Hin 8 villtu

Björn Bjarnason er meiri og kaldæðnari húmoristi en ég hafði gert mér grein fyrir.

Rétt eins og innmúruðum höfundi Staksteina gengur það fram af honum hvernig borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna tekst ítrekað að klúðra REI málinu. Til að gera skammirnar bærilegri reynir Björn að klína málinu á 100 daga meirihlutann og endar á nánast kvikindislegu háði með því að segja að það sé hægt að gera meiri kröfur til sjálfstæðismanna en annarra.

Í upphafi REI málsins urðu 6 menningarnir hoppandi reiðir yfir því að Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson óð áfram í málinu án samráðs við hópinn og því umboðslaus. Hann var tekinn á teppið og skammaður af 6 menningunum sem höfðu m.a. farið á fund formanns Sjálfstæðisflokksins og klagað Vilhjálm.

Þarna var undirliggjandi sú staðreynd að leiðtogaprófkjöri Vilhjálms og Gísla Marteins Baldurssonar lauk í raun aldrei, auk þess sem happdrættis- og bjórkælismál, gleymska og almennt samráðsleysi fór í taugarnar á 6 menningunum. Þessa reiði 6 menninganna skildu flestir vel.

Mistök 6 menninganna fólust ekki í því að gera þessa uppreisn heldur í því að ganga ekki alla leið. Þau höfðu ekki hugsað atburðarrásina til enda - hver átti að taka við af Vilhjálmi? Þegar málið var komið í hnút kom í ljós að á meðal 6 menninganna var ekki eining um þetta. Bæði Hanna Birna Kristjánsdóttir sem skipar annað sæti listans og Gísli Marteinn Baldursson sem tók slaginn um forystuna töldu sig eiga rétt á borgarstjórastólnum. Gott ef ekki fleiri.

Niðurstaðan varð því sú að fresta vandanum og láta Vilhjálm lafa áfram í embætti borgarstjóra. Haldinn var fundur þar sem samanbitið fólk sagðist treysta Vilhjálmi sem reyndi að telja almenningi trú um að allir væru vinir. Til að bjarga hópnum úr vandræðunum með REI grófu 6 menningarnir upp gamalt frjálshyggjuboðorð Hannesaræskunnar og sögðu það ganga gegn sinni dýpstu sannfæringu að fyrirtæki í opinberri eigu stæði í áhætturekstri.

Þetta áttu margir góðir og gegnir sjálfstæðismenn erfitt með að skilja en til REI var stofnað af Guðlaugi Þór Þórðarssyni og Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn vann að stofnun sams konar fyrirtækis um útrásarverkefni Landsvirkjunar. Bent hefur verið á að hvorugt brýtur gegn samþykktum landsfunda Sjálfstæðisflokksins. Þetta frjálshyggjuboðorð var því alger fyrirsláttur.

Samstarfsflokknum voru settir afarkostir - að kóa með vandræðagangi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins og selja REI eins hratt og hægt var eða slíta meirihlutanum. Framsókn hélt fast í þá skoðun sína að með því að selja REI strax væri verið að hlunnfara borgarbúa og eftir að hafa reynt til hins ýtrasta að fá 6 menningana og Vilhjálm til að skipta um skoðun var myndaður nýr meirihluti.

Nýr meirihluti undir forystu Dags B Eggertssonar tók þegar til við að fara ofan í saumana á málinu með vandaðri hætti en tíðkast hefur hér á landi. Þverpólitískur stýrihópur undir stjórn Svandísar Svavarsdóttur var settur í málið, tugir funda voru haldnir til að rekja atburðarrásina og kanna hvað hefði mátt betur fara. Hópurinn skilaði sameiginlegri niðurstöðu sem jafnframt var grunnur að framtíðarstefnumótun fyrir REI.

Áður en stýrihópurinn náði að skila af sér tókst hins vegar Vilhjálmi að kljúfa hinn nýja meirihluta þar sem hann var veikastur fyrir. Það gerði hann með aðstoð Kjartans Magnússonar, eins 6 menninganna, sem bauð hinum annálaða heilindapólitíkusi Ólafi F Magnússyni borgarstjórastólinn ef hann væri til í að svíkja félaga sína. Það þáði Ólafur án samráðs við sitt nánasta samstarfsfólk  en sigri hrósandi yfir því að hafa sinn gamla flokk í hendi sér.

Með þessu útspili, sem greinilega kom öðrum 6 menningum en Kjartani á óvart, kom Vilhjálmur sér aftur í baráttuna um leiðtogasæti sjálfstæðismanna í borginni og Kjartan bætti stöðu sína með því að koma sjálfstæðismönnum aftur til valda. Kjartan fékk yfirráð yfir Orkuveitu Reykjavíkur og REI sem eðlilegt má telja að Gísli Marteinn og Hanna Birna hefðu átt ríkari rétt til vegna sætis ofar á lista.

Framan af er tíðindalaust af vígstöðvum REI en ljóst að það fer alvarlega í taugarnar á ýmsum innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins að ekki einasta fái Kjartan formennsku í báðum fyrirtækjunum heldur fær stuðningskona Ólafs F, Ásta Þorleifsdóttir sem skipaði 4. sæti á F-lista, varaformennsku í báðum fyrirtækjum.

Þegar svo Kjartan fer utan til að skrifa undir viljayfirlýsingar í Afríku um spennandi og þörf verkefni, með stuðningi alþjóðlegra stofnana, fulltingi iðnaðarráðherra og í fullu samræmi við niðurstöðu stýrihóps um málefni REI, verður allt vitlaust á ný í hinum sundraða borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins.

Gísli Marteinn er spurður í fréttum hvort honum finnist þetta rétt og svekktur yfir stöðu sinni innan borgarstjórnarflokksins grípur hann aftur til hins raunalega og fjarstæðukennda frjálshyggjuboðorðs um að selja beri REI. Ólafur er spurður hvað honum finnst og hann segir ekki koma til greina að selja. Aðrir horfa í gaupnir sér á meðan borin er fram tillaga í stjórn OR um að kanna sölu á REI.

Varaformaður Reykjavíkur reynir að draga úr tjóninu með því að milda tillöguna, afgreiðslu hennar er frestað og málið einum allsherjar hnút. Aftur. Trúverðugleiki eins stærsta og öflugasta fyrirtækis landsins, ríkisstjórnarinnar og orðspor landsins er í hættu á alþjóðavettvangi vegna innanmeina sjálfstæðismanna í borgarstjórn.

Er þessu fólki treystandi? Þeirri spurningu hefur reyndar verið svarað.


mbl.is Haldið áfram á ógæfubraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svona svona Kristinn, REI málið hefur ekkert með fiskveiðistjórnina að gera.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 21:44

2 identicon

Ég mæli með að þú farir sem oftast ekki út að skemmta þér á laugardögum

stefán benediktsson (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband