9.11.2007 | 09:35
Sveitastjórinn í Örbirgð?
Í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag er viðtal við sveitastjóra Ölfuss.
Hann segir ma: "Ef við ætlum yfirleitt að lifa á landinu þurfum við eitthvað til að vinna við....Við lifum ekki á loftinu einu saman, það er alveg á hreinu." Það er augljóst að sveitastjóranum þykir kjánalegt að standa vörð um eitt merkilegasta útivistarsvæði í nágrenni höfuðborgarinnar. Líklega veit hann sem er - maður étur ekki útivist! Eða hvað? Étur maður kannski útivist?
Hvað ætli margir lifi á því að þjóna útivistargeiranum á einhvern hátt? Hvað ætli þeir tugir þúsunda sem á hverju ári ganga um útivistarsvæði Hengilsins hafi lagt í mikinn kostnað til að gera einmitt það? Keypt mikið af útivistarfatnaði, útbúið vistir og tekið frá dýrmætan tíma einmitt til að ganga um Ölkelduháls, Reykjadal og aðra fagra staði á Hengilssvæðinu? Hvað með þá sem lifa af ferðaþjónustu sem er mjög vaxandi á þessu svæði?
Sveitastjórinn gefur lítið fyrir álit nágranna sinna í Hveragerði og segir þau engin áhrif hafa á áformin. Sveitarfélagið haldi ótrautt áfram með framkvæmdina og Skipulagsstofnun ákveði þá hvort hún hafni umhverfismatinu eða ekki.
Hann bítur svo höfuðið af skömminni með því að segja: "Svo hefur sveitarfélagið útslitavald að lokum og getur tekið aðra ákvörðun en Skipulagsstofnun, eins og við gerðum með námuna í Ingólfsfjalli." Finnst sveitastjóranum umgengnin í Ingólfsfjalli vera eitthvað sem sveitarfélagið ætti að hæla sér af?
Í þessari setningu kristallast margur umhverfisvandinn í dag. Þarna hótar sveitastjórinn m.ö.o. að hafa að engu ítrarlegar athugasemdir hundruða manna, nágranna sinna í Hveragerði og niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Staðreyndin er sú að hann getur það.
Eftir að búið er að gefa út rannsóknarleyfi í litlu sveitarfélagi þar sem stjórnendur hafa þá trú að til að lifa af landinu sé nauðsynlegt að skemma það er fátt sem stoppar einbeittan vilja til þeirra verka. Skipulagsvald sveitarfélaganna er gríðarlega mikið. Þegar því valdi er stýrt eins og sveitastjórinn boðar er flestum ljóst að þetta kerfi gengur ekki upp.
Þau viðhorf sem viðtalið við sveitastjórann endurspegla eru með ólíkindum. Þetta eru viðhorf sem e.t.v. hefðu verið afsakanleg hjá sveitastjóra í afskekktri byggð þar sem kjör væru verulega slæm en ekki hjá sveitastjóra í 1.854 íbúa úthverfi höfuðborgarinnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:32 | Facebook
Athugasemdir
Hann lifir kannski frekar á óloftinu, þessi sveitarstjóri. Það er amk. af honum andleg prumpufýla!
Þorsteinn Siglaugsson, 9.11.2007 kl. 13:41
Góð umfjöllun, góðir punktar, mín færsla um þessa frétt er hér.
Á meðan við höfum ekki undan að flytja inn útlendinga til að vinna þau störf sem þarf að sinna er fráleitt að byggja fleiri álver og orkuver til að "skapa störf". Fórnarkostnaðurinn er allt of mikill og landið lagt í rúst.
Lára Hanna Einarsdóttir, 9.11.2007 kl. 15:57
Sveitastjórinn í Ölfusi á sér langa sögu sem umhverfisskæruliði og stjórnunarstörf hans hafa alla jafna einkennst af einræðistilburðum. Hann afrekaði það á Austfjörðum að leyfa efnistöku úr friðlýstum skriðum við Djúpavog, hann hafnaði ákvörðun Skipulagsstofnunar vegna malarnáms úr Ingólfsfjalli og hafnaði því að hætta námavinnslu úr Bolöldu eins og nágranasveitarfélögin gerðu. Hann veitti eins og frægt er orðið OR '' bráðabirðgarframkvæmdaleyfi'' fyrir vegalagningu og rannsóknarborunum á Hellisheiði áður en aðalskipulagi var breytt og deiliskipulag lá fyrir, hann lét sveitarfélagið borga vegalagningu og rannsóknaboranir vegna vatnsverksmiðju að Hlíðarenda í Ölfusi auk þess sem hann lánaði kaupverðið á jörðinni til 5 ára vaxtalaust. Hann framseldi Icelandic Water Holdings öll vatnsréttindi í sveitarfélaginu til 50 ára endurgjaldslaust. Hann fór ekki að sveitastjórnarlögum og hafði að engu athugasemdir minnihlutans við samninga vegna íþróttamiðstöðvar þar sem sá samningur fól í sér verulegar skuldbindingar fyrir sveitarfélagið.Hann var í viðræðum við aðila vegna áltæknigarðs þegar ljóst var að ekki yrði af stækkun í Straumsvík en lét það ekki stoppa sig í því að ræða á sama tíma við Alcan sem sýndi Þorlákshöfn þá áhuga.Á sama tíma kom hann fram og lýsti því kokhraustur yfir að hans draumur væri grænt Ölfus. Hann hefur verið strengjabrúða OR og setið og staðið eins og þeir hafa óskað auk þess sem OR hefur rétt honum bittlinga við og við eins og raflýsingu á Þrengslavegi. Hann klifar á því statt og stöðugt að byggja þurfi upp iðnað á svæðinu en ekki er atvinnuleysinu fyrir að fara. Flytja hefur þurft inn fólk til þess að manna laus störf í sveitarfélaginu. Það verður fróðlegt að fara ofan í kjölin á fjármálum sveitarfélgsins þegar hann loksins hrökklast frá völdum. Vonandi verður það sem fyrst.
Gunnar Jónsson (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 18:11
Gunnar... manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds...
Getur verið að þetta sé allt satt og rétt?
Hefurðu gögn um þetta allt saman fyrir þá sem ekki hafa fylgst jafn vel með málum í Ölfusi?
Lára Hanna Einarsdóttir, 9.11.2007 kl. 19:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.