Einkaleyfi á íslenskri náttúru

Fyrir rúmu ári sótti ég um rannsóknarleyfi á nokkrum völdum stöðum í náttúru Íslands með það í huga að fá einkaleyfi á nýtingu þeirra ef hún reyndist hagkvæm. Þar sem ekki eru til lög sem heimila slíka umsókn setti ég hana fram í Lesbók Morgunblaðsins og stílaði á þáverandi umhverfisráðherra.

Það er reyndar dálítið kúnstugt að það skuli vera hægt að sækja um og fá einkaleyfi á að rannsaka og nýta íslenska náttúru ef ætlunin er að virkja fallvötn eða jarðhita en útilokað ef ætlunin er að nýta verðmæt náttúrusvæði með verndun þeirra. Öðru fremur sýnir þetta viðhorf stjórnvalda sem þar til nú hafa ekki talið náttúruna til raunverulegra verðmæta.

Með umsókninni fylgdi greinargerð þar sem ég gerði grein fyrir þeim verðmætum sem ég hugðist rannsaka. Þessum verðmætum má skipta í þrennt: 1) verðmæti svæðanna sjálfra óháð nýtingu þeirra, 2) verðmæti svæðanna fyrir a) ímynd Íslands og b) sjálfsmynd þjóðarinnar og 3) þeim verðmætum sem má fá út úr ýmiss konar nýtingu þeirra samhliða verndun þeirra.

Hugmyndin var að ef í ljós kæmi að Brennisteinsfjöll hefðu til dæmis verndargildi í sjálfu sér fengi ég greitt fyrir þá þjónustu að vernda þessa auðlind þjóðarinnar fyrir komandi kynslóðir. Ef auk þess kæmi í ljós að Brennisteinsfjöll skiptu máli fyrir ímynd og sjálfsmynd lands og þjóðar fengi ég nokkurs konar stefgjöld í hvert skipti sem myndir af þeim yrðu notaðar í auglýsingarskyni eða fjöllin sjálf veittu skáldi innblástur svo dæmi séu tekin.

Í þriðja lagi fengi ég svo einkaleyfi til að minnsta kosti nokkurra áratuga á því að nýta svæðið sem til dæmis eldfjallaþjóðgarð, selja útivistar- og ferðaþjónustufólki leyfi til að ganga þar um, veita kynningu og fróðleik um eldstöðina og alla hugsanlega þjónustu við þá sem kynnu að hafa áhuga á að sækja þetta einstaka náttúrusvæði heim.

Það sem varð til að rifja þessa umsókn mína upp fyrir mér er einkum tvennt. Annars vegar blogg Hlyns Þórs Magnússonar á Eyjunni um að REWE Group, sem er eitt af stærstu verslunarfyrirtækjum Evrópu, myndskreytti með Gullfossi nýja auglýsingarherferð þar sem það segir heiminum að í framtíðinni muni fyrirtækið aðeins nota græna orku til starfsemi sinnar.

Hitt er sú umræða sem upp á síðkastið hefur verið að vakna um hvort og með hvaða hætti væri hægt að taka upp gjald af þeim sem sækja náttúru landsins heim og vilja geta gengið að henni vísri.

Sjálfum finnst mér þetta ekkert feimnismál. Þegar fólk er búið að verja tugum þúsunda í útivistarfatnað, taka sér frí frá vinnu, kaupa eldsneyti á bílinn og vistir til ferðarinnar er undarlegt ef ekki er hægt að sjá af nokkrum krónum til að tryggja að það sem er kveikja ferðarinnar - náttúran sjálf - verði örugglega til staðar þegar komið er á leiðarenda.

Hér er brýnt verkefni fyrir ríkisstjórn og Alþingi. Hér er um að ræða mál sem ekki aðeins snýst um náttúruvernd heldur líka hagsmuni ferðaþjónustunnar, útivistarfólks og ímynd landsins.

Innan Sjálfstæðisflokksins hafa ýmsir haldið því fram að einkaréttur væri forsenda þess að vel væri farið með verðmæti. Sé það ríkjandi skoðun lýsi ég mig hér með reiðubúinn að endurnýja umsókn mína um rannsóknarleyfi á 10 náttúrusvæðum Íslands.

Að sjálfsögðu með því skilyrði að ég fái einkarétt á nýtingu þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég lýsi mig reiðubúna til að taka að mér önnur 10 með sama skilyrði.

Lára Hanna Einarsdóttir, 28.3.2008 kl. 10:54

2 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Vá, góð hugmynd! Ég væri til að taka þátt í þessu.

Úrsúla Jünemann, 28.3.2008 kl. 11:12

3 identicon

Dofri þó! Er verið að laumast í bloggið frá Kanarí?

Eydís (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 18:59

4 identicon

'Eg segji um þetta að landið sjálft ætti að opna svona stað og fá peningin í sjóðin fyrir landsbúana og svo getur ríkið ráðið mannskap til að sjá um það. Er ekki komið nóg einkaleyfi fyrir hinu og þessu. Það er tími kominn að Islendinga ráðið taki aftur það sem er búið að og er að taka frá þeim.

margret siebers (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 20:54

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fín nálgu hjá þér, Dofri. Ég hef að undanförnu viðrað nýtt orð: "Náttúruverndarnýting." Um það snýst málið að orðið nýting hefur til þessa aðeins gilt um það ef hægt er að hefja eitthvað mælanlegt magn út úr náttúrunni, tölu laxa, silunga, hestburða af heyi, tonna af þessu og hinu, kílóvattstunda. Unaðsstundirnar er ekki hægt að setja á vog og vigta, og þess vegna eru þær einskis metrar.

Ómar Ragnarsson, 28.3.2008 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband