28.2.2008 | 18:34
Heimilisiðnaðurinn í Hádegismóum
Það hefur verið skondið - allt að því pínlegt þó - að fylgjast með nýjustu afurð heimilisiðnaðarins í Hádegismóum. Þeim sem lengi hafa fylgst með handverkinu kemur þó fátt á óvart, uppskriftin er kunnugleg.
Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem ritstjóranum í Hádegismóum eru þóknanlegir eru fengnir til að skrifa grein um efnahagsmál. Þeim er fenginn áberandi staður í blaðinu - miðopnan - sem felur í sér þá sögn að blaðinu finnist greinin mikils háttar.
Sama dag og fréttin birtist felur ritstjórinn blaðamönnum sínum að leita viðbragða helstu forystumanna í stjórnmálum og viðskiptalífi. "Hvað finnst ráðherrum um grein Illuga og Bjarna? Hvað finnst formönnum stjórnarandstöðuflokkana um grein Illuga og Bjarna? Hvað finnst viðskiptamógúlum um grein Illuga og Bjarna?" spyrja fréttamenn ritstjórans í Hádegismóum.
Flestir segja eins og er, að þarna er fátt nýtt, flest hefur verið sagt þarna áður t.d. af Einari Oddi heitnum varðandi peningamálastefnuna. Gott að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru vaknaðir segir stjórnarandstaðan, förum okkur nú varlega og skiptum ekki um hest í miðri á segir viðskiptalífið og viðskiptaráðherra segir margt gott í greininni enda flest sem þar er nefnt annað hvort á borði ríkisstjórnarinnar eða í undirbúningi.
Næsta morgun er blaðið fullt af heimilisiðnaðinum og til að gefa því aukna áherslu skrifar ritstjórinn bæði leiðara um grein Illuga og Bjarna og minnist á grein Illuga og Bjarna í Staksteinum. Í blaði dagsins í dag hefur svo fréttamönnum verið falið að rukka fleiri um viðbrögð við grein Illuga og Bjarna þótt heldur sé að þynnast þrettándinn.
Ritstjórinn notar svo í dag tækifærið í uppáhaldsmeinhorni sínu, Staksteinum, til að skattyrðast út í viðskiptaráðherra fyrir að falla ekki í stafi yfir grein Illuga og Bjarna.
Ef ég væri Illugi og Bjarni - eða bara annar hvor - væri ég með dálítinn imbahroll niður eftir bakinu. Ekki það að þótt fátt sé nýtt í greininni og sumt af því sem lagt er til dálítið vafasamt er greinin samt heiðarleg tilraun til að koma af stað opinni umræðu um efnahags- og gjaldeyrismál. En lengra nær það ekki. Hér er ekki á ferðinni þvílíkt tímamótaafrek mannsandans að það þurfi að spyrja annan hvern Íslending hvað honum finnst um grein Illuga og Bjarna.
Heimilisiðnaðurinn í Hádegismóum má ekki teygja lopann svona mikið ef hann ætlar að spinna langan þráð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Við gætum aldrei unnið svona það er verkurinn Þrymur. Það sem sumum finnst sjálfsagðar leiðið í pólitík finnst öðrum ógeðfellt. Það fyndasta við þessa er að Mbl er alltaf að sverja af sér Sjálfstæðisflokkinn.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 08:46
Já þeir hafa alltaf reynt að móta almenningsálitið, og skilja ef til vill ekki, að það gengur ekki í dag, þegar fólkið sjálft getur tjáð sig eins og hér til dæmis.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.2.2008 kl. 08:56
Ég sé ekki betur en þú sért haldinn sjálfspyntingahvöt á háu stigi Dofri. Hættir þú ekki að lesa Moggann fyrir löngu (sbr. færslu á bloggi þínu 28. janúar sl.) eða hættir þú kannski bara að kaupa það í áskrift en heldur svo áfram að kaupa það á laun í sjoppum? Þú þarft greinilega að komast í afstyrmun.
Hversemer (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 09:20
Já ég er hættur að kaupa hann - en laumast stundum til að lesa hann á kaffihúsum
Dofri Hermannsson, 29.2.2008 kl. 10:36
Ég veit nú ekki með þig Dofri, en ég held nu ekki að menn almennt séu fegnir til að skrifa greinar, það er venjulega gert vegna þess að menn annað hvort hafa skoðanir á málum eða áhuga. Mér fannst nú þessi grein bæði vera fin og tímabær. það þýðir ekkert að vera fúll vegna þess hún birtist í fjölmiðli sem þér ekki líkar.
Hannes Friðriksson (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 11:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.