Komið nóg?

Á sínum tíma sluppu virkjanahugmyndir í neðri Þjórsá fram hjá augum náttúruverndarfólks. Það átti fullt í fangi með að standa gegn virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka og að hrinda hverri árás Landsvirkjunar á fætur annarri inn í Þjórsárver. Þess vegna fóru allar þrjár virkjanirnar í gegnum umhverfismat og fengu jákvæða niðurstöðu úr því.

Í vetur dró núverandi viðskiptaráðherra Björgvin G Sigurðsson upp úr þingmönnum fyrrverandi ríkisstjórnar með sérstakri umræðu í þinginu að ekki yrði beitt eignarnámsheimildum gegn landeigendum sem ekki vildu semja við Landsvirkjun um lönd sín. Það var visst áfall fyrir Landsvirkjun sem þá hafði reynt að semja við landeigendur við eldhúsborð hvers og eins með ósagða hótun um eignarnám hangandi yfir höfðum þeirra.

Landsvirkjun hefur hingað til hagað sér eins og ríki í ríkinu. Eitt það fyrsta sem forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokk þurfti að gera var að taka við símtali frá forstjóra Landsvirkjunar sem krafðist skýringa á að ríkisstjórnin ætlaði að stækka friðlandið í Þjórsárverum. Þetta þótti fréttaefni og fylgdi fréttinni að forstjórinn hefði farið fram á fund hið fyrsta bæði með forsætis- og iðnaðarráðherra.

Þetta er merkilegt þegar haft er í huga að Landsvirkjun er í raun bara ein af stofnunum ríkisins. Ekki bárust neinar fréttir af því að forstjórar Íbúðalánasjóðs, Tryggingarstofnunar eða ríkisspítalanna hefðu hringt í forsætisráðherra á fyrsta starfsdegi nýrrar ríkisstjórnar. Þó höfðu allir þessir aðilar jafn mikla ástæðu eða meiri en forstjóri Landsvirkjunar til að biðja um svör við ýmsum spurningum.

Landsvirkjun er verðmæt sameign þjóðarinnar og ríkinu er falið að gæta vel þeirra verðmæta fyrir hönd þjóðarinnar. Náttúra landsins er líka sameign þjóðarinnar og stjórnvöldum er á sama hátt skylt að gæta þeirra verðmæta sem í henni felast. Þar sem þessi verðmæti skarast verða stjórnvöld að skera úr um hvað skal gera.

Viðhorf landsmanna til virkjana hafa verið að breytast og því er fullkomlega eðlilegt að endurskoða heimildir ríkisstofnunarinnar Landsvirkjunar til að ganga á sameignlega auðlind landsmanna - náttúru landsins. Ríkisstofnunin Landsvirkjun verður að gera sér það að góðu þótt hún fái ekki áfram frítt spil hvað varðar virkjunarkosti í landinu.

Einhvern tímann verður komið nóg og það er að sjá af umræðu um virkjanir í neðri Þjórsá og þessum síðustu ákvörðunum sveitastjórnar Flóahrepps að fólki finnist sá tími vera að nálgast.


mbl.is Flóahreppur hafnar Urriðafossvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Og samkvæmt fréttum í dag er Landsvirkjun búin að neyða Flóahreppsnefnd til að leggja fram tvær tillögur að deiluskipulagi fyrir íbúana. Hvað er hægt að gera?

María Kristjánsdóttir, 15.6.2007 kl. 16:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband