Reiður og rökþrota bæjarstjóri

Sannleikanum er hver sárreiðastur, það sannast á grein Ragnars Jörundssonar bæjarstjóra Vesturbyggðar sem hann birti á fimmtudag í 24 stundum, á bloggsíðu sinni og á vef BB. Ekki er gott að átta sig á því hvort hann varð fyrst rökþrota og svo reiður eða öfugt en hitt er víst að þetta tvennt fer oft saman. Ekki dettur mér í hug að svara ávirðingum Ragnars í sömu mynt en fer frekar að ráðum ömmu minnar heitinnar fyrir vestan sem sagði að maður ætti ævinlega að vera kurteis, ekki síst við dónalegt fólk. 

Viðkvæmar tær
Með bloggfærslu, byggðri á gamansögu um huldumenn Ólafs Egilssonar áhugamanns um olíuhreinsistöð, virðist ég hafa stigið með kvalarfullum hætti á viðkvæmar tær bæjarstjórans. Einkum virðist hann viðkvæmur fyrir þeirri spurningu hvort hinir meintu sterku bakhjarlar Ólafs geti ekki borgað sjálfir þær rannsóknir sem Ólafur pantar sbr. ummæli framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Vestfirðinga í fréttum Rúv 13. desember sl.

"Skýrslurnar eru náttúrulega skrifaðar líka að beiðni Íslenska hátækniiðnaðar sem að hefur óskað eftir að kanna aðstæður fyrir olíuhreinsunarstöð og þeir hafa fengið þessi gögn afhent núna."

Það er gilt sjónarmið út af fyrir sig að nota skuli fé Fjórðungssambandsins til að kosta forathuganir fyrir framkvæmdaraðila. Hitt er undarlegra að vera í einni og sömu greininni fylgjandi því og neita að það hafi verið gert.

Á móti framförum
Bæjarstjórinn beitir alkunnri röksnilld þegar hann veltir fyrir sér hvort ég sé ekki einfaldlega á móti Vestfirðingum og framförum á Vestfjörðum almennt því ég gagnrýni hugmyndir hans um olíuhreinsistöð, hafi gagnrýnt veglagningu um Teigsskóg og örugglega verið á móti Gilsfjarðarbrúnni. Það er gaman að hann skyldi nefna Gilsfjarðarbrúnna því hún er ágætt dæmi um það hvernig ráðamenn geta snuðað samfélagið með því bregðast ókvæða við málefnalegri gagnrýni. Hægt var að leggja Gilsfjarðarbrú innar, halda eðlilegum vatnaskiptum í firðinum og leggja góðan uppbyggðan veg yfir í Kollafjörð fyrir svipaða fjárhæð og brúin kostaði. Með því hefðu ekki aðeins búsvæði Reykhóla og Búðardals tengst heldur líka Hólmavíkur en um 45 km eru til hvers þessara bæja frá Gilsfjarðarbotni. Varla held ég að félagar Ragnars í Fjórðungssambandi Vestfirðinga Hólmavíkurmegin telji mig vera á móti sér þótt ég segi þetta - enda skynsamir rólyndismenn.

Misgóðar hugmyndir
Staðreyndin er sú að olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum er vond hugmynd fyrir flesta nema hina meintu bakhjarla Íslensks hátækniiðnaðar. Í fyrsta lagi breytir risaverksmiðja ekki þeirri þróun að ungt fólk, sér í lagi konur, sækja í fjölbreyttari tækifæri til mennta og starfa, í öðru lagi sýna skýrslur RHA að ekki verður hægt að manna stöðina og síðast en ekki síst er olíuhreinsunarstöð vond hugmynd frá umhverfissjónarmiðum þar sem hún er afar mengandi iðnaður og skapar stóra hættu á alvarlegu olíuslysi við Vestfirði. Ef Ragnar langar að verða bæjarstjóri í einhæfu olíuvinnslusamfélagi væri nær fyrir hann að leita eftir slíkri stöðu á borpöllum í Norðursjó.

Háskóli á Vestfjörðum tel ég hins vegar að gæti verið góð hugmynd sem myndi auka fjölbreytileikann, hækka menntunarstigið og styrkja svæðið sem búsetukost í huga ungs fólks. Bættar samgöngur erum við Ragnar sammála um að eru nauðsynlegar til að efla byggðir landsins og gott til þess að vita að flokkurinn okkar hefur ákveðið að flýta samgöngubótum á Vestfjörðum.

Ég vona að bæjarstjórinn taki því ekki persónulega en ég held að fyrir umræðuna um byggðamál væri dálítið lesefni, t.d. um reynslu annarra þjóða af risaverksmiðjum sem ráði við fólksfækkun á landsbyggðinni líka góð hugmynd.

Með góðum þrettándakveðjum til allra Vestfirðinga, einkum þó Ragnars Jörundssonar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Hver er þá munurinn á því sem gerðist núna fyrir austan þegar eitt stykki álveri er plantað þar, með þeirri velmegun sem hefur átt sér þar stað og síðan því að planta einu stykki olíuhreinsunarstöð fyrir vestan?

Magnús V. Skúlason, 5.1.2008 kl. 19:56

2 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Heill og sæll Dofri!

Ég las af athygli þessi skrif þín og velti fyrir mér hver þekking þín er á þessu landssvæði þarna fyrir vestan. Margt af því sem þú segir kemur gömlum vestfirðing undarlega fyrir sjónir. Hvar vildir þú fara með veginn frá Gilsfjarðarbotni til Hólmavíkur? Hvernig vildir þú hafa veginn út með Gilsfirði að norðanverðu? Hvar vildir þú fara með veginn yfir Kollafjörð? Hvað telur þú að olíuflutningar til hreinsunarstöðvar á Vestfjörðum verði stór hluti þeirra olíuflutninga sem fara munu um Grænlandssund á komandi tímum? Hvernig sérð þú fyrir þér að háskólamenntað fólk skapi gjaldeyristekjur til að viðhalda þeim lífskjörum sem við höfum haldið uppi undanfarna áratugi með stöðugt vaxandi skuldsetningu?

Forvitni mín um þessa þætti stafar ekki síst af því að ég var vöruflutningabílstjóri milli Vestfjarða og Reykjavíkur á árunum 1968 - 1975. Á þeim tíma kynntist ég þessu svæði afar vel og var m. a. þátttakandi í að leggja fram tilllögu til Vegagerðarinnar um vegastæði frá Saurbæ í Dölum og allt að Skálanesi, auk vegastæðis yfir í Ísafjarðardjúp. Ég er því forvitinn að heyra frekar af hugmyndum þínum

Guðbjörn Jónsson, 5.1.2008 kl. 21:16

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Við Dofri erum samherjar þegar kemur að flestu því sem viðkemur umhverfismálum. Ég hef hins vegar ekki skipt um skoðun varðandi það að þverun Gilsfjarðar er eitthvert mesta framfaramál í samgöngum Vestfjarða og hefði þurft að hafa komið til svo löngu fyrr að það hefði komið í veg fyrir þau mistök að leggja fyrst veg yfir Steingrímsfjarðarheiði.

Með því að setja Steingrímsfjarðarheiði í forgang var því seinkað of lengi að huga að réttustu og stystu leiðinni milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, en hún hefur ætíð að mínu áliti legið um norðurströnd Breiðafjarðar og frá Vatnsfirði í jarðgöngum yfir í Dýrafjörð.

Með því að fara þá leið skapast líka tenging milli norður- og suðurfjarða Vestfjarða og möguleiki á flugvelli á Barðaströnd sem er opinn jafnt að nóttu sem degi en ekki í örfáar klukkustundir á degi hverjum eins og nú er á veturna.

Ég hef ekki séð því mótmælt að ódýrara yrði að setja göng undir Hjallaháls en að kljúfa stærsta birkiskóg Vestfjarða í herðar niður.

Ég held að ég viti hvað ég er að tala um þegar Teigskógur er annars vegar, notaði heilan dag til að ganga hann endilangan og taka kvikmyndir bæði í þeirri göngu og úr lofti, sem aldrei hafa verið sýndar í sjónvarpi.

Bendi á það að það eru ekki aðeins eyjar Breiðafjarðar sem geta orðið undirstaðan í því að gera hann að friðlandi heldur ekki síður strendurnar.

Ómar Ragnarsson, 5.1.2008 kl. 21:33

4 Smámynd: Magnús Jónsson

Ómar: segðu mér eitt hvað er að því að hreinsa olíu á vestfjörðum, við notum olíu, við komum til með að nota olíu, það eru gríðarlegir olíufluttningar á Grænlandssundi nú þegar svo hættan er þegar til staðar á olíuleka, þú og Dofri verðið að get sagt eitthvað annað en að allt fari fjandans til ef hreinsistöð rís á vestfjörðum, með um 450 starfsgildi að því er mér skilst, sem er vel á minnst eitthvað sem Þrymur Sveinsson virðist ekki geta skilið, vestfirðir hafa orðið ylla úti í kvótamálum, ekki bara til sjáfar heldur líka til sveita, það þarf að gera eitthvað í atvinnumálum á vestfjörðum um það er ekki deilt en hví eruð þið á móti nær öllu sem stungið er upp á, að endingu er ég sammála að ekki á að fella Teigaskóg það hlýtur að finnast önnur leið.

Magnús Jónsson, 5.1.2008 kl. 21:55

5 Smámynd: Benedikt V. Warén

Þrymur, enginn vegur hefur lagður í gegnum skóglendi við Lagarfljótið.  Vegurinn var kominn áður en skógi var plantað niður eða kjarrlendi friðað.  Í seinni tíð hafa tré verið felld til að breikka veginn á stöku stað á bökkum Lagarfljóts.

Mér er hins vegar fyrirmunað að skilja umræðuna sem skapast þegar á að gera eitthvað utan við verndaðan hring Reykjavíkurhrepps.  Ekki skil ég hugsun margta hreppsbúa á þörfum landsbyggðarmanna og einlægri ósk margra íbúa þessa lands að vilja búa annarsstaðar en á suðvesturhorninu.  Óska Dofra hins vegar til hamingju með að Össur Skarphéðinsson hafi fengið það viðulega hlutverk að vera þáttakandi í að ræsa Kárahnjúkavirkjun formlega á dögunum

Ómar fer ítrekað þvílikt fram úr sjálfum sér að maður hefur ekki möguleika á að fylgjast með hvað hann er að fara.  Hann hefur til að mynda oft haldið því fram að Kárahnjúkavirkjun verði ónýt eftir nokkra áratugi.  Hann talar um að jöklar bráðni það fljótt að ekkert vatn verði til að knýja vélar og framleiða rafmagn. 

Það kann að vera smá, segi og skrifa smá sannleikskorn í því að vatn fari þverrandi á hálendinu vegna bránðnun jökla.  En hvenær verður svo mikil vatnsþurrð að allar ár hætta að falla til sjávar á Fljótsdalshéraði?

Kárahnjúkavirkjun verður afskrifuð eftir um fimmtíu ár.  Látum liggja milli hluta hvort hún hefur borgað sig eða ekki.  Þá verður nægjanlegt vatn til að keyra til frambúðar eina til tvær vélar á vatni sem safnast vegna úrkomu á svæðinu.  Um langan tíma mun því verða til nægjanlegt vatn til þess að framleiða rafmagn til að sinna þörfum íbúa 150 þúsund manna samfélags, - ef allt fer á vesta veg.

Benedikt V. Warén, 6.1.2008 kl. 09:11

6 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Ég hef að öllu jöfnu verið sammála Ómari Ragnarssyni um flest sem hann hefur tjáð sig um samgöngumál og náttúrufar landsins. Ég dreg stórlega í efa að nokkur þekki landið okkar betur en hann. Af því ég drap á tillögu um vegtengingu til Vestfjarða, sem við unnum nokkrir saman fyrir tæpum 40 árum, ætla ég að renna lauslega yfir veglínuna sem við lögðum til.

Við vildum fara yfir Gilsfjörð eins og vegurinn liggur núna og svipaða línu um Reykhólasveitina og nú er, vegna tenginga við bæina. Við sunnanvert Reykjanesið er afar grunnur fjörður (Berufjörður). Þann fjörð vildum við fara yfir frekar utarlega, með fyllingu og brú til þess að tengja Reykhóla við þjóðbrautina. Á Reykhólum er hiti í jörðu og gífurlega  miklir atvinnumöguleikar þar, ef svæðið væri tengt þjóðveginum. Frá Reykhólum vildum við fara út að Stað á Reykjanesi og þaðan yfir skerjaleiðina yfir í Melanes, sem er rétt sunnan við Skálanes. Þarna er mikið af leiðinni grunnsævi en hefði líklega þurft að reysa tvær brýr sem ekki yrðu óviðráðanlega langar, miðað við það sem þekkt er nú. Kostnaðarhlið þessa verks, með 15 ára rekstrarkostnaði, sýndist okkur að væri lægri fjárhæð en fara svipaða leið og nú er verið að boða, þ. e. um Teigsskóg.

Á þeim tima sem við vorum að velta þessu fyrir okkur var óraunhæft að tala um jarðgöng, vegna mikils kostnaðar við sprengingar. Sem betur fer að slíkt breytt núna. Ég hef lengst af  verið þeirrar meiningar að heppilegast leiðin til að tengja suður- og norðursvæði Vestfjarða vegasambandi, væri að fara með jarðgöng frá hjallanum ofan við Vatnsfjarðarskálan og yfir í Norðdal í Trostansfirði (innfirði í Arnarfirði). Þaðan með ströndinni inn í botn Geirþjófsfjarðar, með jarðgöngum undir Langanes í Arnarfirði, yfir í Dynjandavog og síðan með jarðgöngum rétt utan við virkjunina við Mjólká, yfir í Dýrafjörð. Þegar svo yrðu komin jarðgöng undir Hálfdán (milli Bíldudals og Tálknafjarðar) og síðar Mikladal (milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar), yrði innan við klukkustundar akstur frá Patreksfirði til Ísafjarðar; nánast alla leið á láglendi.

Í Morgunblaðinu í dag, sunnudaginn 6. jan. á bls. 6, er umfjöllun um vegalagningu um þetta svæði þ. e. um Þorskafjörð, Hjallaháls og Teigsskóg. Landakortið af svæðinu gefur fólki tækifæri að sjá fyrir sér leiðina sem við vorum að gera að tillögu okkar. Nú þegar er búið að eyða mikið meiri peningum í vegagerð til Vestfjarða en tillögur okkar gerðu ráð fyrir. Vegasamband er samt enn ófullnægjandi. Menn þurfa að horfa fram fyrir tærnar á sér þegar verið er að fjárfesta til framtíðar.

Guðbjörn Jónsson, 6.1.2008 kl. 14:19

7 Smámynd: Dofri Hermannsson

Sælir Ómar og Guðbjörn.

Ég er sammála því að brú yfir Gilsfjörð var mikil vegabót og veit það frá fyrstu hendi byggðasvæðin beggja vegna fjarðarins hafa haft mikinn styrk af henni. Þarna, eins og ég segi í pistli mínum, var þó hunsuð tillaga um að þvera fjörðin innar, á móts við Múlahyrnu og byggja upp góðan veg norður í Kollafjörð.

Hugmyndin var að fara með veg úr innanverðum Gilsfirði yfir Steinadalsheiði sem er langt um þrisvar sinnum lægri heiði en Tröllatunguheiði. Frá botni eru um 45 km til Hólmavíkur en eins og ykkur er eflaust fullkunnugt um er svæðið frá utanverðum Hrútafirði norður í Steingrímsfjörð ákaflega vondum vegum búið. Þeir vegir gefa verstu vegum á Barðaströnd ekkert eftir. Nú þegar umferð vestur á firði mun í auknum mæli fara um Dalasýslu er hætt við að þetta svæði einangrist enn frekar. 

Hefði vegurinn um Steinadalsheiði verið kominn fyrir 10 árum er ég viss um að byggðasvæðin þrjú, Búðardals- Reykhóla og Hólmavíkursvæðið hefðu öll notið verulegs styrks af þeim samgöngubótum og stæðu sterkari í dag.

Það er svo efni í annan pistil hvernig Vegagerðin hefur hagað sér í vegagerð á Arnkötludal en þar skilst mér á heimafólki að vegurinn hafi ekki einasta verið færður í óleyfi heldur hafi hún lagt veginn á fossbrún, stórskaðað fossinn og vegna úðans sem berst yfir veginn frá fossinum og nálægðar vegarins við brúnina sé vegurinn stórvarasamur. Það ætla ég að vona að Vegagerðin verði undir eftirliti þegar hún fer að taka út vegastæðið í Teigskógi.

Dofri Hermannsson, 6.1.2008 kl. 22:52

8 Smámynd: Magnús Jónsson

Þrymur: Skylningsleisi  : "Og hvað á olíuhreinsistöð og háskólasetur að skapa mörg störf fyrir heimafólkið? Innan við 150 manns." þín orð ekki mín Olíuhreinsistöð ein og sér 450 störf, seinlega atvinnu fyrir um 2000 mans á meðan á uppbyggingu og hafnargerð stendur og það í nokkur ár, ég var í sveit sem gutti á Fífustöðum í Arnarfyrði þegar Hannibal flutti í Selárdal, og Gísli bjó á Uppsölum, man ekki nafnið á listamanninum ( Jósef eða hvað) sem bjó fram á kambinum, en þá var Jón á Fífustöðum með rollur þarna um öll fjöll, og ef einhverstaðar er gott fjárbeitarland þá eru það vestfirðir, en þar sést varla rolla á beit, fór Ketildalina árið 2000 og skelfilega var eyðilegt um að litast þar. Hvað hafa mörg olíuskip strandað við Rotterdam til að mynda, ekki mála skrattann á veggin að lít skoðuðu máli.   

Magnús Jónsson, 6.1.2008 kl. 22:59

9 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæll Dofri!

Ég vissi svo sem að þú værir að tala um Steinadalsheiði, þegar þú talaðir um leið til Hólmavíkur frá botni Gilsfjarðar. Þessi leið var vandlega skoðuð í lok 7. áratugarins. Þetta er í raun ekki heiði, heldur þröngur dalur sem liggur í nokkrum krókum svona nánast í norð-austur og suð-vestur. Þarna getur orðið snarbrjálað rok, enda þessar áttir verstu veðuráttir á þessum slóðum. Það er ástæðan fyrir að ekki var gerður góður vegur þarna í gegn. Þessa leið hefur ætið verið nothæf jeppaslóð en að norðanverðu höfðu árnar ekki verið brúaðar. Ég er sammála þér um að Vegagerðin gerði ótúlegt asnastrik við lagningu vegarins um Arnkötludal.

Magnús!  Listamaðurinn í Selárdal hét Samúel Jónsson.

Guðbjörn Jónsson, 6.1.2008 kl. 23:28

10 Smámynd: Dofri Hermannsson

Takk fyrir þetta Guðbjörn. Það eru til allgóðar upplýsingar um vind á Arnkötludal og Tröllatunguheiði á vef Vegagerðarinnar en því miður sá ég hvergi þessar mælingar sem þú vísar til. Ég þekki Steinadalsheiðina allvel og ekki hef ég neina trú á að það sé minna hvasst á Arnkötludal eða Tröllatunguheiði sem er mun lengri fjallvegur en Steinadalsheiði.  
Vil nota tækifærið og leiðrétta augljósa misritun í athugasemdinni hér að ofan en auðvitað er Steinadalsheiði ekki þrisvar sinnum lægri en Tröllatunguheiði heldur 90 metrum lægri. Í ljósi þess að það er síst verra veður í 330 m hæð á Steinadalsheiði en í 420 m hæð á Trölltunguheiði tel ég að sá fyrri hefði verið heppilegri en sá síðari þegar ákvörðun var tekin um þetta á sínum tíma. Þar réð hins vegar hreppapólitík meiru en veðurathuganir.

Dofri Hermannsson, 7.1.2008 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband