2.6.2008 | 12:00
Hvað hugsa sláturlömbin?
Í janúar voru 16% ánægð með störf Ólafs F Magnússonar og um 27% voru ánægð með nýjan meirihluta Ólafs og Sjálfstæðisflokksins. Lengi getur vont versnað - nú eru aðeins 9% ánægð með Ólaf og stuðningur við meirihluta hans og Sjálfstæðisflokksins hefur fallið niður í 14%.
Til samanburðar má nefna að þegar Dagur B Eggertsson lét af embætti borgarstjóra voru 54% borgarbúa ánægð með störf Dags sem borgarstjóra. Einungis 19% voru óánægð með störf Dags en 67% borgarbúa eru óánægð með störf Ólafs F Magnússonar!
Áður en þessi nýjasta og svartasta könnun á stuðningi við núverandi meirihluta birtist voru þungaviktarmenn innan Sjálfstæðisflokksins farnir að segja pólitískum andstæðingum í óspurðum fréttum að fyrir næstu kosningar yrðu allir borgarfulltrúar flokksins slegnir af - rétt eins og um riðufé væri að ræða. Eftir þessa nýjustu könnun er spurningin kannski helst sú hvort flokkseigendafélagið getur beðið svo lengi eftir sláturtíðinni.
Þetta er undarleg staða, einkum fyrir þá í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins sem ekki tóku þátt í að mynda þennan vonlausa meirihluta, ekki tóku þátt í að setja borgarstjórastólinn á útsölu eða varpa málefnum sínum s.s. framtíðarskipulagi Vatnsmýrarinnar fyrir róða.
Þær raddir heyrast nú úr grasrót Sjálfstæðisflokksins að þessir borgarfulltrúar ættu að endurskoða stuðning sinn við núverandi meirihluta sem slær hvert metið af fætur öðru í vantrausti og freista þess heldur að semja um ákveðin málefni Sjálfstæðisflokksins gegn stuðningi við minnihlutastjórn félagshyggjuflokkanna undir stjórn Dags B Eggertssonar.
Líklega er rétt hjá grasrót Sjálfstæðisflokksins að slíkt fyrirkomulag yrði betra bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og borgina en að halda áfram óbreyttu samstarfi. Þetta væri þó óvenjulegt stjórnarmynstur og ekki sjálfgefið að minnihlutinn tæki tilboði um slíkt.
Að sönnu þykir félagshyggjufólki illt að horfa upp á borgina reka á reiðanum en fáir syrgja það hins vegar að sjá Sjálfstæðisflokkinn bráðna eftir valdatökuna í janúar og síendurtekið klúður í hverju málinu á fætur öðru í vetur.
Það hefur frá upphafi verið ljóst að engin skörð verða rofin í samstöðu núverandi minnihluta. Þá er einnig ljóst að minnihlutinn myndi aldrei hafa frumkvæði að enn einum stjórnarskiptunum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Jú jú, það er þekkt úr allmörgum görðum og raunar túum lík, að þar er Mosi og annað sem ekki er talið til nytjajurta.
Annasr að öllu gamni slepptu.
Þetta er nú sýnd veiði en ekki gefin.
Með kveðju
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 2.6.2008 kl. 12:50
Skrítið Dofri, þetta hefur einmitt verið sagt við mig líka, - þegar ég hef rætt við innanhúsfólk í Sjálfstæðisflokknum. -
Mér var ansi brugðið fyrst, og sagði að mér fyndist það ansi óréttlátt, þar sem þau höfðu auðsjáanlega á fundinum á Kjarvalsstöðum, ekki tekið neinn þátt, í myndun þessa skelfilega meirihluta. -
Þá var svarið: Það skipir engu máli, það er eina ráðið til að ná Sjálfstæðisflokknum upp úr þessum öldudal sem hann er í núna. -
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 2.6.2008 kl. 13:47
"minnihlutastjórn félagshyggjuflokkanna undir stjórn Dags B Eggertssonar"
Óðinn Þórisson, 2.6.2008 kl. 18:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.