9.6.2008 | 10:12
Úrslit borgarstjóra Idolsins í Sjálfstæðisflokknum
Um hríð hefur verið hægt að taka þátt í skoðanakönnun á þessari síðu um leiðtoga- og borgarstjóraefeni Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Því miður hugkvæmdist mér ekki að bjóða upp á Dag B Eggertsson sem einn af svarmöguleikunum, en eins og fram kom í könnun sem gerð var fyrir Stöð 2 lenti Dagur í 3ja sæti þegar þjóðin var spurð hvern af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins fólk vildi helst sjá sem borgarstjóra.
Að öðru leyti voru niðurstöður þessara kannana svipaðar, Hanna Birna jarðaði félaga sína í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Slök útkoma Vilhjáms Þ Vilhjálmssonar kom auðvitað ekki á óvart en hitt vekur nokkra furðu hvað Gísli Marteinn Baldursson fær slaka útkomu. Einkum í ljósi þess að hann atti kappi í prófkjöri um fyrsta sæti við Vilhjálm sem hreppti heldur nauman sigur.
Gísli Marteinn fékk traust um helmings kjósenda í 1. sæti en Hanna Birna nánast rússneska kosningu í 2. sæti. Þetta má túlka sem svo að nánast jafn margir vildu Gísla Martein í leiðtogasæti og Vilhjálm en allir voru sammála um að Hanna Birna ætti að vera í 2. sæti. Niðurstaðan sem nú liggur fyrir er auðvitað ekki í samræmi við þetta.
Annað sem vekur athygli er að Júlíus Vífill fær býsna góða útkomu miðað við að hafa lent í 5. sæti í prófkjöri. Það verður auðvitað að viðurkennast að á stundum er talsverður borgarstjórablær yfir Júlíusi. Hann er glæsilegur á velli og með mikið og fallegt hár sem borgarbúar virðast vera sammála um að sé mikilvægt fyrir borgarstjóra.
Kjartan Magnússon bauð sig aldrei fram en var þó oft nefndur til sögunnar sem hugsanlegt borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins. Það sem gerði Kjartan að líklegum kosti eru persónuleg tengsl hans við Ólaf F Magnússon en góð tengsl borgarstjóra við Ólaf hafa verið talin auka líkur á að meirihlutasamstarf við Ólaf haldi - þótt ekki sé á vísan að róa með slíkt.
Eftir þessa langdregnu - en þó á stundum spennandi - Idol keppni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hefur margt á dagana drifið. Við höfum séð þennnan hóp í sófanum í Ráðhúsinu tala um trúnaðarbrest, sárindi sín og vinskap, við sáum þau reið og bitur á tröppunum heima hjá Villa, með jarðarfararsvip á Kjarvalsstöðum og svo að skjótast sitt í hvoru lagi út um kjallara- og bakdyr við ýmis tilefni.
Vonandi tekst Hönnu Birnu að halda þessum hópi saman - og góðu sambandi við Ólaf sem enn um sinn verður borgarstjóri í boði Sjálfstæðisflokksins. Borgin getur ekki beðið lengur eftir starfhæfum meirihluta.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.