Glapræði Geirs

Geir H Haarde útilokar ekki að önnur eins stórvirkjun og Kárahnjúkavirkjun rísi á Íslandi. Það eru nokkur tíðindi því eini möguleikinn á annarri eins virkjun er að virkja Jökulsá á Fjöllum. Var ekki meiningin að hún yrði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði? Má ráða af orðum forsætisráðherra að það sé engan veginn fast í hendi?

Forsætisráðherra segir að við verðum að draga lærdóm af því hvernig til tókst og jafnframt að það væri glapræði að segja skilið við þá stefnu að nýta orkulindir þjóðarinnar. Ef forsætisráðherra væri unnt að draga lærdóm af Kárahnjúkavirkjun þá myndi hann ekki tala af jafn fullkomnu skeytingar- og skilningsleysi um afleiðingar stóriðjustefnunnar og hann gerir. Öllum sem fylgst hafa með framkvæmd þeirrar stefnu undanfarin ár er ljóst að Kárahnjúkavirkjun er eitt stórt glapræði frá upphafi til enda.

Virkjunin var keyrð í gegn á ofurhraða, gegn úrskurði Skipulagsstofnunar sem taldi óafturkræf umhverfisáhrif of mikil og hraðann á framkvæmdinni of mikinn. Greinargerð vísindamanns sem varaði við hættum tengdum virkjuninni var stungið undir stól og honum bannað að tjá sig. Greinargerðinni sem var sérstaklega ætluð Alþingi var með ólögmætum hætti haldið leyndri þangað til Alþingi hafði gefið samþykki fyrir virkjuninni. Hér er fátt eitt upp talið.

Þjösnaskapur og yfirgangur stjórnvalda hafa frá upphafi til enda einkennt framkomu stjórnvalda. Ríkisstjórnin hélt úti sérstökum vef þar sem andstæðingar virkjunarinnar máttu þola ósvífnar órökstuddar persónulegar árásir. Allt var á sömu bókina lært frá upphafi til enda en flestum ætti að vera í fersku minni framkoma lögreglunnar gagnvart mótmælendum og sárasaklausu ofurvenjulegu ferðafólki á slóðum Snæfells síðastliðið sumar.

Það sem Geir H Haarde þyrfti að læra af Kárahnjúkavirkjun er að aldrei aftur má fara fram af slíkum  hroka og valdfirringu og ríkisstjórnin hefur gert undanfarin ár. Ekkert bendir þó til að forsætisráðherra hafi lært slíka lexíu. Næsta ofbeldisverk stóriðjuaflanna er skammt undan brátt verða eignarlönd og heimili bænda við Þjórsá tekin eignarnámi til að búa til álbræðslurafmagn í Hafnarfirði. Geir mun vísast telja glapræði að gera það ekki. Hann hefur ekkert lært.

Það er glapræði að halda áfram á þessari braut. Nú þarf að kortleggja náttúru Íslands með tilliti til verndargildis og tryggja verndun verðmætra svæða, þeirra verðmætustu með lögum. Þetta hefur Samfylkingin lagt til í Fagra Íslandi - stefnu sinni og tillögum í náttúru- og umhverfisvernd. Þar er lagt til að strax verði ráðist í Rammaáætlun um náttúruvernd og niðurstaða þeirrar heildarmyndar verði lögð til grundvallar í heildarskipulagi landsins.

Á næstu árum þarf að kæla niður ofhitnað hagkerfið. Það er því einstakt tækifæri til að ráðast í Rammaáætlun um náttúruvernd strax á næsta kjörtímabili. Við kynningu á Fagra Íslandi sagði Ingibjörg Sólrún, formaður Samfylkingarinnar, að Fagra Ísland yrði eitt af grundvallarmálunum í stjórnarmyndunarviðræðum ef flokkurinn kemst í aðstöðu til. Náttúruverndarfólk verður að tryggja að svo geti orðið. Nýtum við ekki þetta einstaka tækifæri er óvíst að það gefist aftur fyrr en of seint.


mbl.is Ekki líkur á að önnur stórvirkjun rísi segir forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eruð þið ekki hræsnarar? Mig mynnir að flestir þingmenn Samfylkingarinnar hafi stutt Kárahnjúkavirkjun(örfáir sátu hjá), skjátlast mér?

JJ (IP-tala skráð) 31.12.2006 kl. 00:18

2 identicon

Þórunn Sveinbjarnardóttir og Rannveig Guðmundsdóttir úr Samfylkingu greiddu atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun. Aðrir Samfylkingarþingmenn greiddu atkvæði með henni að undanskildum Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Sigríði Jóhannesdóttur og Guðmundi Árna Stefánssyni sem voru fjarstödd. Aftur á móti sat enginn frá Samfylkingunni hjá (í þeim skilningi að hafa verið viðstaddur atkvæðagreiðslu en ekki greitt atkvæði). Það hvernig atkvæði féllu má sjá hér:

http://www.althingi.is/altext/127/04/l08153847.sgml

Svo er eitt sem hafa mætti í huga. Þeir sem koma hreint fram og segja sína skoðun umbúðalaust eru ekki hræsnarar. Þess vegna er Dofri ekki hræsnari enda hefur hann aldrei stutt stóriðjustefnuna nema síður sé. Það að innan Samfylkingarinnar sé að finna fólk, sem stutt hefur Kárahnjúkavirkjun, merkir auðvitað ekki að aðrir flokksmenn séu sviptir málfrelsi og geti ekki tjáð sig um þessi mál.

Hér kemur annars áhugaverður vinkill - munurinn á Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum í þessum efnum. Innan síðarnefnda flokksins virðist sem fólk sé svipt málfrelsi þegar forystan hefur tekið ákvörðun. Það var til dæmis alveg furðulegt, þegar Fréttablaðið tók frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík tali, að enginn þeirra gat einfaldlega sagt að stuðningurinn við Íraksstríðið hefði verið mistök. Allir sögðu eitthvað á þá leið að ákvörðunin hefði verið rétt í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga eða eitthvað í þá veruna. Ég get varla trúað því að þetta sé raunverulega skoðun alls þessa fólks og hef því á tilfinningunni að fólk þori bara ekki að tjá sig opinskátt um viss mál innan Sjálfstæðisflokksins. Þannig er Samfylkingin sem betur fer ekki.

Þórður Sveinsson (IP-tala skráð) 1.1.2007 kl. 23:15

3 Smámynd: Dofri Hermannsson

Mér fannst Ingibjörg Sólrún lýsa þessu ágætlega í viðtali í haust þegar hún sagði Samfylkinguna vera spegilmynd Sjálfstæðisflokks þegar kæmi að náttúruvernd og stóriðju. Samfylkingin væri náttúruverndarflokkur þar sem líka fyrirfinndust stóriðjusinnar. Sjálfstæðisflokkurinn væri hins vegar stóriðjuflokkur þar sem vissulega fyrirfinndust náttúruverndarsinnar. Málfrelsi í Sjálfstæðisflokki hefur hins vegar ekki verið hátt skrifað til þessa og því eru náttúruverndarsinnarnir ekki margir, því miður.

Dofri Hermannsson, 2.1.2007 kl. 00:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband