4.12.2007 | 11:26
Óábyrg orðræða
Í því er ævinlega holur hljómur þegar þeir sem hafa völdin kveinka sér undan gagnrýni frá þeim sem hafa þau ekki.
Um þetta má finna mörg dæmi, s.s. "hið afskaplega ýtna fólk" Falun Gong, illgjörn samtök öryrkja í sífelldum málaferlum, samkynhneigða, umhverfisverndarfólk og hinn harðsnúna minnihlutahóp konur sem víða eru til vandræða.
Mér hefur fundist margt skylt með orðræðu forkólfa stóriðjustefnunnar undanfarin ár og Þjóðkirkjunnar nú í umræðum um kristniboð í skólum.
2002 sagði Friðrik Sophusson í blaðaviðtali að til væri
...minnihlutahópur í röðum umhverfisverndarsinna sem oft talar í nafni þeirra allra. Þessi hópur virðist vera á móti öllum virkjunum hér á landi, og ætlast til þess að við nýtum hvorki auðlindir okkar til lands né sjávar.
Þessi hópur mun áreiðanlega, hér eftir sem hingað til, reyna að halda úti áróðri gegn virkjunarhugmyndum. Fámennur hópur hér á landi semur yfirlýsingar, til dæmis í nafni WorldWide Fund, WWF. Þær eru síðan sendar til útlanda og hingað heim aftur í nafni alþjóðlegra samtaka...
Þessa dagana hefur biskup Íslands látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að fámennur hópur trúleysingja geri harða atlögu að áhrifum kristni í skólum. Þetta eru viðbrögð æðsta manns Þjóðkirkjunnar við málefnalegri gagnrýni á kristniboð Þjóðkirkjunnar innan veggja grunn- og leikskóla.
Það er greinilega mjög hörð atlaga að öllum áhrifum kristni og kirkju gagnvart skólunum og það er alveg augljóst að andmælin við, við þessu koma ekki frá öðrum trúfélögum í landinu. Þau koma frá aðilum sem vilja trúna út. Og, og það er afar duglegt fólk. Ég vildi að við, ja, ég held þau geri okkur skömm til að því leyti að ég held að, að foreldrar og, og aðrir sem að láta sig þessi mál varða ættu bara að vera duglegri að láta heyra í sér líka og láta ekki hrekja sig út.
Rétt eins og í náttúruverndarumræðunni er sú leið farin að gera einn hóp tortryggilegan. Í umræðunni um trúboð í skólum hafa samtökin Siðmennt verið úthrópuð sem hinn fámenni harðsnúni hópur sem vill eyðileggja allt fyrir hinum stóra en vanmáttuga meirihluta.
Það er lýsandi fyrir þessa tegund af málflutningi að það er ekki látið nægja að úthrópa gagnrýnendurna heldur eru þeim gjarna gerð upp fráleit áform eða skoðanir með spurningum eins og:
"Eigum við þá bara að lifa á fjallagrösum og hundasúrum?" Er þetta fólk þá ekki líka á móti rafmagnsljósi?"
Nú spyrja röksnillingarnir
"vilja menn þá litlu jólin burt úr skólanum, vilja menn burt með jólafríin, páskafríin, ætla menn að fara breyta hér um þjóðsöng að því að það er vitnað í Guð?"
Þetta túlka ýmsir einstaklingar í samfélginu sem skilaboð um að það sé í lagi að taka upp símann og hringja á öllum tímum sólarhringsins með skammir og svívirðingar í hópinn sem forystumennirnir hafa gefið út veiðileyfi á. Sjá frétt DV í dag.
Ja, kristilega kærleiksblómin spretta, eins og skáldið sagði.
Í sönnum jólaanda ætla ég að stelast til að setja í tónlistarspilara síðunnar jólalag Baggalúts frá 2005, Sagan af Jesúsi. Ég bendi líka á nýjasta jólalagið þeirra sem er hér. Þetta eru falleg og hugljúf lög. Það er spurning hvort ekki væri rétt að Baggalútur stofnaði kristinn söfnuð.
Fólk getur svo velt fyrir sér hvor hvor kirkjudeildin yrði vinsælli hjá fermingarbörnunum ef öll trúfélög hefðu sama rétt og Þjóðkirkjan til "samstarfs við grunnskólana".
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:25 | Facebook
Athugasemdir
Stundum er eins og valdamenn þurfi að læra AÐ HLUSTA...?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 4.12.2007 kl. 12:13
valdamenn? hlusta???? Ertu nokkuð með hita?
Púkinn, 4.12.2007 kl. 13:54
Vá ég man aldrei eftir að hafa sér "Valdamenn" og "Hlusta" í sömu setningunni
Kristján Kristjánsson, 4.12.2007 kl. 14:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.