Ný framtíðarsýn

Álverið í Helguvík mun ekki rísa. Þeim sem trúðu í einlægni að það væri besta leiðin til að byggja upp atvinnulíf á Suðurnesjum og besta nýtingin á takmarkaðri orku votta ég samúð mína.

Nú er hins vegar kominn tími til að við horfumst í augu við staðreyndir.

  1. Álver eru að loka um allan heim vegna sölutregðu og verðs sem nær ekki framleiðslukostnaði
  2. Þegar er ekki til orka í 250 þúsund tonna álver er heldur ekki til orka í 360 þúsund tonna álver.
  3. Megawöttin sem við eigum óvirkjuð eru takmörkuð auðlind. Við eigum að nota hana þannig að það skapist eins mörg störf og eins mikil verðmæti í landi og hægt er.
  4. Í áliðnaði skapast um 1 starf á hvert MW en t.d. í sólarkísilhreinsun eru þau rúmlega 3 á hvert MW.
  5. Ýmis önnur tilboð sem skapa fleiri störf hafa borist orkufyrirtækjunum en þeim hefur verið bent á að fara aftast í röðina. Allir sjá að bið í þeirri röð hefur ekkert upp á sig.

Við eigum að slá þessi áform af eins fljótt og hægt er. Þegar í stað á að hefjast handa við uppbyggingu sem byggir á annarri sýn. 

Ísland býður upp á gríðarlega möguleika. Við eigum gott samfélag, mennta- og heilbrigðiskerfi, fallegt land, mikið af kolefnislausri orku og gríðarlegan mannauð og frumkvöðlakraft.

Við eigum að byggja upp ímynd Íslands á þeim styrkleikum sem við höfum út á fagra náttúru, ábyrga fiskveiðistefnu og hóflega nýtingu orkuauðlinda. Á næstu 2 árum getum við skapað nokkur þúsund ný störf í grænum þekkingariðnaði, í heilsu- matar- og menningartengdri ferðaþjónustu.

Við eigum að marka stefnu um Ísland sem sjálfbært grænt orkusamfélag á næstu 10 árum. Það þýðir að eftir 10 ár verða allir bílar og skip knúin innlendum umhverfisvænum orkugjöfum. Við eigum að bjóða erlendum aðilum að fjárfesta í og starfa með okkur að þessari sýn - að leitinni að þessum lausnum.

Obama mun á næstu árum verja hundruðum milljarða dala í leitina að grænum orkulausnum. Bretland vinnur að stefnu sem kallast "The Green New Deal" og talið er að muni skapa nokkur hundruð þúsund "green collar" störf. Í Þýskalandi starfa nú þegar yfir 200 þúsund manns í græna orkubransanum.

Við eigum að bjóða fram einstaka aðstöðu okkar og fá hingað dálítið brot af allri þessari fjárfestingu, góðum störfum og þekkingu. Við getum komið okkur upp úr þessu með hyggjuvitinu og metnaðarfullri framtíðarsýn!


mbl.is Álver í Helguvík í óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Best af öllu finnst mér að fram eru komnir pólitíkusar sem skýra þjóðinni satt og rétt frá staðreyndum, en eru ekki að láta þjóðina skipta sér í fylkingar með eða á móti álverum, þegar engin álver eru í boði, bara til þess að snapa atkvæði. -  Þakka þér fyrir þetta Dofri. - Mikið hlakka ég til að kjósa þig til að vera fulltrúi minn á Alþingi.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 20.2.2009 kl. 15:32

2 identicon

Kál fyrir ál

Þórður Runólfsson (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 15:48

3 Smámynd: Finnur Bárðarson

Það er ekki einleikið með þessa þjóð. Markaðurinn hruninn, enginn kaupandi að áli og Alcoa hefur ekki lengur eða a.m.k. takmarkaðan áhuga á byggja álver. Okkur er sama um allt þetta við ætlum samt að byggja álver og framleiða ál þó enginn sé kaupandinn. Þetta getur varla kallast skynsemi. En skynsemi hefur nú sjaldan verið aðalsmerki íslensku þjóðarinnar.

Finnur Bárðarson, 20.2.2009 kl. 16:58

4 Smámynd: Einar Bjarnason

Enn einu sinni stekkur leikarinn Dofri Hermannson inn á sviðið og reynir að slá álver í Helguvík út af borðinu. Við skulum vona að Dofri þurfi ekki að óttast að missa sitt starf á sínu stóra sviði, en hér á Suðurnesjum býr ósköp venjulegt fólk sem upplifir mikið óöryggi í kreppunni. Þetta fólk er kannski óspennandi í augum Dofra því það óttast yfirvofandi fjöldaatvinnuleysi meira en flest annað, enda er hér nú þegar mesta atvinnuleysi á landinu. Það getur vel verið að Dofri þurfi ekki að hafa áhyggjur af því hvernig hann ætlar að gefa börnunum sínum að borða eða mennta þau en hér býr fólk með svo takmarkað hugmyndaflug að það vill umfram allt trygg og vel launuð störf sem hverfa ekki í næstu efnahagslægð.  

 
Hér koma mínar athugasemdir við það sem Dofri segir:  

 

  1. Hann segir að álver séu að loka um allan heim vegna sölutregðu og verðs sem nær ekki framleiðslukostnaði. Jú, alveg rétt en það er svo að í kreppunni eru mörg fyrirtæki sem standa verst í hverri atvinnugrein að detta út. Þau betur reknu lifa. Eftir því sem ég best veit eru öll íslensku álverin vel rekin og ekki í hættu.

 

  1. Dofri  talar um orkuskort. Ég veit ekki betur en að næg orka sé til fyrir Helguvík og líka alls konar aðra starfsemi, hvernig svo sem Dofri og hans vinir hafa það í sínu draumalandi.

 

  1. Hann talar um að við eigum að nota orkuna okkar til að skapa mörg störf og mikil verðmæti. Þar er ég honum sammála og bendi Dofra á alla þá verðmætasköpun sem verður til í sambandi við álver, t.d. í minni grein, vélsmíði, og t.d. í útflutningi á sérþekkingu verkfræðinga o.fl. sem starfa fyrir áliðnaðinn.

 

  1. Hann heldur því fram að aðeins skapist 1 starf á hvert MW í áliðnaði en rúmlega 3 störf fyrir hvert starf í sólarkísilhreinsum. Í grein í Morgunblaðinu 11. febrúar eftir Ágúst Hafberg, færir Ágúst einföld rök fyrir því að afleidd störf vegna Norðuráls á Grundartanga séu a.m.k. 1.500 en starfsmenn eru rúmlega 500. Það eru því a.m.k. um 1.500 störf samtals.  Ég man ekki betur en að Norðurál noti um 450 MW af raforku þannig að hjá Norðuráli séu um 3,3 störf á hvert MW.

 

  1. Dofri segir að ýmis önnur tilboð hafi borist orkufyrirtækjunum en þeim hafi verið sagt að fara aftast í röðina. Vilt þú segja mér, Dofri, hvaða fyrirtæki það eru nákvæmlega sem hafa raunverulegan áhuga og getu til að koma hér inn með atvinnuskapandi starfsemi en fá ekki orku? Ég man eftir mörgum fyrirtækjum sem töluðu um að koma með nýja starfsemi hér á Suðurnesjum. Frá árinu 2003 og til dagsins í dag hafa  25 - 30 erlendir fjárfestar komið hingað, skoðað aðstæður fyrir iðnað í Helguvík og kynnt sér orkuöflun. Þar má nefna mögulega stálröraverksmiðju, áþlvinnuverksmiðjur, efnaverksmiðjur, vatnsútflutning, frystigeymslur, manganverksmiðju, lýsisafurðir, kísilflöguverksmiðju o.fl. Það hefur nákvæmlega ekkert komið út úr þessu ennþá. Þó að sumir aðrir sjái alls staðar bullandi tækifæri fyrir okkur er þetta staðreyndin. Þegar á reynir hafa menn hreinlega bara hætt við.

 

Dofri. Ég veit að þú vilt þínu landi ábyggilega allt það besta en það hafa ekki allir sömu sýn á lífið og þú. Sumar þínar hugmyndir eru ágætis framtíðarmúsík sem vonandi rætist að einhverju leyti en leysa ekki risavaxinn vanda næstu ára. Þú talar um metnaðarfulla framtíðarsýn. Í mínum augum er það metnaðarfull framtíðarsýn að byggja hér álver sem skapar samtals um 3000 – 5000 störf á byggingartíma og 2000 framtíðarstörf og framleiðir ál á miklu umhverfisvænni hátt en flestöll önnur álver í heiminum.

Einar Bjarnason, 20.2.2009 kl. 22:20

5 Smámynd: Dofri Hermannsson

Ágæti Einar. Ég veit að þú vilt fólki vel en margt af því sem þú fullyrðir í athugasemd þinni stenst ekki skoðun.

  1. Það er ekki gott að segja að það sé til nóg orka ef maður veit ekki betur eins og þú segir sjálfur. Þú yrðir fyrsti maðurinn til að sýna fram á það með sannfærandi hætti að það sé til næg orka fyrir álver í Helguvík á SV horninu. Ef þú flettir ársskýrslu HS 2007 sérðu líka að "mörg fyrirtæki með orkuþörf 10-50 MW hafa leitað til HS varðandi orkukaup. Ljóst er að ekki er hægt að verða við óskum þeirra nema að litlu leyti..."
  2. Þegar ég ber saman störf á hvert MW tel ég afleidd störf hvorki með hjá álverum eða sólarkísilhreinsun. Það er ómark að telja afleiddu störfin bara með álverunum en ekki annarri starfsemi. Ef þú vilt telja afleidd störf er það ekkert mál. Niðurstaðan er þá 3 störf á MW í álverum en 10,5 á MW í sólarkísilhreinsun.
  3. REC Group sem ætlaði að setja upp sólarkísilhreinsun í Þorlákshöfn hætti við, mest af því það var ekki hægt að lofa orku til annars áfanga. Það voru þó bara 80-100 MW. Elkem er að hugsa um að koma hingað með svipaða gerð verksmiðju og ætlar að klára að velja á milli Íslands og Kanada í sumar. Sú staðreynd að það er búið að binda alla orku í samningum við Norðurál vegna Helguvíkur gerir líklega út um þær vonir og verður til þess að hvorki skapast störf (3000-5000 er næstum því tvöfalt meira en raunveruleikinn býður upp á og verður að skrifast á sagnagleði?) við uppbyggingu í Helguvík né við byggingu nýrrar verksmiðju Elkem á Grundartanga. Hver er skynsemin í því?

Auðvitað er þér frjálst að halda fram hverju sem þér sýnist en það væri skemmtilegra ef þú gætir fært einhver rök fyrir því. Það er nokkuð ódýrt að gera mér upp áhuga- ef hreint ekki skeytingarleysi gagnvart atvinnuástandinu þegar staðreyndin er held ég sú að fáir stjórnmálamenn hafa skrifað meira um atvinnumál að undanförnu.

Reyndin er sú að allt getur brugðist, jafnt álver sem Kaninn. Algert öryggi er ekki til og það er vont bæði fyrir byggðarlög og þjóðir að telja sér trú um að það sé bara hægt að reisa stóran eilífan vinnustað og svo geti allir bara hallað sér aftur í sætunum og slappað af. Kreppan og hrunið á álverði eru dæmi um þetta. Það eina sem við getum gert af sæmilegri skynsemi er að hugsa málið upp á nýtt og reyna að finna leiðir til að gera betur. Og okkur mun takast það.

Dofri Hermannsson, 21.2.2009 kl. 00:52

6 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Sæll Dofri,

Ég reikna með að þú vitir að ég er algjörlega ósammála þér í þessu og vona svo sannarlega að við getum klárað fjárfestingarsamninginn við Norðurál á þessu þingi. Samningurinn er stórt þáttur í að ljúka fjármögnun á bæði framkvæmdum hjá Orkuveitunni og Norðuráli.

Ég get tekið undir flest allt sem Einar og Gylfi benda á, en vildi leiðrétta eitt.

REC Group hætti ekki við að setja upp sólarkísilhreinsun í Þorlákshöfn vegna þess að það var ekki hægt að lofa orku til annars áfanga. Orkuveitan var fyllilega tilbúin að lofa nægri orku.  Vandamálið var hins vegar að hið opinbera gat ekki lofað því að umhverfismat og allt skipulagsferlið yrði lokið í samræmi við lögbundna fresti. Reynsla manna var sú að endalaust er hægt að draga þetta ferli, umsagnaraðilar dregið að skila inn umsögnum og jafnvel opinberar stofnanir.

Þeir voru ekki tilbúnir að sætta sig við það og völdu því frekar að fara til annars lands.

Þetta er eitt af því sem við höfum verið að ræða í bæði umhverfisnefnd og iðnaðarnefnd, og teljum nauðsynlegt að taka á.  Fyrirtæki verða að vita að hverju þau ganga.  Annað er ákveðinn ívilnanapakki fyrir orkufrek fyrirtæki sem eru tilbúin að fjárfesta hér á landi, og er það mikið gleðiefni að nú er hægt að bjóða fyrirtækjum sem staðsetja sig á Suðurnesjum ýmsar ívilnanir vegna nýs byggðakorts.

Ég veit líka að fjölmörg fyrirtæki voru í sambandi við orkufyrirtækin okkar, - en það var allt fyrir hrun.  Heyrðu bara í starfsmönnum Fjárfestingarstofu og fulltrúum orkufyrirtækjanna, sem svo gjarnan myndu vilja hafa fjölbreyttara úrval af orkufrekum fyrirtækjum, því til staðfestingar.

bkv. Eygló

Eygló Þóra Harðardóttir, 21.2.2009 kl. 09:11

7 Smámynd: Dofri Hermannsson

Takk fyrir þetta komment Eygló. Ég veit að langt matsferli var hluti af vandanum en aðal málið var samt skortur á öruggri orku. Heimildir þínar eru því ekki réttar hvað Rec Group varðar. Það getur þú bæði fengið staðfest hjá Orkuveitu Reykjavíkur, sem ekki gat lofað þessari orku, og hjá Fjárfestingarstofu sem ég hef verið í nánu sambandi við bæði fyrir og eftir hrun. Þú þarft greinilega að skoða þetta betur.

Staðreyndin er sú að með því að lofa allri orku til Helguvíkur er verið að binda orkuna í þeim geira sem skapar fæstu störfin og minnstan virðisauka í landi. Það er líka verið að gera út af við aðra möguleika því Helguvík þurrkar upp orkuna. Fjárfestingasamningurinn gefur líka fáránlegt fordæmi um hámark skatta á fyrirtæki. Hugsaðu þér, áður en þú greiðir atkvæði, að með samningnum ertu að samþykkja að það verði ólöglegt að hækka skatta á þetta fyrirtæki þangað til þú ert áttræð!!!

Dofri Hermannsson, 21.2.2009 kl. 18:28

8 Smámynd: Einar Bjarnason

 Kæri Dofri!  Ég ætla að byrja á því að hæla þér. Þú kallar nefnilega eftir því að menn færi rök fyrir sínu máli. Þar skilur á milli þín og sumra harðlínumanna sem bera ósannindi hiklaust á borð þegar þeir telja að tilgangurinn helgi meðalið. Ég hrífst líka af einurðinni í þér. Þess vegna leyfi ég mér að gera miklar kröfur til þín á móti. Mjög miklar.

Þú talar um orkumálin. Það er næg orka til fyrir ný tækifæri. Á ekki Landsvirkjun til dæmis yfir 300 MW óseld í Þjórsá?  Eins og Eygló Harðardóttir bendir á snerist ákvörðun REC ekki um orkumagn.  Þeir vildu ekki fara í umhverfismat og fengu, eftir því sem ég best veit, orkuna mun ódýrari í Kanada.

Hvaðan hefur þú upplýsingar um að kísilvinnsla skapi 10,5 á MW störf ef afleidd störf eru talin með?  Samkvæmt svari Össurar Skarphéðinssonar, leiðtoga þíns, við fyrirspurn á Alþingi eru störfin að hámarki 4,6 á MW.  Þú segist ekki telja afleidd störf í þínum tölum, en það er ekki rétt því skv. sama svari Össurar eru bein störf í sólarkísilvinnslu 1,6 á MW en ekki rúmlega 3 eins og þú segir. Við hljótum að treysta svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn á alþingi, eða viltu sýna fram á hvernig þú finnur þínar tölur? Trúir þú ekki leiðtoga þínum, samflokksmanni og atvinnuveitanda?  Og starfar þú ekki sjálfur fyrir Iðnaðarráðuneytið? Þér ættu því að vera hæg heimatökin að afla þér réttra upplýsinga áður en þú geysist fram með slík rök gegn álveri í Helguvík. Þú ert í vinnu hjá okkur, staurblönkum skattgreiðendum, og ég ætlast til þess að þú vitir hvað þú ert að tala um.

Þú ert eldhugi, það er kraftur í þér og það kann ég að meta. Af hverju einbeitir þú þér ekki frekar að því að búa til öll þessi störf sem þú segir að bíði í röðum, en að hamast í niðurrifsstarfsemi gegn því raunhæfa bjargræði sem felst í álveri í Helguvík? Orkan er til og ekki vantar nú starfsfólkið. Fólkið sem er atvinnulaust núna kaupir ekki mat eða greiðir skuldirnar sínar með "einhverju öðru", einhvern tíma seinna. Bankarnir og Bónus vilja fá alvöru peninga - leiksviðið er sjálft lífið í sínum grimma hversdagsleika.
  

Einar Bjarnason, 21.2.2009 kl. 23:32

9 Smámynd: Dofri Hermannsson

Gylfi. Ég er ósammála þér. Það er allt annað en einfalt að taka þennan pól í hæðina. Einfaldi póllinn í hæðina er einmitt sá sem hefur verið notaður - virkjum allt sem hægt er, seljum rafmagnið á slikk og búum til 400 störf. Þetta er einföld en vond hugmynd og ber vitni um bæði skammsýni og skort á djörfung og dug. Ég er ekki að segja að næstu misseri verði auðveld en ég er sannfærður um að við komumst upp úr þessu og ég er sannfærður um að við gerum það ekki með því að selja frá okkur orkuna á einu bretti í þá starfsemi sem færir okkur fæstu störfin.

Frá því í nóvember var í iðnaðarráðuneytinu og undirstofnunum þess unnið að því daga og nætur í samstarfi við Samtök Iðnaðarins, Samtök sprotafyrirtækja og Nýsköpunarmiðstöð Íslands að virkja mannauðinn sem var að flæða úr bönkum, byggingariðnaði, verkfræðistofum og öðrum greinum sem voru stopp ef ekki hrundar. Ég hef horft upp á ótal lítil kraftaverk eiga sér stað á þeim vikum og mánuðum sem síðan hafa liðið.

Eitt slíkt er að nú geta öll fyrirtæki - ekki bara sprotafyrirtæki - sem vilja þróa nýsköpunarhugmyndir sínar (sem kannski hafa legið ofan í skúffu) eða fara í markaðsstarf erlendis ráðið fólk af atvinnuleysisskrá og fengið fullar atvinnuleysisbætur með viðkomandi starfsmanni í meðgjöf í allt að eitt ár. Þessi eina aðgerð (sem kom til framkvæmda í janúar) er líklega að skila okkur um 300 nýjum störfum fyrir sáralítil útgjöld. Allt byggir á sköpunarkrafti og hugmyndum fólks og fyrirtækja sem neita að pakka í vörn og leggja árar í bát.

Þegar ferðaþjónustan, sem er umtalsvert stærri bransi en sprotafyrirtækin, uppgötvar þessa leið til að gera þróunarstarf ódýrara er ég ekki í nokkrum vafa um að hundruð nýrra starfa í ferðaþjónustu munu skapast.

Einar. Þessi 300 MW í Þjórsá eru afar umdeild en þó svo væri ekki þarf 625 MW í 360 t álver í Helguvík og þau 325 MW sem upp á vantar eru hvergi nærri í hendi.

Yfirleitt reynir fagfólk í samanburði af þessu tagi að sleppa afleiddum störfum úr reikningum sínum. Ástæðan er sú að meira og minna eru öll störf afleidd. Starf kennarans, hjúkrunarkonunnar, smiðsins og reiknimeistarans skapa öll afleidd störf.

Ekki veit ég miðað við hvaða tegund sólarkísilhreinsunar minn ágæti ráðherra miðaði í svari sínu en ég notast nú bara við einfalda grunnskólastærðfræði sem er svona:
350 störf / 100 MW = 3,5 störf/MW

Loks vil ég enda á að segja að ég held að við séum nær hvor öðrum í skoðunum en ætla mætti. Við viljum báðir það sama, sem flest störf eins fljótt og því verður við komið. Álver er ekki að fara að rísa í Helguvík á næstu misserum og eins og reynslan sýnir er það hvorki gott fyrir einstaklinga eða sveitarfélög að bíða eftir einhverju sem ekki kemur. Snúum okkur að því sem skapar fleiri störf, klárar ekki orkuna okkar og hjálpar til við að efla ímynd okkar út á við.

Dofri Hermannsson, 22.2.2009 kl. 02:26

10 identicon

Takk fyrir góða og þarfa umræðu.

Það er fjöldi starfa að verða til í nýjum fyrirtækjum úti um allt land. Þetta má fá staðfest í Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem ásamt Dofra og fleirum hefur barist ötullega fyrir tilverurétti sprotafyritækja.

Í því árferði sem var hér fyrir um 2 árum síðan þá var lítil sem engin eftirpurn eftir aðstöðu eða aðstoð við stofnun fyrirtækja, það hefur breyst til hins betra í dag. Þetta er eina raunhæfa leiðin til að vinna á því 15 þúsunda manna atvinnuleysi sem nú stendur fyrir dyrum. Fleiri álver koma ekki til með að ráða allan þennan fjölda. Deilur um eina eða aðra stóriðju er okkur því til lítils framdráttar.

Grunnurinn í hagkerfi okkar hlýtur að þurfa að byggja á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem skapa raunveruleg verðmæti sem hægt er að gefa í skiptum fyrir önnur þau verðmæti sem við þurfum til að viðhalda eða byggja upp það velferðarþjóðfélag sem við gerum kröfu um.

Undirritaður stofnaði Nox Medical ásamt fleirum árið 2006.

Kormakur Hermannsson

Kormákur Hermannsson (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 08:44

11 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Góð umræða.  Loksins öfgalaus umræða um þessi mál.

Ég tek undir með Dorfa að mér finnst ekki skynsamleg lausn að reisa fleiri álver.  Einfaldlega vegna þess að mér þykja of mörg egg vera komin í sömu körfuna.  Það má ekki stór hluti íslensks viðskiptalífs sveiflast upp og niður eftir álverði eingöngu.  Það er ekki skynsamlegt. 

Við verðum að koma eggjunum í fleiri körfur og tek því undir með Dorfa og Kormáki hér að ofan að lausnin gegn 15 þúsund manna atvinnuleysi er ekki einn þúsund manna vinnustaður.  Þá eru 14 þúsund eftir á atvinnuleysis skrá.  Sé reiknað með afleiddum störfum er það örlítið færri en breytir ekki heildarmyndinni.  Við eigum miklu meiri möguleika á að koma á laggirnar 500 fyrirtækjum með 30 starfsmönnum hvert heldur en 15 þúsund starfsmanna vinnustöðum.  Smá og meðalstór fyrirtæki er það sem við eigum að leggja höfuðáherslu á til að ná okkur upp úr þessari dýfu sem við erum nú í. 

Stór fyrirtæki eru auðvitað mikilvægar kjölfestur í samfélaginu.  Við eigum sem betur fer töluvert af þeim og einhver litlu og meðalstóru fyrirtækjanna eiga eftir að verða stór þegar fram líða stundir.  Leyfum þúsund blómum að blómstra.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 26.2.2009 kl. 12:45

12 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Dofri minn, ég sé að ég hef ekki einu sinni heldur tvisvar ritað nafnið þitt ranglega í pistlinum hér að ofan.  Ég biðst afsökunar á því að hafa orðið slíkur "fingraskortur á lyklaborðinu".

Sigurður Viktor Úlfarsson, 26.2.2009 kl. 12:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband