15.11.2007 | 13:46
Ókeypisvæðing - kostir og gallar
Tilraunin um ókeypis í strætó er mjög góð og tel að við ættum að þróa hana frekar. Það er mikilvægt að skoða hvað hún færir okkur og að fá góða umræðu um málið. Ég vil því þakka fyrir góðar athugasemdir við síðustu færslu um þetta efni.
Hugmyndin um ókeypis í strætó er mjög vinsæl. Kannski er hún líka mjög góð og gæti orðið til þess að skapa hér alvöru samgöngumenningu og jafnvel sparað okkur peninga sem annars færu í að byggja umferðarslaufur og margbreiðar hraðbrautir. Mér finnst það ekki ólíklegt og tel að við ættum að láta gera kostnaðargreiningu á hinum ýmsu samgönguleiðum með það í huga að forgangsraða upp á nýtt.
Ef krafan um að geta ferðast óhindrað um borgina á álagstímum einn í bíl kostar skattgreiðendur mörgum sinnum meira en að bjóða fólki ókeypis í strætó eða að bæta hjólastíga (lýsingu, umhirðu og öryggi) þá eigum við auðvitað að endurskoða kerfið. Hanna það upp á nýtt þ.a. peningarnir okkar nýtist sem best og að við komumst greiðlega og með miklu öryggi á milli staða.
Ég geld samt dálítinn varhug við ókeypisvæðingunni. Mér finnst hún stundum vera ábyrgðarlaus. Ókeypis þjónusta er mjög vinsæl hugmynd, bæði hjá stjórnmálamönnum og kjósendum. Við hana eru bara tveir gallar, 1) ekkert er ókeypis í raun og 2) peningarnir sem settir eru í að bjóða þjónustuna ókeypis hafa tilhneigingu til að koma niður á þjónustunni sjálfri. Dæmi:
- Hvort viljum við hafa ódýrt í strætó og að hann gangi á 10-15 mínútna fresti eða hafa hann ókeypis og að hann gangi á 30 mínútna fresti?
- Hvort viljum við setja peninga í að bjóða öllum skólabörnum upp á ókeypis mat eða hafa hann ódýran en leggja peningana í að hafa hann betri og hollari?
- Hvort viljum við nota útsvarið okkar til að lækka leikskólagjöldin eða til að hækka launin svo hægt verði að manna þá?
Ókeypisvæðingin getur leitt til þess að við fáum ókeypis í strætó sem kemur of sjaldan, að við bíðum eftir ódýru leikskólaplássi sem er ekki til og að börnin okkar fái í skólanum ókeypis mat sem þau vilja ekki borða.
Það er fleira mikils virði en bara að komast á milli staða. T.d. að komast greiðlega á milli staða og ef það kæmi út úr kostnaðargreiningu á ólíkum samgönguleiðum að þjónustan við einkabílinn væri dýr miðað við aðrar leiðir væri möguleiki að forgangsraða upp á nýtt - og setja t.d. strætó í forgang í bókstaflegri merkingu.
Hvað ætli margir væru til í að taka strætó í vinnuna ef þeir sætu fastir í umferðinni á hverjum morgni og horfðu á strætó fljúga framhjá á forgangsakrein alla leið sunnan úr Hafnarfirði eða ofan úr Grafarvogi og niður í bæ? Skiptir það ekki líka máli?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er doldið sammála þér Dofri. Ég vil frekar borga fyrir betri mat í skólanum og ég vil að laun leikskólakennara verði hækkuð og þá get ég ekki farið framá að borga ekkert fyrir það. Einhverstaðar þurfa peningarnir að koma í kassann líka. Kannski mætti lækka aðeins nefndarmannalaun í borginni. Þaðan gæmu fullt af peningum, bara hugmynd
Helga Dóra, 15.11.2007 kl. 14:31
Þetta er hárrétt. Þess vegna er engin ástæða til að gefa bara ókeypis í strætó og gera síðan ekkert meira. Það að gefa ókeypis í strætó er hluti af einhverju stærra plani. Markmiðið er að draga úr umferð bíla. Til þess að það geti gerst þarf að a) búa til besta almenningssamgangnakerfi í heimi (sem verður dýrt verkefni) b) gefa ókeypis í strætó tímabundið til 2020.
Verði farið í það að gera kerfið ennþá verra vegna þess að það sé ókeypis er verkefnið fallið um sjálft sig og betur heima setið en af stað farið. Markmiðið er lykilatriðið.
Markmiðið er eins og ég sagði áðan ekki að bæta hag þeirra sem taka strætó heldur að draga úr umferð og þetta 13 ára plan er hluti af því verkefni. Mér finnst líka lykilatriði að um sé að ræða tilraunaverkefni t.d. til 2020 til þess að hægt sé að setja gjaldið á aftur þá þar sem það hafi verið planið allan tímann. Markmiðið er að breyta ástandinu úr því sem það er í dag og í það sem við viljum að það verði komið í árið 2020. Þá á kerfið og hugsanagangur Reykvíkinga að vera orðinn þannig að fólk sé tilbúið að borga í strætó og líti á hann sem raunhæfan valkost fyrir sig.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 15.11.2007 kl. 14:57
Fyrir þrem til fjórum árum sat ég í strætó í Álaborg og las grein í einu fríblaðinu um rannsókn eitthverrs háskólans þar sem hann reiknaði það út að það kæmi fjárhagslega betur út fyrir hið opinbera að bjóða ókeypis í strætó en að rukka fyrir það, vegna þeirra framkvæmda sem það mundi spara. Samt er hér þegar ágæt notkun á almenningssamgöngum, auk þess sem minna er um dýr mislæg gatnamót inni í sjálfum borgunum og ekkert slit á vegum eftir einkabíla á nagladekkjum.
Ég er nokkuð viss um að á höfuðborgarsvæðinu mundi sparnaðurinn, sem almennileg nýting á strætó hefði í för með sér mundi, gera meira en að að borga það sem tapaðist í fargjöldum.
Það fylgir hins vegar með að það er ekki nóg að hafa frítt í vagnana ef kerfið er ekki skilvirkt. En af hverju ætti borgin að skera niður þjónustuna ef að hún bætir upp tekjumissinn annarsstaðar?
Auðvitað er ekkert ókeypis. En einmitt þess vegna skiptir máli að velja hagkvæmustu leiðina og fyrir borgarbúa þá skiptir máli að koma upp almenningssamgöngum sem fólk notar.
Í dag þá taka flestir ekki strætó þó þeir virkilega þurfi að fara milli bæjarhluta, heldur bíða frekar eftir að einhver geti skutlað þeim. Eitt af því sem kemur í veg fyrir að fólk svo mikið sem prófi að taka strætó er að ein ferð í bæinn kostar hátt í 600 kall og það í akkurat klinki. En ef fólk gæti hoppað upp í næsta vagn án þess að vera með fulla vasa af klinki eða þá að hafa skuldbundið sig til þess að nota strætó í lengri tíma, að þá mundu flestir allavega prófa hvort strætó geti ekki hugsanlega komið í veg fyrir bíl númer 2 eða 3 á heimilinu.
En það er fínt mál að gera tilraun og sjá reynsluna af því. Hins vegar tel ég að það þurfi að prófa að hafa frítt fyrir alla, í lengri tíma og ekki fækka ferðum um leið, því annars næst þessi sparnaður á móti aldrei.
Ingólfur, 15.11.2007 kl. 15:15
Mér finnst hugmyndin um "ókeypis" strætó vera þess virði að láta reyna á hana :) En ef það á að rukka fyrir strætóferðina þá er hér að neðan smá hugleiðing sem ég hripa hér niður.
það er eitt sem ég hef ALDREI fattað.... Nú er Strætó að mér skilst búið að eyða tugum ef ekki hundruðum miljóna í e-ð fyrirframgreitt kort. -Flókin tækni sem er víst ekkert að virka vel. Þetta er ferlega skrýtið í því ljósi að sambærileg tækni er til og hefur verið notið hérlendis í áratug eða meira. Venjulegt greiðslukort eða kreditkort gerir nákvæmlega sama og þessi fyrirframgreiddu kort. Hví er ekki hægt að borga með korti í strætó? það getur ekki kostað svo mikið að kortavæða strætisvagnana. Maður greiðir með korti á allskonar stöðum, borgar sölufólki og í Kolaportinu. Já og í leigubílum. Hversvegna er ekki hægt að greiða með korti í Strætó. Ég er sannfærður um að þessi (fyrirframgreidda) kortahugmynd Strætó er ónýt og Strætó ætti bara að viðurkenna það (þótt það sé erfitt miðað við fjárjósturinn sem þetta hefur kostað). Samhliða upptöku á því að taka upp greiðslukortaþjónustu ætti Strætó einnig að bjóða upp á möguleikann að -GEFA TIL BAKA...
Allstaðar sem ég hef komið erlendis, þá er alltaf hægt að fá til baka. hvað gerir þjónustu Strætó svona merkilega að þjónustustigið er á svona lágu plani? Þetta er hriklalega fáránlegt að hugsa til þess að þjónustufyrirtæki taki hvorki við greiðslukortum né gefur til baka! Sérstaklega í ljósi þess að fólk er meira og minna hætt að nota reiðufé.
Heimasíða Strætó er reyndar til fyrirmyndar og satt best að segja alveg frábær.
Teitur Atlason (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 15:22
Höfuðborgarsvæðið mun aldrei hafa besta almenningssamgöngukerfi í heimi. Það er ekki fræðilegur möguleiki.
En ókeypis í strætó er einn þáttur sem er bráðnauðsynlegur. Það eru þó fleiri þættir sem spila inní, en strætó án sérstaks gjalds við notkun er byrjunin.
Ólafur Þórðarson, 15.11.2007 kl. 17:05
Mér finnst í góðu lagi að borga í strætó. Ég hef ekkert á móti að ákveðnir hópar fengu mjög ódýrt eða jafnvel ókeypis í strætó. Aldraðir, öryrkjar og jafnvel skólafólk. En það er ekki aðalatriðið. Það þarf að gera strætó að vænlegum kosti í samgöngum.
Það þarf að gera greiðslumátann aðgengilegri. Það þarf að vera hægt að greiða með debitkorti í vagnana. Það gengur enginn með pening á sér í dag. Hvað þá að hafa akkúrat fargjald. Það eru margir sem nenna ekki að ferðast út af þessu.
Jafnvel að gera strætókortin rafræn líka. Þá geta bílstjórar einbeitt sig betur að akstri í stað að þurfa skoða kortin hjá öllum sem stíga uppí vagninn. Þetta mundi líka geta komið í veg fyrir misnotkun á kortum og sparað strætó þessa fáráðlegu eftirlitsmenn sem ganga á alla í vögnunum og heimta að fá að skoða kortin.
Leiðarkerfið og þjónustu þarf að bæta eins og svo oft hefur verið rætt um. Strætó þarf að ráða ráðgjafa sem ferðast með strætó
Það eru sjálfsögð mannréttindi að hafa boðlegt strætókerfi finnst mér
Kristján Kristjánsson, 15.11.2007 kl. 17:38
Strætókerfi sem ekki virkar er einkenni á borg sem ekki virkar. Soddan er nu det min ven.
Annars virkar strætókerfið alveg. Flestir eru svo latir að nenna eki að standa í að taka strætó, margir aðrir þurfa að snatta eitthvað svo strætó er ekki kostur. Gallinn er í borgarskipulaginu sjálfu, sem er tómt failure eftir WW2. Nema fyrir bílainnflytjendur að sjálfsögðu.
Ólafur Þórðarson, 15.11.2007 kl. 18:05
Ókeypis í strætó hljómar eins og ölmusa til einhverra þurfalinga sem eiga ekki fjórhjóladrifstorfærutröll sem nánast drepa vegfarendur úr hræðslu.
Frítt í strætó, held ég hljómi betur. Frítt í alla fyrir strætó er sá hljómur sem leitað er að. Það mundi þýða umtalsverða kostnaðarlækkun fyrir bæjarfélögin í viðhald á gatnakerfinu.
Það er leiðinleg stjórnunaraðferð að boða bönn á hinu og þessu en fljótt á litð, finnst mér skoðunarvert, hvort ekki eigi að stöðva þessa ofboðslegu einkabílanotkun yfirleitt. Ég er ekki að boða einhverja rútubílamenningu, heldur hvort ekki sé ákveðin skynsemi í því að greiða fyrir nauðsynlegri umferð á þessum þrengri, umferðarþungu leiðum í Borginni. Þannig að boðið sé upp á lipra "strætisvagna" (fallegt orð. Hver skyldi hafa þýtt þetta.) víða um höfuðborgarsvæðið.
Þórbergur Torfason, 15.11.2007 kl. 23:35
Hugsar virkilega enginn út í það hvernig höfuðborgarsvæðið er skipulagt og hvað það sparast mikill tími á því að bruna á einkabílnum sínum upp í Mosfellsbæ frá Seltjarnarnesi, heldur en að lulla þetta á gulu, sótspúandi skrímsli sem er alltaf að stoppa.
Ef þetta væri þéttbyggð stórborg með háum byggingum og öll þjónusta í minna en kílómeters radíus, þá væri þetta allt annað. En borgin er bara allt of dreifð, til þess að það sé einhver glóra í því sem þið eruð að segja, strætókerfi mun seint standa undir sér í Reykjavík. Svo ekki sé nú talað um veðrið, fáir nenna að standa í strætóskýli í rokinu og rigningunni á sumrin, hvað þá á veturna.
Oftar en ekki, er það fólk í miðbænum sem vill troða fólki í strætó, enda þarf það ekki að kvarta undan fjarlægðinni frá þjónustu. En hvað um fólk sem býr í Urriðaholti Grafarholti eða Hafnarfirði?
Svo hafa heyrst hugmyndir um að gera einkabílinn einfaldlega að verri kosti, s.s með því taka frá akreinar fyrir strætó eða jafnvel að leggja nógu há gjöld á bíla, þannig að lág- og meðalstéttirnar, hafi ekki efni á því að reka einkabíl. Það finnst mér mjög varhugavert.
Það eru lífsgæði eins og hvað annað að geta stokkið hvenær sem er í bílinn sinn og komist fljótt og örugglega á leiðarenda. Það er bara eins og börn fá frístundakort, ókeypis í leikskóla, skólamáltíðir o.s.frv. Auk þess sem að það hlýtur að reiknast með í jöfnuna sá tími sem fólk eyðir í kringum þennan leiðindarsamgöngumáta sem strætó er. Þegar hver og einn metur þetta fyrir sjálfan sig, þá er einkabíllinn með yfirburði í nánast öllum þeim þáttum sem fólk setur fyrir sig, nema auðvitað kostnaðurinn.
atli (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 07:03
Til að strætó geti orðið raunhæfur kostur í hugum flestra, verður fyrst og fremst að fjölga ferðum. Það finndist mér ætti að vera aðal markmiðið. Að fólk gæti hoppað út á stoppustöð án þess að þurfa að skipuleggja allar sínar tímasetningar útfrá tímatöflu strætó, sem svo sjaldnast er á réttum tíma. Bíðandi í roki og rigningu eftir vagninum. Það verður fyrst þá, að strætó verður vænlegur kostur þegar maður getur stokkið út, upp í vagninn. Skipt um vagn og svo framvegis, án þess að þurfa að bíða nema að hámarki 5-10 mínútur í senn.
Að hafa frítt í vagnana er vissulega leið til að gera þá vænlegri en ella. Dugi það til að fjölga farþegum, er það vissulega spor í rétta átt. Vitanlega tæki það mörg ár að gera stætókerfið hér að einhverju 'alvöru' kerfi. Því er um að gera að hefjast handa strax. Nógu gömul er nú hugmyndin að ókeypis strætó orðin.
Sumsstaðar erlendis (allavega í Los Angeles) er frátekin sérstök 'car pool' rein. Akreinina lengst til vinstri mega einungis þeir nota sem ekki eru einir í bíl.
Brjánn Guðjónsson (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 13:00
Þetta er mjög skynsamleg og greinargóð úttekt hjá þér, Dofri. Við skulum ekki gleyma að einkabifreið á hvert heimili og margar á sum þeirra kostar líka mikið, í sliti á vegum, mengun og meiri útgjöld heimilanna. Ókeypist strætisvagnaferðir fyrir alla er því ekki slæm hugmynd.
Það þarf í leiðinni að gera strætisvagnakerfið meira aðlaðandi fyrir fólk til að það sé nýtt meira. Fleiri ferðir, meiri einföldun og síðan mætti kenna strætisvagnastjórum nýtt aksturslag. Hvað hafa margir næstum flogið á höfuðið þegar vagninn er að fara af stað, eða ökklabrotnað þegar hann fer af stað þegar farþegar eru enn að stíga út úr vagninum?
Ég mæli síðan með því að það verði hafður sérstakur strætisvagnavörður í hverjum einasta vagni, helst einhver vöðvatröll, til að tuska til rumpulýð sem er með hávaða og yfirgang við aðra farþega.
Theódór Norðkvist, 18.11.2007 kl. 16:32
Innlent | mbl.is | 22.11.2007 | 12:09 Svifryk hátt yfir heilsuverndarmörkum Við skulum ekki gleyma duldum kostnaði eftir nokkur ár við lungu þeirra sem að þora að ganga úti við eða búa í miðborginni eða þeirri fækkun á ferðamönnum sem verður þegar að það fréttist hvílíkt mengunabæli hin ó só græna Reykavík er. Það verður að taka ákvarðanir. a) færri verða á ferli í miðborginni t.d. með því að færa starfsemi annaðb) sekta þá sem að keyra í miðborginni ala London (hvernig, ég ekki veit)c) Fylla allt af umferðarmannvirkjum og mengunnd) Auðvelda fólki að vinna heimae) Fara í raunverulega herferð til að fólk keyri um á rafmagnbílum, veita jafnvel afslátt við kaup þeirra (ekki vetnis)f) Hleypa vistvænum bílum í hraðbrautinar og refsa þeim sem að misnota þær
g) Gefa almenningsamgöngur að mestu leyti fríar og efla þær Eða allt af þessu, auðvitað :) Er samála því að þetta þarf að vera pakki, ekki patent lausinir. Auðvitað er ég sammála því prinicipelt að hlutir eiga ekki að vera ókeypis, enda vita flestir að þeir eru að borga þetta með sköttunum sínum. Hættulegast er að gera frítt það sem að hætta er á að það sé misnotað. Að gefa annað frítt heitir neyslustýring og getur verið allt í lagi með það. Ég sé hinsvegar engann fara of oft með barnið sitt til tannlæknis, að börn verði á of heilbrigðu fæði í skólum eða fólk flakki um bæinn á stætó :) En semsagt, mér finnst allt í lagi að borga í strætó ef að þjónustan er góð en ég held að hún verði ekki góð fyrr en farþegar eru fleiri og ferðir tíðari. Endurtek mig annars, það að gefa frítt í strætó er styrkur fyrir fátæka, barnafólk, öryrkja og gamalmenni. Annað orð yfir að styrkja slíkt, er félagshyggja. Og ef að það þá ekki svarar kostnaði að rukka þá sem eftir eru, þá á bara að sleppa því. Allaveganna í prufu í nokkur ár, meðan að kerfið er byggt upp.
Pétur Henry Petersen, 22.11.2007 kl. 15:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.