16.1.2009 | 09:30
Umferðarspár - villidýr sem elur sig sjálft
Því fylgir undarleg tilfinning að setja sig inn í áætlanir um umdeilda vegagerð í borginni. Þessu hef ég kynnst sem fulltrúi í umhverfis- og samgönguráði en ekki síður vegna setu í samráðshópi um Hallsveg í Grafarvogi. Þegar maður spyr gagnrýnna grundvallarspurninga eins og hvort hinn nýi vegur sé nauðsynlegur þá verður uppi fótur og fit.
Embættismenn útskýra fyrir manni að vegurinn sé á aðalskipulagi og verkfræðingar koma og sýna manni umferðarspár sem allar eru á sömu lund - umferð einkabílsins mun aukast. Þegar maður spyr hvort aðalskipulag sé dómur sem þurfi að framfylgja og hvort ekki megi hafa áhrif á umferðarspár frekar en að láta þær hafa áhrif á borgina er horft á mann eins og maður hafi misst vitið.
Reynslan sýnir að því meiri áherslu sem borgir leggja á að búa til götur fyrir einkabílinn því meiri verður umferðin og því meiri sem umferðin er því fleiri akreinar þarf að byggja. Þessu hafa borgarfulltrúar um allan heim verið að átta sig á síðustu áratugi og nú eru m.a.s. margir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins búnir að átta sig á þessari staðreynd.
Nú þegar það þarf að stoppa í allt að 4 milljarða gat í fjárhagsáætlun borgarinnar er vert að hafa í huga að það er til muna dýrara að þjóna samgöngum einkabílsins en almenningssamgöngum.
Nú er Háskólinn í Reykjavík að reisa glæsilega byggingu við Nauthól. Samkvæmt samningum skólans við borgina á borgin bæði að breikka flugvallarveginn og að gera nýjan veg við Hlíðarfót, auk þess að byggja bílastæði og tengja lóðina við gatnakerfið. Samtals á að verja til þessara framkvæmda 800 milljónum á þessu ári. Það finnst mér sóun á almannafé.
Ég er viss um að það er hægt að finna bæði ódýrari og hentugri leið til að koma nemendum HR til og frá skóla en að malbika fyrir þá tvær hraðbrautir frá Miklubraut inn að Nauthól. Ég er líka viss um að þeir myndu sjálfir vilja að borgin forgangsraðaði heldur í þágu barna, s.s. í leik- og grunnskóla.
En sjálfsagt hafa göturnar verið á aðalskipulagi og umferðarspár sýnt fram á það með óyggjandi hætti að þessi fjárfesting væri nauðsynleg!
Umferðin nú svipuð og fyrir 5-7 árum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:07 | Facebook
Athugasemdir
Ég er ótrúlega glöð yfir að lesa þessa færslu.
Sóley Björk Stefánsdóttir, 16.1.2009 kl. 09:42
Góð pæling. Þegar ég las hana rifjaðist upp fyrir mér eitthvað sem ég hafði lesið um einhvern belgískan bæ, sem ákvað að brjótast út úr þeim viðjum vanans, sem þú lýsir í færslunni. Gróf aðeins dýpra og fann þá „Orð dagsins“ frá 27. febrúar 2001. Bærinn heitir sem sagt Hasselt, og á sínum tíma var talað um lausnina þeirra sem „Hasseltmódelið“. Ég veit svo sem ekkert hvað hefur gerst þar síðan, en sé þó að eitthvað er minnst á þetta í umfjöllun um Hasselt á Wikipediu.
Stefán Gíslason, 16.1.2009 kl. 10:23
Þarna er ég sammála þér, Dofri.
Svo er spurningin, af hverja þurfa allir háskólar á Höfuðborgarsvæðinu að vera vestan Kringlumýrarbrautar? Hefði ekki verið nær að dreifum þeim um Höfuðborgarsvæðið?
Björn G. Jónasson (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 10:37
Mjög gott, að benda á þetta. Nú þegar höfum við eydd allt of mikið til að þjóna einkabílnum. Og á tímun sparnaðar má svo sannalega fara hóflega í fleiri umferðamannvirki. Auk þess ber að vernda Nauthólsvíkinni . Hún er perla í borginni. Ég er skúffuð að það var gengið svo nálegt þessu svæði með byggingunum. Rífið var skemmtilegasta kaffihúsið í bænum og ekki bólar á einhverju sem kemur í staðinn.
Úrsúla Jünemann, 16.1.2009 kl. 11:11
Heyr heyr!
Anna Karlsdóttir, 16.1.2009 kl. 17:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.