Orkunni lofað á marga staði

Orku OR virðist hafa verið lofað víða.
100 MW eru bundin samningi við Helguvíkurálver en til viðbótar skrifaði OR undir viljayfirlýsingu um að útvega um 75 MW til viðbótar. Nú hefur OR skrifað undir viljayfirlýsingu um að útvega REC Group 185 MW til verksmiðju sem þarf 350 MW í allt.

OR stefnir að því að virkja í Henglinum rúmlega 300 MW á næstu árum. Inni í þeirri tölu er Bitruvirkjun (135 MW) sem er afar umdeild framkvæmd. Ekki verður séð hvernig Ólafur F og Ásta Þorleifsdóttir varaformaður OR geta skrifað upp á þá framkvæmd.

Ef báðar viljayfirlýsingarnar og samningurinn vegna Helguvíkurálversins er lagt saman er niðurstaðan sú að OR ætlar að útvega þessum tveimur aðilum um 350 MW. Ef ekki verður virkjað í Bitru og frá eru dregin þau 100 MW sem eru bundin samningi vegna Helguvíkurálvers á OR hins vegar aðeins rúmlega 65 MW eftir til að standa við viljayfirlýsingar upp á 260 MW!

250 þúsund tonna álver í Helguvík þarf 435 MW
Samkvæmt viðtali við Júlíus Júlíusson hjá HS í Morgunblaðinu í gær telur HS sig geta útvegað 170-185 MW. Auk þess á HS rannsóknarleyfi á Krýsuvíkursvæðinu. Gallarnir við Krýsuvíkursvæðið sem orkuuppsprettu fyrir álver í Helguvík eru einkum tveir.

1) Tilraunaborholur hafa leitt í ljós að svæðið er alls ekki jafn orkuríkt og talið var í upphafi og 2) Sveitarfélögin Hafnarfjörður, Vogar og Grindavík sem eiga orkulindirnar eru síður en svo hrifin af því að orkan sé leidd af svæðinu og út í Helguvík.

Það er því fullkomlega óvíst að þessi orka standi álveri í Helguvík til boða og ekki fær betur séð en að aðeins sé búið að tryggja 100 MW frá OR og 170-185 MW frá HS. Samtals 270-285 MW og því vantar 150-165 MW upp á að búið sé að tryggja 250.000 tonna álveri í Helguvík þá orku sem til þarf.

Kapallinn gæti gengið upp ef
Hætt verður við álver í Helguvík en þá losna 100 MW hjá OR sem dugar langleiðina til að efna viljayfirlýsingu gagnvart REC Group. Reyndar finnst mér glapræði af OR að ætla að lofa svo mikilli orku til eins aðila en það er annað mál.

Ef hætt verður við álver í Helguvík losna 170-185 MW hjá HS sem t.d. verður hægt að selja til gagnavera eða iðnaðar sem ekki þarf jafn mikla orku og álver. Verner Holdings gætu þannig hæglega notað orku frá HS í stað rafmagnsins sem Landsvirkjun skrökvaði svo eftirminnilega um daginn að útheimti virkjun í Þjórsá.

Enn væri þó ósvarað hvað Hafnarfjörður, Grindavík og Vogar vilja gera við sína orku en ekkert bendir til þess að skortur verði á fyrirtækjum sem vilja nýta umhverfisvæna orku Suðurlinda ef hún verður þá virkjanleg á annað borð.

Einnig er ósvarað hvaðan á að taka afganginn af þeirri orku sem REC Group vantar fyrir verksmiðju í Þorlákshöfn. Líklega verður Landsvirkjun fljót að svara því til að nauðsynlegt sé að virkja í Þjórsá.


mbl.is REC Group til Ölfuss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Stundum fæ ég það á tilfinninguna, að það sé allt í lagi að virkja, bara ef orkan fer ekki til álvera.

Finnst þér líklegt að orkuseljendurnir vilji gera nánast hvað sem er, bara til þess að orkan fari í álver, ef fyrir liggur að hægt sé að nýta hana á hagkvæmari hátt?

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.3.2008 kl. 11:26

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef til stæði að sökkva Þingvöllum með þeirri afsökun að þeir muni sökkva í vatnið hvort eð er um síðir, og um væri að velja álver eða ómengandi starfsemi til að nýta orkuna frá hækkandi vatni, myndi það engu býtta í mínum huga heldur hvorugt koma til greina. Það gleymist að svonefndir virkjanaandstæðingar hafa aldrei og munu aldrei andmæla öllum virkjunum

Þegar um það er að ræða að virkja svæði eins og Hverahlíð og svæðið við Þrengslin sem "virkjanaandstæðingar" munu ekki beita sér gegn, skiptir máli hvort orkunni er sóað í mest mengandi og dýrustu notkunina, sem þar að auki gefur fæst störf.

Alvarlegast við virkjanirnar á Nesjavalla-Hellisheiðarsvæðinu er það sem ég hef margbent á að menn skella skolleyrum við, að tvöfalt meiri orka er kreist út úr svæðinu en það afkastar til frambúðar, - þetta er ekki sjálfbær orkunýting þótt því verði logið í Al Gore eins og alla aðra.

Ómar Ragnarsson, 19.3.2008 kl. 16:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband