11.8.2008 | 21:01
Fundasókn kvenna á Húsavík?
Á þeim fundi sem ég sat síðast um heitustu (m)álefni líðandi stundar á Húsavík voru um 60 karlar og nákvæmlega 6 konur. Þeim hafði þá fjölgað um 100% frá síðasta fundi en þá hafði Ingibjörg Sólrún haft á því sérstakt orð hvað konur á Húsavík væru afskiptalitlar um stjórnmál.
Ég á ekki von á að á þessu verði mikil breyting. Í samfélögum þar sem miðaldra karlar hafa tekið sig saman um að bjarga framtíð byggðarlagsins með einni risaðgerð, hvort sem hún gengur út á álver eða olíuhreinsunarstöð, missa konurnar áhugann á að taka þátt í umræðunni.
Þegar nógu margir sjálfskipaðir leiðtogar í héraðinu eru búnir að vitna á opinberum fundum um að þessi leið sé sú eina rétta og að ekkert geti komið í veg fyrir árangur nema samstöðuleysi heimamanna vilja fáir hefja upp gagnrýnisraddir. Finnst betra að sitja bara heima.
Þetta er auðvitað bæði óheppilegt fyrir umræðuna og samfélagið. Það þyrfti t.d. að ræða opinskátt hvað á að gera ef ekki fæst næg jarðvarmaorka fyrir 346 þúsund tonna álver eins og Alcoa stefnir að. Mun þurfa að virkja Skjálfandafljót? Jökulsá á fjöllum? Árnar í Skagafirði? Er kannski bara best að sleppa því að svara þessu? Reisa 250 þúsund tonna álver og sjá svo bara til?
Eða vilja menn (og konur?) kannski bjóða öðrum iðnaði (sem býður í röðum eftir að kaupa græna íslenska orku) að nýta þá jarðvarmaorku sem til er í fjórðungnum? Gæti það skapað fleiri störf? Jafnari vöxt atvinnu og umsvifa á svæðinu? Fjölbreyttari atvinnutækifæri? Meiri virðisauka?
Það gengi kraftaverki næst ef góð, málefnaleg umræða næðist um þessi atriði á fundinum. Hvað þá að rætt yrði um raunverulegar ástæður fólksfækkunar á landsbyggðinni, um menntamál, atvinnumál kvenna, þjónustu og menningu.
Ég spái því að það mæti um 80 vígreifir karlar og 10 hljóðlátar konur, fundurinn gangi út á
- að þjarma að umhverfisráðherra fyrir að vilja vönduð vinnubrögð við mat á umhverfisáhrifum,
- að reyna að kreista loforð upp úr samgönguráðherra um að álverið verði reist og
- yfirlýsingu hans um að ákvörðum umhverfisráðherra muni ekki fresta aðgerðum um einn einasta dag.
Fastir liðir eins og venjulega.
Þórunn boðar til fundar á Húsavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:01 | Facebook
Athugasemdir
Það er greinilegt að mikil pressa er á Umhverfisdrottningunni með að gera grein fyrir málflutningi sínum meðal Þingeyinga.
Viturlegra hefði verið þó að ræða við þá fyrst, ekki er talið heppilegt að skjóta fyrst og miða svo eins og dæmin sanna.
Þú talar hér um kraftaverk hér að ofan, hefur þú ekki trú á Umhverfisdrottningin geti haldið uppi málefnalegri umræðu ?.....
Ágúst Jónatansson (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 21:22
Það er vasklega gert af Þórunni að boða til þessa fundar.
Ég veit ekkert um almenna fundarsókn kvenna á Húsavík, en ég minnist kyndugra frétta af einhverskonar sjálfsprottnum leikhópi kvenna þar sem setti á svið vinnu í álveri fyrir nokkru. Það mun hafa verið í stuðningsskyni við álversbyggingu á Bakka. Má vera að þær hafi verið miðaldra, ekki veit ég það, en þær langaði að vinna í álveri. Kannski mætir þetta leikfélag á fund Þórunnar, kannski það.
Kristján Sveinsson (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 21:57
Um fundarsóknin má segja að hún hafi kannski með það að gera hver boðar til fundarins? Hafa konur áhuga á fundi sem Samflykingin boðar til? Sú ákvörðun umhverfisráðherra hefur ekkert að gera með vönduð vinnubrögð en hver segir að heildstætt umhverfismat gefi betri/gleggri/skýrari/heildstæðari mynd en að hver og ein aðgerð fari í umhverfismat? Það er eðlilegt að þjarma að ráðherranum með það hvers vegna Helguvík fór ekki eða mun ekki fara í heildstætt umhverfismat sé það bjargföst skoðun ráðherrans að sú leið sé betri. Hér er um pólitíska hagsmuni Þórunnar Sveinbjarnardóttur að ræða en hún metur þá æðri sínunm eigin, það er ljóst.
Um ummæli Dofra má draga þá ályktun að menntamál séu í ólestri, að menningin sé ekki merkileg og þjónustan léleg. Vissulega er þjónustan utan höfuðborgarsvæðisins ekki sú sama og á höfuðborgarsvæðinu. Það hélt maður að varaborgarfulltrúi vissi? Um atvinnusköðun kvenna er ég sammála en karla er í meirihluta í flestum sveitarfélögunum á svæðinu.
kveðja
Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 22:47
Ákvæði í lögum hér á Íslandi um heildstætt umhverfimat eru komin til okkar um ESB - Alvöru siðmenntaðarþjóðir hafa lögleitt svona umgengni fyrir löngu síðan. Við erum nú ekki komin lengra en þetta. Og sumir skilja hvorki upp né niður í svona ráðslagi- eins og sést hér á athugasemdum.. Hér eftir verður þessum lögum beitt af meiri alvöru en áður var...
Sævar Helgason, 11.8.2008 kl. 23:49
Konur á Húsavík hafa sterkar skoðanir og ég veit ekki hvort það er mikill kynjamunur þegar kemur að álveri. Hinsvegar er ég sammála þér, það mæta jafnan fáar konur á fundi á Húsavík. Ég held að það hafi svosem ekkert sérstakt með Samfylkinguna að gera.
Það er ekki hægt að segja að Húsvíkingar hafi ekki reynt að leita eftir öðru til að skapa atvinnu í bænum. Ég man vart eftir heimsókn þangað öðruvísi en menn hafi verið í viðræðum, að leita leiða og hef ég oft dáðst að hugmyndafluginu. Jafnvel datt mönnum þar í hug að rækta krókódíla. Margt má um Húsvíkinga segja en aldrei að þeir hafi ekki reynt annað. Þar er blómlegur iðnaður við hvalaskoðun, Hvalasetrið er metnaðarfullt og skemmtilegt, svo má ekki gleyma Reðursafninu sem er vandað safn. Margt fleira mætti telja. En þetta dugar ekki.
Hinsvegar er lykilatriði að stjórnvöld fari að koma með þolinmótt fé í fleiri atvinnugreinar en orkufrekan iðnað á við álver. Kostnaður við orkuöflun er gríðarlegur sem greiðist til baka á löngum tíma. Krafa um endurgreiðslu á fjárfestingum í öðrum greinum hefur hinsvegar verið býsna mikið kröfuharðari. Því hafa atvinnugreinar lognast útaf þar sem þeim var ekki gefinn nægur tími til að dafna og skila hagnaði. Ef til dæmis ætti að ætlast til af álverinu á Reyðarfirði að það væri búið að skapa hagnað af fjárfestingunni í virkjun við Kárahnjúka á þremur til fimm árum þá er ég ekki viss um að menn væru jafn borubrattir.
Fjárfestingar ríkisins í atvinnugreinum á landsbyggðinni mættu vera öflugri og fjölbreyttari heldur en eru. Þrátt fyrir ýmiskonar sjóði þá þarf meira í alvöru uppbyggingu og sorglegt að það eina sem virðist þola fjárútlát í undirbúningi sé áliðnaður.
Því finnst mér alltaf jafn fáránlegt að reyna að leiðsegja landsbyggðarmönnum með dálitlu yfirlæti að þeir ættu að "fá sér eitthvað annað". Þegar á reynir þá er fátt hægt að telja upp sem menn eru til í að styðja við á landsbyggðinni og ótrúlega margar opinberar stofnanir og fyrirtæki eru miklir fimleikamenn í að sannfæra sig um að hlutum sé betur fyrirkomið á höfuðborgarsvæðinu. Það má svo auðveldlega koma í veg fyrir þá erfiðu stöðu í atvinnu á landsbyggðinni ef menn tækju þau mál föstum tökum og styddu við að koma þangað verkum t.d. á vegum ríkisins með öflugri hætti.
Því treysti ég því Dofri að þú munir með ráðum og dáð í öllum þínum nefndum og kunningjahópum reka öflugan áróður fyrir því að leita allra leiða til að koma störfum fyrir á landsbyggðinni. Það er eina vitlega leiðin ef menn vilja annars konar atvinnu þar. Þú segir: raunverulegar ástæður fólksfækkunar á landsbyggðinni, um menntamál, atvinnumál kvenna, þjónustu og menningu.
Hverjar eru hinar raunverulegu ástæður? Hvað varðar menntamál á Húsavík þá er þar framhaldsskóli og aðgengi að háskóla á Akureyri verður betra með Vaðlaheiðargöngum. Hvað viltu gera í menntamálum á Húsavík? Menningin er geysiöflug á Húsavík, hvað viltu gera meira í henni en þar er nú þegar? Þar hafa menn verið að byggja upp öfluga þjónustu í ferðamannaiðnaði og fengið miklu áorkað. Hvernig viltu efla það? Það er svo auðvelt að "redda" landsbyggðinni í í ræðu og riti en erfiðara þegar raunveruleikinn blasir við.
Lára Stefánsdóttir, 12.8.2008 kl. 00:22
Ég vil þakka Láru fyrir afar góð lokaorð í sínu innleggi.
Kveðja
Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 12.8.2008 kl. 01:07
Ég vil líka þakka Láru fyrir hennar ágæta innlegg. Það er einmitt gott dæmi um það sem vantar í umræðuna þegar hún fer að snúast um eitt og aðeins eitt allsherjar bjargræði í stað þess að snúast um fjölbreyttar þarfir og lausnir. Lára hefur næmt auga bæði fyrir náttúru og samfélagi, veit að fjölbreytnin er lykilatriði í uppbyggingu nútíma samfélags, auk þess sem hún hefur sjálf mikla reynslu af atvinnurekstri.
Ég er henni hjartanlega sammála um að of lítið hefur verið sett af þolinmóðu fé í hugmyndir að fjölbreyttum smáiðnaði og þjónustufyrirtækjum. Reyndar hefur það aukist í tíð núverandi ríkisstjórnar, þannig voru t.d. 160 milljónir af mótvægispeningunum og 100 milljónir til viðbótar af fé Byggðaáætlunar settar í verkefni á sviði ferðaþjónustu. Í fyrra haust voru 75 milljónir settar í sérstakt átak til atvinnusköpunar í samvinnu við atvinnuþróunarfélögin. Í sumar voru tæplega 150 milljónir settar í að "rannsaka og kynna innlenda orkugjafa og hagkvæma orkunotknun" og 180 milljónir settar í samning við Nýsköpunarmiðstöð Íslands um eflingu ferðaþjónustu og sérstök staðbundin verkefni.
Þá hefur verið hægt að sækja um fé (alls um 1,7 milljarð á síðasta ári) til rannsókna í Norðurslóðaáætlun en það hafa m.a. íslenskir aðilar í dreifbýli gert með ágætum árangri. Fé í tækniþróunarsjóð hefur verið aukið og það er stefnt að því að tvöfalda hann á kjörtímabilinu.
Það er við hæfi að enda þessa upptalningu á stofnun Frumtaks, 4,6 milljarða áhættusjóðs til að bæta vaxtarskilyrði nýsköpunar- og sprotafyrirtækja. Auðvitað má bæta umhverfið enn frekar, t.d. þyrfti að veita meira fjármagni í inniviði ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustan hefur þann kost að í henni er hægt að stofna lítið fyrirtæki án þess að leggja fram tugi milljóna til kaupa á kvóta í mjólk eða fiski áður en rekstur hefst. Það er hægt að byrja smátt og byggja svo stórveldi eins og Húsvíkingar þekkja best á hvalaskoðuninni.
Lára og aðrir geta treyst því að ég mun halda áfram að tala fyrir auknum stuðningi við nýsköpun og sprotafyrirtæki af öllum stærðum og gerðum um allt land. Lára spyr sérstaklega um hinar raunverulegu ástæður fólksfækkunar á landsbyggðinni. Auðvitað eru þær margar og mismunandi eftir stöðum. Það sem flestir eru þó sammála um sem rannsakað hafa þetta alþjóðlega fyrirbæri (fækkun á landsbyggð og fjölgun í borgum) er að ungt fólk - einkum konur - sækja í fjölbreytt tækifæri til mennta og atvinnu í borgunum. Karlarnir koma svo í humátt á eftir, þrátt fyrir góða vinnu í verksmiðjunni, á býlinu, togaranum og þar sem ungt fólk sest ekki að fækkar fólki.
Það sem hefur reynst best til að sporna við þessari þróun er að bæta aðgang að fjölbreyttari atvinnu- og menntatækifærum, ekki síst með bættum samgöngum og fjarskiptum sem auk þess að fjölga tækifærum íbúanna bætir einnig rekstrarumhverfi fyrirtækjanna á staðnum. Það er líka mikilvægt að halda uppi góðri þjónustu við barnafólk, leggja áherslu á góða skóla og velferðarþjónustu. Menning skiptir líka miklu máli.
Ég vona að Lára hafi ekki skilið það sem svo að ég teldi menntamálum ábótavant á Húsavík því það er öðru nær. Hins vegar væri gott að ræða menntamál, menningarmál og önnur samfélagsmálefni á opnum fundum ekki síður en alsherjarreddingu framtíðarinnar - álver á Bakka. Ekki af því að t.d. menntamál séu í ólestri heldur af því að kannski felast ýmis tækifæri einmitt í ágætri stöðu svæðisins sem býr svo vel að eiga tvo góða framhaldsskóla.
Ég treysti því að Lára mæti á fundinn og tryggi að umræðan snúist um þessi mál ekki síður en álið.
Dofri Hermannsson, 12.8.2008 kl. 10:12
Af hverju ættu konur sérstaklega á Húsavík að fara að tjá sig um það sem þær eru hjartanlega sammála um, sem er nægjanleg vinna fyrir karlana þeirra og þær sjálfar þegar kemur að því að reist verður hressilegt álver á Bakka. Ættu þær kannski að skjóta sig í löppina? eða slátra gullgæsinni. Nei konurnar hér um slóðir eru engir kjánar.
365, 12.8.2008 kl. 11:13
Það er aldeilis stórkostleg hraðlest til forneskjunnar sem nú geisar um byggðir landsins. Nú er svo komið að það eina sem kveikt getur vonarglampa í augum fólks er álversumræða. Þetta er blátt áfram eina lausnin sem jafnt stjórnvöld sem óbreyttir borgarar koma auga á í dag. Stundum þarf ég að klípa mig í handlegginn til að sannfæra mig um að þetta sé raunveruleikinn.
Og ekki nóg með það.
Það er talað um að þetta sé leiðin inn í framtíðina!
Það var mikill happadagur fyrir erlendu álrisana þegar þeir fundu landið sem var með ódýrustu og hreinustu orkuna fyrir iðnað sem meira að segja Brasilíubúar voru búnir að hafna, Og þessi rismikla menningarþjóð sem ritaði Njálu og Heimskringlu og fæddi af sér Nóbelsskáld og landkönnuði á heimsmælikvarða hún skelfur í dag. Hún skelfur af ótta um að hún tapi samningsstöðu sinni við þessa nýju Íslandsvini vegna tafa á undirbúningsframkvæmdum!!!!
Hún Sólveig Pétursdóttir sagðist sjá tækifæri fyrir Íslendinga í dökkri ófriðarbliku yfir fjarlægu landi.
Ég heyri raddir í fjarska kyrja kunnuglegan söng:
"En á hverju eigum við þá að lifa Árni Gunnarsson?
Árni Gunnarsson, 12.8.2008 kl. 22:03
Þarna fór nú spádómurinn um fundarsókn fyrir lítið á Húsavík. Þú greinilega Dofri þekkir ekki fólkið fyrir norðan. Ráðherrann fór frá Húsavík skömmustulegur, rúin traust. Þarna þarf að vinna verk ef ekki á að fara illa fyrir Samfó þegar líður að kosningum.
365, 13.8.2008 kl. 09:53
Já frúin fór skömmustuleg frá Húsavík í gærkvöld og Möllerinn líka. Þýðir lítið fyrir þau að koma vælandi um atkvæði fyrir næstu kosningar. Húsavíkingar eru fyrst og fremst reiðir út í Þórunni því hún brýtur jafnræðisregluna herfilega með ólíku vinnulagi við Helguvík annars vegar og Bakka hins vegar. Hún blaðraði eitthvað um það að hún væri eingöngu að fara eftir lögum í landinu en ég minni þá á að Geir Haarde sagði daginn eftir úrskurð frúarinnar um heildstæða umhverfismatið að hann væri þeirrar skoðunar að það væri óþarft og þannig töluðu fleiri Sjálfstæðismenn. Spurningin er því sú hvort Geir er að mæla með lögbroum í þessu efni. Auðvitað ekki, þetta er bara allt sjónarspil og Sjálfstæðisflokkurinn stendur á bak við þetta því kjördæmapólitíkin grasserar sem aldrei fyrr og íhaldið getur náttúrulega ekkert annað en stutt duglega við bakið á hreinum meirihluta sínum í Keflavík. Samfylkingin hefur undanfarið talað þannig að Bakki eigi að vera nr. 1 en skv. þessari niðurstöðu með matið að þá er ekkert að marka Samfylkinguni í einu eða neinu. Ömurlegur populistaflokkur.
ÞJ (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 12:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.