Rangt hjá Margréti Pálu

Eins og Oddný Sturludóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, bendir á er það alrangt að Laufásborg fái lægra framlag frá borginni en borgarreknu leikskólarnir. Það er í raun óskiljanlegt að framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar ehf skuli ekki vita betur því ekki vil ég ætla henni að hagræða sannleikanum.

Ég þekki og þykir vænt um Laufásborg frá því dóttir mín var þar á leikskóla fyrir um 6 árum. Laufásborg starfaði þá eins og nú í anda Hjallastefnunnar sem er mjög áhugaverð fyrir margra hluta sakir. Leikskólinn var í eigu og umsjá borgarinnar en hafði fullt frelsi til að þróa sig áfram samkvæmt þessari hugmyndafræði og án þess að lasta aðra leikskóla má fullyrða að Laufásborg hafi verið í hópi bestu leikskóla borgarinnar.

Ég hef þess vegna aldrei skilið af hverju það var svona nauðsynlegt að borgin gæfi Hjallastefnunni ehf Laufásborg. Þegar við bættist að Hjallastefnunni var heimilað að rukka 15% hærri gjöld en öðrum leikskólum tók steininn úr og Samfylkingin greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Reyndar var látið í veðri vaka að það myndi aldrei reyna á þetta heimildarákvæði - einmitt af því leikskólinn fær jafn mikið og borgarreknir leikskólar. Annað hefur núna komið á daginn.

En af hverju var einn af bestu leikskólum borgarinnar færður Hjallastefnunni ehf að gjöf?
Var það fyrir börnin? Varla því skólinn starfaði eftir stefnunni áður og engin breyting hefur orðið á því.
Var það fyrir foreldrana? Varla því ekki er það þeim í hag að þurfa að borga 15% meira fyrir sömu þjónustu.
Var það fyrir Hjallastefnuna ehf?


mbl.is Laufásborg hækkar skólagjöld um 15%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband