7.11.2007 | 14:06
Hveragerðisbær leggst alfarið gegn Bitruvirkjun
Í nýrri frétt af heimasíðu Hveragerðisbæjar kemur fram að skipulags- og byggingarnefnd Hveragerðisbæjar leggst alfarið gegn Bitruvirkjun.
Nefndin gerir fjölmargar athugasemdir við framkvæmdina sem í heild má sjá hér.
Meðal þeirra athugasemda sem nefndin gerir eru:
Að mati nefndarinnar er Hengilssvæðið eitt mikilvægasta útivistarsvæðið (óspillta) á Íslandi, einkum vegna fjölbreytileika þess, auðvelt aðgengi að því og nálægð við þéttbýlasta svæði landsins. Öll breyting á núverandi yfirbragði svæðisins dregur úr gildi þess sem útivistarsvæði fyrir þá sem njóta vilja óspilltrar íslenskrar náttúru í öllum sínum fjölbreytileika. Í frummatsskýrslunni er í rauninni komist að sömu niðurstöðu en í niðurlagi 29. kafla segir ,, að áhrif Bitruvirkjunar á núverandi ferðaþjónustu og útivist verði talsverð Þá er ekki litið til þeirrar skerðingar sem framkvæmdin hefur á þá framtíðarmöguleika, sem svæðið býður upp á í ferðamannaþjónustu.
Samkvæmt frummatsskýrslunni hefur mengun, sem bundin er við framkvæmdatíma virkjunarinnar, óveruleg áhrif á yfirborðsvatn og þar sem niðurrennslisholur virkjunarinnar verði fóðraðar niður fyrir grunnvatnsstrauma muni afrennsli frá virkjuninni hafa óveruleg áhrif á grunnvatn á svæðinu. Nefndin telur að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til mengunarhættu sem fylgir virkjunarframkvæmdunum og rekstri virkjunarinnar s.s vegna umferðar og fráveitu. Í þessu sambandi telur nefndin að ekki sé með fullnægjandi hætti sýnt fram á að framkvæmdin spilli ekki gæðum neysluvatns í Hveragerði. Bent er á að vatnsbólin eru einungis í um 4,5 km fjarlægð frá virkjunarsvæðinu. Ennfremur er bent á að niðurdæling affallsvatns frá Hellisheiðarvirkjun hefur enn ekki skilað fullnægjandi árangri.
Á virkjunarsvæðinu eru vinsælar göngu- og reiðleiðir, sem þar hafa verið um aldir. Samkvæmt frummatsskýrslunni munu yfirborðslagnir þvera reiðleið á svæðinu og verður því að finna henni nýjan stað ef af framkvæmdum verður. Að mati nefndarinnar spilla fyrirhugaðar framkvæmdir eða a.m.k. draga verulega úr gæðum göngu og reiðleiða á svæðinu.
Í frummatsskýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin hafi í för með sér allnokkra aukningu á hljóðstyrk á svæði, sem annars getur talist kyrrlátt svæði. Áhrifin eru þó talin bundin við framkvæmdasvæðið. Nefndin bendir á að í nútíma þjóðfélagi er kyrrð, ekki síst í ósnortinni náttúru, eftirsóknarverð gæði. Vegna reiðleiða á svæðinu má einnig benda á að hestar eru mjög viðkvæmir fyrir hávaða.
Samkvæmt frummatsskýrslunni eru áhrif framkvæmdarinnar á loftgæði óveruleg en áhrif hennar á lykt metin veruleg. Að mati nefndarinnar er lykt einn þáttur loftgæða. Nefndin bendir á nýlegar fréttir í fjölmiðlum um loftmengun í Reykjavík frá Hellisheiðarvirkjun vegna brennisteinsvetnis (H2S). Þá veldur brennisteinsvetni einnig áfalli á einstaka málmtegundir sem getur dregið verulega úr endingartíma raftækja. Vegna nálægðar svæðisins við Hveragerði (u.þ.b. 5 km) og vegna þess að norðanátt er ríkjandi vindátt á svæðinu þá er staðsetning virkjunarinnar af þessum sökum að mati nefndarinnar mjög óhagstæð Hvergerðingum.
Framkvæmdasvæðið er svo til í túnfæti bæjarins og fjölmargir ferðaþjónustuaðilar í Hveragerði og nágrenni eiga beinna hagsmuna að gæta í þessu máli. Nefndin telur að framkvæmd sem þessi þurfi mun meiri undirbúning, rannsóknir og kynningu og telur að marka þurfi heildar stefnu um jarðhitanýtingu á Hellisheiðar- og Hengilssvæðinu áður en lengra verður haldið í virkjanaframkvæmdum. Þannig verður nauðsynleg sátt um málið best tryggð.
Afgreiðsla: Nefndin er sammála um að hér sé um að ræða framkvæmd sem muni hafa veruleg skaðleg áhrif á möguleika Hveragerðis og nágrennis sem íbúða- og ferðamannasvæðis og leggst því alfarið gegn framkvæmdinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:10 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir að birta þetta ljómandi bréf frá Hveragerði Dofri. Ég bíð svo spenntur eftir því að þú skrifir um hugmyndir Geirs H. Haarde um að sækja um að við fáum að menga meira en aðrir. Þögn Samfó var frekar ærandi í því máli á þinginu í dag. Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 7.11.2007 kl. 16:40
Hér er stuttur, yfirlætislaus en upplýsandi pistill um brennisteinsvetni og svo bendi ég á frábæra athugasemd Gunnlaugs H. Jónssonar um brennisteinsvetnismengunina sem hann finnur svo mjög fyrir eftir að Hellisheiðarvirkjun var reist, sem ég fékk leyfi til að birta á bloggsíðunni minni.
Að auki er hér úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Hellisheiðarvirkjunar og í ljósi fyrirhugaðrar Bitruvirkjunar og áhrifa hennar er þetta mjög athyglisverður lestur, einkum hvað varðar það sem hefur ekki gengið eftir miðað við áætlanir, svo og það sem talið er viðunandi með tilliti til sjón-, hljóð- og loftmengunar. Vonandi tekur Skipulagsstofnun ekki á fleiri virkjunaráformum með slíkum silkihönskum.
Lára Hanna Einarsdóttir, 8.11.2007 kl. 11:38
Í kjölfar þessarar niðurstöður frá Hveragerðisbæ langar mig að benda á eitt sem kom fram í viðtali við Eirík Hjálmarsson í útvarpinu á þriðjudagskvöld. Hann segir að OR hefur þegar komið til móts við útivist og ferðaþjónustu m.a. með því að minnka framkvæmdasvæðið og grafa lagnir í jörð. Ég tel að það sé ekki hægt að koma til móts við útivíst og ferðaþjónustu á þessu tiltekna svæði með öðrum hætti en að hætta við Bitruvirkjun. Þó svo að sérstöku plönturnar sem vaxa við framkvæmdarsvæðið verða afmarkaðar með flagglínum þá viljum við ekki skoða þær í þannig umhverfi og þó svo að hverinn sérstaki lendi nokkrum metrum fyrir utan framkvæmdarsvæðið þá yrði hann ekki skoðaður þar, nema kannski af þeim sem hafa áhuga á virkjunum. Svo er alltaf talað um Reykjadal sem eina náttúruperlan á svæðinu og t.d. að hljóðið komi ekki til með að heyrast þangað. En það er fjöldi af fallegum náttúruperlum allt í kringum framkvæmdasvæðið og gönguleið frá Ölkelduhálsi liggur um svæðið inn í Innstadal sem er ekki síður mikil náttúruperla heldur en Reykjadal. Innstidalur var aldrei nefndur á kynningu OR. Við verðum að muna að hlusta ekki bara á það sem er sagt á kynningum og í umhverfismati heldur líka að hlusta eftir því sem ekki er sagt! Elfa Dögg Þórðardóttir segir í grein í Dagskránni í dag: Hvar finnur maður t.d. heitan foss? Jú rétt við fyrirhugðum borteig nr 9!!
Hér er ekki verið að ræða um hvort það eigi að virkja eða ekki virkja almennt séð, það verður að skoðast í stærra samhengi - en á þessum stað má ekki reisa virkjun. Ég vona að Bitruvirkjun heyri bráðum sögunnar til!
Petra Mazetti (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 13:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.