20.2.2008 | 11:18
Óábyrgt krepputal
Ýmsir stjórnmálamenn keppast nú við að segja okkur að það séu tvísýnar horfur í efnahagsmálum, að við siglum inn í djúpa lægð, að það sé svart framundan o.s.frv. o.s.frv. Öll þriggja ára áætlun borgarinnar var í gær borin á borð með þennan sorgarmars sem dinnermúsík.
Mér finnst ábyrgðarhluti af stjórnmálamönnum að tala svona. Manni dettur í hug að þeir segi þetta til að hafa áhrif á væntingar. "Ástandið er ofboðslega slæmt en við ætlum samt að reyna að gera það sem við getum til að halda uppi eðlilegri starfsemi." Þetta slær á væntingarnar og fólk verður ánægt með minna.
Auðvitað eru þrengingar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og erfiðleikar íslenskra banka alvörumál. Þetta er hins vegar tímabundið ástand og ástæðulaust að tala þjóðina niður í vonleysi út af því.
Íslensk fyrirtæki standa vel flest býsna sterk. Síðustu árin hafa íslensk fyrirtæki, lítil og stór, notað tækifærið sem fólst í ódýru fjármagni til að fjárfesta í innviðum sínum og þessar fjárfestingar eiga eftir að verða okkur drjúgt nesti á næstu misserum þótt eitthvað harðni á fjármagnsdalnum um stund.
Það má ekki gleyma því að efnahagslífið hefur verið á yfirsnúningi undanfarin misseri. Vextir eru með þeim hæstu í heimi, verðbólgan er allt of há og viðvarandi mannekla í þeim starfsgreinum sem sjá um grunnþjónustu samfélagsins. Þetta er alls ekki æskilegt ástand. Þetta er ekki jafnvægi.
Nú þegar hægist um er hins vegar hægt að fara að lækka vexti og nýgerðir kjarasamningar gefa góðar vonir um að hægt sé að ná stöðugleika á vinnumarkaði. Minni spenna í atvinnulífinu og betri kjör þeirra sem hafa setið eftir skila vonandi aftur því fólki sem hefur svo sárlega vantað í kennslu, umönnunarstörf, löggæslu og aðrar grunnþjónustugreinar.
Vonandi skila krakkarnir sér aftur í menntaskólana úr afgreiðslustörfum í stórmörkuðum. Vonandi fara fleiri verkfræðingar að vinna á verkfræðistofum, í hátækni- og þekkingariðnaði sem eru alls staðar helstu vaxtarsprotar atvinnulífs og verðmætasköpunar í stað þess að þeir fari allir að vinna í banka.
Allir þekkja það hvernig aukakílóin eiga til að safnast á mann eftir stanslaust konfektát, steikur, sósur, rauðvín og jólaöl í desember. Það er þjóðleg hefð að taka janúar og febrúar í að ná þessum kílóum af sér aftur, minnka við sig í mat, fara í líkamsrækt og beita sig sjálfsaga.
Nú er bara komið að því í efnahagsmálum. Það er ekkert slæmt og á eftir að styrkja íslenskt efnahagslíf til framtíðar. Svo hættum nú þessu fráleita krepputali.
Uppsagnir hafnar í bönkunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:21 | Facebook
Athugasemdir
Mér sýnist þetta vera krepputal Agnesar.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 20.2.2008 kl. 11:40
Get að vissu leiti tekið undir með þér með það, en er ekki líka óábyrgt að gera lítið úr komandi vandræðum og draga úr? Er ískalt mat ekki málið svo að sem flestir átti sig á stöðunni og geri viðeigandi ráðstafanir?
Til að fá ískalt stöðumat í banka og markaðsmálum beint í æð treysti ég best ÞESSARI SÍÐU best, afar glögg skrif hjá Jóhannesi og mun gagnlegri en allt blaður snata greiningadeilda bankanna til samans.
Ég persónulega fagna allri umræðu sem beinist að kviknöktum keisara hlauðandu um á sprellanum, óábyrg eða ekki.
ÞETTA er síðan afar góð bók til að glöggva sig á og skilja hvernig bankar og markaðir virka í raun...og það sem er mikilvægast, hvað er brallað á bak við leiktjöldin.
"Er það mögulegt á þessum tímum vantrúar á efnisleg kraftaverk að dubba upp stofnanir, sem þykjast lána peninga, en lána þá ekki, heldur búa þá til? Og þegar þeim er endurgreitt, afmá þá? Og hafa því náð tökum á því efnislega óhugsandi kraftaverki, ekki aðeins að fá eitthvað fyrir ekkert, heldur einnig að uppskera af því óþrjótandi vexti?"
Georg P Sveinbjörnsson, 20.2.2008 kl. 13:52
Ég ætla að taka mína peninga út úr bankanum og borga niður skuldir.
Björn Heiðdal, 20.2.2008 kl. 22:49
Dofri ég álít að tal um kreppu eða samdrátt í ráðstöfunartekjum heimilina, sé ekki orðum aukinn. Álít að niðursveiflan nú verð sú dýpsta sem við höfum fengið frá l967 til 1969. Við höfum búið undanfarinn ár við gerfi góðæri, sem hefur grundvallast á skuldsetingu íbúðarhúsnæðis, sem að stærstum hluta hefur verið varið til neyslu í formi bílakaupa, sumarbústaða, ferðalaga, o.fl. þess hátta. Nær enginn fjárfesting hefur verið í framleiðslufyrirtækum, nema skildi í vélum og tækjum til húsbygginga, sem væntan lega verður ekki nýtt á næstu árum. Ríkið hefur þanist út og væri ég ekki hissa að Ríkissjóður verði rekinn með halla á þessu ári, og má búast við verulegum niðurskurði á næstu árum, með tilheyrandi launaskerðingum og fækkun starfa í opinberi þjónustu. Að lokum gengið niður ca 50% á næstu 12 mánuðum. og Davíð spilar á fiðluna og viðheldur okurstýrivöxtum, eins og Seðlabankinn hefur komist upp með sl. ár úr takti við öll þau ríki, sem við viljum bera okkur saman við.
haraldurhar, 20.2.2008 kl. 23:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.