vísindatilraun. Ég fann lífþrek mitt smám saman dofna. Þurfti að taka á öllu mínu til að muna hvað það var sem ég kom til að kaupa.

Komum loks í deild þar sem brá fyrir baðhirslum af ýmsu tagi. Fundum lausn sem okkur líkaði og lögðum á minnið númer gangsins á lagernum þar sem hana væri að finna. Héldum ferðinni í gegnum völundarhúsið áfram. Leituðum að leiðinni í lagerhúsið. Merkingar vísuðu á það í tvær gagnstæðar áttir.

Ég snérist í hring og rakst á mann sem starði tómum augum beint fram úr andlitinu. Hann ríghélt sér í innkaupakerru. Ég sté skref til baka og horfði á strauminn taka manninn með kerruna og bera hann í átt að sófadeildinni.

Við hröðuðum okkur í hina áttina og skömmu síðar sáum við lagerganginum bregða fyrir. Fundum réttan stað á lagernum og lásum á miða í hillunni. "Vara væntanleg." Gengum út af lagernum og fórum í röð til að borga dyramottu sem við höfðum gripið upp á leiðinni.

Eftir að út var komið dró ég andann djúpt nokkrum sinnum. Tók eftir því hvað veðrið var fallegt, vindurinn ferskur, loftið tært og bjart yfir borg og mönnum. Ég fann lífsþrek mitt aukast á ný.

Maður er þakklátur fyrir hið smáa í lífinu eftir ferð í IKEA.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björk Vilhelmsdóttir

Keypti fyrir 2 vikum skáp í IKEA og það gleymdist að kaupa eina skáphurðina. Er enn að safna kjarki til að fara í þann leiðangur, því fataskápadeildin er lengst í burtu og ég þarf að labba í geng um ALLT. Ætlaði mér um helgina en ákvað að vera heima þegar ég sá auglýsta afmælishátíð. Mikið var ég heppin að velja rétt í dag.

Björk Vilhelmsdóttir, 14.10.2007 kl. 22:11

2 Smámynd: Eyjólfur Sturlaugsson

En það er góð og ódýr matsala í IKEA.

Eyjólfur Sturlaugsson, 14.10.2007 kl. 23:04

3 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Er það nema von að IKEA gangi hjá sumum undir nafninu "Stóra hryllingsbúðin"

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 15.10.2007 kl. 07:56

4 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Síðast þegar ég fór í Ikea varð ég svo skapvond að ég þekkti ekki sjálfa mig. Kannski er það ástæðan fyrir því að orkidean sem ég keypti þar vill ekki blómstra hjá mér? En ég skil ekki fólk sem finnst gaman að fara á svona staði!

Úrsúla Jünemann, 15.10.2007 kl. 14:29

5 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ég hreyki mér að því við hvern sem nennir að hlusta að ég læt ekki plata mig inn í IKEA.... Ekki enn farið í nýju IKEA og ætla ekki.
Mér leið svona eins og þú lýsir í gömlu búðinni og veit að ég á ekkert erindi í þá nýju sem er nógu áríðandi til að leggja þetta helv... á mig

Heiða B. Heiðars, 15.10.2007 kl. 14:50

6 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ömurleg verslun.. en samt fer maður aftur og aftur.... segir margt um músareðlið í manni held ég...

Óskar Þorkelsson, 15.10.2007 kl. 16:59

7 Smámynd: Sigurbjörg Sigurðardóttir

Hef enþá ekki haft kjark til að fara í þetta risa skrímsli.Ætli ég geri ekki yoga viku áður en ég fer þar inn.

Sigurbjörg Sigurðardóttir, 15.10.2007 kl. 19:24

8 Smámynd: Róbert Þórhallsson

Þetta er fínasta líkamsrækt. Fínt vöruúrval og alltaf gott að fá sér í svanginn þarna án þess að tæma úr buddunni. Óttaleg neikvæðni er þetta í fólki.

Róbert Þórhallsson, 16.10.2007 kl. 00:34

9 Smámynd: Ingólfur

Allir hata IKEA en flestir fara þangað samt. Og oftast kaupir fólk eitthvað jafnvel þó að þeir hafi ekki fengið það sem þeir ætluðu að kaupa.
Maður verður nú svoldið að dást af þeim fyrir þetta.

Annars er mesti hryllingurinn að flest í IKEA á Íslandi er allavega 50% dýrara en í IKEA í Danmörku. Það er auðvelt, en frekar niðurdrepandi, að bera þetta saman í vörulistanum á ikea.dk.

Ingólfur, 16.10.2007 kl. 01:04

10 Smámynd: Theódór Norðkvist

Fólk er alltaf að heimta ódýrari og ódýrari vörur. Vandamálið er að lága verðið kostar. Það kostar að sparað er til í yfirbyggingu, gerð eru magninnkaup og lögð áhersla á fjöldaframleiddar vörur með litlum tilkostnaði.

Niðurstaðan verður svona færibandaafgreiðsla eins og er í IKEA og Bónus í matvörugeiranum. Síðan er hinn kosturinn að borga aðeins meira og fá vandaðri vöru, betri þjónustu og umgjörð.

Ég er reyndar hrifinn af þeirri stefnu hjá IKEA að selja ósamsett húsgögn og láta kaupandann um að setja saman hlutina. Það eitt og sér heldur verðinu lágu og stuðlar að betri verkkunnáttu almennings í leiðinni.

Theódór Norðkvist, 16.10.2007 kl. 03:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband