Hefðarvald Þjóðkirkjunnar

Það eru ekki allir í þjóðkirkjunni og þeim hefur reyndar fjölgað á undanförnum árum sem kjósa að standa utan hennar. Það er ósköp eðlileg þróun og þýðir ekki að kristin gildi séu á undanhaldi. Auknar kröfur um trúfrelsi þýðir hins vegar að Þjóðkirkjan getur ekki krafist þess að hafa frjálsan aðgang að skólabörnum. Þennan rétt tekur hún sér hins vegar í krafti hefðarvalds.

Ef við gefum okkur að 85-90% barna í hverjum árgangi fermist og að Þjóðkirkjan fái að fara með hópinn í fermingarfræðsluferð á skólatíma - hvað á þá að gera við 10-15% sem eru eftir? Það er augljóst að það er ekki hægt að halda uppi eðlilegu skólastarfi á meðan. Þetta er alls ekki sambærilegt við að 1 barn í bekk fái að fara í skíðaferð eða réttir með foreldrum sínum.

Ég þekki dæmi þess að Þjóðkirkjan og grunnskóli í borginni fari í sameiginlegt skólaferðalag með fermingarárganginn. Fyrri hluti ferðalagsins er skipulagður af skólanum og er blanda af leikjum og námi. Svo fara kennararnir heim og Þjóðkirkjan tekur við. Þá verða þau börn sem ekki ætla að láta ferma sig að setja niður í töskurnar sínar, slá botninn í skólaferðalagið og fá far með kennurunum í bæinn.

Þjóðkirkjan er líka með aðgang að börnum í frístundaheimilum og þar geta foreldrar sem ekki er um þetta gefið vænst þess að börn þeirra séu skilin frá leikfélögum sínum á meðan hjörðinni er trítlað á vit hins góða hirðis.

Nú á það að heita svo að trúfrelsi ríki á Íslandi. Það þýðir ekki að það megi ekki minnast á kristni eða kristin gildi í skólum landsins en það gerir hins vegar kröfu um jafnræði. Þannig hafa grunnskólarnir verið að fikra sig frá beinu kristinboði yfir í kennslu í siðfræði og trúarbragðasögu. Það held ég að sé bara af hinu góða og ég get ekki séð að það sé Þjóðkirkjunni í óhag - ekki nema biskupi þyki það slæmt fyrir sína kirkjudeild að börn læri meira um trúmál.

Það hefur verið almenn sátt um að  stunda ekki markaðssetningu gagnvart börnum í grunnskólum landsins. Það er alveg sama hvað fólk vill kalla það - kristniboð Þjóðkirkjunnar í grunnskólum er ekkert annað. Beinn aðgangur hennar að fermingarbörnum á skólatíma þar með talinn.

Þjóðkirkjan hefur gríðarlega sterka stöðu í samfélaginu þótt hún heimti ekki einkaaðgang að markaðssetningu gagnvart börnum inni í grunnskólum landsins. Eitt verður yfir alla að ganga og ef Þjóðkirkjan á að fá að taka börn úr skóla til að kenna þeim kristinfræði fyrir ferminguna þá verða öll trúfélög, kristin sem ókristin að fá að gera þetta líka. 

Biskup segir þá sem benda á þetta vera háværan minnihlutahóp. Hann talar um frekjugang hinna fáu. Orð hans minna mig á orð fallinna ráðamanna um umhverfisterrorista og atvinnumótmælendur. Rétt eins og fleiri orð úr sama munni dæma þau sig sjálf.


mbl.is Ráðherra segir Siðmennt misskilja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtilegt með þennan menntmálaráðherra, líklega hefur hún þarna fundið leið út úr slæmu raungreinagengi íslenskra barna og ákveðið að snúa við á punktinum. Lausnin er auðvitað á fá presta til að kenna börnunum sköpunarsöguna og meyfæðinguna í staðinn fyrir þurra, líf, eðlis- og náttúrufræði. Það getur varla verið rangt?

Kommi (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 10:19

2 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Nú má ég til að leggja orð í belg vegna þess að hér er ekki alveg rétt með farið. Svo vill til að ég vinn í kirkjustarfi þar sem samstarf er við frístundaheimili hér í bæ. Þetta er samstarf sem að kynnt er foreldrum og þau þurfa að skrifa undir samþykki þess efnis að barnið megi taka þátt í þessu starfi kirkjunnar að skóla loknum. Á sama tíma geta börn farið í kórastarf, íþróttastarf, Do Re Mí ofl. Hér ekki ekki um stóran hluta barna að ræða sem að fer í kirkjuna heldur í flestum tilfellum lítill minni hluti Þau börn sem ekki fara í kirkju halda bara áfram yfir í Sel að leika við vini sína sem að eru þar að gera fullt af öðrum skemmtilegum hlutum!

Mér leiðist þessi umræða um að kirkjan sé með ágang og yfirgang í þessum efnum, þegar starfið er farsælt samstarf og byggt á góðu trausti milli þessara stofnana! Við skulum ekki hafa umræðuna á þessu plani vegna þess að hún skilar ekki árangri. Það eru foreldrar í þessu samfélagi sem að vilja að börnin þeirra taki þátt í samstarfi kirkju og frístundaheimila og það ber virða líka eins og vilja þeirra sem að vilja það ekki. Það er nóg í boði til að allir geti unað við sitt sáttir. Þess má geta að þetta tengist frístundastarfi og fer fram að hefðbundnum skólatíam loknum. Það gleymist stundum að vilji foreldra er í mörgum tilfellum líka hliðhollur kirkjunni. Á að mismuna í hina áttina til að fólk utan trúfélaga sé sátt...er það réttlæti??

Með vinsemd og virðingu

Sunna Dóra!

Sunna Dóra Möller, 30.11.2007 kl. 10:36

3 Smámynd: Vendetta

Góður pistill hjá þér, Dofri. Mér finnst að þú ættir að árétta þetta við Þorgerði Katrínu, þar eð hún er mjög tvístígandi í málinu. Hún verður að skilja, að hún er mun hátt settari en biskupinn og það er hennar ráðuneyti, sem hefur ákvörðunarvald hvað varðar námsskrá grunnskóla landsins, ekki Biskupsstofa. Sömuleiðis verður einhver að segja biskupi, að hann hafi farið langt út fyrir sitt starfssvið með því að koma með ósanngjarnar kröfur.

Að sjálfsögðu eiga fermingarferðalög ekki að eiga sér stað á skólatíma, enda hafa þau ekkert með kennslu í grunnskólum að gera.

Varðandi það, að kristin trú sé hluti af íslenzkri menningu, eins og ráðherra bendir á, má heldur ekki gleyma, að kristni var neydd upp á þjóðina með valdi, bæði kaþólsk trú og síðar lúthersk alveg á sama hátt og Islam hefur verið neytt upp á ýmsar Afríkuþjóðir á sínum tíma með offforsi og ofbeldi.

Og "menning" sem kemur ekki frá þjóðinni sjálfri, en er troðið ofan á hana með ofbeldi er einskis virði. 

Ég vil nefna, að yngri dóttir mín gengur í 6. bekk í skóla í Kópavogi. Þar er kristindómsfræðsla sem er lítið annað en hreint trúboð, enda ætlazt til að börnin trúi á sköpunarsöguna (ég er ekki að grínast) skv. þeirri skólabók sem hún hefur sýnt mér. Dóttir mín veit að sjálfsögðu að biblían er í bezta falli skáldsaga með ívafi goðsagna, í versta falli verkfæri sem hefur nýtzt kirkjunni og harðstjórum um aldaraðir til að kúga alþýðuna. Það furðar mig, að kennslan hvað þetta varðar virðist enn vera stödd á 19. öldinni.

Og þótt ráðherrann sé fulltrúi eins íhaldssamasta flokksins á þingi, er það von mín, að hún muni að lokum sjá ljósið í þessu máli. Hún getur ekki látið mótmæli foreldra, sem ekki aðhyllast lúthersk-evangelismann  sem vind um eyru þjóta til lengdar.

Vendetta, 30.11.2007 kl. 10:40

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég vil ein lög í þessu landi...ekki ein fyrir ríkiskirkju og svo önnur lög fyrir aðrar kirkjur!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.11.2007 kl. 10:46

5 identicon

Góð færsla og ég er alveg sammála þér. Að sama skapi er ég ósammála Sunnu Dóru því að þetta hafi ekkert með átroðning að gera. Trúarátroðningur er akkúrat það, trúarátroðningur, þó svo að forsvarsmenn skóla og leikskóla samþykki hann fyrir börnin í þeirra umsjá!

hee (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 10:51

6 identicon

Nú ferð þú ekki alls kostar rétt með Sunna Dóra þótt líklega sé það óafvitandi. Það vill svo "skemmtilega" til að ég á barn í fyrsta bekk grunnskóla og ég fékk enga tilkynningu þess efnis að inni í frístund væri kirkjustarf. Við komumst þó að því þegar stundataflan var kynnt og ákváðum þá strax að við vildum ekki að hann tæki þátt í slíku. Okkur fannst það ekki sæma að trúboð væri stundað í opinberum stofnunum. Við vorum þá vöruð við því að okkar barn væri það eina sem ekki færi og að honum þætti hann líklega skilinn útundan. Úr varð að við sóttum hann þá frekar fyrr svo ekki kæmi til þess skv. ráðleggingum forstöðukonu.

Ég hringdi þó í ÍTR og spurði hvernig á þessu stæði og fékk þá skýringinu þetta væri samkvæmt beiðni foreldra. Það kom þó í ljós á næsta foreldrafundi og foreldraráðsfundi að engin slík beiðni hefði verið send á þeirra vegum. Það kom einnig í ljós að fæstir foreldrar vissu að slíkt starf færi fram innan ÍTR og hvað þá að þeirra börn væru í slíku.

Það gildir allt annað um íþróttastarf og tómstundir en trúboð. Börnunum eru ekki innprentaðar skoðanir eða lífsviðhorf í íþróttum og tómstundum heldur fá þau aðgang að hollri útrás í listum og hreyfingu.

Trúboð í skólum er ekki bara yfirgangur heldur er það argasti dónaskapur að draga ólæs börn inn í þetta samfélag trúaðra án vitundar eða samþykkis foreldra.

Með sömu vinsemd og virðingu

Kormakur Hermannsson (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 11:00

7 identicon

Ég tek aftur það hrós sem ég gaf Þorgerði í gær, það er mjög miður að ráðamenn þessarar þjóðar styðji við trúarlega valdníðslu á börnum og foreldrum þeirra.
Nú er bara eitt að gera, það er að kæra fyrir mannréttindadómstól og gera heiminum ljóst að í besta landi í heimi sé svona gífurlegt misrétti & mannréttindabrot með hallelúja ívafi.
Við erum ásökuð um að vilja banna jól og alles bara ef við viljum fá trúboð úr skólum... hneyksli

DoctorE (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 11:07

8 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Kormákur, ég talaði út frá því samhengi sem að ég vinn við og þekki það best. Þar er starfið kynnst fyrir foreldrum með bréfi að hausti og við tökum ekki neitt barn í kirkjuna sem að ekki skilar inn skrifuðu leyfi frá foreldrum. Sé þetta öðru visi annars staðar þá þykir mér það miður. Við skráum okkar börn síðan inn í rafræna Reykjavík, þannig að hér við förum eftir öllum þein reglum sem að okkur eru settar í þessum efnum.

Þetta er ekki trúarátroðningur, en og aftur lendir þessi umræða í feni upphrópana, þetta er tilboð sem að er tekið af frístundaheimilum, ásamt því að börn fara í margs konar annað starf á frístundatímanum. Eitt af mörgu sem er í boði, tilboðinu er tekið af hlutaðeigandi aðilum og samstarf kemst á. Ef að þessu tilboði kirkjunnar er hafnað aftur á móti þá getur hún ekki amast við því og heldur sig til hlés.

En ég á barn í skóla og þegar ég sótti um frístundaheimili fyrir það i fyrra, þá var hak við hvort að barn mætti fara í kirkjustarf á tíma frístundaheimilanna. Þannig að það er ekki hægt að segja alls kostar að það sé ekki farið fram á leyfi, hvernig því er svo fylgt eftir innan frístunda heimilanna get ég ekki sagt með vissu enda eru þau undrilögð af manneklu oftar en ekki.

með sömu vinsemd enn á ný!

Sunna Dóra Möller, 30.11.2007 kl. 11:20

9 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Þetta með jólin er bara fyndið.. jólin eru miklu eldri en kristnin og eru hátið ljóssins ug upphaf nýs árs skv áraþúsunda gömlum hefðum.  Jesús var ekki einu sinni fæddur í desember, hann fæddist í september október skv heimildum sem ég las einhverntíman.  Krikjan stal jólunum og endurskírði þessa hátið sem Kristsmessa en náði aldrei hljómgrunni á norðurlöndunum með þá bábilju enda kalla norðurlandabúar þessa hátið jól jul og svo framvegis.

Ég vil að kirkjan láti börnin í friði í skólanum og þeir foreldrar sem vilja gefa börnunum kristilegt uppeldi sjái um það sjálf og noti sunnudagana til að fara með krakkana í messu en ekki koma þessu yfir á skólayfirvöld eins og gert er í dag með nær öll uppeldismál..

Óskar Þorkelsson, 30.11.2007 kl. 11:42

10 Smámynd: Magnús V. Skúlason

En það er einmitt hávær frekjuhópur sem lætur hæst út af þessu öllu saman. Þýðir það þá að hinn stóri meirihluti láti sér standa á sama um þetta? Alls ekki. Orð eins og 'trúarátroðningur' eiga einfaldlega ekki heima í þessari umræðu. Það er hinsvegar trúarátroðningur að fangelsa skólakennara fyrir að nefna bangsa Múhammeð. Eða vekur það kannski minni athygli af því það er útí heimi?

Sunna Dóra kemur með lykilatriði inn í umræðuna hérna. Þetta er 'tilboð'. Rétt eins og frjálsar félagahreyfingar koma í skóla og kynna starf sitt fyrir nemendum. Síðan metur maður tilboðið og ákveður hvort maður þiggi það eða ekki. Enginn átroðningur, enginn ruslpóstur inn um lúguna hjá þér.

Svo er það annað mál með fermingafræðsluna. Það er klár réttur foreldra að þau geta tekið barnið sitt úr skóla í 1-2 daga án þess gefa ákveðna skýringu fyrir því, það er nóg að tilkynna það. Þetta er nákvæmlega sami hlutur og að fá leyfi fyrir íþróttaferðalag eða tónleikaferðalag. Þó svo að það séu fleiri sem fara í fermingafræðsluna er ekki lykilatriðið í þessu þó svo að vissulega setji það skarð í kennsluna en það hefur væntanlega verið leyst fram að þessu og því ætti það ekki að vera vandamál að leysa það áfram. Nema það eigi einfaldlega búa til vandamál svo það sé hægt að finna höggstað á þessu málefni, sem mig grunar frekar.

Magnús V. Skúlason, 30.11.2007 kl. 11:44

11 identicon

Trúboð í skólum + mummad bangsamálið .. eru 2 hliðar á sama máli
En ok gerum þetta að réttindum allra, islamista,ásatrú og bara öll trúfélög fái skriftsofu í hverjum skóla, jafnrétti er ekki einstefnugata

DoctorE (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 11:56

12 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Já foreldrar geta bara tekið þessi prósent úr grunnskólanum...mín vegna, ef eðlileg kennsla heldur áfram...why not! Svo verða hinir að ná námsefninu eftir öðrum leiðum.  Það er réttur foreldra.

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.11.2007 kl. 11:58

13 identicon

Ég held að andstaða ykkar við orðið trúarátroðningur byggist fyrst og fremst á ykkar tilfinningu. En ef ykkur er illa við það skal ég frekar tala um trúboð. Það á einfaldlega ekki heima í skólum og ef þessi "meirihluti" sem á að vera kristinnar trúar, vill kristna börnin sín, getur hann gert það á heimilunum og í kirkjunum. Hvað er að því að vilja hlífa börnum við trúboði í skólunum?

hee (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 12:00

14 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Pat Condell talar hér fyrir mig...

http://www.youtube.com/watch?v=I5cXWElb-GE

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.11.2007 kl. 12:12

15 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir góðan pistil Dofri. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 30.11.2007 kl. 12:13

16 Smámynd: Linda

Sunna Dóra  hittir naglan á höfuðið og ég vildi þakka henni fyrir það.

Linda, 30.11.2007 kl. 12:38

17 Smámynd: Jón Þór Bjarnason

Ég held að niðurstaðan sé sú að mjög misjafnlega er að þessum málum staðið hjá skólunum. Það þarf að ræða þessi mál án fordóma, á upplýstan vitsmunalegan hátt, og komast að niðurstöðu hvernig þessu er best hátta. Í framhaldinu þarf svo að tryggja það að foreldrar þurfi að veita samþykki fyrir því að börn þeirra taki þátt í kirkjulegu starfi á skólatíma, auk þess að tryggja mannréttindi hinna; þeirra barna sem ekki nýta sér tilboð kirkjunnar manna. Mikilvægt er að þeim börnum líði vel með sitt val, en upplifi ekki að þau séu útundan.

Jón Þór Bjarnason, 30.11.2007 kl. 12:48

18 Smámynd: Púkinn

Hjálp!  Púkinn er sammála Samfylkingarmanni!  Hvað er að gerast?

Púkinn, 30.11.2007 kl. 17:18

19 identicon

Ég kenndi í allmörg ár, í nokkrum skólum. Ég sá nú ekki betur en flestir forðuðust að kenna kristinfræði. Ég held að ansi víða sé "frjáls tími" eða eitthvað í þessum meintu kristinfræðitímum. Og mér sýndust bækurnar fyrir unglingana um trúarbrögð heimsins yfirleitt liggja óhreyfðar í samfélagsfræðihillunni, meðan tuggið var ofan í nemendur hvað Aralvatn væri margir ferkílómetrar eða hvað væri helst ræktað á steppum Kazakstans. Það virtist enginn þora að nefna trúmál af ótta við að móðga einhvern. Afraksturinn af þessari viðkvæmni er sá að enginn lærir um trúarbrögð. Nám og kennsla um önnur samfélög er bundin við þurrpumpulegar staðreyndir um landbúnað eða aðra framleiðslu. Svolitla veðurfræði kannski líka. Það vantar allt um andlegt líf fólksins. Ég hefði haldið að það skipti mestu máli. (Víða í útlöndum tengist andlegt líf trú, þótt hér virðist það að mestu bundið við verslun, en það er kannski önnur saga). Þeir sem eru viðkvæmir fyrir því að kennt sé um kristna trú vísa oft til þess að við búum orðið í fjölmenningarsamfélagi. Þá hefði ég nú einmitt haldið að það þyrfti að kenna fjölmargt um alls konar menningu. Af minnu reynslu úr skólakerfinu sýnist mér pólitíska rétthugsunin (rétttrúnaðurinn?) vera að drepa endanlega alla umræðu um ólíka menningarheima. Það fer náttúrulega svoleiðis þegar það má ekki tala um hlutina. Og þegar ekkert nám á sér stað viðhelst fáfræði. Þar með fordómar, tortryggni og óvild. Væri nú ekki nær að fá bara með prestunum fulltrúa frá öðrum trúarbrögðum líka. Og trúleysingjum. Það er ekkert að óttast, þetta snýst bara um að læra um ólíka siði. Er það ekki það sem fjölmenningin þarf til að blómstra?

Bjarni Gunnarsson (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 17:49

20 Smámynd: Ingigerður Friðgeirsdóttir

Hvað finnst ykkur þá um að það sé kennd múhameðstrú og hindúatrú í 5 og 6 bekk grunnskóla og börnin þurfa að taka próf í þeim fræðum ! Mér finnst að fólk ætti að skoða það líka áður en það ákveður að skjóta þjóðtrúna í kaf.

Ingigerður Friðgeirsdóttir, 30.11.2007 kl. 18:00

21 Smámynd: Auðun Gíslason

Ein einföld grundvallarspurning, eða tvær:  Er kirkjan og boðskapur hennar hættulegur og skaðlegur börnunum okkar?  Ég hélt ekki, en miðað við alla þessa umræðu verð ég líklega að fara að hugsa mig um, þar sem ég telst víst uppalandi.  Hvað á maður að gera?  Barnið á heimilinu er skírt inní kaþólsku kirkjuna og hefur í vetur verið þar í trúfræðslu.  Hún hefur ákveðið að hætta þar vegna anna (sjá síðar) og "svo er ég líka að byrja í kristinfræði í skólanum".  Hún hefur verið í söng- og kórastarfi í Langholtskirkju síðan hún var 4 ára og er í Kórskóla Langholtskirkju.  Sjálfur er ég mikill Jésúhoppari (einsog við segjum hér á heimilinu) og stelpan hefur mikið gaman af að fara á samkomur/Jésúhopp.  Ég sé ekki annað en að barnið hljóti að vera stórskaddað eftir þetta allt saman.  Ég tek það svo fram að ég hef ekki verið skráður í trúfélag í rúm 30 ár.   

Öll þessi umræða ber vott um einhvern sálarkyrking og ég spyr mig, hvar kreppir svona að hjá fólki, að það fer úr límingunum, þegar minnst er á trúarbrögð og trúleysi, trú, Guð, Jésú, Allah og Spámanninn Múhameð o.s.frv.  Barnið á heimilinu segir mér að "öll trúarbrögð séu jafn rétt".  En hún er nú ekki nema 7 ára, svo hvað veit hún.  En kannski er hún vitrari, að þessu leyti, en við mörg hver? 

Auðun Gíslason, 30.11.2007 kl. 18:02

22 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Auðun:

Þessi spurning þín er málinu gjörsamlega óviðkomandi.

Ég gæti alveg eins spurt: "Er Sjálfstæðisflokkurinn og boðskapur hans hættulegur og skaðlegur börnunum okkar?"

Ég held að enginn myndi halda því fram, en er þá allt í lagi að Sjálfstæðisflokkurinn fái aðgang að opinberum skólum og stundi þar boðun sjáflstæðisstefnunnar?

Auðvitað ekki. Þetta snýst ekki um hvort kristni sé skaðleg eða ekki.

Þetta snýst einfaldlega um að skólinn sé hlutlaus í trúmálum og sé fyrir alla. 

Hjalti Rúnar Ómarsson, 30.11.2007 kl. 20:09

23 identicon

Í ljósi "tilboðsumræðunnar" hér að framan leyfi mér að benda á að í skóla sona minna í efstu byggðum Kópavogs þurfa foreldrar sem eiga börn í Dægradvöl (heilsdagsskóla) að skrá börn sín ÚR Vinaleið Þjóðkirkjunnar ef þau kæra sig ekki um "þjónustu" hennar.   Um þetta eru svipuð dæmi, sem taka þarf mark á og  hingað til hef ég ekki þurft að skrá mig og mína fjölskyldu úr tilboðum sem henni berst.  Finnst það afleitt, sérstaklega þegar "tilboðin" snúa að trúarbrögðum.  Við erum ekki öll hávær frekjuhópur sem kjósum að standa utan Þjóðkirkjunnar, en mér sýnist á umræðunni hér og víðar að háværir frodómafullir frekjuhópar geti leynst víða.  Eru fordómar ekki fordæmdir í "kristinni siðfræði"? Þannig þau ykkar sem hafið tileinkað ykkur umrætt siðferði, sýnið að þið getið farið eftir því.

Rut (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 23:16

24 identicon

 Sæll Dofri og þið hin.

Trúarbrögð eru hluti af mannkynssögunni og nátengd ýmsum sóðalegustu köflunum hennar. Kirkjan hefur alltaf verið þáttakandi í öllum stríðum kristinna manna sem háð hafa verið síðan rómverjar tóku kristni. Kirkjan hefur aldrei fordæmt stríðsrekstur kristinna valdhafa. Það eitt ætti að nægja fólki til að taka henni með varúð.

Fjallræða er aftur á móti fegursti boðskapur sem til er og Jesús hafði greinilega áhyggjur af afdrifum mannkyns þegar hann dó og það var löngu áður en við fundum olíuna og klufum atómið.

Í  dag erum við langt komin að eyða jörðinni með brennslu olíu og gætum murkað lífið úr sex milljörðum manns um hundrað sinnum á nokkrum dögum með kjarnorku og vetni.

Ef fjölskylda vill iðka trúarbrögð þá ætti það að vera hennar mál og næg tækifæri til þess utan skólatíma. Menn getur greint á um hvort trúarbrögð eru skaðleg eða ekki en sú umræða getur farið fram utan veggja skólanna og þarf ekki að vera hluti af skólastarfi. 

Það eru ekki trúboðar sem við þurfum heldur menntað fólk sem rannsakar eðli veraldarinnar allrar og hefur kunnáttu og kjark til að leita undankomuleiða frá annars óumflýjanlegum örlögum mannkyns.

Stefán Benediktsson (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 00:27

25 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ágætt væri að kirkjan útskýrði kennisetningar sínar á einfaldan og afgerandi máta fyrir okkur hinum, áður en þær eru bornar á borð fyrir börnin. Ég botna t.d. ekki enn í Trúarjátningunni, né hugtakinu um þríeinan Guð, hvað þá annað af ótrúlega langsóttum hugtökum þessarar trénuðu stofnunnar.  Hvers vegna það er í manna valdi að vígja börn inn í Guðlegt samfélag með vatsgusum og orðagjálfri og hvers vegna það þarf svo að staðfesta það með óskiljanlegu heiti.

Það er kominn tími til að menn komi út úr forneskjunni og hætti að láta sem ólæsið ríki enn í samfélaginu.  Þessi innræting heyrir fyrndinni til og það á að vera í valdi hvers og eins, sem nær þroska til að móta sér sina heimsmynd og skoðun í trúarlegu samhengi. Ekki hef ég enn fengið afgerandi skilgreiningu á því hver hinna fjölmörgu Guða er hinn rétti og treysti ekki misvísandi fullyrðingum um það. Kirkjan aktar nákvæmlega eins og Farísearnir (prestarnir), sem Kristur gagnrýndi hvað harðast.  Hann sagði mönnum að iðka trú sýna í leyndum og gefa í leynd.  Forbauð orðskrúð og fjálgleg bænahöld á torgum og í samkomum.  Sagið að þar sem 2 eða 3 kæmu saman í hans nafni, væri hann mitt á meðal. Þ.eþþar sem dialogur fer fram um hin góðu lífsgildi, væru menn trúir boðuninni. Ekki í einstefnumiðlun eins yfirvalds til fjöldans. Hann kom að mínu mati til að afnema trúarlegar stofnanir, sem eru í raun múr á milli manna og andlegrar ræktar, sem boða skelfing í bland við kærleika og miðla afstæðum mannasetningum í þágu valds og peninga.

Burt með þetta batterí, segi ég. Það er engin þörf fyrir það. Hið góða eðli er manninum eðlilegt. Annars hefði mannskepnan aldrei komist á legg. Maður fær nefnilega ávallt, það sem maður gefur.  Ekkert geistlegt við það.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.12.2007 kl. 07:31

26 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir pistilinn, Dofri.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 1.12.2007 kl. 07:57

27 identicon

Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá er kristin trú svo samofin íslenskri menningu að erfitt er að komast hjá því að kenna eitthvað um kristni í skólum nema að sleppa þá alveg allri Íslandssögukennslu. Kristni var tekin upp á Íslandi nánast við landnám landsins hvort sem henni var þröngvað upp á okkur eða ekki. Það er nánast ógjörningur að kenna sögu lands og þjóðar án þess að trúin komi þar eitthvað við sögu.

Reyndar er það svo í skólanum sem mín börn ganga í að þar heitir fagið trúarbragðafræði og eru þar kennd öll trúarbrögð heimsins. Kritinfræðin fær reyndar meiri tíma en önnur trúarbrögð en því verður bara ekki neitað að íslenska þjóðin er jú að miklum meirihluta kristin þjóð.

Sigrún Finnsdóttir (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 09:16

28 Smámynd: Morten Lange

Tek undir með þeim sem þakka þér góðan pistill, Dofri.  Gott að sjá að 24 stundir birtir hluti af honum á "ritsjórnarsíðu" sinni í dag. Manni hefur annars fundist 24 stundir vera full hlutdrægur hingað til í gagnstæðri átt. 

Annars vil ég hvetja mönnum sem tala um "tilboð" kirkjunnar að kynna sér hvernig til dæmis Vinaleiðin er misnotuð, eins og frásögn Rutar hér fyrir ofan ber með sér .

Morten Lange, 1.12.2007 kl. 14:15

29 Smámynd: Sigurður Hólm Gunnarsson

 Satt og logið um stefnu Siðmenntar

Ég hef ákveðið að taka saman á einn stað flestar (en ekki allar) þær greinar sem ég hef skrifað vegna rangfærslna um Siðmennt. Satt að segja er ég orðin þreyttur á að hrekja sömu rangfærslurnar ofan í oft sama fólkið aftur og aftur. Ég hvet lesendur því að lesa þessar greinar fyrst og gagnrýna svo stefnu Siðmenntar. Það fer ótrúlega mikill tími í að svara fyrir stefnu sem Siðmennt hefur alls ekki.

<a href="http://www.skodun.is/archives/2007/01/12/satt_og_logid_um_stefnu_sidmenntar.php">http://www.skodun.is/archives/2007/01/12/satt_og_logid_um_stefnu_sidmenntar.php</a>

http://www.skodun.is

Sigurður Hólm Gunnarsson, 1.12.2007 kl. 20:37

30 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Sigrún...ok!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 2.12.2007 kl. 02:38

31 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir mjög góðan pistil Dofri.  Skilningur þinn er góður á þessu efni.  Ég vildi óska að menn Þjóðkirkjunnar sæju að hófsemd og vörð um jafnrétti allra yrði þeirra sterkasta vopn.  Þess verður þó að bíða talsverðs tíma því miður sýnist mér.

Svanur Sigurbjörnsson, 3.12.2007 kl. 01:20

32 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Ef við gefum okkur að 85-90% barna í hverjum árgangi fermist og að Þjóðkirkjan fái að fara með hópinn í fermingarfræðsluferð á skólatíma - hvað á þá að gera við 10-15% sem eru eftir? Það er augljóst að það er ekki hægt að halda uppi eðlilegu skólastarfi á meðan," spyr Dofri hér í grein sinni. Svarið er: Allmikill hluti þeirra er vís með að fara í fermingarfræðslu í öðru kirkjufélagi. Hinir eiga að geta fengið samveru, tómstundaiðkun og/eða fræðslu hjá einhverjum þeirra kennara, sem gáfu hinum stóra meirihluta leyfi til fermingarfræðsluferðarinnar. Dofri vill með engu móti leyfa þetta á skólatíma, en hvar er ranglætið í þessu? Menn ættu að láta af þessu væli um mismunun og virða rétt hins yfirgnæfandi meirihluta. Skólatíminn hefur lengzt mikið, og það er ekki sanngjarnt að meðhöndla ferðir af þessu tagi (sem aðeins standa yfir kannski einu sinni í viku allan veturinn einn vetur af allri skólagöngu hvers kristins nemanda) sem eitthvað sem verði að bannfæra. Slíkur dogmatismi trúleysingjanna er vissulega ekkert annað en "frekjugangur hinna fáu".

Jón Valur Jensson, 3.12.2007 kl. 02:43

33 Smámynd: Jón Valur Jensson

Varðandi lengingu skólatímans vildi ég nefna, að það er ekki sanngjarnt að láta þessi fermingarbörn þurfa að ganga til prestsins dauðþreytt eftir langan skóladag á tímanum eftir kl. 5.

Jón Valur Jensson, 3.12.2007 kl. 02:46

34 Smámynd: Egill

börn hafa ekki þroska né skilning á trúmálum til að ákveða hvort þau eiga taka þátt í neinu sem kemur kristni né nokkrum öðrum trúarbrögðum.

bíðum með þetta allt þar til þau eru orðin lagalega sjálfráða og þá fá  þau að ákveða sjálf hvort þau vilja tilheyra einhverju trúfélagi.

þangað til,ætti að kenna öll trúarbrögð, í mannkynssögutímum eða einhverju álíka fagi innan skólans.

trúarbrögð eru hluti mannkynssögunnar, og ekkert sérstaklega sé hluti hennar sem við ættum að vera stolt af.

börn eru ekki kristin frekar en þau eru sjálfstæðisbörn eða vinstri græn börn.

Egill, 3.12.2007 kl. 05:30

35 Smámynd: Jón Valur Jensson

Foreldrar taka ákvörðun um mótun barna sinna, það er eðlilegur þáttur í uppeldishlutverki þeirra.

Jón Valur Jensson, 3.12.2007 kl. 10:15

36 identicon

Þetta er góður pistill hjá Dofra, yfirveguð skrif og laus við þann æsing sem hefur óneitanlega verið nokkuð áberandi í umræðunni, ekki síst frá hendi þeirra sem finnst að verið sé að gera árás á kirkjuna og trúnna.  Ég tel nú ekki að svo sé heldur er fyrst og fremst verið að fara fram á eðlileg mannréttindi til handa þeim sem ekki eru kristinnar trúar, hvort sem þeir eru trúlausir eða aðhyllast aðra trú.

Ég er einn þeirra foreldra sem aðhyllist engin trúarbrögð og trúi því ekki á guð, fyrir mér er það óþolandi að í skólanum skuli vera stundað trúboð og ákveðnum trúarbrögðum þröngvað upp á börnin mín.  Ég segi "þröngvað" vegna þess að "kristinfræði" er kennd í skólum, ekki sem valgrein heldur hluti af kennsluskyldu.

Ég virði hins vegar þá afstöðu fólks sem vill að barnið sitt fái "kristilegt" uppeldi - en það er þá foreldranna að sinna því og velja þann kost. Jón Valur hittir reyndar naglann á höfuðið (óvart?) í innleggi 37: "Foreldrar taka ákvörðun um mótun barna sinna, það er eðlilegur þáttur í uppeldishlutverki þeirra." Og ég segi að það sé ekki bara eðlilegur þáttur heldur réttur þeirra - það er því óþolandi fyrir okkur foreldra sem ekki trúum á guð(i) að trúarbrögðum sé beinlínis þröngvað upp á börn okkar í skólum og leikskólum.

 Hitt er svo annað að kirkjan og kristin trú hefur um aldir verið stór þáttur í lífi íslensku þjóðarinnar - það á hins vegar að vera hluti af sögukennslu en ekki sérstök námsgrein í skólum eins og nú er. Og það má gjarnan kenna börnum trúarbragðafræði þar sem þau eru upplýst um trúarbrögð, inntak þeirra og hvað helst greinir á milli.

Þórólfur (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 14:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband