New (green) Deal

Í fréttum Rúv í gær vakti þetta athygli mína:

Breskur sérfræðihópur sem kallast Nýr efnhagsgrundvöllur  segir í dag að  heimurinn þurfi leiðtoga með nýja stefnu í efnahags og  í umhverfismálum til þess að  takast á við  fjármálakreppu, loftslagsbreytingar og hækkandi matar og olíuverð. Í nýrri skýrslu sérfæðihópsins  um þessa nýju stefnu segir að hún eigi að vera nútíma "New Deal" stefna í anda þeirrar sem Franklin Roosevelt Bandaríkjaforseti beitti til að ná Bandaríkjunum upp úr heimskreppunni miklu.

Skýrslan sem umræddur hópur sendi frá sér er áhugaverð lesning. Sífellt fleiri hagfræðingar gera sér ljóst að efnahagskerfi heimsins sem byggir á rányrkju auðlinda þar sem kostnaði s.s. mengun er velt yfir á komandi kynslóðir er komið í öngstræti. Hér má finna svipaða skýrslu Þjóðverja um sama efni.

Það þarf að gefa upp á nýtt, taka stefnuna á grænt hagkerfi og gefa meirihluta mannkynsins sem ekki hefur notið gæðanna af rányrkju auðlindanna tækifæri til að bæta lífsskilyrði sín. Til þess þarf nýja tækni og nýja hugsun. Ég mæli með bókinni Capitalism at the Crossroads eftir Stuart L Hart um þetta efni.

Breska stjórnin hefur sett fram áhugaverð sjónarmið í þá átt að nú sé rétti tíminn til að fjárfesta myndarlega í nýjum umhverfisvænum lausnum, einkum á sviði orkumála, sem skapað geta þúsundir grænna (e. green collar)starfa.

Þar sem sumir sjá ekkert nema svartnætti sjá aðrir tækifæri.

Ýmsir munu segja að framlag okkar Íslendinga til hinnar grænu heimsbyltingar sé að virkja hverja sprænu og hvern hver til að bjarga heiminum frá kolaknúnum álverum. Það er afbökun. Við munum engu bjarga með því. Það má þvert á móti færa fyrir því ágæt rök að með því að taka ekki hærra gjald fyrir vistvæna orku og losunarheimildir höfum við tafið nauðsynlega þróun í átt til umhverfisvænni tækni.

Við höfum hins vegar tækifæri til að skapa hér sjálfbært orkusamfélag og vera í fararbroddi þjóða sem vilja nýta orku sína með ábyrgum hætti. Við gætum verið fyrirmynd annarra þjóða og ættum að bjóða þeim þjóðum sem vilja taka stefnuna á nýtt, grænt hagkerfi samstarf um rannsóknir og þróun nýrra lausna á sviði sjálfbærrar þróunar.

Til þess þarf nýja hugsun, framsýni og kjark.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo innilega sammála!

Daníel (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 13:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband