"Víst gerðum við gagn"

Hann er athyglisverður bæklingur Vilhjálms Þ og 6 menninganna í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna sem barst með 24 stundum í morgun.

Það sem virðist vera býsna flottur kosningabæklingur á undarlegum tíma er þegar nánar er að gáð eins konar örævisaga þessa borgarstjórnarflokks sem eftir 12 ára bið náði 16 mánaða spretti við stjórn borgarinnar. Þá sprakk allt vegna innri átaka og vantrausts 6 menninganna á leiðtoga sínum.

Mér fannst sjálfstæðismenn gera marga góða hluti á þessum tíma og finnst alveg sjálfsagt að þeir gefi út bækling til að auglýsa það. Hins vegar er ekki rétt með allt farið í þeim kafla sem ég las ofan í kjölinn, umhverfiskaflanum.

Þar segir t.d. að á þessum 16 mánuðum sé búið að

  • hleypa Sundabraut af stokkunum með ákvörðun um að Sundagöng væru fyrsti kostur - það var gott hjá þeim að halda áfram baráttu Dags B Eggertssonar, núverandi borgarstjóra, fyrir Sundagöngum sem fyrsta kosti en það er nú dálítið langt seilst að segja að með því hafi sjálfstæðismenn hleypt Sundabraut af stokkunum
  • aflétta banni við hundahaldi - ekki rétt en það er svo sem formsatriði sem ekki skiptir máli hvort maður fær undanþágu frá banni eða leyfi til að eiga hund
  • finna lóð fyrir kaffihús í Hljómskálagarðinum - ekki rétt en það er búið að skipa starfshóp sem á að gera tillögur um endurhönnun Hljómskálagarðsins og hugmynd Samfylkingarinnar um kaffihús þar verður að sjálfsögðu útfærð nánar þar

Í þessum kafla er líka hælst um af því að hið virta umhverfistímarit Grist valdi Reykjavík sem grænustu borg í heimi og að Reykjavík var tilnefnd til verðlauna hjá EUROSITIES samtökunum fyrir verkefnið "Reykjavík í mótun"

Grist valdi Reykjavík hreinustu borg í heimi vegna tilrauna undanfarinna ára með vetnisstrætó, vegna umhverfisvænnar orku til húshitunar og verkefnið "Reykjavík í mótun" var alfarið unnið af R-listanum sem Gísli Marteinn Baldursson segir hafa látið umhverfismál afskiptalaus í 12 ár!

Þetta er óheppilegt fyrir Vilhjálm og 6 menninganna að freistast til að skreyta sig svona með laufblöðum fengnum "að láni" ef svo má segja. Það var líka alveg óþarfi, Gísli Marteinn má vera stoltur af mörgu sem formaður Umhverfisráðs. Óþarfi að vera með móral þó það liggi ekki fyrir langur listi yfir afrek hans eftir 16 mánuði - þetta var svo stuttur tími.

Stærsta framlag Gísla Marteins til umhverfismála í borginni var hins vegar að snúa borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins frá hatrammri baráttu fyrir réttindum einkabílsins á kostnað almenningssamgangna, hjólandi og gangandi umferðar. Ég vona að það hafi ekki bara verið tækifærismennska og að nú taki gamla steinsteypugráa Sjálfstæðisorðræðan aftur við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband