Brauð lífsins

Á síðu sinni í dag spyr þjóðþekktur samfélagsrýnir hvort það sé verjandi að taka lán í útlöndum, hvernig eigi að borga það til baka ef ekki má virkja hvar sem kostur er og hælir formanni Frjálslyndra fyrir að leggja til að við veiðum meira af fiskstofninum sem þó eru allir sammála um að sé við það að hrynja.

Hann klykkir út með því að segja að sumir haldi að það sé bara hægt að lifa af því að hjóla í vinnuna og flokka sorp. Smellin setning og jafnast á við ummæli Víglundar Þorsteinssonar um að það sé útaf fyrir sig ágætt að skrifa bækur og blogga en brauð lífsins sé ekki smurt með svoleiðis heldur þurfi að sjálfsögðu að virkja. Víglundur hafði þó það sér til afsökunar á þessari speki að eiga steypustöð.

Auðvitað verður þjóðin að búa til verðmæti til að hafa efni á að lifa en þau verðmæti þurfa ekki endilega að vera úr steinsteypu eða hæf til átu. Ég hef t.d. oft bent á að verðmætasköpun í hátækni- og þekkingariðnaði er þreföld á við stóriðju. Þar er um mikla verðmætasköpun að ræða án þess að ganga á náttúruverðmæti. Þekkingarfrekur iðnaður - ef svo má segja.

En skoðum aðeins betur hugleiðingu samfélagsrýnisins - ætli það sé hægt að lifa af því að hjóla í vinnuna? Hversu fráleitt er það?

Segum sem svo að við spörum okkur bíl nr. 2 sem FÍB segir að kosti um 75 þúsund á mánuði að reka. Til að fá 75 þúsund á mánuði útborgað þarf maður að fá um 130 þúsund í heildarlaun sem er um helmingur mánaðarlauna margra í uppeldis- og ummönnunarstéttum svo dæmi séu tekin. Auk þess gæti sparast bæði tími og peningar sem ella færi í líkamsrækt og lífslíkur þess sem hjólar að staðaldri til og frá vinnu eru talsvert mörgum árum lengri en þeirra sem ekki hjóla. Að ekki sé minnst á sparnað skattborgaranna af færri umferðarmannvirkjum, minni mengun og minni kostnaði í heilbrigðiskerfinu.

Niðurstaðan? Ef maður hjólar í vinnuna hefur maður meiri peninga á milli handana til að nota í annað en bíl. Þjóðarbúið sparar mikla fjármuni sem t.d. má setja í menntakerfið í stað þess að nota þá í umferðarmannvirki og sjúkrakostnað. Já, að er svo sannarlega hægt að lifa bæði ríkara og lengra lífi með því að hjóla í vinnuna.

Kannski má spyrja samfélagsgagnrýnandann og stjórnmálaskýrandann á móti hvort hann telji að það sé hægt að lifa af því að keyra í vinnuna? Skapar það eða sparar verðmæti fyrir þjóðarbúið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Gíslason

Þröngsýni getur verið dálítið fyndin á köflum. Með þröngsýnisgleraugun á nefinu, sér maður náttúrulega engin merki þess að það borgi sig að hjóla í vinnuna. Gott hjá þér að benda á, með svona skýrum hætti, hversu mikil þröngsýni þetta er. Dálítill sparnaður getur jú hresst töluvert meira upp á fjárhaginn en aukin innkoma, rétt eins og orkusparnaður er ódýrasta virkjunin! Og svo er hægt að njóta lífsins fyrir það sem sparast - alveg eins og maður vill.

Stefán Gíslason, 29.5.2008 kl. 12:45

2 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Góður punktur, Dofri. Við hjónin eru skuldlaus í dag, enda notuðum við reiðhjól og strætó fyrstu 15 ár í sambúð og áttum ekki bíl. Ég get ekki sagt að við lifðum slæmu lífi, við áttum alltaf nóg af öllu þrátt fyrir að vera bara á kennarakaupi.

Úrsúla Jünemann, 29.5.2008 kl. 14:43

3 identicon

Fyrst rætt er um hjólað í vinnuna, hvorir höfðu betur, meirihlutinn eða minnihlutinn? Smá statistik, takk!

Haukur (IP-tala skráð) 30.5.2008 kl. 01:07

4 Smámynd: Dofri Hermannsson

Minni hlutinn - eða Betri helmingurinn eins og hann er gjarna kallaður - lenti að lokum í 14. sæti af 122 í sínum flokki og hafði þá lagt að baki rétt tæpa 1000 km á 12 dögum.

Meirihlutinn hafði eftir nokkurt hik ákveðið að taka þátt en þegar nokkrir dagar voru liðnir af keppninni og ég fór að spyrja af hverju liðið sæist hvergi á heimasíðu ÍSÍ kom í ljós að meirihlutinn hafði gleymt að skrá liðið.

Skýringin var víst sú að það var ekki á hreinu hver átti að leiða hópinn!

Dofri Hermannsson, 30.5.2008 kl. 08:42

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það er góð og holl hreyfing að  hjóla og fá súrefni í lungun. Það er ekki alveg laust við að maður verði skýrari í hugsun. Mjög gott innlegg hjá Guðjóni Arnari Kristjánssyni. Fiskveiðiauðlindin er vannýtt. Það er búið að selja allan kvóta frá sjávarplássum, sem liggja við staðbundin fiskimið án þess að staðbundnir fiskistofnar syndi með.       Hugsaðu um þetta næst meðan þú ert að hjóla.

Sigurður Þórðarson, 30.5.2008 kl. 09:07

6 Smámynd: Dofri Hermannsson

Búinn að hjóla bæði langt og oft undanfarnar vikur og finn að þetta er rétt sem þú segir Sigurður um hugsunina. Hef samt ekki getað komist að þeirri niðurstöðu að fiskurinn sé vannýtt auðlind. Þú þarft líklega að hjóla með mér og sýna mér hvernig þetta er gert.

Dofri Hermannsson, 30.5.2008 kl. 09:46

7 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Skemmtileg áskorun Dofri, sem ég skorast ekki undan.

Dr. Guðrún Marteinsdóttir sýndi fram á það með DNA rannsóknum að það eru í það minnsta 35 staðbundnir þorskstofnar við landið sem blandast lítt eða ekki innbyrðis.  Sjálfur þekki ég það hafandi verið til sjós nokkrar vertíðar frá Grindavík að SV- af Reykjarnesi er að finna þorsk sem er styttri en t.d. sá sem er vestar og norðar.  Hátt leiguverð á kvóta gerir það að verkum að menn annað tveggja forðast þennan fisk (sem er eins til átu) þar sem hærra verð fæst greitt fyrir stærri fisk. Útgerðamenn vita þetta vel en kjósa að þegja yfir því vegna þess að það felast líka hagsmunir í því að geta leigt, veðsett eða selt.  Til lengri tíma litið er arðvænlegra að stunda vistvænar veiðar og nýta staðbundna stofna. Þess utan felast tækifæri í sóknarstýringu sem of langt mál væri að rekja nema í góðum hjólatúr. Samfylkingin á að skipa nokkrum góðum mönnum sem hafa ágæta þekkingu á þessum málum t.d. Karl Matthíasson og Jóhann Ársælsson ég vona að þeir verði hafðir með í ráðum.

Sigurður Þórðarson, 30.5.2008 kl. 10:47

8 Smámynd: Dofri Hermannsson

Alltaf til í hjólatúr - hjóla daglega á milli Grafarvogs og miðbæjar.

Dofri Hermannsson, 30.5.2008 kl. 11:29

9 identicon

Skemmtileg þessi setning "við veiðum meira af fiskstofninum sem þó eru allir sammála um að sé við það að hrynja."

Gaman að því að slengja því svona fram án nokkurra raka að allir séu sammála um þetta. 

Hverjir eru þessir allir?

Því er einmitt öfugt farið, það eru einmitt ekki allir sammála um að þorskstofninn sé að hrynja. 

Það er nú varla hægt að elta ólar við svona vitleysu, það er að menn slengi svona fram. En það er nú erfitt að þegja og hlusta á svona bull.

Kveðjur bestar

Páll Kristjánsson (IP-tala skráð) 30.5.2008 kl. 12:12

10 Smámynd: Dofri Hermannsson

Biðst afsökunar á alhæfingunni Páll. Það eru auðvitað aldrei allir sammála um eitt né neitt. Held þó að það sé mat flestra málsmetandi manna að flestir helstu fiskistofnar við Ísland séu illa staddir. Ég hallast að því að mat fiskifræðinga Hafró sé rétt og að það hafi verið rangt og ábyrgðarlaust af stjórnmálamönnum að heimila undantekningalaust meiri fiskveiðar en sérfræðingar hafa lagt til undanfarna áratugi. Því miður hafa lobbýistar í útvegsgeiranum stórir sem smáir ævinlega þóst hafa á minnkandi stofnstærð betri skýringar en fiskifræðingar og hafa jafnan þrýst á stjórnmálamenn að leyfa meiri fiskveiðar en æskilegt var. Það væri kannski ekki galið að útvegsmenn undanfarinna áratuga bæðust afsökunar á því.

Dofri Hermannsson, 30.5.2008 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband