Út að borða á Úlfarsfelli

Á ÚlfarsfelliVið feðginin skelltum okkur í hjóla- og fjallgöngutúr með heimilishundinum um kvöldmatarleytið í gær. Veðrið var svo frábært og sól hátt á lofti um það leyti sem sexfréttir hófust í útvarpinu að hjólatúr var mun meira spennandi en þrír fréttatímar í röð um sama efni. Við smurðum samlokur, settum núðlusúpu og heitt vatn í bakpoka og hjóluðum út í sumarkvöldið.

Það eru góðar hjólaleiðir í Grafarvoginum og göngubrú undir Vesturlandsveginn en hins vegar er vandfundin góð hjólaleið í frá Vesturlandsveginum að Úlfarsfellinu. Við þræddum því ótal krákustíga í gegnum hið hálfbyggða íbúðarhverfi í Úlfarsárdalnum en komumst þó klakklaust í gegn.

Ganga á Úlfarsfell er alveg mátuleg síðdegisganga fyrir fjölskylduna og eftir tæplega hálftímalabb á toppinn fundum við okkur skjólsæla laut með útsýni yfir borgina, opnuðum bakpokann og tókum til matar okkar. Þótt matseðillinn væri kannski ekki jafn fjölbreyttur og á bestu veitingastöðum borgarinnar fullyrði ég að útsýnið var betra en á nokkrum þeirra.

Á heimleiðinni nutum við þess að hafa séð yfir nýbyggingahverfið og fundum greiðari leið heim. Kolfinna, sem er mikill meistari samræðulistarinnar, sagði fréttir af vettvangi Faxabóls og Foldaskóla sem jöfnuðust fyllilega á við þrjá fréttatíma. Síðasta spölinn styttum við okkur leið í gegnum Keldur, spjölluðum aðeins við hestana og hlustuðum á sigurhróp Fjölnis sem steinsnar frá var að vinna nágranna okkar í Árbænum í fótbolta.

Býsna vel heppnuð ferð út að borða!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Virkilega til fyrirmyndar: hjóla, fjallganga og pikknikk úti í guðsgrænni.

Því miður eru ekki allir á sama róli: uppi á Úlfarsfelli er skelfilegt að sjá hversu jeppamenn hafa gengið um: víða eru margfaldir ökuslóðar út um allar koppagrundir og furðulegt að ekki stærra og hærra fjall hafi verið útbíað af jafnmörgum umhverfissóðum.

Nú legg eg eindregið til að umhverfisnefndir Mosfellsbæjar og Reykjavíkur leggist á eitt og efni til sameiginlegrar samkeppni meðal landslagsarkitekta um framtíðarskipulag Úlfarsfellsins. Allt sunnanvert fellið og aðalslóðinn upp er innan lögsaganr Reykjavíkur en norður- og vesturhlutinn er undir lögsögu Mosfellsbæjar. Gamall draumur minn er að skipuleggja marga skemmtilega göngustíga í eðlilegu framhaldi við göngustígana í Hamrahlíðarskógi vestast í Úlfarsfellinu og Skógræktarfélag Mosfellsbæjar hefur haft veg og vanfda af í meira en hálfa öld. Sá má birkifræi og planta öðrum trjám eins og reyni, furu, greni og lerki allt upp í 250 metra hæð. Þetta gæti orðið stórfenglegt og kannski að þarna verði sett upp veitingastaður á borð við Nauthól?

Bestu kveðjur

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 12.6.2008 kl. 20:02

2 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Þetta var frábært hjá ykkur! Þessi ferð verður örugglega minnisstæð dóttur þinni um aldur og æfi. Það er svona ferðir, svona samvera sem gefa börnum mest sem þau muna alla tíð. Börn þurfa ekki fullt af peningum, flottasta dótið (sem gleymist mjög fljótt) heldur innihaldsríka samveru. Þú færð 11 af 10  mögulegum fyrir þetta framtak! Þetta mættu fleiri taka sér til fyrirmyndar!

Sigurlaug B. Gröndal, 12.6.2008 kl. 21:30

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

11 af 10 mögulegum er mjög sanngjarnt hjá Sigurlaugu. Sammála. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 12.6.2008 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband