Flýtiupptaka evru

Því miður er ekki hægt að segja að engar fréttir séu góðar fréttir þegar kemur að IMF. Það er því skiljanlegt að margir velti fyrir sér öðrum lausnum. Það er talað um upptöku evru en menn nálgast það á afar ólíkan hátt. Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður, virðist mér vera að gera hugmyndina um einhliða upptöku evru að einhvers konar hvalveiðimáli. Svona við-getum-gert-það-sem-okkur-sýnist-máli.

Mér finnst hugmyndir Ársæls Valfells og Hreiðars Más um upptöku evru allrar athygli verðar. Það er staðreynd að tæknilega getum við tekið upp hvaða gjaldmiðil sem er, þess vegna sígarettur. Marlboro er t.d. algengur gjaldmiðill í fangelsum víða um heim - önnur hugmynd fyrir þingmanninn sem einmitt hefur beitt sér mjög fyrir réttindum reykingarmanna. Í raunveruleikanum gengur einhliða upptaka, í andstöðu við ESB, hins vegar ekki upp. Kíkjum aðeins á nokkrar ástæður.

Í dag erum við ekki lengur það sæta litla eftirlætisland heimsins sem við höfum verið. Ekki lengur best í heimi. Við erum þvert á móti þekkt fyrir oflátungshátt útrásarvíkinga sem keyptu allt milli himins og jarðar á lánum, seldu svo hverjum öðrum það á tvöföldu verði og veðsettu fyrirtækin fyrir mismuninum til að geta keypt meira og endurtekið leikinn.

Við erum þekkt fyrir að hafa keypt helgustu vé viðskipta í Kaupmannahöfn og montað okkur af því að vera orðin ríkari en gamla, níska, sparsama herraþjóðin Danir. Við erum þekkt fyrir það að hafa keypt ensk fótboltalið eins og rússneskir olígarkar og fyrir að aka um í limósínum þegar virðulegir hógværir menn taka rútuna.

Og nú erum við þekkt fyrir að allt þetta sprakk. Íslendingarnir sem keyptu sama flugfélagið þrisvar og tvöfölduðu virði þess í hvert skipti reyndust vera nýríkir oflátungar. Nú erum við nýfátækir Mórar. Í Bretlandi, þar sem við veislan var fjörugust, erum við núna þekkt fyrir að íslenskur banki (með sterka vísun í nafn landsins) hefur gleypt hundruð milljarða frá einstaklingum, góðgerðarfélögum og sveitafélögum. Sama á við um Holland. Þjóðverjar eru líka reiðir.

Við erum þekkt fyrir það að þegar bankarnir hættu að fá lánað lausafé til rekstursins mætti seðlabankastjóri Íslands í ríkisfjölmiðilinn og sagði heiminum að við ætluðum ekki að borga útlendingum það sem við skuldum þeim. Viðtalið hefur verið þýtt og birt víða um heim, m.a. í Wallstreet Journal.

Fyrir tveimur árum komumst við í heimsfréttirnar af því við komum í veg fyrir það að alþjóðasamfélagið samþykkti bann við botnvörpuveiðum á alþjóðlegum hafsvæðum. Síðsumars í ár móðguðumst við út í alþjóðleg umhverfissamtök af því okkur þóttu skilyrðin fyrir sjálfbærum fiskveiðum ekki henta okkur nógu vel. LÍÚ ákvað því bara að búa til sitt eigið umhverfisvottunarmerki! ICELAND - RESPONSIBLE FISHERIES. Hlýtur að slá í gegn í Bretlandi núna!

Síðasta alþjóðlega afrek okkar á sviði fiskveiða er að reyta Skota til reiði vegna óheftra makrílveiða úr stofni sem er nýfarinn að gægjast inn í lögsögu okkar. Myndi ekki slík hegðun heita rányrkja ef það væri þorskurinn okkar?

Í þessari stöðu finnst Sigurði Kára einhliða upptaka evru - í ítrekaðri andstöðu við ESB - algjörlega vera málið! Í frétt á visir.is segir hann orðrétt:

„Við getum ekki verið að horfa á einhvern pirring einhverra embættismanna í Brussel. Við verðum fyrst og fremst að horfa á okkar eigin hagsmuni."

Stundum get ég ekki varist því að brjóta heilann um það af hverju þingmaðurinn og margir flokksbræður hans virðast hræddari við að styggja DO með því að hugleiða ESB aðild en að kalla yfir landið reiði alþjóðasamfélagsins.
Eins vond og mér finnst hugmynd og framsetning þingmannsins vera þá finnst mér hins vegar fyllilega athugandi að kanna aðra útfærslu á hugmynd Heiðars Más og Ársæls - flýtiupptöku evru.

Staðreyndin er sú að við erum skuldugasta þjóð í heimi og með gjaldmiðil sem ekki nokkur þjóð tekur mark á. Ef við eigum að geta unnið okkur út úr þessu sæmilega hratt og borgað heiminum skuldir okkar þurfum við afnot af alvöru gjaldmiðli. Þess vegna ættum við að láta á það reyna hvort það er hægt að semja um flýtiupptöku af evru sem lið í umsókn að ESB.

Nú þegar svo virðist sem IMF planið gangi ekki upp og flotsetning dauðrar krónu í miðri alþjóðlegri fjármálakreppu lítur út fyrir að vera mikið hættuspil er nauðsynlegt að hugsa út fyrir kassann. En ekki með frekju, hroka og í andstöðu við okkar mikilvægustu viðskiptalönd - heldur í samstarfi við þau.


mbl.is Afgreiðslu umsóknar frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það hefur komið í ljós að IMF er hlutræg innheimtustofnun en ekki bjargráðasjóður. Það virðist vera ljóst af innanbúðarmanni í OECD að andrúmsloftið þar og þá væntanlega í sambandinu, sé gegn stjórnvöldum en ekki íslendingum per se. Böðulsháttur þeirraá alþjóðavettvango og oflæti dvergsins og hroki ofbýður mönnum. Það þarf ekki að segja mér það tvisvar að það sé málið. Ég hef búið við þetta í 17 ár. 

Annars er krónan varla mælieining fyrir stjarnfræðilegar upphæðirnar, nú munu þær mælast í kárahnúkavirkjunum. Sú virkjun kostaði 100 milljarða, svo það er góð eining. IceSave mun þá vera hvað...5 kárahmnúk og krónubréfin eitthvað sviðpað. Setur málin i áþreifanlegra samhengi finnst þér ekki.  Ég spyr. Af hverju eru er ekki gefin út ákæra og glæframennirnir sóttir í glyshallirnar í útlöndum og færðir í gæsluvarðhald. Gerð gangskor að alþjóðasamvinnu um að finna peningana? Heldur þú að slík röggsemi mæltist ekki betur fyrir erlendis en þetta gauf, sem í allra augum vitnar um samsekt yfirvalda.

Eru þeir ekki að henda forsætisráðherra Thailands í tukhús fyrir spillingu? Ráku Svíar ekki ráðherra fyrir að taka Toblerone út á kort frá ríkinu? Hverju ættu þessir menn von á annarstaðar í heiminum. Hvar er röggsemi ISG núna? Hún er að liðast í sundur kellingargreiið. Er ekki tæm að fara að taka af skarið og skinja sig sem íslending, sem hluta af þjóðinni en ekki elítu?

Ísland er hlutafélag, þar sem allir eiga jafnan hlut og hafa kjörið sér stjórn. Heldur þú að hluthafafundur í venjulegu fyrirtæki liði svona makk um hagsmuni og framtíð fyrirtækisins. Algera þöggun og himinhrópandi getuleysi? Hvað heldur þú Dofri?

Jón Steinar Ragnarsson, 12.11.2008 kl. 17:01

2 identicon

Sæll Dofri minn.

Mjög skynsamleg grein hjá þér heilt yfir og gott að þú getur ljáð máls á því að hugsanlega vilja taka upp Evru eða annan gjaldmiðil einhliða eða svona í besta falli með einhverskonar þegjandi samþykki Evrópulandanna.

Það hefur nefnilega verið svo undanfarið að hörðustu og einsýnustu tróboðar Íslenska Evrópu trúboðsins hafa ekki mátt heyra á nokkuð svona minnst. Þar hefur ekkert komið til greina annað en aðildarumsókn strax og síðan upptaka Evru. Tilgangurinn helgar þar meðalið og ekkert annað.

Þess vegna biðla ég nú til ykkar skynsemdar manna í þessum hópi. Getur ekki verið ágætis millileið í þessari einstaklega erfiðu stöðu að þetta sé skoðað vel og vandlega og ég segi nú ekki að fyrirfram eigum við að gefa okkur að ef við tökum einhverja einhliða mynnt upp að það þurfi þá að vera Evra. Ég vil að allir möguleikar séu skoðaðir s.s. US dollar og Canada dollar og Norsk króna og fleira.

Persónulega lýst mér ekki sérlega vel á Evruna og heldur ekki US dollar en við verðum bara að sjá hvað kemur útúr vinnu sérfróðrar nefndar sem nú þarf að skipa um þessi mál. Ég held að Norska krónan myndi passa okkur lang best, til lengri og skemri tíma. Norskur efnahagur er einhver sá alsterkast í heiminum og Norska ríkið stendur mjög vel, bæði ríkin eru fiskveiðiþjóðir og eiga mikiið undir útflutningi. Báðar þjóðirnar búa yfir mjög öflugum orkulyndum. Norðmenn eru líka sérlega drenglundaðir og ég held að þeir mydnu skilja okkar hræilegu stöðu þó svo að þeir myndu kanski ekki leggja blessun sína yfir þetta beinlínis.

Mér líst illa á einhverja samninga við þetta Evrópusamband. Enn verr líst mér á að við förum að sækja um Evrópusambandsaðild, við sjáum alveg hversu lítilmegnug við værum þar og við værum jafnvel enn verr stödd þar í gini þessara stórvelda. ÞAð sést alveg nú að þetta er ekki félegur félagsskapur.

Það er alveg nauðsynlegt að þjóðin standi saman að baki þeim róttæku efnahagsaðgerðum sem nú þarf að fara í útúr þessari þröngu stöðu.

Ef þið í ESB trúboðinu á Íslandi ætlið nú að nýta ykkur það hroðalega ástand sem nú rýkir og mögulegan tímabundinn meirihluta til þess að þröngva þjóðinni inní þetta ESB apparat og hafna öllum öðrum skynsamlegum leiðum, þá eruð þið alls ekki að gera þjóðinni neitt gagn. Þá eruð þið um leið að hvetja til sundurlyndis og þjóðhættulegs klofnings meðal þjóðarinnar. Andstaða við ESB aðild er mjög mikil og klýfur alla stjórnmálaflokka. Andstaðan við ESB ristir djúpt meðal mjög stórs hóps þjóðarinnar og er byggð á mjög sterkum rökum, bæði efnahagslegum og skipulagslegum. Einnig vegna lýðræðishallans og yfirþyrmandi skrifræðisins sem einkennir Evrópusambandið. Einnig á tilfinningalegum og þjóðernislegum ástæðum sem eru tilfinningar sem alltaf hafa verið sterkar meðal þjóðarinnar og ekki skal gera lítið úr og þessar tilfinningar hafa hleypt af stað fleiri styrjöldum í heiminum en nokkuð annað. 

Einhliða umsókn um ESB aðild nú er algjör tækifærismennska og ekkert annað en til að ala á enn meiri sundrungu og óeiningu meðal þjóðarinnar.

Þess vegna hvet ég ykkur nú skynsömustu ESB sinnana til þess að reyna nú sameiginlega að finna einhverja skynsamlega lausn á stöðunni sem nær öll þjóðin getur verið einhuga um. Slíkt væri ábyrgð !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 17:20

3 Smámynd: Dofri Hermannsson

Norsarar eru búnir að segja Takk, men nej takk! Evran er mest tekin þessa dagana en kannski Spánn og Suður Ameríka eigi enn til á lager slatta af pesetum sem mætti notast við!?

Að öllu gamni slepptu þá verðum við að taka upp nothæfan gjaldmiðil og þá liggur evran beinast við enda 70% allra viðskipta okkar við Evrópu. Það getum við ekki gert eins og ribbaldar sem alls staðar vilja fá ókeypis far - allt fyrir ekkert.
Við eigum að skilgreina samningsmarkmið okkar, sækja um ESB aðild og láta á það reyna hvernig samningum við náum.

Umræðan gegn ESB hefur verið dregin niður í skotgrafir sjálfstæðis eða ósjálfstæðis þjóðarinnar. Krónuumræðan sömuleiðis. Menn hafa sagt að við eigum að vera sjálfstæð þjóð með sjálfstæða mynt. Hvílíkt rugl. Hvílík öfugmæli.

Eru Finnar ekki sjálfstæð þjóð? Eða Danir og Svíar sem núna tala um herkostnaðinn af sinni litlu krónu? Erum við sjálfstæð þjóð í dag? Eins og beiningamenn að biðja um peninga í öllum heimshornum. Það þarf ekki mikið að gerast til að vöruflutningar til landsins leggist af. Yljar hún einhverjum núna hin sjálfstæða peningamálastefna okkar?

Það verður að opna umræðuna upp á gátt og það þarf að gera það hratt. Fólk og fyrirtæki í landinu geta ekki haldið niðri í sér andanum endalaust.

Dofri Hermannsson, 12.11.2008 kl. 17:51

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gunnar Rögvaldsson, sem er fjölfróður um evrusvæðið, segir í bloggum sínum að evran sé í mikilli kreppu. Hún fellur og fellur eins og stendur og raunar er sambandið í hálfgerri upplausn líka og enginn getur komið sér saman um þessa margtuggðu stjórnarskrá þeirra. Sum ríki eru jafnvel farin að tala um að ganga úr sambandinu eins og þjóðverjar sjálfir. Er samfylkingin alveg með fingurnar á púlsinum þarna eða er þetta EU tal bara lýðskrum til að dreyfa ahyglinni frá stærri málum? Ég spyr í einlægni.

Jón Steinar Ragnarsson, 12.11.2008 kl. 19:18

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svo má nefna að við erum ekki enn búnir að náþeim atvinnuleysistölum, sem hafa verið standard í evrulöndum eða um 10%. Hafið þið kíkt á einhverja statistík í tengslum við þetta?

Jón Steinar Ragnarsson, 12.11.2008 kl. 19:20

6 identicon

Ísland er stoppustöð á leið frá Noregi til Vínlands híns góða.
Leifur Heppni vissi það.
Nú er komið að því að restin af þjóðinni taki skrefið og eignist Vínland.
Sækjum um inngöngu í Kanada/USA/NAFTA. Þar eigum við “Fyrsta Veðrétt”, samkvæmt Leifi Heppna. Þar eigum við mestan fjölda íslenskra afkvæma,sem er okkar eigið blóð.
Þeir afkomendur hafa gert það svo gott, að þeir hugsa mjög sjaldan um stoppustöðina Ísland, í miðju Atlanthafi. Þeir hafa dreyft sér um alla Norður Ameríku og komið sér í mjög góða stöðu.
Evrópa er búin að fá alveg nóg af okkur, eins og Noregur forðum, en vesturheimur bíður okkar án nokkurra fordóma.

nonni (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 19:26

7 identicon

Þingmaðurinn SigurðurKári notar málfutning um einhliða upptöku Evru sem rök fyrir þvi að Ísland þurfi ekki að ganga í ESB.

Sigurður Kári er besta dæmið um að íslenska þjóðinn virðist ekki enn gera sér grein fyrir stöðu sinni í samfélagi þjóðanna; stór hluti þjóðarinnar virðist vera að tapa sér í síðasta þjóðrembu og hrokakastinu og sjá ekki að þau eru með kúk í bleyjunni

Þetta er sá hluti þjóðarinnar sem ætti að missa vinnuna og húsin sín; það er þetta lið sem kom íslensku þjóðinni á kaldan klaka.

Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 09:14

8 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Það verður gaman að heyra hvað Sigurður Kári muni segja ef við við-gerum-það-sem-okkur-sýnist-í-þessu-máli og tökum upp annan gjaldmiðil, ef svo verður innlent bankaáhlaup sem uppkeyptur gjaldeyrir stendur ekki undir og við stöndum uppi án peninga prentara og án alls stuðnings frá alþjóðasamfélaginu. Þá væru það ekki einkabankar heldur ríkisbankar og seðlabanki sem væru komnir á hausinn. 

Þá myndi hann væntanlega fara mæla fyrir því að sauðkindin ætti að verða verðlögð í seðlabankanum og verða helsti gjaldeyrir landsins því það hafi dugað víkingum fyrr á tíð, afhverju ætti það ekki að duga nú.

Jón Gunnar Bjarkan, 13.11.2008 kl. 10:18

9 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Jón, gerirðu þér grein fyrir því hversu erfitt það er að taka sauðkind út úr hraðbanka svo ekki sé talað um að senda hana rafrænt?

Sigurður M Grétarsson, 13.11.2008 kl. 12:49

10 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Sammála Sigurður, það er vissulega erfitt að láta hraðbanka fæða eina stykki sauðkind, en er hér kominn Lárus Baldursson sem virðist frekar vilja nota þorskinn sem gjaldmiðil, eitthvað gæti reynst auðveldara að draga hann út úr hraðbankanum.

Jón Gunnar Bjarkan, 13.11.2008 kl. 13:52

11 Smámynd: Sævar Helgason

Viðtalið við formann Samfylkingarinnar á "Ísland ´dag"  þ.13.11. var vel meitlað og í raun það mest upplýsandi sem þjóðin hefur fengið frá falli bankanna.  Fram kom að samningar við ESB löndin vegna Icesave eru á lokastigi , væntanlega fyrir miðnætti.  Kostnaður okkar gæti orðið á bilinu 100-300 milljarðar kr. þegar Lnadsbankaeignir hafa verið innlimaðar. Og upplýst var að miðstjórnarfundur Sjálfstæðisflokksins verður með mikilvægan fund á morgun ,föstudag þar sem væntanlega verða yfirlýsingar um Seðlabanka , Fjármálaeftirlit - uppstokkun og upphaf aðildarviðræðna við ESB og evrumál

Og Flokksfélagið á Skaganum var nú í kvöld með mikilvæga yfirlýsingu varðandi þessi málefni... Mikilvægt félag þarna á Skaganum - Geir H. og frú Inga Jóna eru þar með ættarkjölfestu.  Þannig að yfirlýsing af Skaganum er þungavigtarmál frá Flokknum.

Það er allt að gerast núna....

Sævar Helgason, 13.11.2008 kl. 22:45

12 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Björgólfur virðist nú vera á þeim buxunum að það muni ekki falla neinar skuldbindingar á Íslendinga vegna Icesave því það séu til eignir fyrir þessu öllu saman. Síðan er núna búið að upplýsa eignir Kaupþings í Þýskalandi dugi fyrir öllum innistæðum þar. Það er aldeilis sem ráðamönnum tókst að snúa þessu upp í eitthvað rugl um að við verið væri að leggja á okkur langtum hærri skuldir en Þjóðverja eftir fyrra stríð, hverslags bananlýðveldi býr maður í eiginlega. Hvernig er hægt að rugla umræðuna svona mikið, hvað eru fréttamenn að gera í þessu landi spyr maður eiginlega.

Jón Gunnar Bjarkan, 13.11.2008 kl. 23:21

13 identicon

Dofri.

Afhverju talið þið ESB-sinnar aldrei um neikvæðu hliðarnar á því að ganga í ESB og taka upp EVRU? 

Hafið þið eitthvað að fela sem þið viljið ekki að þjóðin fái að vita?

ESB er mjög kratístk stofnun.  Er ástæðan fyrir því að þið Samfylkingarfólk viljið ganga í ESB sú að ESB fellur mjög vel að hugmyndafræði ykkar?

Persónulega lýst mér mun betur á að ganga í NAFTA og taka upp dollar sem gjaldmiðil.  Við sjáum nú bara hversju "vingjarnleg" ESB-ríkin eru við okkur.

Eyjólfur Þ. Haraldsson (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 10:12

14 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

..."ESB er mjög kratístk stofnun."

Þvílíkt rugl Eyjólfur, fyrir anti-ESB sinna þá er ESB akkúrat bara það sem hentar ykkur hverju sinni og er alveg merkilegt að sjá ykkur kafta hvorn annan í kaf með hverri vitleysunni á fætur annnarri. Þú segir að ESB sé Kratísk stofnun, Fyrir Vinstri grænum er ESB alveg svakalega hægri sinnuð stofnuð sem er með ólíkindum hallt undir stórfyrirtæki en Sjálfstæðismenn eru alveg nákvæmlega sammála Vinstri grænum að ESB sé svo rosalega vinstri sinnað með ólíkindum að skriffinskan og skattarnir eru algjörlega ótækir fyrir íslenska þjóð. Svona lýðskrum er okkur boðið upp á í þessu bananlýðveldi okkar.

ESB er ekki hallt undir stórfyrirtæki heldur stunda þeir öfluga neytendavernd sem við sem íslendingar höfum heldur betur notið góðs í gegnum EES af því Sjálfstæðisflokkurinn upp á eigin spýtur gerir ekkert annað en að bjóða stórfyrirtækjum aftanítökur á íslenska neytendur. Hvað varðar skriffinsku og skatta þá skattleggur Íslenska ríkið að því ég er held langsamlega mest af öllum OECD ríkjunum þegar tekið er mið af þjóðarframleiðslu. Skriffinskan og kostnaðurinn við að reka ALLT ESB batteríð er síðan langt frá því að slaga upp í skriffinskuna og kostnaðinn við Pentagon eitt og sér sem sjálfstæðismenn geta ekki talað um án þess að pissa í buxurnar af aðdáun. 

Staðreyndin er sú að báðir þessir flokkar Vinstri Grænir og Sjálfstæðisflokkur eru bullandi vinstri flokkar sem eru nánast sammála um allt nema hvernig eigi að útfæra aðgerðir ríkisins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur t.d þannig út ríkið með svo ævintýralegum hætti undanfarin ár að það þekkist hvergi staðar í hinum vestræna heimi. Báðir þessir flokkar telja sig svo hafa einhverskonar sérþekkingu á Evrópu og ESB sem kollegar þeirra í Evrópu búi ekki yfir og er það jafn mikið djók og þegar íslendingar ætluðu að fara kenna Bretum hagfræði. Hversu lengi ætlar þjóðin að láta þetta endemis rugl og vitleysu ganga yfir sig eiginlega.

Jón Gunnar Bjarkan, 14.11.2008 kl. 10:49

15 identicon

Já, en Jón Gunnar, afhverju talið þið ESB-sinnar aldrei um neikvæðu hliðarnar við ESB?  Það var bara það sem ég er að spyrja um. 

Ég er ósammála þér.  ESB er kratísk stofnum byggt upp á hugmyndafræði krata um "tax-and-spend" sem felur í sér gífurlegt skrifræði.  ESB er einskonar vinnumiðlun líkt og Samfylkingin, þar sem innmúraðir flokksgæðingar og vinkonur Sollu geta fengið góð störf borguð af skattborgurunum.

Ég var að leita að svörum við því, af hverju ESB-sinnar tala aldrei um neikvæðu hliðarnar á ESB þegar þeir eru að boða "fagnaðarerindið" um ESB. 

Samkvæmt ESB-sinnum mun ríkja hér eilíf efnahagsleg sæla ef við göngum í ESB.  Vöruverð mun lækka, segja þeir, án þess að koma með haldbærar skýringar á því hvernig þetta mun eiga sér stað.  Töframeðalið er Evra, sem er dóp fyrir ESB-sinna líkt og E-tafla er fyrir eiturlyfjafíkla.  

ESB-sinnar, komið nú með neikvæðar hliðar á ESB og Evrunni.  Svona, verið nú ekki að fela neitt fyrir fólki.  Ekki vera svona bláeygðir eins og kratavinir ykkar í Svíþjóð.

Eyjólfur Þ. Haraldsson (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband