Ríki í ríkinu er hún vissulega

Landsvirkjun er að mörgu leyti frábært fyrirtæki og þar vinnur margt vel menntað og hæfileikaríkt fólk. En eins og mörg B hlutafyrirtæki sem stofnað er til í sérstökum tilgangi hefur það öðlast sjálfstæðan vilja og orðið ríki í ríkinu.

Með góðri aðstoð stóriðjusinnaðra þingmanna og ráðherra hefur Landsvirkjun á síðustu árum staðið í hörðu áróðursstríði við almenning sem hefur viljað að ríkara tillit sé tekið til náttúrunnar við áætlanir um virkjanir. Landsvirkjun hefur ausið óhróðri yfir fólk sem hefur bent á að erlendis sé öðru vísi farið að hlutunum og verðmætri náttúru ekki fórnað án þess að t.d. farið hafi fram vandað kostnaðar-hagkvæmnimat og heildaráhrif framkvæmda metin saman.

Í samvinnu við formann Framsóknarflokksins og fjármálaráðherra hnuplaði Landsvirkjun vatnsréttindum í Þjórsá nokkrum dögum fyrir kosningar í fyrra. Verknaðinum var haldið leyndum - enda þoldi hann ekki dagsins ljós. Þegar í ljós kom að strákarnir höfðu brotið lög með því að taka það sem var þjóðarinnar og Alþingis og færa það Landsvirkjun sögðu þeir "allt í plati!"

Fyrirtækið hefur núna í nokkur misseri farið jafnt með hótunum, blíðmælgi og mútum að landeigendum og sveitastjórnarmönnum við Þjórsá og hefur m.a.s. gengið svo langt að bjóðast til að malbika, veita neysluvatni og bæta fjarskipti í skiptum fyrir hagfellt aðalskipulag.

Forstjóri Landsvirkjunar vílar ekki fyrir sér að segja ósatt þegar hann segir virkjun Þjórsár vera forsendu fyrir netþjónabúi á Vellinum. Það er honum ekki til vegsauka, einkum þegar um svo augljóst skrök er að ræða en netþjónabúið þarf ekki nema um 40-50 MW í mörgum áföngum.

Reyndar skil ég ekkert í því af hverju Hitaveita Suðurnesja er ekki fengin til að skaffa þessu netþjónabúi rafmagn frekar en að leiða það eftir öllum Reykjanesskaganum og þræða allar helstu náttúruperlur skagans upp á rafmagnsvír.

Framkoma stjórnenda þessa magnaða fyrirtækis er þeim til skammar. Framkoma fjármálaráðherra og formanns Framsóknarflokksins í vatnsréttindamálinu er það líka. Skilningsleysi þeirra ráðamanna sem nú leyfa sér að tala um stóriðju sem afréttara eftir þenslufylleríið er þeim líka til vansa.

Skýrsla efnahags- og framfarastofnunarinnar var alveg skýr hvað þetta varðar. Engar stóriðjuframkvæmdir fyrr en efnahagslegum stöðugleika hefur verið náð! Þetta eru ekki flóknar ráðleggingar.

OECD sagði einnig að slíkar framkvæmdir hefðu ríka tilhneigingu til að kosta almenning meira þegar upp er staðið en sem nemur hagnaðinum. Þess vegna ætti aukinheldur ekki að fara í slíkar framkvæmdir fyrr en að undangengnu vandaðri og gagnsærri kostnaðar-hagkvæmnigreiningu þar sem allt væri tekið með í reikninginn, umhverfiskostnaður, hagrænn kostnaður og samfélagsáhrif.

Einmitt núna er umhverfisráðherra með kæru Landverndar í vinnslu um að öll áform vegna Helguvíkur verði metin í samhengi. Landráðamenn eru ekki hrifnir af því. Ég vona nú samt að skynsemin sigri.


mbl.is Fyrirvari um virkjunarleyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: haraldurhar

   Tek heilshugar undir sjónamið þín að Landsvirkjun er ríki í ríkinu, og einning að hjá henni starfa margir hinir hæfustu menn.

    Það sem ég undrast að núverandi forstjóri, og stjórnir undanfarna ára hafa ekki verið látið taka pokan sinn, og á ég þar við óhóflegan stjórnunarkostnað og skifstofuhald fyrirtækisins, auk að tapa milljörðum á framvirkum samningum, auk hverskonar óráðsíu. I hverju einasta  fjármálafyrirtæki er viðlíka glópska hefði viðgengist, hefður stjórnendur verðið látnir fjúka fyrir löngu.  Það er dapurlegt að sjá fyrirtækið rekið með tapi, í stað þess að vera ein af burðarstoðum samfélagins, eins og hún ætti svo sannarlega að vera.

    Eg var og er hlynntur virkjun Kárahnjúka, en finnst dapurt að raforkan frá henni se seld undir framleiðsluverði,  en þar verður maður að geta í eyðurnar, þar sem su furðulega staða er uppi að raforkuverðið er laununamál, hvernig sem það má nú vera að gjaldskrá opinbers fyrirtæki sé ekki opinber fyrir eigendur þess.

   Hvet alla til að skoða ársreikninga Landsvirkjunar, og fylgjast vel með næsta uppgjöri.

haraldurhar, 5.3.2008 kl. 21:55

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er gengið út frá því sem gefnu að netþjónabúið á vallarsvæðinu fái orku frá virkjun í neðri hluta Þjórsár.

Og enn er allt á sömu bókina lært þó Fagra Ísland sé komið í ríkisstjórn. Vestfjarðaráðherrann talar um það á bloggsíðu sinni að spáin hans Smára Geirssonar hafi ræst. En hann hafði látið sér það um munn fara að stóriðja á Vestfjörðum yrði rægð af úrtölufólki.

En nú þinga ármenn ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um það með heimamönnum á Vestfjörðum hvort olíuhreinsistöð inni í Arnarfirði sé barasta ekki raunhæfur og vænlegur valkostur í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar!

Nú hallast ég æ meira að því með hverjum deginum að kannski sé innganga í ESB eini valkosturinn til að bjarga þessari þjóð frá Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni.

Árni Gunnarsson, 5.3.2008 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband