Kapítalismi á krossgötum

Jólabókin á náttborðinu mínu heitir Capitalism at the crossroads, eftir Stuart L. Hart, einn af leiðandi fræðimönnum í heiminum á sviði sjálfbærrar þróunar, grænna viðskipta og umhverfismála. Í bókinni bendir hann á hvernig kapítalisminn, eins og hann hefur verið ástundaður, hefur leitt til arðráns náttúruauðlinda og rúmlega fjögurra milljarða íbúa þróunarlandanna. Hann vill skipta hagkerfum heimsins í þrennt, hið eiginlega peningahagkerfi, hagkerfi samfélagsins og hagkerfi vistkerfisins.

Þeir sem trúa því blint að kapítalisminn sé lausnarorðið í hverjum vanda hafa einblínt um of á peningahagkerfið og í skjóli ofurtrúar á einfaldaðan sannleik hefur hin ósýnilega hönd Adams Smith sagað af til hálfs grein vistfræðilega og samfélagslega hagkerfisins. Það er afar óheppilegt fyrir hið peningalega hagkerfi því án vistkerfis og samfélags er enginn grundvöllur fyrir peningahagkerfi.

Fyrir þá sem vel þekkja hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar eru þetta engin tíðindi en hún gengur einmitt út á að nýta tækifærin í dag með þeim hætti að við takmörkum ekki tækifæri næstu kynslóðar. Þetta kom forsætisráðherra meðal annars inn á í ágætu áramótaávarpi sínu. Líkt og í hugmyndum Harts eru undirstöður sjálfbærrar þróunar einnig þrjár: efnahagur, samfélag og umhverfi. Aðeins þegar þróun er jákvæð á öllum þessum sviðum er hægt að tala um að hún sé sjálfbær.

Afleiðingar þess að kapítalisminn einblínir á peningahagkerfið eru hnignun jarðargæða, einkum ofveiði fiskistofna og skógar- og jarðvegseyðing í þróunarlöndunum sem meðal annars hefur dregið úr hæfni jarðar til að binda kolefni í andrúmsloftinu.

Sú tilhneiging peningahagkerfisins að einblína á þá ríkustu sem viðskiptavini hefur skilið tvo þriðju hluta jarðarbúa eftir á vegferðinni til betra lífs. Þetta hefur víða kynt undir hatri þróunarlanda gagnvart hinum ríku þjóðum. Þegar við bætast herská trúarbrögð verður til ástand sem við þekkjum vel - andrúmsloft hryðjuverkaógnar og sjálfsmorðsárása. Á hvoru tveggja, neikvæðri þróun vistkerfis og samfélags, tapar heildin þótt einhverjir græði um stund.

Skoðun Harts er að fyrirtæki heimsins séu best til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á þessa þróun. Í Capitalism at the crossroads bendir hann á nauðsyn þess að viðskiptalífið víkki sjóndeildarhringinn, leiti út í samfélagið á hverjum stað eftir viðbrögðum og hugmyndum að nýjum og umhverfisvænum lausnum til að skapa hagsæld fyrir jarðarbúa - ekki síst þá tvo þriðju hluta sem hafa það verst. Bókin er í raun handbók fyrir stjórnendur í stefnumótun fyrirtækja og býður upp á leiðbeiningar um það hvernig er hægt að gera allt í senn, að draga úr mengun, efla þróunarlöndin og skila hluthöfum fyrirtækisins auknum hagnaði.

Máli sínu til stuðnings bendir Hart á fjölda dæma þar sem ábyrg stefnumótun í umhverfis- og samfélagsmálum hefur leitt til verðmætrar nýsköpunar. Nýjar og umhverfisvænni framleiðsluaðferðir hafa fært fyrirtækjum samkeppnisforskot og viðleitni til að þjóna markaði þróunarlandanna hefur fætt af sér snjallar leiðir til að lækka verð á vöru og þjónustu.

Það er full ástæða til að hvetja lesendur Viðskiptablaðsins, einkum stjórnendur fyrirtækja, til að kynna sér þessa bók sem sýnir hvernig fyrirtæki heims geta bæði aukið hagnað og haft áhrif til hins betra á gang heimsmála með því að ljá sagandi hönd Adams Smith gleraugu og laga stefnu sína um framtíðarvöxt að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

(Pistillinn birtist einnig í Viðskiptablaðinu í dag)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég hef lengi litið svo á að kapitalisminn eigi að vera hreyfiafl í hverju samfélagi og mér sýnist hann hafa verið það hér á landi um alllangt skeið.

Jafnframt hefur mér sýnst að þetta skilgreinda fyrirbæri hafi verið oftúlkað herfilega og orðið að einskonar annaðhvorteða og keyrt áfram af mótor heimskunnar ámóta og kommúnisminn í Sovét á sínum tíma.

Hvorugt fyrirbærið er algilt sem samfélagsmódel og lífsnauðsyn að bæði séu við skefjar ef ekki á illa að fara.

Sósíalismi hefur aldrei náð að fara úr böndum á Íslandi en sósíalistar unnu á sínum tíma kraftaverk í verkalýðsbaráttunni og eins í kerfi almannatrygginga.

það eitt að rifja upp vökulögin frægu ætti að sýna um hvað er að tefla að halda aftur af kapítalismanum. Kapítalisminn þarf nefnilega ekki síendurnýjuð lagaskilyrði í stjórnsýslunni eins og ýmsir virðast trúa. Honum nægir frjálst viðskiptaumhverfi og þó verður frelsið að vera í böndum ef ekki á illa að fara eins og nú hefur um langt skeið sýnt sig í nýtingu fiskistofnanna.

Ætti sú hörmung ein að nægja til að fólk komist til jarðarinnar.

Svo gripið sé til orða Jóns Baldvins: -Frjálshyggjan er bráðnauðsynlegt hjálpartæki en afleitur húsbóndi. 

Árni Gunnarsson, 4.1.2008 kl. 16:29

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Gleðilegt ár!

Árni Gunnarsson, 4.1.2008 kl. 16:30

3 Smámynd: Sævar Helgason

Flott athugasemd hjá þér Árni Gunnarsson.. hef engu við þetta að bæta.

Gleðilegt nýtt ár 

Sævar Helgason, 4.1.2008 kl. 16:54

4 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Góður pistill og góð athugasemd. Nú horfa menn þessa dagana til hugmynda Björgúlfs Thors um að gera Ísland að einhverju sæluríki alþjóðlegra fjárfesta. Held að það stuðli að "suður-amerískri" samfélagsþróun. Held að betra væri fyrir heimilin í landinu að fá hingað þýskan eða franskan banka, sem býður hliðstæð vaxtakjör og þekkist í Evrópu. Tel að ofurtrú á "athafnaskáldum" okkar erlendis sé að fara úr böndunum ... 

Gunnlaugur B Ólafsson, 4.1.2008 kl. 23:54

5 identicon

Gott umfjöllunarefni - en vísindamenn og umhverfissinnar hafa mikið fjallað um sjálfbæra þróun, Rio-sáttmála sem kenndur er við Gro Harlem Brundtland, gerður 1992 Dagskrá 21 - sem er glóbal-dagskrá og svo staðardagskrá 21 sem er local-dagskrá.

Undir þennan sáttmála skrifuðu Íslendingar. Sjálfbærni kemur inn á mjög marga hluti, til að mynda hagþróun. Ekki þarf að leita út fyrir landsteinana á Íslandi til þess að fá það algerlega staðfest að það eru a.m.k. 2 hagkerfi hér á landi, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu og svo úti á landsbyggðinni. Nú er verið að setja á laggirnar nefnd til þess að fara yfir hugsanlegar úrbætur til þeirra svæða hér á landi sem ekki hafa notið hagvaxtar á þó þessu bullandi hagvaxtarskeiði - skilgreindar jaðarbyggðir.

Stærsta málið er - að það er á forræði sveitarfélaga hvort þær náttúruauðlindir sem innan þeirra eru, eru virkjaðar/nýttar. Þar og takið eftir þar er pottur mjög víða brotinn. Ekki er gerð nein krafa um menntun/þekkingu sveitarstjórnarmanna - né þingmanna. Stjórnvöld þau hin sömu, hafa ekki viðurkennt þann vanda, en þessi vandi hefur orðið til þess að engin eða lítil sem engin þekking á hagkerfi, hagþróun, vistkerfi eða öðru er til staðar þegar jafn stórar ákvarðanir og ákvarðanir um nýtingu náttúruauðlinda liggja fyrir. Síðast í hinu svonefnda REI máli, var auðlindum okkar Reykvíkinga ráðstafað til einkaaðila, í skjóli kunnáttuleysis sveitarstjórnarmanna í ensku.

Við höfum grínast með þetta en..... þetta er grafalvarlegt mál.

Stjórnvöld virðist skorta þekkingu og auðmýkt eða viðurkenningu á því að nýta þurfi sérfræðiþekkingutil löggjafar á þessu sviði sem og ákvarðanatöku um nýtingu auðlinda okkar. Þar má nefna að rammaáætlunum virkjun vatnsafls er til og hefur verið til nokkuð lengi, unnin af færustu vísindamönnum þjóðarinnar. Hefur sú vandasama vinna sérfræðinga verið notuð til ákvarðanatöku um nýtingu auðlindanna? Eða fá skammtímasjónarmið um lausn á atvinnuvanda að ráða?

Einar Ben og Fossafélagið Títan átti öll vatnsréttindi í Þjórsá um árið 1920. Þrátt fyrir löggjöf Alþingis Íslendinga árið 1919 um að vatn skyldi í almannaeign, fannst glufa á þeim lögum sem gerði Títan-félaginu kleift að virkja Urriðafoss ef leyfi sveitarfélagsins (Flóa-hrepps þá), fengist fyrir þeim framkvæmdum. Sveitarfélagið samþykkti þá virkjunarframkvæmd gegn því að Fossafélagið Títan leggði járnbraut frá Reykjavík og að vestari bökkun Þjórsár. Samningur var um það gerður.

Byggja átti fosfór-áburðarverksmiðju við Þjórsárbakka og nýta raforkuna úr Urriðafossi sem orku við framleiðsluna.

AF HVERJU VARÐ ÞÓ ALDREI NEITT AF FRAMKVÆMDINNI?

Jú, því á þessum undirbúningstíma virkjunar og byggingar verksmiðju, höfðu Norðmenn fundið upp nýja leið til framleiðslu á fosfóri, þar sem þeir notuðust við loft.

Þá þarf að breyta löggjöf allri í þessum málum. Byggðamál að fá stærri sess í löggjöf, atvinnusköpun, umhverfismálum og ekki síst jafnréttismálum, ekki bara kynja-jafnrétti heldur jafnrétti allra þegna.

Alma Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 02:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband