Langt seilst í hvalveiðimálum

Það er undarlegt hvað sært þjóðarstolt getur leitt til margra vondra ákvarðana. Af því heimurinn er á móti því að við drepum hvali þá er ákveðinn hluti þjóðarinnar kominn í heilagt stríð fyrir því að drepa hvali. Er þetta ekki kallað andstöðuþrjóskuröskun á fagmáli sálfræðinnar?

Við höfum umtalsverðar gjaldeyristekjur af því að drepa ekki hvali, heldur að sýna ferðafólki þá en í staðinn fyrir að reyna að fá meira út úr þessari tegund nýtingar fyllumst við þvermóðsku og spillum fyrir þeirr starfsemi með því að drepa hvalina.

Þetta er bara heimska. Og nú kemur í ljós að kjötið af langreyðunum sem Kristján Loftsson hefur legið með í frystigeymslum í 2 ár og segist nú hafa selt til Japans - þetta kjöt liggur bara í frysti í tollinum í Japan og salan á kjötinu var málamyndagjörningur - liður í áróðursstríði Kristjáns og félaga.

Hvar fá menn peninga í þetta ævintýri? Stjórnvöld munu víst á síðasta kjörtímabili hafa lagt margfalda ársveltu margra náttúruverndarsamtaka inn á reikning þess félagsskapar sem að hvalveiðunum standa. Af hverju var það gert? Er ennþá verið að ausa peningum í svona vitleysu?

Eru skattgreiðendur að borga Japansferð langreyðanna sem Kristján Loftsson sendi sjálfum sér til að blekkja stjórnvöld og almenning? Er ekki komið nóg af þessari vitleysu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Andstöðuþrjóskuröskun, uppáhaldsorðið mitt í skólastarfinu. Ég var lengi að læra að bera þetta rétt fram. En þetta er nákvæmlega rétta lýsingin fyrir þeirri hegðun sem meirihluti þjóðarinnar sýnir í sambandi við hvalveiðar og stuðning við þessa vitleysu.

Úrsúla Jünemann, 4.6.2008 kl. 13:41

2 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Mér finnst nú líklegast að Kristján borgi undir þetta sjálfur.

Hver eru helstu rökin gegn hvalveiðum annars?

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 4.6.2008 kl. 14:39

3 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Mér hefur alltaf þótt það undarlegur málatilbúnaður þegar umhverfisverndasinnar andmæla hvalveiðum á viðskiptalegum forsendum. Það er jafn rangt og að fara út í viðskipti á umhverfisverndarlegum forsendum.

Ef menn vilja andmæla hvalveiðum, þá væri réttara að gera það út frá umhverfissjónamiðum. Vandamálið er, fyrir verndunarsinna, að ekkert mælir gegn hvalveiðum annað en tilfinningasemi. Hvalir eru ekki í útrýmingarhættu, langt því frá, veiðarnar ógna ekki umhverfinu. Kjötið af skepnunum er í fínasta lagi. Hvað er þá vandamálið? Viðskipti. En ég hélt annars að ferðamannabransinn hefði aukist og styrkst samhliða hvalveiðum. Fjöldi ferðamanna eykst, fjöldi gistinátta, fjöldi viðskiptavina hvalaskoðunnarfyrirtækja eykst. Þetta er allt á uppleið. Hvað er þá vandamálið?

Tilfinningasemi, það er allt og sumt. Annars legg ég til að við förum að ósk Bandaríkjamanna um að hætta hvalveiðum þann dag sem þeir hætta að drepa fólk og hætti hvalveiðum sjálfir.

Sigurjón Sveinsson, 4.6.2008 kl. 15:49

4 identicon

Grjóni

Hvaða rugl er þetta um að maður þurfi að rökstyðja málstað sinn með einhverri tiltekinni tegund raka eftir því hvaða afstöðu maður hefur? Rök eru annað hvort gild eða ekki eða annað hvort góð eða slæm. Það kemur því ekkert við hvaða afstöðu maðurinn hefur sem færir þau fram.

Ef einhver umhverfisverndarsinni sem kann viðskiptafræði hefur komist að því að hægt sé að græða meira á því að stunda ekki hvalveiðar, þá er um að gera fyrir hann að koma þeirri skoðun sinni á framfæri. Þeir sem ekki fallast á þá skoðun færa þá rök á móti. Væntanlega einhverskonar viðskiptafræðileg rök.

En það svo mætti auðveldlega hugsa sér að menn yfirtrompi viðskiptafræðirökin með einhverskonar siðrænum eða lagalegum rökum. Það er ekkert að því. Það var til dæmis aðferðin beitt var gegn þrælahaldi í Bandaríkjunum. Gífurlega hagkvæm atvinnustarfsemi var sett á hausinn vegna þess að hún var ekki siðferðilega réttlætanleg.

Grímur (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 16:15

5 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Fékk hann ekki bæði Landbúnaðarstyrk og Sjávarútvegsstyrk, svo hann greiðir náttúrulega fyrir ferðina sjálfur, og sagði ekki núverandi Landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra að hann fengi ekki, að veiða meira, né meiri styrki fyrr en sýnt þætti að hann væri búin að selja kjötið, sem legið hefur óhreyft í tvö ár. - 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 4.6.2008 kl. 16:58

6 Smámynd: Stefán Gíslason

Hei, nennir ekki einhver að tékka á dagstimplinum á þessu kéti. Hlýtur ekki standa á því "BEST FYRIR ....eitthvað"?

Og ég sem hélt að seinni helmingurinn af jarðneskum leifum hvalanna fengi að hvíla hjá fyrri partinum í þjóðargrafreitnum í Fíflholtum.

Stefán Gíslason, 4.6.2008 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband