Tvískinnungur yfirvalda

Lög og reglur um heimaslátrun eru líklega einhver þau bjánalegustu af mörgum en þegar kemur að heimaunnum matvælum erum við kaþólskari en sjálfur páfinn. Af hverju í ósköpunum mega bændur ekki slátra heima hjá sér og selja sína afurðir beint til neytenda?

Ég þekki vel til heimaslátrunar og segi eins og mágkona mín af Jökuldalnum að ég vil helst ekki borða lömb sem ég þekki ekki. Með öðrum orðum, ég vil vita hvaðan kjötið kemur og á hvernig landi féð hefur gengið. Það er tvennt ólíkt að borða lamb sem gengur um lyngi vaxið land eða lömb sem eru alin á káli í hálfan mánuð fyrir slátrun til að auka þyngd sína. Ég vil líka frekar að slátrunin sé unnin heima á býlinu af einum aðila sem ég treysti fyllilega til að gæta að öllu hreinlæti frekar en að lambið sé dregið inn í blóðlyktina og svo komi tuttugu mismunandi aðilar að verkinu.

Tvískinnungurinn gagnvart viðskiptum með heimaunnið lambakjöt er algjör. Fólk er elt uppi eins og glæpamenn með fyrsta flokks matvæli og þau gerð upptæk ef um heimaunnið lambakjöt er að ræða. Ef maður hins vegar fer og skýtur hreindýr upp á heiðum, þess vegna í gegnum belginn, gerir að því við frumstæðar aðstæður og dregur svo skrokkinn fleiri kílómetra á eftir sér þá er fullkomlega löglegt að selja hræið sem fyrsta flokks gúrme kjöt í verslanir!

Tvískinningurinn er líka af hálfu löggjafans. Þegar ég í fyrra stóð í röðinni í mötuneyti alþingis til að bragða á prýðisgóðu hangiketi sem þar var í matinn um jólin í fyrra heyrði ég á tal tveggja þingmanna fyrir framan mig í röðinni. Þeir voru auðvitað að spyrja hvor annan hvaðan þeir keyptu heimaslátraða og heimareykta jólahangikjötið sitt!

Væri ekki nær að koma einhverri vottun á heimaslátrun frekar en að elta menn uppi með lambakjöt eins og um dópsmyglara væri að ræða?


mbl.is Með kjöt af heimaslátruðu í bílnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Ég hefði haldið að stjórnvöld hefðu að nógu öðru að huga þessa dagana en að vera að eltast við fólk sem reynir að sýna smá sjálfsbjargarviðleitni.

Það fáránlegasta í þessu öllu er að matvælunum skildi svo vera eytt. Þetta er gott dæmi á hvaða leið stofnanavæðing á Íslandi stefnir og hvar áherslurnar liggja!

Mikið hefði nú verið annars gott að eftirlitið á öðrum stöðum hefði verið í lagi það sem raunverulega þurfti á því að halda.

Í dag er búið að búa til fullt af gervieftirliti sem virðist hafa þá einu þörf að angra venjulegt vinnandi fólk.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 21.10.2008 kl. 13:35

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Sammála þér Dofri - ég veit að Össur ferðamálaráðherra er líka sammála þessu - en ég veit ekki með Einar landbúnaðarráðherra eða ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis - en nú væri kannski lag að athuga hvort ekki er hægt að einfalda þetta eitthvað í góðri sátt við hagsmunaaðilana dýralækna og afurðastöðvar.

Anna Karlsdóttir, 21.10.2008 kl. 16:43

3 Smámynd: Sigurður Baldursson

Algerlega sammála

Vitleysan er orðin svo mikil að t.d. ég sem er mjólkurframleiðandi ég má drekka mína eigin  mjólk ógerilsneydda og fína,  en ég má ekki gefa gestum mjólkina  út í kaffið, þá er hægt að kæra mig til matvælastofnunar ef það kemst upp.  Samt er seldur broddur í Kolaportinu ógerilsneyddur án athugunarsemda. !!!

En ég sem bóndi má slátra og borða mínar afurðir hvort sem það er kjöt eða mjólk en ég má ekki einu sinni gefa þær vegna þess að það getur verið stórhættulegt fyrir almúgann að neyta þeirra. Annaðhvort erum við bændur með miklu sterkari maga sem þolir allan skítinn hjá okkur eða Matvælastofnun er hjartanlega sama hvort við drepumst eða ekki

Það er ótrúlegt hvað hægt er að gera okkur að miklum krimmum. 

Sigurður Baldursson, 21.10.2008 kl. 17:00

4 Smámynd: Þórir Kjartansson

Hvenær hefur einhver veikst af því að borða kjöt af  heimaslátruðu?  Efast um að það sé hægt að benda á eitt einasta dæmi í Íslandssögunni.  Hins vegar má selja hænsnakjöt, sem alltaf er hætta á að hafi einhvern óþverra í sér. Þar eru skilaboðin frá heilbrigðisyfirvöldum einfaldlega - ,,Bara elda það nóg og vel".  Þeir lögreglustjórar sem láta sína menn sóa vinnutímanum í þetta ættu að hugsa sig um hvort þeir gætu ekki gert eitthvað þarfara við tímann.  Eða eins og Davíð sagði: ,,Svona gera menn ekki"

Þórir Kjartansson, 21.10.2008 kl. 17:34

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

það er verið að vernda sláturleyfishafa í boði framsóknar síðan um miðja 20 öldina... 

eins gott að það sé ekki fylgst með mér á næstu vikum... ég er með hnífinn og stálið í bílnum vegna þess að það er kallað í mann í úrbeiningar á heimaslátruðu hvenær sem er þessa dagana...

Ég gæti misst kjötiðnaðarleifið... spáið í delluna  

Óskar Þorkelsson, 21.10.2008 kl. 18:17

6 Smámynd: Gunnar Þór Gunnarsson

300 kg., þessi kílóafjöldi er nú hlægilega lítill. Segjum að bóndinn hafi verið að keyra kjöt í bæinn til ættingja og vina sem hjálpað hafa í göngum og réttum, þá er þetta náttúrulega ekki neitt magn.

Auðvitað verða allir að fara eftir reglum. Ef reglurnar eru rangar eða óréttlátar þarf að breyta þeim og við höfum ákveðnar leiðir til þess. Notum þær! Höfum áhrif á löggjafann.

Meira af heimaslátruðu væri bara gott fyrir ferðamennsku í landinu, bændur gætu boðið upp á eigið kjöt og aðrar heimaunnar vörur um leið og farin er skoðunarferð um bóndabýlið eins og tíðkast víða í Evrópu. En þetta þarf auðvitað að fara rétta leið.

Gunnar Þór Gunnarsson, 22.10.2008 kl. 15:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband