Grafarvogsbúum sýndur fingurinn

Á þriðjudaginn var tæplega 60 ára gamall vatnstankur á Hallsteinshöfða ofan við Gufunes í Grafarvogi rifinn niður. Það var gert án samráðs við íbúa sem í átakinu 1, 2 og Reykjavík settu í 1. sæti ósk um að ofan á tankinum yrði útbúinn útsýnispallur með nestisaðstöðu, grindverkum og skiltum sem sýndu helstu örnefni á Sundunum, upplýsingar um náttúru svæðisins, sögu tanksins og áburðarverksmiðjunnar sem hann tilheyrði.

Vatnstankur vefur2 Árni Tryggvason

Hverfisráð Grafarvogs bókaði af þessu tilefni á miðvikudaginn var:

Í átakinu 1, 2 og Reykjavík var sérstaklega leitað eftir ábendingum íbúa um það sem mætti betur fara í nærumhverfinu. Þúsundir ábendinga bárust en það sem sett var efst á listann af íbúum Grafarvogs var að útbúa útsýnispall ofan á vatnstankinum á Hallsteinshöfða. Á fundi með íbúum 12. apríl 2008 lofaði borgarstjóri að þessi framkvæmd yrði sett í sérstakan forgang. Í ágúst 2008 kom í ljós að embættismenn borgarinnar höfðu gert mýflugu úr úlfalda - búið var að smækka hugmyndir íbúa niður í garðbekk og ruslafötu og til stóð að rífa vatnstankinn. Hverfisráð Grafarvogs leiðrétti þennan misskilning skilmerkilega, m.a. með bókun 18. ágúst, og fékk loforð um að Vatnstankurinn rifinnvatnstankurinn yrði ekki rifinn og að bygging útsýnispalls á Hallsteinshöfða yrði útfærð í nánu samráði við Hverfisráðið. Hverfisráðið ítrekaði bókun sína 10. febrúar sl. en það næsta sem íbúar og Hverfisráðið vita er að í gær var búið að jafna umræddan vatnstank við jörðu. Á sama tíma og í orði kveðnu átti að fara fram samráð um þessa framkvæmd var í raun verið að undirbúa niðurrif tanksins.

Þetta er undarleg framkvæmd á samráðsverkefninu 1, 2 og Reykjavík - þessi vinnubrögð eru til skammar og Hverfisráðið fordæmir þau.

Af gefnu tilefni lagði Samfylkingin þessa fyrirspurn fram í borgarráði í gær:

Fyrirspurn um Vatnstank í Grafarvogi
Í fyrrakvöld var rifinn vatnstankur frá tímum Marshall-aðstoðarinnar í Grafarvogi. Þetta var gert þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar borgaryfirvalda, samþykktir hverfisráðs Grafarvogs og óskir íbúa um að vatnstankinum mætti umbreyta í frábæran útsýnisstað og gullmola í hverfinu. Sú hugmynd var ein þeirra sem eindregnasta stuðninginn fékk í íbúasamráðinu 1, 2 og Reykjavík.

Spurt er:

  • Hver tók ákvörðun um rif vatnstanksins?
  • Hver er afstaða borgarrstjóra til þess?
  • Hvernig verður unnið úr þeim skaða sem orðinn er og hverjar eru fyrirætlanir um svæðið?
  • Hvers vegna hefur óskum íbúa úr 1, 2 og Reykjavík ekki verið fylgt eftir?
  • Hver hefur umsjón með eftirfylgni verkefnisins?
  • Hvað líður ákvörðunum um einstök verkefni og hugmyndir úr 1, 2 og Reykjavík?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Þannig að Samfylkingin vildi ekki að hlustað yrði á kvartanir þeirra foreldra í nágrenninu sem höfðu áhyggjur af öryggi barna sinna og taldi sig geta meið steypuna í betra ásigkomulagi en sérfræðingar borgarinnar. Frekar að skjóta fyrst í fjölmiðlum og spyrja svo...

Gestur Guðjónsson, 21.3.2009 kl. 12:49

2 Smámynd: Morten Lange

Kannski er eitthvað til í þessum ábendingum Gests, en ekki er mikið kjöt á beinunum.  Og af hverju þennan háðstónn ?  Mér synist nokkuð skýrt frá því sem Dofri segir að ekki sé búið að upplýsa Hverfisráðið um breytta sýn, né um áform um að rifa. Og kannski var þeim ekki einu sinni upplýst um áhyggjur þessara foreldra ? 

Hvað varðar hættur sem stafa að börnunum, þá væri _mögulega_ nær að bæta umferðaröryggi þarna í grennd og bæta aðgengi til göngu og hjólreiða.  Til dæmis með því að lækka hámarkshraða, planta tré og runnar sem mundi mynda skjól fyrir notendur stíga og róa bílstjóra niður ?

Morten Lange, 22.3.2009 kl. 17:59

3 Smámynd: Dofri Hermannsson

Það kemur nú úr hörðustu átt að meirihlutinn (Gestur Guðjónsson) tali um að skjóta fyrst og spyrja svo. Í fyrsta lagi hefur vatnstankurinn verið þarna í 60 ár án þess að valda nokkrum fjörtjóni. Í kringum tankinn og í klettunum í nágrenninu hafa börn leikið sér allt frá því hverfið byggðist fyrir um 15 árum.

Enginn vandi var að fara að óskum íbúa og setja á tankinn handrið, bekki og borð, það var hvorki dýrt né erfitt. Þess í stað var tekin ákvörðun um að rífa tankinn og sú ákvörðun var tekin án samráðs við íbúa þrátt fyrir loforð um hið gagnstæða. Það er erfitt að réttlæta svona framkomu við íbúa og eðlilegt að Gesti gangi það illa.

Það væri miklu betra hjá honum og meirihlutanum að segja hreinlega eins og er: Við höfum komið illa fram við íbúa, þetta var afar klaufalegt, okkur urðu á mistök og við viljum gjarna bæta úr þeim í samvinnu við íbúa hverfisins.

Dofri Hermannsson, 22.3.2009 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband