5.11.2007 | 00:07
Víðlesinn Össur
Fjölmiðlar eru skondið fyrirbæri. Ég hef séð nafnið mitt í þeim nokkrum sinnum (stundum vitlaust stafað en hvað um það) þessi tvö ár sem eru liðin frá því ég fór að skipta mér af pólitík. Mest þegar ég tók þátt í prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningarnar en þá skipti miklu máli að láta fólk vita af sér.
Ég hélt súpufundi með metnaðarfullri dagskrá og frábærum fyrirlesurum um nýja atvinnulífið og náttúru landsins. Stundum var vel mætt en fjölmiðlar sáust þar aldrei, þótt ég þrábæði þá. "Ef við mættum á málefnafundi hjá öllum frambjóðendum myndum við nú ekki gera mikið annað!" sagði ágætur fréttastjórnandi við mig.
Ég var svo grænn að ég hélt að hlutverk fjölmiðlanna væri að miðla skoðunum og áformum frambjóðenda til kjósenda. Kjánaskapur. En í staðinn fékk ég birta af mér mynd með uppáhalds heimilistækinu mínu í ágætu blaði. Dofri og nýi blandarinn! Það var skemmtilegt.
"Ókeypis auglýsing" sagði vinkona mín. "Ótrúlega margir sem lesa þetta!" Ég hugsaði með mér að vonandi myndi allt áhugafólk um blandara muna eftir þessum fremur geðþekka manni þegar kæmi að prófkjörinu. Sem það kannski gerði. Hver veit? Ég fékk alla vega komment frá mömmu og nokkrum vinum mínum. Þeim fannst blandarinn flottur en að ég hefði mátt brosa meira.
Mestu viðbrögð sem ég hef fengið við umfjöllun í fjölmiðli eru þó núna þegar Dr. Össur sýndi mér þann heiður að yrkja mér vísu og setja hana á bloggið sitt ásamt nokkrum línum um tilefni hennar. Við höfum stundum skipst á vísum en á því sviði er laxadoktorinn eins og fiskur í vatni.
Hann sendi mér vísuna í tölvupósti og spurði hvort hann mætti setja hana á bloggið. Það var auðsótt. Tilefnið var póstur sem ég sendi honum um að ég ætlaði að hætta sem framkvæmdastjóri þingflokksins á áramótum. Annað hvort gleymdi hann að geta ástæðunnar eða hann langaði að umvefja málið dulúð og skapa spennu í kringum það hvað ég væri að fara að taka mér fyrir hendur. Þá list kann hann öðrum betur.
Færslan var ekki fyrr komin á netið en yfir mig fór að rigna sms-um með spurningum um hvað ég væri að fara að gera. Ég fékk m.a.s. símtöl frá öðrum löndum! Þetta sló umfjöllunina um blandarann gjörsamlega út. Vefur Dr. Iðnós er greinilega jafn víðlesinn og af er látið.
Eins og ævinlega þegar um skemmtilega dulúð er að ræða er svarið við því hvað ég er að fara að gera og af hverju ekki jafn spennu þrungið og spurningin sem blogg doktorsins vakti. Það liggur eiginlega í augum uppi.
Nú þegar Samfylkingin er tekin við stjórnartaumum í Ráðhúsinu er tækifæri fyrir 1. varaborgarfulltrúa Samfylkingarinnar, varaformann Umhverfisráðs, ráðsmann í Velferðarráði, verðandi formann stjórnar grænna svæða Orkuveitunnar og Hverfisráðs Grafarvogs að láta til sín taka.
Ég ætla ekki að missa af því - til þess fór ég í prófkjör, hélt súpufundi og lét taka af mér mynd með blandara.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég sem hélt að það væri vegna þess að þér fyndist stefna Samfylkingarinnar í orkumálum svo loðin!!
Gott að þú snúir til baka til borgarinnar, því nú þarf að losna við BJörgun úr Grafarvoginum, fá strætó í Bryggjuhverfið og taka upp deiliskipulagið til umræðu og afnema einkavegi og einkabílastæði í þessu litla fallega þorpi, og....ég skrifa þér bara bréf!
María Kristjánsdóttir, 5.11.2007 kl. 00:26
það þarf varla átak til að losna við Björgun úr voginum.. eru þeir ekki komnir með lóð á kjalarnesi ?
Skemmtilegur pistill Dofri. Gangi þér vel í nýjum verkefnum.
Óskar Þorkelsson, 5.11.2007 kl. 07:56
Ég hafði gaman af að lesa um yfirborðsmennskuna í fjölmiðlafólki. En fólk les svona víst, er ginnkeypt fyrir útliti fremur en innihaldi. Það er örugglega ákveðin list fyrir stjórnmálafólk að díla við misupplýst fjölmiðlafólk. Mér skilst að Valgerður Sverrisdóttir hafi verið orðin leikin í þeim leik á sínum tíma. Þannig að það er kannski nauðsynlegt að hafa spunameistara á bak við sig í pólitík sem eru taktískir gagnvart miðlunum. Humm, umhugsunarvert!
Gangi þér vel í borgarmálunum Dofri!
Anna Karlsdóttir, 5.11.2007 kl. 11:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.