Safnverðir trúarinnar

Umræðan um nýja Biblíuþýðingu og hjónaband samkynhneigðra styrkja mig mjög í trúnni.

Þeirri trú að íhaldsöflin sem stjórna Þjóðkirkjunni hafi fyrir löngu gefist upp á hinu heilaga verkefni sínu að túlka og predika "hið lifandi orð". Þjóðkirkjan er orðin að stóru rykföllnu trúarsafni. Umburðarlyndi, kærleikur og fyrirgefning eru dauð orð úr munni safnvarðanna.

Það er ekki undarlegt að viðhorf fólks breytist á 2000 árum. Það er heldur ekki slæmt. En af því að tímarnir breytast og mennirnir með þurfa þeir sem predika hið lifandi orð að láta inntakið í því sem Kristur boðaði vísa sér veginn en ekki orðalag í gömlum skruddum.

Ef herra Biskupinn gerði það væri hann ekki í nokkrum vafa um að samkynhneigðir hafa sama rétt á að njóta blessunar hjónabandsins og gagnkynhneigðir, bláeygðir eða örvhentir.

Ef Reykholtsprófastur teldi boðun fagnaðarerindisins mikilvægara en safnavörslu myndi hann t.d. sjá í hendi sér að það er gott en ekki slæmt að aðlaga leiðbeiningarritið (Biblíuna) þeim breyttu aðstæðum að konur hafa jafnan rétt og karlar. Bræður og systur.

Hitt er svo mikið vafamál hvort samkynhneigðir eiga að vera að eltast við að fá viðurkenningu á tilverurétti sínum hjá steingeldri kirkjustofnun. Það er ekki hægt að neyða bókstafstrúarmenn til að opna hug sinn. Það er betra að fyrirgefa þeim - og snúa sér annað.

Það er rétt um áratugur síðan sérstök nefnd innan kaþólsku kirkjunnar skilaði áliti þess efnis að jörðin væri ekki flöt. Vonandi verða hin frjálslyndu öfl innan Þjóðkirkjunnar eitthvað fljótari að draga hana inn í nútímann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll.

Ég skil ekki alveg hvers vegna einstaka menn eru að vilja með að breyta fyrir sig og sína heilli kirkju. Það er þegar vitað að ein af fríkirkjunum, þ.e.a.s. Fríkirkjan í Reykjavík er tilbúin til að taka við þeim sem ekki vilja nota trúfélag sem heldur sig við boðskap Krists. Ekki ér sá sem hér ritar Búddatrúar, einfaldlega vegna þess að trúarrit og kenningar þeirra eru ekki að skapi undirritaðs. Það er ástæðan fyrir verunni í Þjóðkirkjunni. Sama held ég að hommar og lesbíur ættu að gera með trúfélagsskráningu sína. Góður vinur minn sem er hommi, flutti sig yfir í Ásatrúarfélagið þar sem þeir taka við kristnum og mega þeir hinir sömu halda áfram með kristni sína í bland við annað.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 24.10.2007 kl. 12:04

2 identicon

Það má ekki rugla kirkjunni og Biblíunni saman.  Þó kirkjan eigi rætur í Biblíunni þá er það ekki sú bók sem ræður orðum og athöfnum þeirra sem stýra stofnuninni kirkja. 

Það á ekki að túlka og endurrita Biblíuna í anda nýrra tíma.  Biblían er samsafn gamalla rita sem einungis á að þýða eins vel og hægt er til að koma hugmyndum frá þessum gamla tíma til skila til nýrri kynslóða.  Finnist ný handrit frá þessu tímaskeiði sem gætu upplýst okkur enn betur um hugarfar forfeðra okkar þá mætti gjarnan bæta þeim við.  En ritin sjálf ættu að vera eins nákvæm og rétt þýdd hægt er. 

Kirkjan, prestar hennar og prelátar mættu hins vegar færa sig fram til nútímans í viðhorfum sínum, fordómum og hegðun.

Inga Helgadóttir (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 15:16

3 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Sæll frændi

Langt síðan ég hef kíkt hér við og bið ég þig að afsaka það. Flott blogg hjá þér eins og oftast

Eitt er það sem mig langar að ræða í sambandi við þetta og það er þegar prestar blessa. Prestar geta ekki blessað sambúð samkynhneigðra frekar en nokkurra annarra. Þeir geta einungis beðið um blessun drottins þeim til handa. Prestar eru bara breyskir menn.
Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum. Manninum var ekki ætlað að dæma náungan samkvæmt lúterskri trú. Þegar þetta allt er skoðað þykir mér liggja ljóst fyrir að prestar sem lifa eftir lúterskum trúarboðskap geta ekki neitað samkynhneigðum pörum um blessunarbæn.

Tek þó undir þetta hjá þér með að samkynhneigðir ættu að leita annað.

Ágúst Dalkvist, 24.10.2007 kl. 15:25

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Mér sýnist þér, því miður, hafa ratast rétt orð á munn Dofri og innleggið frá hinum sjálfskipaða Predikara styrkir því miður það sem þú segir. 

Menn hafa afbakað kristna trú með  prjáli, rembu og snobbi. Fagnaðarerindið  er kæft með fordómum. Kærleikanum er á dyr vísað - ekki hjá Kristi -heldur hjá mönnum sem berja sér á brjóst og telja sig æðri öðrum mönnum. Þessir menn eru hústökumenn í kirkju Krists og hafa brugðið slagbrandi fyrir dyrnar.

Ef Biblían væri fiskur myndu þeir aðeins borða beinin.

Smá ,,beinhreinsaður og roðlaus fiskbiti" úr  Jóhannesarguðspjalli ....

"Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.
En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans."

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 24.10.2007 kl. 15:34

5 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Þú segir hér það sem ég hef hugsað undanfarna daga, annaðhvort eru menn jafnir fyrir Guði eða ekki. Ekkert næstum. Þjóðkirkjan verður að vera sjálfri sér samkvæm. Það er ekki nóg að segjast hafa umburðarlyndi, kærleika og fyrirgefa, það verður að sýna slíkt í verki.

Tal um ómaklegar árásir koma mér spánskt fyrir sjónir þar sem ég hef margreynt það verandi utan trúfélaga að skilningur kirkju og skóla á réttindum einstaklinga utan trúfélaga er enginn og hafa börnin mátt þola sérkennilegar athugasemdir fyrir það. Umburðarlyndi kirkju og skóla gagnvart minnihlutahópum er undarlega lítið.

Þjóðkirkja og biskup: lítið ykkur nær áður en talað er um ómaklegar árásir. Vísa að öðru leyti til nýlegra pistla minna.

Kristjana Bjarnadóttir, 24.10.2007 kl. 17:51

6 identicon

Ég spyr þig Dofri:  Hvern kallar þú Reykholtsprófast? Mér vitandi situr prófastur Borgfirðinga þann merka stað Borg á Mýrum og heitir sá Þorbjörn Hlynur.

Endurspeglast kannski þarna þekking þin á innviðum Þjóðkirkjunnar?

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 21:01

7 Smámynd: Dofri Hermannsson

Þarna greipstu mig í landhelgi Guðmundur. Umfram allt sýnir þetta þó hvað ég tel sóknarprestinn í Reykholti í háum virðingum innan Þjóðkirkjunnar. Kannski ekki skrýtið þegar haft er í huga hve oft hann er talsmaður hennar. En ég játa fúslega að ég er trúlega ekki tíðari gestur í Þjóðkirkjunni en blessaður Frelsarinn.

Dofri Hermannsson, 24.10.2007 kl. 22:25

8 identicon

Blessaður Frelsarinn er tíður gestur í Þjóðkirkjunni - ég get alveg sagt þér það. Eða efastu um að ég upplifi samband við frelsara minn sem meðlimur í Þjóðkirkjunni? Eða telur þú þig hafa forsendur til þess? Eða var ekkert að marka þá færslu þína þegar þú spurðir: "Hvað myndi Jesús gera?"

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 23:03

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ertu kristinn, Dofri? Játarðu trú á Krist sem frelsara þinn og endurlausnara? Játarðu guðdóm hans? Játarðu trú á Heilaga Þrenningu? Ef ekki, hvað ertu þá að lýsa því hér yfir, hvað Þjóðkirkjan eigi að gera með trúarbók sína (skófla henni) eða ákveða í kenningarefnum? Hvað í ósköpunum kemur þér það við, ef þú ert trúlaus með öllu? Og ætlarðu að koma fram undir þeim merkjum í kosningabaráttu þinni næst?

Mikið rosalega er þetta innihaldslaust, þ.e. á hverju þú byggir forsendur þínar eða öllu heldur bláeyga trú á samkynhneigðrastefnu nútímans. Þið þurfið aldrei að rökstyðja neitt, nóg að veifa bara víðsýnis- og umburðarlyndisflagginu og stimpla alla aðra fordómafulla afturhaldsseggi, án þess að skoða gögn þeirra og heimildir.

Svo er þetta í máli þínu jafnrangt og allt hitt: "Það er rétt um áratugur síðan sérstök nefnd innan kaþólsku kirkjunnar skilaði áliti þess efnis að jörðin væri ekki flöt." -- Þetta er jafnmikil söguskekkja eins og villan þín um Geir "prófast". Þessi sérstaka nefnd lýsti þessu aldrei yfir, enda hafði kirkjan ALDREI lýst því yfir, að jörðin sé FLÖT. Athugaðu t.d., hvað dr. Þorsteinn Vilhjálmsson segir í bók sinni Heimsmynd á hverfanda hveli, I, s. 147: "Áður en lengra er haldið, ætla ég að leiðrétta grundvallarmisskilning sem ég hef sjálfur verið haldinn af. Ég á við þá ranghugmynd sem er líkasttil útbreidd meðal nútímamanna, að það hafi verið almenn skoðun lengi fram eftir öldum að jörðin væri flöt, trúlegast eins og pönnukaka. Menn halda þá kannski að þessari skoðun hafi ekki verið hnekkt fyrr en með frægum og frækilegum ferðum Kólumbusar og Magellans. -- Þetta er hins vegar misskilningur. Þegar Kólumbus ætlaði að stytta sér leið til Indlands með því að sigla í vesturátt, hafði upplýstum mönnum verið ljóst um árþúsundir að jörðin væri kúlulaga. Og það var ekki tilhæfulaus hugdetta, heldur hugmynd sem studdist við raunhæfar athuganir, og skorti nánast það eitt á að menn hefðu hreinlega farið kringum kúluna (sjá töflu 10 til yfirlits) ..." (Sbr. einnig þetta á netinu: þessa vefslóð mína og þó enn frekar þessa vefslóð mína; einnig þessa hjá Ólafi Hauki Árnasyni sagnfræðinema og þessa hjá sama).

Villur þínar um Þjóðkirkjuna, kristna trú og kirkju og samkynhneigðramálin eru þó miklu alvarlegri en flatjarðarkenningasmíð þín eða villan um séra Geir.

Jón Valur Jensson, 25.10.2007 kl. 10:39

10 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Ekkert er verra en íhaldið!

Þórdís Bára Hannesdóttir, 25.10.2007 kl. 10:40

11 identicon

Í meira lagi er varasamt að kveða upp altæka dóma um Þjóðkirkjuna og leggja ekki annað til grundvallar en þá stefnu í málefnum samkynheigðra sem fylgt er, sem vissulega er íhaldssöm. "Umburðarlyndi, kærleikur og fyrirgefning eru dauð orð úr munni safnvarðanna," segir í grein Dofra sem fullyrðir jafnframt að kirkjan sé steingeld! Slíkar fullyrðingar bera vott um fordóma, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Velflest leitum við til kirkjunnar á hátíðisstundum í lífi okkar - og margir finna þar umburðarlyndi, kærleik og fyrirgefningu. Það er ekki hægt að segja kirkjuna myrkrahöll í mannlífinu, þó stefna hennar í einu máli sé á skjön við félagslegan rétttrúnað.

Kveðja, Sigurður Bogi

Sigurður Bogi Sævarsson (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 10:56

12 Smámynd: Ágúst Dalkvist

"En ég játa fúslega að ég er trúlega ekki tíðari gestur í Þjóðkirkjunni en blessaður Frelsarinn." Vona að mér verði fyrirgefið það, en þetta er einhver fyndnasta setning sem ég hef séð lengi

Mig langar aðeins að spurja þá sem gagnrýna þetta blogg hjá Dofra nokkurra spurninga.

Er það ekki rétt að prestar eru bara menn? Eða eru þeir heilagri en aðrir?
Er það ekki rétt að lúterstrú boðar að allir menn séu jafnir?
Er það ekki rétt að lúterstrú boðar að maður skuli ekki dæma náunga sinn, að drottinn sjái um það þegar rétti tíminn verði til þess?
Er það ekki rétt að maður getur ekki blessað fyrir hönd drottins, heldur einungis beðið um drottins blessun?

Ég sagði mig úr þjóðkirkjunni fyrir mörgum árum, hafði efast um mína trú í mörg ár þá og geri enn, en það sem fyllti mælinn var að mér fannst hræsnin innan þjóðkirkjunnar vera fram úr öllu hófi og það virðist vera enn. Mér þykir að ráðamenn hennar líti á sig sem þeir geti dæmt í nafni Guðs sem þeir geta klárlega ekki.

Ekki það þó að ég hafi sagt mig úr þjóðkirkjunni í einhverri illsku heldur einungis það að ég sá að ég átti þar ekki heima og vildi ekki leggja nafn mitt við það háttalag sem innan hennar er viðhaft.

Ágúst Dalkvist, 25.10.2007 kl. 12:38

13 Smámynd: Helga Dóra

Heitar umræður marrr,,, en mig hefur alltaf langað að vita og hef auglýst eftir svari á mínu bloggi. Afhverju er samkynhneigðir að rembast við að fá samþykki hjá stofnun eins og þjóðkirkjan er???? Umburðalyndi og kærleikur er það sen Jesú predikaði en ef (og ég segi ef af því að margir túlka þetta misjafnt hvað stendur í Orðinu,) það er málið að Biblían talar á móti samkynhneigð, þá er það þá umburðalyndi og kærleikur ekki að samþykkja það sem er "rangt" ég elska börnin mín og sýni þeim umburðalyndi og kærleik í anda minnar kristinnar trúar en ef þau gera rangt þá tek ég á því. Eitt enn, Kirkjan er Biblían. Það er mín skoðun, annað væri að segja að AA og sporin 12 væru ekki það sama. Hvað er kirkjan ef hún er ekki það sem Biblían boðar??? Ég bara verð að fá svar við því!!!!!!!!!!!

Helga Dóra, 25.10.2007 kl. 16:17

14 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Það er ekki mikið um umburðarlyndi sannkristinna sem geysast fram á ritvöllinn...

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 26.10.2007 kl. 00:05

15 Smámynd: Guðrún Birna le Sage de Fontenay

Tek undir það sem þú segir Dorfi

og sérstaklega þetta:

Það er ekki undarlegt að viðhorf fólks breytist á 2000 árum. Það er heldur ekki slæmt. En af því að tímarnir breytast og mennirnir með þurfa þeir sem predika hið lifandi orð að láta inntakið í því sem Kristur boðaði vísa sér veginn en ekki orðalag í gömlum skruddum.

Langar í þessu samhengi að benda á þennan bloggara sem segir:

Alla klassíska texta bera að uppfæra í hæfilegum takt við tíðarandann hverju sinni sé ætlunin að láta fólk taka mark á honum. Þetta þekkja lögfærðingar ágætlega út frá hugmyndum um breytilega skýringu á grundvallarlögum. Frægasta dæmið um slíka texta er sennilega bandaríska stjórnarskráin og Bill of rights sem eru orðnir rúmlega 200 ára gamlir textar sem þó mynda hryggjarstykkið í því sem kalla má vestræna lýðræðishugsun. Þeir standa sem slíkir fyllilega fyrir sínu af þeirri ástæðu að mannfólkið hefur borið gæfu til að túlka textana í takt við tíðarandann hverju sinni en ekki út frá þrælasamfélagi norður Ameríku á átjánduöldinni um það leiti sem þeir voru skrifaðir.

Kveðja,
Guðrún Birna

Guðrún Birna le Sage de Fontenay, 29.10.2007 kl. 16:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband