24.9.2008 | 16:41
Skondið
Það er skondið að fylgjast með þeim viðbrögðum sem þessi gamla hugmynd fær núna allt í einu.
Eins og kom fram í auðlindafrumvarpi iðnaðarráðherra er ekki lagst gegn því að afnotaréttur auðlindar sé leigður út svo fremi sem jafnræðis sé gætt gagnvart þeim sem bjóða í nýtingarréttinn. Þetta er í raun nákvæmlega sama grunnhugsun og Samfylkingin hefur sett fram varðandi sjávarútvegsauðlindina. Að hún ætti að vera í eigu þjóðarinnar en að það væri hægt að leigja nýtingarréttinn til einhvers tiltekins árafjölda ef mönnum sýndist svo.
Þessi hugmynd var mikið rædd þegar Kárahnjúkavirkjun var á teikniborðinu og þá var hugmyndin að virkjunin skyldi fjármögnuð og rekin sem sjálfstæð eining. Það reyndist hins vegar ógerlegt - enginn einkaaðili vildi fjárfesta í fyrirtækinu svo að á endanum var veð tekið í öllum öðrum virkjunum og eigum Landsvirkjunar og ríkisábyrgð fengin fyrir láninu að auki.
Mér er stórlega til efs að það sé yfir höfuð hægt að bjóða rekstur Kárahnjúkavirkjunar hæstbjóðanda af því það hlýtur að vera búið að semja til a.m.k. næstu 20-30 ára við Alcoa.
Ef þetta hins vegar yrði gert myndi væntanlega koma í ljós hvers mikils virði markaðurinn telur slíkar virkjanir vera og eins mætti búast við því að sá aðili sem myndi leigja reksturinn á virkjuninni myndi vilja segja upp álverunum og selja þess í stað orkuna til annarra fyrirtækja - nú eða bara til Færeyja! Álver gætu því ekki treyst á hagstæð kjör á rafmagni til frambúðar.
Það er ástæða til að velta ýmsu vandlega fyrir sér áður en lengra er haldið. T.d. hvort okkur þykir náttúru- og umhverfisvernd standa nægilega traustum fótum gagnvart virkjunaraðilum þegar farið verður að þrýsta á um nýjar virkjanir? Verður búið að lögfesta niðurstöðu Rammáætlunar um verndun og aðra nýtingu náttúrusvæða? Verður búið að lögfesta Landsskipulag? Verður búið að ganga frá friðlýsingu verðmætra svæða með lögum?
Eins og staðan er núna eru engin handföng eða bremsur á framkvæmdir svo framarlega sem viðkomandi sveitarfélag, landeigandi og orkufyrirtæki ná samkomulagi. Álit Skipulagsstofnunar sem ekki er bindandi er m.a.s. harðlega gagnrýnt af hagsmunasamtökum atvinnulífsins en þar á bæ rjúka formenn í fjölmiðla með tár á kinn rétt eins og hefð er fyrir að grátkonur LÍÚ geri þegar þeim er bannað að veiða síðasta þorskinn.
Eins og oft áður hefur Helga tekist að velta upp ótal spurningum sem þarft er að spyrja. Ég vara þó eindregið við þeim tóni sem mér finnst Helgi slá full glannalega að nú sé bjargráðið í "kreppunni" að rjúka til og bjóða upp nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar til næstu áratuga.
Ein þeirra spurninga sem þarf að svara áður en samningar eru gerðir til langs tíma um nýtingu virkjana í almannaeigu er hvað á að gera ef tíminn leiðir í ljós óæskileg áhrif virkjunarinnar sem stjórnvöld ættu með réttu að bregðast við en geta átt erfitt með af því samningar gera ekki ráð fyrir slíkum breytingum.
Mæli með Upstream Battle á kvikmyndahátíð Reykjavíkur, RIFF.
Sóknarfæri að selja virkjanir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:30 | Facebook
Athugasemdir
það er áhugavert hvers vegna Helgi hefur ekki kannað þetta sem þú nefndir að samningar við álverin hjóta að vera til margra áratuga. það er samt alveg frumforsenda fyrir þessum pælingum hans. En sennilega er það ekki hagkvæmast að nota orkuna til iðju hérna. Evrópu hungrar í orku og það voru uppi hugmyndir um að leggja streng til Skotlands og tappa hér af orkuna. Þannig verður akkúrat ekkert eftir og engin vinnsla á Íslandi. Ísland verðu bara krani sem skrúfað verður.
Ég bloggaði um þetta Að losa peninga - Raufarhafnarstemming hjá Helga Hjörvar
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 25.9.2008 kl. 02:29
Sammála þér, Dofri, það þarf að ræða þessi mál og reyna að gera það með rökum og á vitrænan hátt, ekki með upphrópunarstíl og frasasmíði Vg (og þessara þriggja eða fjögurra framsóknarmanna, sem enn tóra). Einnig þarf að bollaleggja um hvernig reglur EU virka um samkeppnisrekstur á þessu sviði, er þá hyggilegt að Landsvirkjun verði komin með nýtingu á öllum, hagkvæmum virkjunarkostum þegar þarf að selja hana, sem Íslenska ríkið verður að gera þegar við göngum í sambandið? Hvernig verður þá með yfirtöku þeirra sem kaupa á lánum, sem á henni hvíla og ríkisábyrgðina? Kannski er hægt að koma þessu fyrir í því kerfi eins og Helgi stingur upp á, þ.e. að ríkið eigi Landsvirkjun áfram en leigi út starfsemina til lengri tíma? Landsnetið er svo einn vinkill á þessu, skv. reglum EU verður að vera samkeppni í dreifingunni líka, spurning hvernig það verður leyst, því það er ekki mjög líklegt að öðru dreifineti verði komið upp, það er nógu erfitt að reka þetta eina skilst mér. Spurningarnar eru vafalaust fleiri, en þetta þarf að ræða með sama hætti og þið Helgi báðir hafið gert og er það vel.
ellismellur (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 09:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.