3.1.2007 | 22:01
Sendu nú Gullvagninn.....
Þær eru orðnar dýrar uppsagnirnar hjá Alcan
Stutt er síðan Alcan rak fyrirvaralaust 3 starfsmenn sem höfðu starfað hjá álverinu í Straumsvík í þrjá áratugi. Þessir starfsmenn munu hafa staðið fremstir í baráttunni við að keyra upp skálann sem datt út í vor og sparað fyrirtækinu með því hundruð milljóna króna.
Starfsmennirnir sem eru um sextugt og hafa unnið í álverinu helming ævinnar höfðu það eitt til saka unnið að vera að öðlast rétt til flýttra starfsloka sem hefði kostað fyrirtækið um 1,5 milljónir á ári í 3 ár. Áunninn réttur eftir áratuga langa þjónustu við fyrirtækið - réttur sem var settur inn sem gulrót til að tryggja að mennirnir verðu öllum sínum bestu árum hjá fyrirtækinu.
Þessir 3 starfsmenn eru ekki sérstök tilfelli - Alcan hefur á núverandi kjarasamningstíma sagt upp 9 starfsmönnum í þessari stöðu.
Blaðafulltrúa Alcan þótti hins vegar ekki nógu illa farið með mennina að reka þá án skýringa eftir ævistarfið heldur fór hann í fjölmiðla og lét í veðri vaka að fyrirtækið vissi ýmislegt misjanft um þessa menn. Af því að fyrirtækið væri svo siðprútt vildi hann hins vegar ekki segja hvað það væri sem mennirnir höfðu gerst sekir um. Þetta er ekki bara rógburður af verstu sort heldur líka alveg einstök hræsni.
ASÍ undirbýr málsókn á hendur Alcan þar sem þess er krafist að fyrirtækið leggi fram sannanir fyrir þeim ávirðingum sem það telur sig hafa á starfsmennina, að fyrirtækið standi við loforð sín um réttindi starfsmannanna og sýni samfélagslega ábyrgð gangvart fullorðnum starfsmönnum sínum. Starfsmennirnir hafa sent frá sér yfirlýsingu um að þeir hafi aldrei fengið neinar athugasemdir við störf sín hvorki munnleg eða skrifleg.
Þessar uppsagnir hafa nú þegar kostað Alcan stórfé. Það sést glöggt á því hvað þeir telja nauðsynlegt að setja marga tugi milljóna til að kaupa sig upp í áliti í bænum. Það verður hins vegar erfitt. Svona framkoma gagnvart þeim sem hafa gefið fyrirtækinu sín bestu ár er eitthvað sem fólk á erfitt með að fyrirgefa.
Fólk gleymir því ekki þótt fyrirtækið ausi peningum í samfélagssjóð, reyni að kaupa sér velvild íþróttafélaganna, veiti bjartsýnisverðlaun, kaupi flugeldasýningu Björgunarsveitarinnar, gefi öllum heimilum (líka þessum 9) geisladisk og dagatal með áláferð eða kaupi Óperukór Hafnarfjarðar og starfsmenn til að vera andlit sitt út á við í óvenju falskri og misheppnaðri ímyndarauglýsingu. Það er einfaldlega skrambi dýrt fyrir fyrirtæki eins og Alcan að sýna sitt rétta andlit. Ég er alls ekki viss um að fyrirtækið hafi efni á því - þótt ríkt sé!
Nánari upplýsingar um stöðu deilunnar má finna á heimasíðu Rafiðnaðarsambandsins
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.1.2007 kl. 07:26 | Facebook
Athugasemdir
Djöfull er ég sammála þér!
Kv,
Ketilbjörn
Ketilbjörn (IP-tala skráð) 4.1.2007 kl. 01:07
Frábær pistill, sem segir allt er segja þarf. Rannveig Rist er væntanlega strengjabrúða í höndum Alcan-hringsins-mikið hroðalega hefur sú kona fallið í áliti; frá því að vera Valkyrja og fyrirmyndarstjórnandi í þessa hörmung. Dapurt. Kv. Ragnar Gunnarsson
Ragnar Gunnarsson (IP-tala skráð) 4.1.2007 kl. 16:50
Vona bara að þetta komi allt uppá borðið og Alcan þurfi að gjalda. Það þarf að sýna að svona komast menn ekki upp með þrátt fyrir mikla peninga.
Birna M, 4.1.2007 kl. 21:44
Frábær pistill hjá þér. Ætli þetta sé ekki stundað í fleiri fyrirtækjum en þessu. Það er til skammar hvernig mörg fyrirtæki fara með starfsmenn sína er yfirmenn telja að ,,, aldur sé komin á viðkomandi,,,.
Sigrún Sæmundsdóttir, 4.1.2007 kl. 22:20
Svona uppsagnir hafa verið áberandi í stóriðjunni, ekki bara hjá Alcan, þar sem erlend stórfyrirtæki hafa eignast ráðandi hlut í rekstrinum. Meðan fyrirtækin voru í eigu Íslendinga sýndu þau samfélagslega ábyrgð og voru til fyrirmyndar varðandi allan aðbúnað og framkomu við starfsfólk. Hvergi var betra að vinna. En þessi þáttur gleymdist alveg í "einkavæðingartryllingi" stjórnvalda. Einkavæðingin fólst í að selja fyrirtækjum sem eru stærri en íslenska ríkið fabrikkurnar, og Þau láta sig engu varða samfélagslega þáttinn í rekstri stórfyrirtækja í litlu samfélagi. Hugsa bara um hagnaðinn. Þarna held ég að mikil verðmæti hafi farið forgörðum. Nú er svo komið að "félagsleg mengun" er orðin vandamál í stóriðjunni, ekki síður en umhverfismengunin sem mest er talað um. Þekki það úr mínu bæjarfélagi.
Bjarni Gunnarsson, Akranesi (IP-tala skráð) 5.1.2007 kl. 09:23
Bjarni Gunnarsson hér að ofan hefur greinilega misskilið hlutina eitthvað. ISAL, nú ALCAN hefur aldrei verið í eigu Íslendinga, hvað þá í eigu hins opinbera.
Keli, elsku kallinn minn. (The K) Það eru að minnsta kosti dæmi um 30 til 50 manns á síðustu árum sem hefur verið sagt upp og vísað af svæðinu samstundis án þess að hafa nokkuð til saka unnið. Einn þeirra er móðir mín. Mér er skapi næst að fara að blogga dagbókina sem við héldum og fá fólk til að lesa um framkomu þá sem viðgengst þarna innandyra. Það er hægt að stofna samtök fólks sem hefur verið rekið frá Álverinu, slíkur er fjöldinn.
Sendið hvatningar eða latningar um opinbera birtingu dagbókarinnar á unnar_ms@hotmail.com
Unnar (IP-tala skráð) 5.1.2007 kl. 14:14
Það er rétt, ég þakka Unnari fyrir ábendinguna. Nafnið Íslenzka álfélagið villti um fyrir mér.
Ég vil þó taka fram að ég er að vísa til annarra fyrirtækja líka sem íslenska ríkið hefur selt, svo sem Járnblendið. Kjarninn í athugasemdinni er sá að einstaklingurinn gleymist í hinni alþjóðlegu stórfyrirtækjavæðingu sem nú hefur staðið yfir í heiminum í nokkur ár. Og ég held reyndar að sala Svisslendinganna sem áttu ÍSAL til Alcan-samsteypunnar sé hluti af þeirri þróun.
Og athyglisverðast þykir mér að þeir sem tala mest fyrir einstaklingsfrelsi í samfélaginu eru ákafastir í að selja fyrirtækin.
Kv. Bjarni
Bjarni Gunnarsson (IP-tala skráð) 5.1.2007 kl. 15:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.