Grafarvogur, Kjalarnes og Breiðholt í sérflokki

Á fundi Umhverfis- og samgönguráðs í gær var kynnt niðurstaða úr könnun sem leiddi í ljós að tæplega þriðjungi grunnskólabarna er ekið í skólann. Þetta er afar mismunandi eftir hverfum t.d. er 33% barna í Vesturbæ og 37% barna í Hlíðum, Laugardal og Háaleiti ekið í skólann. Í Grafarvogi og á Kjalarnesi fara aðeins 16% barna með bíl í skólann og aðeins 14% í Breiðholti.

Þessi munur er sláandi og það er mikilvægt að finna út úr því hvað þarna liggur að baki. Á fundinum kom fram það sjónarmið að í sumum hverfum óttaðist fólk svo um börnin sín vegna umferðarinnar í kringum skólann að það þyrði ekki annað en að keyra börnin þangað! Þetta er vítahringur.

Á fundinum í gær ítrekaði ég fyrir hönd minnihlutans tillögu sem við lögðum fram 23. september sl. Tillögunni var á sínum tíma vel tekið af hálfu meirihlutans sem bókaði ánægju sína með hana en svo virðist hún hafa lent ofan í djúpri skúffu. Tillagan er svona.

Tillaga um græna samgöngustefnu í hverfum borgarinnar.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Margréti Sverrisdóttur og áheyrnarfulltrúa F-listans í umhverfis- og samgönguráði leggja til að nú þegar verði hafist handa við mótun grænnar samgöngustefnu allra hverfa borgarinnar. Samgöngustefna hvers hverfis verði unnin í nánu samstarfi við íbúasamtök, hverfisráð, skóla og foreldrafélög hvers hverfis. Í samgöngustefnu hverfanna verði sérstaklega hvatt til þess að foreldrar gangi með börnum sínum í leikskólann og fylgi ungum börnum í grunnskólann. Einnig verði lögð á það sérstök áhersla að foreldrar kenni stálpuðum börnum sínum að nota strætó til að komast til og frá tómstundastarfi.

Það er ótækt að börn séu keyrð í skólann af því foreldrarnir eru svo hræddir um að annars stafi þeim hætta af umferðinni. Að 37% barna skuli ekið í skólann á morgnana þýðir að í 500 barna skóla er hátt í 200 bílum ekið inn á skólalóðina á örfáum mínútum um kl 8.

Það eru lífsgæði að geta gengið í skólann, það er holl hreyfing fyrir börnin og ljóst að hverfisbragurinn batnar til muna ef hægt er að sleppa þessu skutli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í hverfunum, sem kennd eru við Grafarvog, eru þessi mál til fyrirmyndar að mínu mati. Það er helst á "upptökusvæði" Foldaskóla, sem einhverjar vegalengdir eru að ráði fyrir grunnskólanemendur, suma hverja a.m.k. En í Rimahverfi, Borgahverfi, Víkurhverfi og Engjahverfi er öllum börnum vorkunnarlaust að ganga til  skóla, vegalengdir hóflegar og skólar vel staðsettir m.t.t. þess að börn þurfi sem allra minnst að fara yfir umferðargötur. í Staðahverfinu er þetta líka að verða viðunandi. Áreiðanlega hefur sú skipulagssýn, sem höfð var í huga þegar þessi hverfi voru mynduð, verið til muna barnvænni og fjölskylduvænni en annarsstaðar. Enda er tiltölulega stutt síðan farið var að horfa á skipulagsmál út frá þessum þáttum. Ekki minnsti vafi að þetta hefur mikið vægi í þeirri niðurstöðu, sem Dofri er að kynna þarna.  Hún ætti allavega að verða til þess að skipulagsyfirvöld og sveitarstjórnir, bæði á höfuðborgarsvæðinu og reyndar annarsstaðar líka, eigi að telja það sjálfsagt mál að horfa til þess með hvaða hætti einmitt staðsetning skóla og annarra þjónustustofnana fyrir fjölskyldurnar, hentar best umhverfissjónarmiðum og ekki síst velferð barna og unglinga. Hafðu heiður og þökk fyrir að benda á þetta með góðum rökum, Dofri.

Þorskabítur (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 13:58

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

efnahagur foreldra spilar líka hérna inn í..

Óskar Þorkelsson, 28.1.2009 kl. 14:28

3 Smámynd: Dofri Hermannsson

Fjölskyldutekjur virðast ekki hafa mikil áhrif en samkvæmt tölunum er rúmlega 36% barna skutlað í skólann þar sem fjölskyldutekjur eru undir 250 þúsund krónum á mánuði , þar sem fjölskyldutekjur eru 250-399 þús. á mánuði er hlutfallið 20%, þar sem fjölskyldutekjur eru 400-549 þús. á mánuði er hlutfallið 43% en þar fyrir ofan í kringum 30%.

Dofri Hermannsson, 28.1.2009 kl. 14:36

4 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Já, það er nauðsýnlegt að taka til í umferðastefnu á höfuðborgarsvæðinu og búa til góðar og öruggar gönguleiðir. En hvar eru reiðhjólin í grænu samgöngustefnunni? Eru ekki hjólreiðabrautir á planinu líka?

Úrsúla Jünemann, 28.1.2009 kl. 15:52

5 Smámynd: LM

Mér þykir nú ansi kómískt að þið séuð allt í einu farin að hafa áhyggjur af "grænum samgöngum" í Grafarvogi.  Voru það ekki einmitt þið sem létuð loka einu móttökustöð Sorpu í þessu fjölmennasta hverfi Reykjavíkur ? 

Þessi snjalla ráðstöfun ykkur hefur það í för með sér að nú þurfa flestir 18 þúsund íbúarnir að keyra langar leiðir til þess að losna við drasl sem ekki má setja í ruslatunnur.

Vissulega stórt skref í þágu "grænna samgangna" !

LM, 28.1.2009 kl. 16:08

6 Smámynd: Dofri Hermannsson

LM, hver ert þú? Á bloggi þínu er hvorki að finna upplýsingar um ábyrðgarmann bloggsins eða IP tölu.

Ef þú þorir ekki að taka málefnalega umræðu þá skaltu bara tuða í myrkrinu á þinni eigin síðu.

Dofri Hermannsson, 28.1.2009 kl. 18:15

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

LM er svona advanged IP-tala skráð

Óskar Þorkelsson, 28.1.2009 kl. 18:42

8 Smámynd: Magnús Vignir Árnason

Þörf umræða Dofri sem mætti taka upp víða. Og börnin hafa vissulega gott af hreyfingunni sem er oft of lítil.

Hvað LM varðar þá virðist vera ótrúlega mikið til af fólki sem skammast sín fyrir eigin málstað, svona eins og klu-klux-klan meðlimir.

Magnús Vignir Árnason, 28.1.2009 kl. 22:50

9 Smámynd: Vilberg Helgason

Í gær var ekið á barn við Sæmundarskóla í Grafarholti. Meira að segja á þrengingunni þar sem börnin þurfa að fara yfir til að komast í skólann.

Fjölmörg börn voru vitni að þessu og þetta sló þau óhug.

Það var náttúrulega rætt við börnin skilst mér og þau hvött til varkárni en í tölvupósti sem sendur var til allra foreldra hvarlaði ekki að skólanum að hvetja fólk til að keyra börn sín ekki í skólann....

Það á náttúrulega að banna akstur til og frá skóla. Þetta er mesta hættan sem börnum á leið til og frá skóla steðjar að.... þeas foreldrar sem eru að vernda börnin sín fyrir hinum bílstjórunum með því að keyra sín sjálf.....

Vilberg Helgason, 29.1.2009 kl. 01:20

10 Smámynd: LM

Það sem skiptir máli er að ég er Grafarvogsbúi og ekki pólitíkus.

Það er svo sem ekkert nýtt að þínir flokksmenn telji sig hafna yfir að styðja ákvarðanir ykkar fyrir sauðsvörtum almúganum enda var það nákvæmlega það sem gerðist þegar reynt var að fá einhverjar vitrænar skýringar frá flokksbróður þínum Degi.

Það er svo sem skiljanlegt að þú treystir þér ekki í að skýra þessa umræddu ákvörðun en sýnir bara á hve veiku svelli þið standið í umhverfismálum.

LM, 29.1.2009 kl. 09:50

11 identicon

Vandamálið eru ekki börnin heldur eru það foreldarnir.  Foreldrar í dag gefa sér ekki tíma til þess að leiðbeina börnum sínum í umferðinni.  Þeir byrja á að keyra þau í leikskóla og síðan heldur það áfram þegar barnið er komið í grunnskóla.  Helstu hættur fyrir börnin við skólanna er sú mikla umferð sem foreldar þeirra barna sem ekið er í skólann skapa.  Þegar er verið að aka börnunum í skólan eru foreldrar oft á tíðum á síðustu stundu og jafnvel að verða of sein til vinnu og við það álag minkar athygli ökumanns til muna. Við þetta bætist að ökumaðurinn er jafnvel að tala í síman eða snyrta sig þannig að lukkið sé í lagi þegar komið er til vinnu.  Ég hef alið upp þrjú börn og vandi þau á að ganga í skólan og nota strætó til þess að komast á íþróttaæfingar eða annað sem þau ætluðu.  En ég tek það fram að ég gaf mér tíma til þess að leiðbeina þeim áður en þau fóru að ferðast á eigin vegum.

Sigurbjörn Halldórsson (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 11:46

12 Smámynd: Dofri Hermannsson

Bendi áhugasömum á hin ágætu samtök um bíllausan lífsstíl http://billaus.is/index.php?option=com_content&view=article&id=44&Itemid=56

Tilgangur samtakanna er ekki heilagt stríð gegn einkabílnum heldur að benda á og vinna að því að auka þau lífsgæði sem fylgja því að nota bílinn ekki eða takmarka notkun hans.

Dofri Hermannsson, 29.1.2009 kl. 12:00

13 identicon

Sæll Dofri

Það er allt gott og blessað að vilja að hvetja fólk til að nota ekki bílinn eða takmarka notkun hans. Ég bý í Grafarvoginum og hef gert það núna í 4 ár. Þegar sonur minn kemst á skólaaldur þá mun mér ekki detta annað í hug en að keyra eða ganga með honum í skólann, ástæðan er einfaldlega sú að það eru engar göngubrautir heldur bara hraðahindranir !. Sonur minn er í leikskóla sem er mjög stutt frá því sem ég bý en til að komast á leikskólann þarf ég að fara yfir tvær götur þar sem engar gangbrautir eru, stundum stoppa bílar fyrir okkur þegar við göngum yfir götuna en stundum þá eru þeir næstum því búnir að keyra mann niður. Ég tel að ef þú ætlar að skoða umferðaröryggi í Grafarvoginum þá ættir þú að ræða við þá sem virkilega nota göturnar og reyna að fara í göngutúr. Maður er bara orðinn skíthræddur við að fara út að ganga. Og það þarf að auka við gangbrautir og gangbrautarljós, og helst taka íbúa Grafarvogs í kennslustund. Maðurinn minn talaði við starfsmann í deild Umhverfis og samgöngusviði Reykjavíkurborgar. Hann sagðist ekki vilja setja upp fleiri gangbrautir því að þær gæfu til kynna falst öryggi. Maðurinn minn spurði þá, hvernig eigum við þá að komast yfir götuna ? Tjá.. þið gangið bara yfir götuna. Ég hef verið mjög reið yfir þessu kommenti frá þessum starfsmanni. Ég lærði það nú einu sinni að maður ætti að fara yfir götu á gangbraut en það er greinilega ekki lengur. Ég verð bara að vera kenna barninu mínu að ganga yfir götuna sama hvort það eru bílar eða ekki og vona bara að barnið mitt komist heilt heim. 

Með kveðju Berglind

Berglind G. Beinteinsdóttir (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 13:45

14 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Mér finnst vanta heildarsýn yfir samgöngumál hjá borgaryfirvöldum. Er líka oft meira í orði en borði.

Þjónustuskerðing strætó sem tekur gildi næstu mánaðarmót er t.d. ein arfavitlausasta aðgerð gegn samgöngumálum sem Reykjarvíkurborg hefur framkvæmt hingað til. Það hefur verið hringl með rekstur Strætó í mörg ár og sá fararmáti hefur ekki náð að festa sig hjá Íslendingum sem er alger synd. Ódýrari og umhverfisvænni kostur finnst ekki.

Núna þegar tekjur manna eru að dragast saman og væntanlega meiri þörf en nokkru sinni fyrr fyrir ódýran samgöngukost ákveður stjórn Strætó að draga saman þjónustu. Ekki bara eitthvað smá heldur gífurlega.

Ég held að menn geti talað sig hása um áætlanir í umferðarmálum en þegar kemur að raunverleikanum þá birtist hann því miður á þennan hátt.

Kristján Kristjánsson, 29.1.2009 kl. 18:03

15 Smámynd: Óskar Þorkelsson

það er verið að breyta íslenskum börnum í letihauga og fitukeppi.. til hamingju með það foreldrar.

Óskar Þorkelsson, 29.1.2009 kl. 20:25

16 Smámynd: Vilberg Helgason

Veistu Óskar... Þetta er hárrétt hjá þér nema þú gleymdir að það er verið að taka frá þeim sjálfstæði sjálfstraust þjálfun í rökrænni hugsun.

Það þarf ekki marga göngutúra með mömmu eða pabba í skólann til að læra það sem skiptir máli.

Börn í dag kunna ekki að haga sér í umferð og eru keyrð til vina, keyrð í skólann, keyrð í frístundir.

Að sama skapi er þetta fólk sem er keyrandi börnin sín í steluskreppum úr vinnunni að skapa hættu fyrir alla aðra umferð.

Og varðandi athugasemnd 13 frá Berglindi þá er það hárrétt. Að það eru engar alvöru samgönguleiðir í Reykjavík nema þær séu hugsaðar útfrá bílaumferð, hvort sem það er til að greiða leið bílsins með því að gefa honum bestu leiðina frá A-B og svo þegar leiðin var of greið þá er skellt upp hraðahindrunum.

En gangandi, hjólandi og öll önnur umferð þarf að lúta lögmálum bílaumferðar og því mætir hún afgangi. Þetta er meira að segja svo slæmt sumsstaðar að það er svo langt milli leiða yfir götur að það eru sett grindverk á milli akgreina því fólk velur jú að vaða frekar yfir stórar götur en rölta hundruði metra jafnvel til að gönguleið yfir götur.

Reykjavík er BÍLABORG og hefur unnið ötullega að því að gera sig að meiri bílaborg og fyrri markmið (vonandi farin með kreppu) voru að gera hana að mestu bílaborginni.

Vilberg Helgason, 29.1.2009 kl. 21:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband