21.11.2008 | 09:56
Segjum bara eins og er
Auðvitað er fráleitt að vera með aflóga stjórnmálamann í embætti seðlabankastjóra. En þegar stjórnmálamaðurinn er þar að auki gamall harðstjóri úr mesta valdaflokki síðustu áratuga, bullandi virkur í valdafíkn, er ekki á góðu von. Það höfum við séð svart á hvítu, bæði í frægu Kastljósviðtali og nú í "ekki benda á mig" ræðunni frá í þessari viku.
Það sem hins vegar er jafn hættulegt og stjarnfræðilegt vanhæfi seðlabankastjóra er sú staðreynd að sá flokkur sem hann veitti forystu um langt skeið er nú ein rjúkandi rúst vegna bullandi meðvirkni. Það er ógn við þjóðarhag þegar sá flokkur sem leiðir ríkisstjórn landsins er svo samansúrraður af kvíða, reiði og innbyrðis átökum að hann stendur sem lamaður á meðan hvert áfallið rekur annað.
Það vita allir, þótt margir þegi, hvernig stjórnarhætti fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi seðlabankastjóri stundaði (stundar?) í sinni pólitík. Þeir sem ekki klappa eru óvinir, ótti og umbun voru (eru?) helstu stjórntækin. Þetta kann að hafa þótt boðleg stjórnunartaktík fyrir 25 árum en í dag er svona framkoma við fólk kallað ofbeldi - enda er hún ekkert annað.
Hvort heldur um er að ræða fjölskyldur, fyrirtæki eða stjórnmálaflokka gildir það sama. Þegar hópi fólks hefur verið stjórnað með þessari gerð ofbeldis um langan tíma hefur það haft mótandi áhrif á alla. Þeir sem ekki geta sætt sig við ofbeldið forherðast eða fara en hinir eru miklu fleiri sem reyna að finna sér eitthvert hlutverk í hirðinni og þóknast foringjanum.
Það tekur tíma fyrir fjölskyldur og einstaklinga að vinna sig út úr svona ástandi jafnvel þótt ofbeldismaðurinn sé fjarlægður en þegar hann vomir yfir öllu, er sífellt að droppa við á álagstímum og skipta sér af getur fjölskyldan orðið óstarfhæf. Lömuð af ótta, reiði og kvíða og nær ekki samstöðu um að henda ofbeldismanninum á dyr.
Þetta gera sér allir landsmenn, a.m.k. utan umræddrar fjölskyldu, ljóst. Þess vegna skulum við ekkert fara í kringum hlutina með einhverju tali um nauðsyn þess að sameina Seðlabanka og FME sem allir vita að er ekki aðalmálið. Segjum bara eins og er; á því er brýn nauðsyn að taka fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins nú þegar úr embætti Seðlabankastjóra áður en hann veldur þjóðinni enn meiri skaða.
Sé flokkur hans svo þjakaður af meðvirkni að hann getur ekki framkvæmt þessa einföldu aðgerð til varnar þjóðarhag á flokkurinn að segja sig frá stjórn ríkisins. Geri hann það ekki verða samferðamenn hans að hugsa sig alvarlega um hvort þeir ætla lengra með bílstjóra sem svona er ástatt fyrir.
Varnarræður fyrir neðan virðingu Seðlabankans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Skrýtið að þú skulir minnast á aflóga stjórnmálamenn, bíddu er ekki gamall alþýðuflokksmaður þá aflóga stjórnmálamaður í forsæti fyrir fjármálaeftirlitinu, og líka í bankastjórn Seðlabankans. Þú ert greinilega blindaður af hatri á Davíð Oddssyni, farðu nú að snúa þér að einhverri vitsmunalegri umræðu, sem ég efast ekki um að þú ert maður til. Maðurinn, að mínu áliti, sagði það sem segja þurfti í þessari ræðu, og ég er sannfærður um að mjög margir sem á hlýddu hafi hugsað það sama. Þú skalt ekki vanmeta það fylgi við þann málflutning sem hann kemur fram með, ég er sannfærður um að hann er miklu meiri en skoðanakannanir gefa til kynna. Það hinsvegar kemur ekki í ljós fyrr en í kosningum. Davíð t.d. kallaði STRAX eftir opinberri rannsókn, ég vona að þú sért sá maður að geta samþykkt þá tillögu. Einnig hafa nú komið menn, sem viðurkenna að auðvitað hefði ekki átt að láta örfáa einstaklinga eignast allt hér á landi, skuldsetja það síðan, og leggja ófyrirséðan skuldaklafa á almenning til fjölda ára. Viltu kannski taka á þig smá ábyrgð og viðurkenna að Samfylkingin hefði átt að vera búin að átta sig á þessu öllu fyrir löngu.
Sigurður Sigurðsson, 21.11.2008 kl. 10:47
Heyrði þetta á RUV í gær.
Kíktu á vefinn.
ESB: Tilslakanir í veiði ólíklegar
Olli Rehn, framkvæmdastjóri stækkunarmála hjá ESB, býst við að fiskveiðar verði erfiðasta úrlausnaefnið í hugsanlegum aðildarviðræðum við Ísland. Hann segir Íslendinga tæpast geta átt von á verulegum tilslökunum frá sjávarútvegsstefnu sambandsins.
Embættismenn í Brussel telja að Ísland geti fengið inngöngu í ESB innan fárra ára en framvinda aðildarviðræðna ráði þó miklu í því sambandi. Íslensk stjórnvöld þurfa vitanlega fyrst af öllu að leggja fram umsókn og að sögn Rehns fengi leiðtogaráð ESB þá framkvæmdastjórnina til að leggja á hana mat.
Rehn segir einhverjar tilslakanir á stefnunni mögulegar en þó geti Íslendingar ekki búist við að fá meiriháttar undanþágur frá henni.
Hans Martens, hjá hugveitunni European Policy Centre, býst einnig við að sjávarútvegsmál verði erfiðasta úrlausnarefnið en hann hvetur Íslendinga til að reyna að breyta stefnu ESB innan frá.
Bjarni Kjartansson, 21.11.2008 kl. 11:16
Miðað við þann fjölda glerhalla sem rís úti um alla borg, þá er það dagljóst að menn þurfa að fara varlega með þær steinvölur sem þeir kunna að hafa undir höndum
Flosi Kristjánsson, 21.11.2008 kl. 13:55
Er ekki lagi með þig! Ert þú ekki í einhverri "framvarðasveit" stjórnmálaflokks eða er þetta einungis kaffi - og hasshausaklúbbur sem stundar sjúklegar internet ofsóknir?
Veist þú ekki hvað "málefnaleg umræða" táknar? Eða eru þetta þín "umræðustjórnmál"?
Hvað Sjálfstæðisflokkurinn er að gera í ríkisstjórn með svona smámennum er mér ekki ljóst.
Sigurjón Benediktsson (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 15:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.