4.11.2007 | 15:29
Búum til bremsur
Það kveður við nýjan tón í ræðu Iðnaðarráðherra um orkumálin á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. Þar kom skýrt fram vilji ráðherrans til að stöðva þá þróun að einkaaðilar kaupi upp orkuauðlindir landsins, líkt og við liggur að þegar hafi gerst með Hitaveitu Suðurnesja.
Það er gjarna bent á að síðasta ríkisstjórn hafi tekið allar bremsur úr sambandi í þessum málum. Það er rétt og framkvæmdavaldið getur fátt gert til að stjórna því hvar byggðar eru virkjanir og álver ef ekki eru fyrir því lagaheimildir.
Það er býsna öfugsnúið að í miðri þenslu og skorti á vinnuafli, nú þegar Seðlabankinn hækkar vaxtabyrði íslenskra heimila og atvinnulífs um hálft prósent, þá skuli vera hamast við að koma upp álbræðslu í Helguvík. Álbræðslu sem krefst afar umdeildra virkjana vegna umhverfisáhrifa og línulagna sem mun stórskaða möguleika Reykjaness sem útivistarsvæðis.
Í ræðu iðnaðarráðherra kom fram að verið væri að gera úttekt á hagrænum afleiðingum af aukinni álframleiðslu á næstu árum. Niðurstöðunnar er að vænta á næstu mánuðum. Þetta eru góð tíðindi og á grunni þeirra niðurstaðna vænti ég að megi búa til nýjar bremsur.
Ég vona líka að strax verði farið í að endurbæta aðferðafræðina við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Mér þykir undarlegt að í því skuli hagkvæmni framkvæmda ævinlega miðuð við að ekkert annað yrði gert.
Af hverju eru ekki möguleikar Ölkelduháls sem útivistarsvæðis kannaðir til hlítar og bornir saman við hagnað af virkjun svæðisins? Er réttlætanlegt að granda svæðinu sem verðmætu náttúrusvæði án þess að þetta sé rannsakað? Gildir ekki það sama um Reykjanes í heild? Hver eru verðmætin sem fólgin eru í möguleikum svæðisins sem Eldfjallagarðs með ótal gönguleiðum, hellum og jarðfræðilegum undrum?
Ég legg hér með inn ósk um að þegar til stendur að virkja á verðmætum náttúrusvæðum verði þeir nýtingarmöguleikar svæðisins sem samrýmast verndun þeirra metnir og ákvörðun tekin með tilliti til þess og með varúðarregluna í huga.
Núverandi löggjöf í orkumálum allsendis óviðunandi" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:35 | Facebook
Athugasemdir
Það verður að koma böndum á þessa hringavitleysu tafarlaust.
Það eru forsendur til að halda næturfundi til að setja lög sem stöðva sjálfvirkni markaðstrúboðanna. Íslensk orka er auðlind sem ekki má lengur lenda í klóm hryðjuverkasamtaka Landsvirkjunar og siðlausra gróðahyggjurándýra.
Ég óttast að það séu aðeins fáir dagar þar til ég verð kommúnisti.
Árni Gunnarsson, 4.11.2007 kl. 15:54
Frábærir pistlar hjá þér undanfarið. Haltu áfram Dofri!
Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 17:38
Athyglisvert að það eru ekki nema tvö ár eða svo síðan nýju raforkulögin tóku gildi. Þar var sérstaklega búinn til markaður fyrir FRAMLEIÐSLU og sölu á rafmagni.
Á landsfundi Sjálfstæðismanna 2007 var sérstaklega tekið fram í ályktun að auka eigi aðkomu einkaaðila að útrás orkufyrirtækjanna. Í október var það skyndilega í algjörri andstöðu við stefnu sama flokks, a.m.k. ef maður á að taka mark á borgarfulltrúum og alþingismönnum sem studdu borgarstjórnarfulltrúana í vitleysunni.
3. október greiddu Sjálfstæðismenn, Framsóknarmenn og Samfylkingarmenn atkvæði með sameiningu REI og GGE auk þjónustusamningsins við OR. Mánuði seinna riftu þeir öllu.
Hvernig á að vera hægt að vinna með stjórnmálamönnum? Orkuútrásinni stendur ekki hætta af stjórnmálaástandi í Djibúti eða á Filipseyjum? Stjórnmálaástandið á Íslandi er í óða önn að breytast í einhvers konar farsa þar sem sömu flokkar og sama fólk skiptir um skoðanir á nokkurra vikna fresti.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 4.11.2007 kl. 18:28
Af hverju á þenslan bara að hafa áhrif á áliðnað? Ætlar Jóhanna nokkuð að fara að sprauta í bótakerfið? Þensluvaldandi. Er ekki verið að byggja tónlistarhús fyrir 15 milljarða í miðborg Reykjavíkur? Er það allt í lagi? Engin þensluáhrif af því? O jú, en engar beinar tekjur heldur dobía af útgjöldum. Við, þessir venjulegu skattgreiðendur, munum þurfa að bera þann rekstur á bakinu svo að hin sjálfskipaða menningarelíta geti skálað þarna innbyrðis í landsins dýrustu húsakynnum. Eins gott að fá nokkur álver til að fjármagna þetta brölt.
Fossvoxari (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 13:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.