Hálfverið, hin fyrirtækin, heimilin og mjólk á fernum

Í nóvember í fyrra kom hópur erlendra fjárfesta í heimsókn til að kynna sér starfsemi Norðuráls og áform um byggingu álvers í Helguvík. Þegar rútan kom í Reykjanesbæ eftir kynningu á Grundartanga hoppaði glaðbeittur bæjarstjóri Reykjanesbæjar (sem jafnframt er stjórnarformaður HS) upp í rútuna.

Í máli hans kom meðal annars fram að 1. áfangi væri bara formsatriði, 2. áfangi væri skammt undan og því næst yrði stefnan tekin á 350-400 þúsund tonn - "or why not even 500.000 tons!" Þetta er athyglisvert.

Einnig er athyglisvert að í ársskýrslu Hitaveitu Suðurnesja 2007 segir:

Á árinu var gerður orkusamningur við Norðurál um raforkusölu til fyrirhugaðs álvers í Helguvík... Ljóst er að tíminn er stuttur þannig að allt verður að ganga upp svo orkuafhending geti hafist á réttum tíma . Mikil ásókn hefur verið í raforku til notenda sem þurfa 10 - 50 MW fyrir sína starfsemi . Ljóst er að ekki verður hægt að verða við óskum þessara aðila nema að litlu leyti...

Hér er það sagt berum orðum sem þegar er farið að kvisast, að mörg smærri fyrirtæki komi að lokuðum dyrum hjá HS af því öll orka fyrirtækisins fer til Helguvíkur. Það er slæmt því á næstu 5 árum gæti störfum við flugþjónustu fjölgað um 2000 og reynsla erlendra svæða sem búa að alþjóðaflugvöllum eins og Leifsstöð sýnir að atvinnu- og viðskiptalíf á Reykjanesskaganum á gríðarlega mikla og fjölbreytta vaxtarmöguleika.

Áhugi á mörgum fjölbreyttum fyrirtækjum virðist ekki mikill - allt fer í hálfverið.

En hvað skyldi hálfverið kosta almenning í landinu? Samkvæmt þjóðhagsspá fjármálaráðuneytis segir að Seðlabankinn muni bregðast við framkvæmdum með hækkun stýrivaxta!

Skuldir heimilanna eru um 1.500 milljarðar. Þar af eru um 1.000 milljarðar í verðtryggðum krónum. Ef það dregst um eitt ár að lækka vexti t.d. um 5% eykur það kostnað heimilanna um 75 milljarða. Ef það dregst líka um eitt ár að lækka verðbólguna um 4% hækkar það höfuðstól skulda heimilanna um 40 milljarða.

Kostnaður heimilanna af því að fresta lækkunarferlinu um eitt ár væri samkvæmt þessum forsendum því samtals um 135 milljarðar eða um 1,8 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Líka  á Suðurnesjum.

Heimilin í landinu fá sendan reikninginn fyrir hálfveri í Helguvík, önnur fyrirtæki sem annars eiga góða vaxarmöguleika á Suðurnesjum fá ekki nauðsynlega orku og þegar hálfverið vill stækka - hvar verður orkan tekin þá? Úr Brennisteinsfjöllum, Grændal, Þjórsá, Þjórsárverum? Kannski óþarfa áhyggjur?

Í viðtali á RÚV 13. mars sl. um kæru Landverndar sagði bæjarstjóri Reykjanesbæjar (og stjórnarformaður HS):

Kæran gengur út á það að þeir vilja vita hvaða borhola er notuð til þess að framleiða orku nákvæmlega í álver í Helguvík... Þannig er það bara ekki. Orkan er sett inn á landsnetið og þaðan er hún tekin.

Og mjólkin kemur úr fernum.

Þessi pistill birtist einnig í Viðskiptablaðinu í dag


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Góður pistill, Dofri, takk.

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.4.2008 kl. 16:03

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

frábær pistill hjá þér Dofri.. vonandi lesa þeir hann sem eiga hlut að máli.

Óskar Þorkelsson, 18.4.2008 kl. 17:50

3 identicon

Fínn pistill Dofri.  Ekki nóg með að ríkisstjórnin vilji þetta Helguvíkur álver, heldur líka stækkun á Grundartanga og nýtt álver á Bakka.  Það síðast nefnda er sérstakt hugðarefni Samfylkingarinnar.  Þessi ríkisstjórn verður Stóriðjustjórnin hin meiri. 

Hvað ætli stýrivextirnir verði þá í lok kjörtímabilsins?

Jón Kr. Arnarson (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 21:36

4 Smámynd: Óðinn Þórisson

Næsta stolt okkar Íslendinga verður án efa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum.

Þú ert ágætur Dofri en seint verð ég sammála þér í þessum málum.

Óðinn Þórisson, 19.4.2008 kl. 09:41

5 Smámynd: Landrover

Hrollur fer um mann.... og eigingyrnin tekur völd ...hvursu lengi sleppa Dalirnir... góð lesning annars...kveðja úr Dölum...

Landrover, 19.4.2008 kl. 10:00

6 Smámynd: Karl Tómasson

Heill og sæll Dofri. Aldrei hef ég efast um heilindi þín sem sannan og heilan umhverfisverndarsinna. Nú reynir á kallinn að láta til sín taka.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.

Karl Tómasson, 19.4.2008 kl. 20:46

7 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Fólkið í landinu á að taka völdin af þeim betlilýð sem hangir á fjölum Þjóðleikhússins og kallar sig umhverfisverndarsinna, til að hafa einhvern titil, í hernaði sínum gegn fólkinu í landinu.Sem betur fer er fólkið í landinu að átta sig á þeim mannníðingum sem rápa á milli Þjóðleikhúss, sem svo er kallað og Ráðhússins í R.vík.

Sigurgeir Jónsson, 20.4.2008 kl. 17:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband