Heiður veiðimannsins

Ég hef stundum veitt gæs og önd í matinn. Hef líka gengið til rjúpna þangað til þeim fór að fækka. Fannst skylda mín að friða frekar minn skerf af jólarjúpum og leggja þannig mitt til málanna svo stofninn gæti jafnað sig.

Mér hefur alltaf fundist að fólk í skotveiði, rétt eins og laxveiði, eigi að láta sér annt um veiðimannsheiður sinn. Í því finnst mér felast að bera virðingu, bæði fyrir dýrinu sem er verið að veiða, stofninum og náttúrunni almennt.

Mér finnst þessi veiðisaga ekki til þess fallin að auka hróður veiðimannsins. Að skjóta dýr fimm riffilskotum til að sálga því er ekki veiðimennska sem maður hælir sér af. Og ekki hefur hún skemmtigildi.

Það hafði hins vegar sagan sem rússneskur ballettdansari sagði mér eitt sinn af vini sínum. Sá fór út í skóg að veiða bjarndýr sem sést hafði á svæðinu. Hann settist upp í tré á líklegum stað og beið eftir að sjá dýrið. Ekkert gerðist þar til eldri konu bar að á hjóli sínu. Sú hjólaði eftir skógarstíg sem lá framhjá trénu en þegar hún var komin í hvarf heyrði veiðimaðurinn óp konunnar.

Hann hraðaði sér niður úr trénu en þegar hann var kominn niður sá hann að það var tímabært að hraða sér upp í það aftur. Við honum blasti undarleg sjón. Niður skógarstíginn kom bjarndýrið á hjóli gömlu konunnar! Það fylgdi sögunni að bjarndýrið hefði sloppið frá farandsirkusi og að hvorki gömlu konunni, veiðimanninum eða bjarndýrinu hefði ekki orðið meint af.


mbl.is Veiddu tvo risavísunda í Minnesota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Það er skárra en að skilja dýrið eftir sært með tvö!

Júlíus Valsson, 8.1.2008 kl. 12:20

2 identicon

Er ekki bara betra að skjóta ekki neinu skoti í dýrið.

Mig hryllir alltaf við að lesa eða heyra "hetjusögur" af dýradrápum. Get ekki séð að þessir menn séu að gera eitt eða neitt sem þeir geta verið stoltir yfir, hvort sem er að fljúga yfir hálfan hnöttinn til að murka lífið úr villtum dýrum þar eða eltast á fjórhjólum á eftir hreindýrum fyrir austan.

Og ég persónulega myndi frekar fara í rasslausum leðurbuxum á hommabar heldur en að fara á þetta veiðisafn á Stokkseyri. Eða eins og Ace Ventura sagði í myndinni "this is a lovely room of death".

Annars vil ég benda mönnum á þessa síðu

http://cloudline.org/index.html

Þessi síða fjallar um og er með fréttir af Charlie Russell sem stúderar og beitir sér fyrir friðun og verndun bjarndýra.

Einnig vil ég líka benda áhugamönnum hvort sem er um verndun eða veiðar á bjarndýrum á þáttinn/heimildarmyndina "Bear man of Kamchatka"/"Edge of Eden".

Þar er fjallað um Charlie þar sem hann hefur, í fjölda ára tekið að sér bjarndýrsunga sem hafa verið í ólöglegu haldi í dýragörðum eða sirkusum í Rússlandi, og hvernig hann hjálpar þeim að læra að komast af í náttúrunni. Stórkostlegt að fylgjast með hvernig dýrin elta hann um í göngutúrum og þegar hann er að kenna þeim að veiða.

Birkir Rútsson (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 12:24

3 identicon

Afsakið mig, en ég verð að bæta hérna við einum tengli í viðbót, þar sem betur er fjallað um "Bear man of Kamchatka"

http://www.cbc.ca/natureofthings/bearman.html

Birkir Rútsson (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 12:32

4 Smámynd: Pétur Henry Petersen

.... reyndar skambyssa... og afhverju þurfti að skjóta í lungun? Hljómar nú eins og menn hafi viljað halda upp á hausinn og því hafi þetta tekið þennan tíma...

Pétur Henry Petersen, 8.1.2008 kl. 13:20

5 identicon

Bara svona fyrir þig Dofri þá hefurðu nú ekki lesið þetta nægjanlega vel því að það er tekið fram að þeir skutu hann með skammbyssum en ekki riffli og þar er mikill munur á og það ættir þú að vita sem segist vera veiðimaður!! Það voru 45-70 tompson contender skammbyssur!!!

Bergþór (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 13:20

6 identicon

Ágæti Dofri og vinir

Ég má nú til að leggja orð í belg í þessar mjög svo takmörkuðu umræðu, ekki síst sökum þess að ég er veiðimaður og jú náttúruverndarsinni að auki líkt og mér heyrist Dofri sjálfur vera. Það eru nokkur atriði sem er vert að nefna hér.

# Greiðsla fyrir veiðileyfi s.s. "Trophygjöld" eru mjög oft s.s. í Afríku einhver stærsti tekjupósturinn sem þjóðgarðarnir hafa. Tryggja þar með rekstrargrundvöll slíkra verndarsvæða og um leið vernd dýranna gegn oveiði og veiðiþjófnaði. Að auki eru þau dýr sem veiðimönnum standa til boða annað hvort úr stofnum sem eru mjög sterkir eða þá sérvalin dýr sem komin eru að endamörkum síns lífshlaups og eiga stutt eftir. Þetta kann að hljóma undarlega í augum sumra sem ekki þekkja til en svona er þetta nú.

Mín persónulega skoðun er sú að fordómar gagnvart veiðum hvort sem það eru "montveiðar" eða annarskonar veiðar, stafa fyrst of fremst af vanþekkingu líkt og aðrir fordómar.

Að auki er veiðimennska hluti af menningu okkar frá upphafi vega og það að fordæma slíkt er því ákveðin hræsni, eða hvaðan kemur kjötið sem við fáum út í búð? Og jú við erum ekki hönnuð til að vera grasætur, annars værum við væntanlega með 4 maga, og gerðum ekki annað en að bíta gras, jórtra og leysa metangas allan liðlangann daginn.

Því má svo við bæta að Veiðisafnið á Stokkseyri hefur gert það að verkum að sýna bæði gestum og gangandi s.s. ferðamönnum og skólabörnum hvernig dýrin líta raunverulega út (dauð reyndar en þó betra en ekkert.) Eitthvað sem náttúrugripasafn hins opinbera hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu síðan.

Til viðbótar sýnir þetta frumkvæði einstaklinga að búa til safn í smáum bæ úti á landi, an nokkurrar hjálpar opinberra aðila. Stuðla að nýsköpun í atvinnurekstri og aukningu ferðamanna á svæðinu. Ég segi að þetta fólk eigi allan heiður skilinn, þó svo kannski að betra sé að drepa dýr hreinlega og með einu skoti, en slys gerast reyndar þar líkt og annarsstaðar.

Kv

Mímir

P.s. það fer vel saman að vera náttúruverndarsinni og svo veiðimaður og verður eigi aðskilið, annars er um rányrkju en ekki veiðimennsku að ræða.

Mímir (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 14:13

7 Smámynd: Dofri Hermannsson

Já það fór framhjá mér þetta með skammbyssuna - það var mynd af honum með riffil. Skammarleg skammsýni að granda vísundi með skammbyssu! Og enn furðulegra þá að furða sig á því að það þyrfti 5 skot.

Tek undir með Mími að það fer vel saman að vera náttúruverndarsinni og ábyrgur veiðimaður.

Dofri Hermannsson, 8.1.2008 kl. 14:57

8 Smámynd: Arnþór Guðjón Benediktsson

ég sé ekkert að því að veiða ef maður ætlar að éta bráðina, annars er þetta bara ónauðsynleg grimmd.

Arnþór Guðjón Benediktsson, 11.1.2008 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband