Varhugavert hjá Sigmundi

Sigmundur langfrændi minn veit sem er að ef Framsókn á að eiga möguleika í borginni þarf aukið fylgi. Hann veit líka að það er ósennilegt að hann sæki það til Vg - svo rótgróin er andúð þess flokks orðin á Framsókn. Helsti sénsinn er að sækja inn á miðjuna til Samfylkingar.

Undir stjórn Framsóknarflokksins var farið í mestu glæfraför íslandssögunnar - að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Það voru aukinheldur kosningaloforð Framsóknar um 90% húsnæðislánin sem komu fasteignabólunni af stað og kosningaloforð Framsóknar í NA um risaálver til að bjarga Austfjörðum er annar stór orsakavaldur í þenslubólunni sem hér var blásin upp á síðustu árum. Og talandi um að blása upp þá vita allir hvernig peningaöflin hafa reglulega blásið Framsókn upp eins og afmælisblöðru rétt fyrir kosningar til að halda stöðu sinni við kjötkatlana.

Sigmundur ætti því að tala varlega um loftbólur.


mbl.is Undrandi á orðum Sigmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Margt til í þessu. En það voru fyrst og fremst bankarnir sem komu því sem þú kallar fasteignabólu af stað. Eigendur og bankastjórar bankanna sem þeir Davíð og Halldór gáfu vinum sínum vildu íbúðalánasjóð feigan. Þeir buðu 100% lán til íbúðakaupa stuttu eftir að þeir höfðu fordæmt ÍLS fyrir að bjóða 90% lán. Ég tel mig þekkja þessa sögu nokkuð vel því ég starfaði sem fasteignasali á þessum tíma. Það sem varhugaverðast var í starfi bankanna, var að þeir lánuðu fólki hvort sem það var að kaupa fasteign eða ekki. Enginn fékk lán hjá ÍLS nema hann væri að kaupa. Ég taldi mér skylt að leiðbeina ungu fólki við kaupin. T.D með því að hvetja það til að taka lán til 25 ára en ekki 40. Þegar þú hefur greitt af 25 ára láni í 25 ár er það uppgreitt. En ef það er til 40 ára þá er allur höfuðstóllinn eftir að 25 árum loknum. En" ráðgjafarnir" í bönkunum hvöttu þetta unga fólk til að taka 40 ára lán. Þá yrði greiðlslubyrðin minni. Hægt að kaupa nýtt innbú og jafnvel bíl í leiðinni. Peningum var nánast þröngvað uppá þetta unga fólk án nokkurrar skynsamlegrar umræðu um endurgreiðslur. Þetta er sorgarsaga. Saga þeirra Davíðs og Halldórs í hnotskurn. Yfirnagarans og draugsins sem ekki spurðu einu sinnu flokksmenn sína álits þegar þeir settu okkur á lista hinna morðóðu þjóða vegna hinnar viðurstyggilegu innrásar í Írak. Mannanna, sem bera höfuðábyrð á hvernig komið er fyrir okkur skerverjum nú. Það eru þó vonarblikur á lofti. Ef fram fer sem horfir gætum við fengið góða ríkisstjórn að loknum kosningum. Mikilvægast af öllu er að það verði stjórn án íhalds og framsóknar.

Sigurður Sveinsson, 20.3.2009 kl. 09:33

2 identicon

Sæll Dorfi

 Þó ég sé nú oft sammála þér, og hafi nú kosið S í síðustu kosningum, þá finnst mér að þið samfylgingarmenn of oft apa einhverja vitleysu upp eftir hvor öðrum. Það er engu líkara en að einhver í ykkar röðum hafi sagt "já húsnæðisbólan kom auðvitað útaf Framsókn" og þið hin hafið gleypt við þessu sem heilögum sannleik.

Hinsvegar skiptu þessar hugmyndir engu máli þar sem bankarnir urðu fyrri til í lánaútkeyrslu. 90% lánin sem framsókn keyrði í gegn voru 90% af brunabótamati með hámarkslán uppá rúmar 18 millur. Þessi breyting olli því ekki að íbúðarverð rauk uppúr öllu valdi. 

Sjálfur fékk ég 90% lán þegar ég keypti mína fyrstu íbúð og voru þá hámarkslán 9 milljónir (íbúðarverðið var nú svoldið hærra þannig að 90% lánið endaði í raun sem 85% lán) sú tala var ekki verðtryggð sem hlýtur þá að þýða að verði hafi beinlínis verið haldið niðri. Enda var íbúðarverð á íslandi langt undir því sem gerðist í nágrannalöndum þrátt fyrir hærri byggingarkostnað. Á þessum tíma fékk tíðlega heimsóknir erlendis frá og voru flest þeirra alvarlega að hugsa um að kaupa sér íbúð á íslandi þar sem þær voru svo fáránlega ódýrar. 

Þegar verið að segja að það sé rugl að lána 90% er verið að segja að öll nágrannalöndin hljóti að vera fífl, enda er í flestum þeirra hægt að fá 90% lán fyrir kaup á fyrstu íbúð. Síðasta dæmið sem ég veit um er frá Noregi þar sem ung kona með árslaun uppá 350.000 nkr. fær lán uppá 1,5 miljónir til kaupa á íbúð. Finnst þér það rugl? Hvað finnst samfylkingarmönnum eðlilegt að lána mikið af íbúðarverði ef þeim finnst svona mikið vitlaust að lána 90% fyrir fyrstu íbúð?

Mér leiðist blammeringar og myndi óska að stjórnmálamenn létu af þeim nú á síðustu og verstu.

Jón (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 09:54

3 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Þú virðist vera orðinn örlítið áttavilltur Dofri. Framsókn er á miðjunni og hefur alltaf verið. Framsókn mun hirða af ykkur fylgið eins og að plokka fiður af gæs. Verst að það er erfitt að vita í hvaða átt þarf að fara til að sækja það. Á að sækja það til hægri kratanna, kvennalistans, þjóðvaka, hófsömu Allaballanna eða Evrópusinnanna?

Það að endurtaka ósannindi nægilega oft gerir þau ekkert sannari. Framsóknarmenn hafa ætíð stutt hugmyndir sem stuðlað gætu að meiri atvinnu á Íslandi og var hugmyndin um alþjóðlega fjármálamiðstöð þar á meðal. Ég man þó ekki betur en að fleiri flokkar hafi verið á þeim vagni. 

9. Skapa hagstætt rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki í fjármálaþjónustu sem standist
fyllilega samkeppni við það sem best gerist í öðrum löndum. (kosningastefnuskrá Samfylkingar 2007)

Flestir kannast við slagorðið „Ísland sem alþjóðleg fjármálamiðstöð“. Það hljómar vel en enn sem komið er það einungis framtíðarsýn. Fjölmargt þarf að gera ef takast á að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. (Ágúst Ólafur Ágústsson).

Sú mýta sem Samfylkingin hefur ítrekað reynt að klína á Framsókn er að 90% lánin hafi komið af stað fasteignabólunni er eins og allir þeir sem kynnt hafa sér málið vita ósönn. 

Árið 2004 stóð ekki til að innleiða 90% Íbúðalánasjóðs fyrr en vorið 2007 - og þá í áföngum og ef efnahagslegar aðstæður leyfðu. Íbúðalánasjóður fékk ekki lagaheimild til allt að veita allt að 90% lán fyrr en í desember 2004 - löngu eftir 100% lán bankanna. Einnig takmörkuðust lán Íbúðalánasjóðs  af brunabótamati og lágri hámarksfjárhæð og voru því sjaldnast raunveruleg 90% lán.  Lán bankanna takmörkuðust hins vegar ekki við brunabótamat - og engar hámarksfjárhæðir. Ástæða þess að Íbúðalánsjóður hóf að veita 90% lán í desember 2004 en ekki vorið 2007 var sú að bankarnir höfðu að engu tekið tillit til efnahagsástandsins og þenslunnar í taumlausum útlánum sínum þar sem krafa var gerð að lán Íbúðalánsjóðs yrðu greidd upp - og því skipti engu máli hvort hófleg lán Íbúðalánasjóðs væru 90% eða lægri. Bankarnir tryggðu öllum - nema landsbyggðinni - 90% - 100% lán - þannig að þensluáhrif ÍLS lána voru engin - umfram það ástand sem bankarnir höfðu þegar skapað.

Enn ein ósannindin sem að þið í Samfylkingunni eruð enn að þrjóskast við er Kárahnjúkavirkjun. Hún hafði vissulega þensluáhrif en þau þensluáhrif voru á köldu svæði sem að var svo kalt að í stað þess að 80% vinnuaflsins yrðu Íslendingar urðu þeir einungis 20%. Allt tiltækt vinnuafl dansaði í kringum gullkálfinn á SV horninu í boði bankanna sem útdeildu lánum hægri og vinstri. Kárahnjúkavirkjun er líklegast að skila um 20 miljörðum inn í þjóðarbúið árlega og fer sá hlutur vaxandi með hverju árinu sem líður. Við eigum þá eitthvað til að flytja út núna á þessum síðustu og verstu tímum. Ég vil einnig gera athugasemd við forskeytið "risa". Risa álver eru um 1 miljón tonn að stærð þannig að Reyðarfjarðar álverið er rétt um meðalstærð.

Hvað loftbólurnar varðar þá verður hver sannleikanum sárreiðastur. Ísland þarf ekki á flokki gasprara og lýðskrumara að halda. Þið ættuð að andskotast til að bretta upp ermar og reyna að framkvæma eitthvað af því sem þið eruð búin að lofa af stefnuskránni sem að þið kóperuðuð frá Framsókn og slettuð rauðum lit yfir. Hættið þessari sýndarmennsku og farið að vinna.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 20.3.2009 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband