Hvað er málið með alla þessa flugelda?

Ég veit svei mér ekki hvað mér á að finnast um alla þessa flugelda.

Flest gæludýr borgarinnar þurfa róandi fyrir gamlaárskvöld og þrettándann, börnin eru skíthrædd við hvellina og aðal sportið hjá okkur fullorðna fólkinu er að við skulum skipulagslaust og hálfslompuð skjóta upp rakettum fyrir svo mörg hundruð milljónir að Kiefer Sutherland geri það að umtalsefni í spjallþáttum.

Vissulega eru margir flugeldarnir fallegir en þegar allir eru farnir að skjóta upp tertum fyrir tugi þúsunda þá verður hver flugeldur bara eins og sandkorn á ströndinni. Auðvitað er það líka hið besta mál að styrkja hjálparsveitirnar en maður hlýtur að spyrja sig hvort það sé ekki hægt að gera eitthvað skemmtilegra og varanlegra fyrir peninginn.

Þá þyrftu gæludýrin ekki róandi, börnin væru ekki hrædd og svifryk væri ekki yfir heilsuverndarmörkum. Ég lýsi hér með eftir hugmyndum.


mbl.is Svifryksmengun yfir mörkum á nýársdag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

gangi þér vel að finna substitude fyrir flugelda. Dofri

Fátt er skemmtilegra en að heyra BOMM.. BANG enda hafa flugeldar verið við lýði í 1000 ár eða meir og eru vinsælir hvar sem er á jarðkringlunni.

Óskar Þorkelsson, 2.1.2008 kl. 16:08

2 Smámynd: Steinunn Þórisdóttir

Væri kannski ekki reynandi að láta björgunarsveitirnar í hverju bæjarfélagi fyrir sig, sjá um veglega flugeldasýningu um áramót. Sýningu sem stæði yfir einhverjar x mínútur og hætta að selja flugelda til almennings. Þeir fengju þá borgun fyrir.

Steinunn Þórisdóttir, 2.1.2008 kl. 16:12

3 identicon

Hvernig væri svo líka að banna nagladekkin?

Þau eru nú helsti orsakavaldur svifryksins.

Annars er ég sammála Steinunni.

Gleðilegt nýtt ár

Friðrik (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 16:21

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Flugeldasprengingar um áramót virðast í mörgum tilfellum farnar að snúast fyrst og fremst um það að skjóta upp fleiri, dýrari og háværari bombum en nágranninn. Það er líka sérstakt að meginþunginn er nú orðið löngu fyrir miðnætti, en ekki á miðnætti sem manni kynni að þykja eðlilegra.

Mér finnst hugmynd Steinunnar hér að ofan athygli verð. Það mætti einfaldlega borga björgunarsveitunum vel fyrir að sjá um þetta, enda eru flottar flugeldasýningar óneitanlega meira augnayndi en tilviljanakennt sprengjuregn sem gegnir fyrst og fremst svipuðu hlutverki og dýrir jeppar! Svo mætti kannski halda áfram að selja smárakettur, kínverja og púðurkerlingar handa krökkum.

Þorsteinn Siglaugsson, 2.1.2008 kl. 16:34

5 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Þetta er bara eins og hvert annað áhugamál.  Sumir kaupa byssu á hundrað þúsund, fara með hana einu sinni á ári og skjóta með henni þrjár rjúpur sem kosta 1000-2000 kr. stykkið.  Það sama má segja um hjólhýsin sem eru að verða mjög öflug s.b. skaupið.

Ég er líka ósammála samanburðinum við flugeldasýningar.  Það eru stórar flugeldasýningar frá opinberum aðilum út um allan heim á þessum tíma.  Reykjavíkursvæðið á gamlárskvöld er líklega stærsta flugeldasýning á jörðinni þar sem tugir þúsunda sjálfboðaliða taka að sér að halda úti flugeldasýningu fyrir mann í klukkutíma frá hálf tólf til hálf eitt.  Hingað flykkjast útlendingar til að bera dýrðina augum enda stórkostlegt sjónarspil, sérstaklega þegar veðrið er þokkalegt.  Þetta er skemmtilegt og blæs lífi í skammdegið.  Minn strákur horfði glaður á ljósin, reyndar í gegnum gluggann þar sem hann er bara 5 mánaða en eldri bróðir hans var skíthræddur við þetta þegar hann var lítill en hefur orðið áhugasamur með aldrinum.

Rúsínan í pylsuendanum er auðvitað að geta styrkt hjálparsveitirnar til góðra verka.  Ég viðurkenni að ég kaupi persónulega mun meira af flugeldum af þeim en ég myndi kaupa annars af einkaaðila.

Mér finnst þetta almennt hið besta mál og ekki stórmál á ársvísu þótt mengunin fari yfir mörkin í hálftíma/klukkutíma einu sinni á ári.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 2.1.2008 kl. 16:47

6 identicon

Þetta gerist í eitt skipti á ári og alger óþarfi að gera mikið veður út af þessari loftmengun.

Og þó slys séu að sjálfsögðu alltaf hræðileg, þá er í raun mesta furða hve fáir slasa sig í bomburegninu - miðað við að annar hver maður á úti við með eldfæri af ýmsu tagi í höndunum.

- upp með bomburnar - gleðilegt ár!

Haukur (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 16:51

7 identicon

Vandamálið við þessa flugeldasýningu einstaklinga er fyrst og fremst það, að hún fer fram algjörlega eftirlitslaus og er stórhættuleg þeim sem á horfa.

Ég var upp við Hallgrímskirkju um miðnættið og þótti nóg um. Verið var að skjóta upp bombum í 5-20 metra fjarlægð frá mannfjöldanum. Stundum rigndi eldglæringunum yfir fólk. Hvergi sá ég neina lögreglumenn (þeir hafa væntalega verið að funda um álagið á sér) né neitt eftirlit yfir höfuð. Það var mesta mildi að enginn meiddist í djöfulgangnum sem gekk á. Útlendingarnir sem voru þar í miklum meirihluta fengu létt taugaáfall margir hverjir og prísuðu sínu sæla þegar það versta var yfirstaðið.

Svona til að upplýsa landann aðeins vil ég í lokin benda á að í Noregi hafa menn bannað flugelda alfarið (fyrirbærin sem prikið á endanum) og í Danmörku eru komnar strangar reglur um notkun þessa sprengiuefnis.

Erum við eins og venjulega að bíða eftir stórslysi til að gera eitthvað í málinu?

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 17:12

8 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Ólíkt Dofra þá veit ég alveg hvað mér finnst um flugeldaskytterí á gamlárskvöld. Þetta er öldungis stókostleg uppákoma. Alveg dæmigerð íslensk geðveiki. Og síðasta gamlárskvöld sýndi líka ákveðni fólks í að halda þessum sið, upp skildi draslið - rok og rigning hvað...!

Ég held að allar hugmyndir um aðrar fjáröflunarleiðir björgunarsveita (a.m.k. frá almenningi) séu draumórar. Ég sé varla fyrir mér að sveitarfélög eða ríki komi inn í staðin með fjármagn - gerið þið það??? Björgunarsveitir á fjárlög??? Hvert er þá sjálfstæði sveitanna orðið???

KOMMON

Björgunarsveitirnar byggja starf sitt nær alfarið á flugeldasölu.

Nær allt starf björgunarsveita er unnið í sjálfboðavinnu.

Þessir sjálfboðaliðar búa við gríðarlega þolinmæði vinnuveitenda sinna sem geta átt á hættu að sjá á eftir þeim út af fundum og úr ýmsum mikilvægum verkum - án þess að vita hvenær þeir skila sér aftur.

Ef ríki eða sveitarfélög fara að fjármagna sveitir er stutt í að þær tapi sjálfstæði sínu og það mundi á skömmum tíma eyðileggja þær.

Það væri gaman að sjá einhversstaðar kostnaðaráætlun yfir það hvað það kostar að halda úti núverandi björgunarliði í landinu - að viðbættum útkallskostnaði ef greiða þyrfti útkall fyrir hvern mann. Já, hvað mundi jafngóður björgunarpakki kosta ef hann væri ekki rekinn í sjálfboðavinnu???

Haraldur Rafn Ingvason, 2.1.2008 kl. 17:31

9 Smámynd: Sævar Helgason

Á árunum eftir seinni heimstyrjöldina ríkri styrjaldarástand á hverju gamlárskvöldi í miðbæ Reykjavíkur . Austurstræti, Pósthússtræti, Hafnarstræti og Austurvöllur - allt troðið af fólki - allt frá börnum og unglingum uppí harð fullorðið fólk. Gríðarleg skrílslæti með áramótasprengjum þeirra tíma flaug um loft og jörð. Aðsúgur gerður að löggæslunni og beita þurfti táragasi á lýðinn. Þetta ástand stóð svona frá um kl átta að kvöldi og fram yfir miðnætti- slys voru tíð og það slæm.

Þá voru góð ráð dýr- hvað átti að gera ?  Einhverjum datt í hug að dreifa mætti mannfjöldanum vítt og breytt um Reykjavík þeirra tíma með því að koma upp bálköstum (áramótabrennum ) og þá með skemmtilegum uppákomum þar, tengt áramótum. Þetta var síðan framkvæmt fyrst um árið 1950 - og þetta sló rækilega í gegn og er ennþá í góðu gildi-- Skrílslæti og styrjaldarástand í miðbænum lognaðist útaf.  Skemmilegur friður ríkti um áramót-lítið var um rakettur á þessum árum -helst blys og þannig smádót.

Mér finnst að ekki ósvipaður tryllingur sé kominn í  áramótaskotgleðina hjá okkur og var fyrir tíma áramótabrenna í þátíð og kannski tímabært að stokka málin upp á nýtt.

Mér lýst vel á tillögu hennar Steinunnar hér að framan í þá veru að framkvæma flugeldaskotin með skipulegri hætti en nú er og þá þannig að björgunarsveitirnar sjái alfarið um þetta og þá með opinberum styrk til verksins--enda eru þessar sveitir okkar að vinna samfélagsleg störf allt árið og ólaunað... - athuga þetta Dofri þú ert í borgarstjórn Reykjavíkur 

Sævar Helgason, 2.1.2008 kl. 18:32

10 Smámynd: Sævar Helgason

Við höfum mjög góð dæmi um svona vel útfærða og glæsilega skoteldasýningu sem er viðhöfð í lok hverrar Menningarnætur í höfuðborginni- fólkið fyllir miðbæjinn til að njóta þess- enda einstaklega glæsilegt og faglegt-- Reykjavíkurborg borgar þá sýningu og Landsbjörg hefur tekjurnar.

Svo er það þannig með markaðinn- einkaaðilar sækja mjög að björgunarsveitunum með sölu á skoteldum þannig að sá tekjustofn er að rýrna fyrir þær..og er þá eitthvað sérstakt í sjónmáli  hverfi sá tekjustofn -- happadrætti-hlutdeild í Lottói til að viðhalda þeirra öfluga starfi.. er það ekki góður kostur ?

Sævar Helgason, 2.1.2008 kl. 20:31

11 identicon

ég er sko fylgjandi þessarri forræðishyggju að banna allann andskotann. ef við bönnum allt þá verður mikið skemmtilegra hjá okkur.

bönnum bara allt, kjósum vg.

svo á að banna svona flókin reikningsdæmi á bloggsíðum, maður þarf að taka upp vasareikninn.

ingolfur (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 20:49

12 identicon

„Ekki er að spyrja að því hjá últra vinstrimönnunum hérna, þeir vilja a) banna þetta, b) láta gera þetta undir (opinberu) eftirliti, og c) setja almannafé í þetta.“

Þess má auðvitað líka geta að últravinstrimennirnir í Bandaríkjunum hafa löngu harðbannað almenna meðferð skotelda og veita almannafé til þess starfs sem björgunarsveitir hérlendis inna af hendi.  En það er auðvitað ekkert að marka, þar hafa vondir kommúnistar ráðið frá alda öðli enda sést í fréttum um þessar mundir að hvergi á byggðu bóli, amk ekki í vestrænum heimi, er opinbert eftirlit meira með borgurunum en þar.  Þeir hafa líka náð þeim árangri að þar er hæst prósenta borgaranna í tukthúsi á byggðu bóli.  Eru þeir annars ekki örugglega últra vinstrimenn Búss og Regan, og Nixon??

Tobbi (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 22:02

13 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Ég gaf mér tíma til að lesa svolítið af þeim athugasemdum og hugleiðingum varðandi flugelda sem hafa verið í umræðunni. Mér sýnist að fólk sé aðallega að vandræðast út af hávaða sem fari illa í börn og gæludýr, að það hafi enginn "eftirlit með þessu" og því hvað "aðrir" eyði miklum peningum í þetta.

Svo sé þetta náttúrlega alveg STÓRHÆTTULEGT!!!

Mín börn hafa yfirleitt verið sofandi á þessum tíma, útkeyrð eftir annasaman dag. Fest börn sem ég hef umgengist annað hvort kippa sér ekki upp við flugelda eða stara stóreyg á ljósaganginn. Ég veit að dýr geta skelfst þetta, áttum einu sinni hund sem skalf og nötraði meðan á þessu stóð, þar til hann var settur inn í þvottahús. Gæludýrum má gefa róandi eins og dýrum Dofra, eða koma fyrir þar sem hávaði er minni. Hvað með að spila tónlist, láta þurrkara ganga eða annað til að draga úr stressinu.

Varðandi eftirlitið. Það á ekki að þurfa að hafa eftirlit með fólki sem er að handleika venjulega skotelda. Skotelda af öllum gerðum ber að umgangast með varúð, nota a.m.k. lágmarks örygggisbúnað og það verður að treysta fólki til gæta sín. Sé það gert er slysahætta afskaplega lítil eins og sannast hefur á undanförnum árum. Helsta hættan virðist vera fikt krakka með heimagerðar sprengjur og þar liggur ábyrgð hjá foreldrum.

Peningaeyðsla nágrannans hlýtur að vera hanns mál. Væri betra að hann eyddi þessu í brennivín eða skuldir??? Stærstur hluti þessara fjármuna rennur líka til hjálparsveitanna sem byggja rekstur sinn á þessum peningum að mestu leiti. Það eru vissulega fleiri á flugeldamarkaði og hafa verið árum saman en meginþorri viðskiptanna er við hjálparsveitirnar.

Og svo er það blessað svifrykið, þessa einu nótt á ári.

Ég keypti flugelda fyrir um 10.000 kr sem telst trúlega ekki mikið. Algengt er að kaupa fyrir margfalda þá upphæð. Af kaupverði rennur kannski um helmingur til sveitanna. Ég geri ekki ráð fyrir að ég hefði styrkt þá um þessa fjárhæð eftir öðrum leiðum s.s. með happdrætti, hvað þá þeir sem meira keyptu. Auk þess held ég að sá markaður sé fullmettaður. Þá geri ég ekki ráð fyrir að íþróttahreyfingin sé tilbúin að deila lottópeningum með fleirum.

Eftir stendur því spurningin um aðra fjármögnum en flugeldasölu, viljið þið setja björgunarsveitirnar á fjárlög?

Er vænlegt að gera þær að þær háðar duttlungum þeirra sem vilja panta flugeldasýningar s.s. einkaaðila og sveitarfélaga?

Haraldur Rafn Ingvason, 2.1.2008 kl. 22:15

14 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Sammála Sigurði. Flugeldar á gamlárskvöld eru fínir eins og þeir eru. Endilega EKKI láta stofnanavæða flugeldana með sérstökum "sýningum" þar til gerðra sveita. Þá verður ekkert gaman að þessu. Áramótin í NYC sökka einmitt vegna þess að enginn má neitt svona. Allt er stofnanavætt hér í voða pakkadíla, frá mat í drykkju í að horfa á flugelda. Nei, heima er best og áramótin á Íslandi einstök og alveg fyrirmyndar anarkí innan skynsamlegra marka.

Ólafur Þórðarson, 2.1.2008 kl. 22:51

15 identicon

Æi, hitti ég á auman punkt?

Tobbi (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 23:18

16 Smámynd: Sævar Helgason

Heyra svona skoteldamál ekki sögunni til innan svona 5 ára vegna aðgerða í tengslum við loftslagsmál... ? Þeir verði aðeins notaðir sem neyðarbúnaður ...  Það er margt í deiglunni í þá veru að draga úr loftmengun og við verðum að fylgja með hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Gleðilegt nýtt ár 

Sævar Helgason, 3.1.2008 kl. 12:57

17 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

 Voru það hægrimenn?

Á gamlárskvöld sat ég í stofunni og hrökk við er mikið högg heyrðist frá svalahandriðinu og á eftir því svo hár hvellur að við fengum hellu fyrir eyrun. (Ég bý á 6. hæð í blokk) Þegar sprenginum slotaði fór eg út á svalir til að skoða hvað gengi á. Á gangstíg, s.s. 10 metra frá húshliðinni voru fjórir stórir kassar af sprengiefni (tertur) sem hver um sig hefur líklega kostað 25 - 30 þúsund. Við húsvegginn stóðu svo fjórir menn og ræddu saman. Einn þeirra gekk svo að kassastæðunni og tók kassann sem búið var að sprenga úr, en hann hafði staðið ofan á tveimur öðrum. Hann setti tóma kassann við hlið hinna, tók svo kassa við hinn endann og setti hann ofan á tvo aðra, kveikti í og gekk svo til hinna mannanna. Sprengingarnar dundu í langann tíma, en allan tímann stóðu þessir menn við húsvegginn og töluðu saman, án þess að líta nokkurn tíman upp til að sjá ljósadýrð þessara sprenginga sinns. Svona gekk þetta koll af kolli þar til búið var að sperngja úr öllum kössunum, þá fóru mennirnir inn í húsið og skildu kassana eftir á gangstígnum.  Ætli þetta hafi verið HÆGRIMENN?

Guðbjörn Jónsson, 3.1.2008 kl. 14:19

18 Smámynd: B Ewing

Ég vil halda í flugeldana.  Styrki Björgunarsveitirnar í landinu eins mikið og ég get um hver áramót.

Þá þyrftu gæludýrin ekki róandi, börnin væru ekki hrædd og svifryk væri ekki yfir heilsuverndarmörkum. Ég lýsi hér með eftir hugmyndum.

Sjálfur er ég nýkominn með fjölskyldu og kött og síðan er skyldfólk unnustunnar nýkomin með tvo rottweiler hunda.

Hvorugur hundana þurfti róandi um áramótin, bara félagsskap og vera innan dyra.  Kettinum okkar (7 ára gömlum) er alveg sama um flugeldana og litla 7 vikna krílið mitt horfði með aðdáunaraugum á glæsilegt gos og háværa rakettu í fyrradag.  Hann svaf af sér mest allar sprengingarnar um áramótin því hann sofnaði um miðnættið.  Eina skiptið sem hann kvartaði var þegar gosið var búið og rakettan horfin. Hann vildi sjá meira. :)

Hvað svifrykið varðar þá legg ég til að annaðhvort verði a) Alfarið hætt að salta göturnar í borginni, naglar leyfðir og fólk skikkað á vetrardekk með hærri sektum og meiri eftirfylgni yfirvalda eða b) Saltað áfram og nagladekk bönnuð innan borgarinnar.  Þeir sem koma utan af landi þyrftu reyndar að fá undanþágu frá banninu þannig að persónulega finnst mér leið a) betri.  Ég var norður á AKrueyri ekki fyrir löngu síðan, þar var jafn mikill snjór og hafði fallið í Reykjavík um hátíðarnar og ekki settur einn dropi af salti á eina einustu götu.  Samt var ekkert mál að komast leiðar sinnar hvort sem það var á aðlgötunni (Drottningarbraut og út úr bænum) eða upp brekkuna hjá Akureyrarkirkju.  Það var ekki einu sinni sandur á götunum, eins og mér skilst að Akureyringar noti til hálkuvarna.

Ef það þarf nauðsynlega hálkuvarnir þá ætti  sandur að virka jafn vel í Reykjavík og á Akureyri.  Ef sandurinn í Reykjavík er hinsvegar lélegri en sá norðlenski, (eins og hangikjötið, kartöflurnar og umferðarmenningin eru) þá mætti nýta hálftóma flutningabíla til sandflutninga til Reykjavíkur.

B Ewing, 3.1.2008 kl. 16:20

19 Smámynd: Dofri Hermannsson

Takk fyrir skemmtilegar umræður um þetta efni. Líklega verður bið á að Íslendingar hætti að skjóta upp rakettum og kannski er það þessi ringulreið þar sem allir skjóta skipulagslaust sem gerir þetta heillandi. Svo lengi sem ekki hljótast slys af.

Varðandi svifrykið þá er nýjársnótt eins og í fyrra alveg baneitruð mengunarnótt og vissara að börn og fólk með viðkvæm lungu haldi sig innan dyra.

Hvað svifrykið og nagladekkin varðar þá er minnsta mál að rukka gjald fyrir nagladekkin. Nú verður unnin rannsókn á raunverulegum kostnaði sem notkun nagladekkja veldur með það í huga að geta innheimt þann kostnað. Ég yrði ekki hissa þó sá kostnaður næmi um 10-15 þúsundum á bíl.

Það er ekki flókið að innheimta svona gjöld, fólk myndi einfaldlega kaupa nagladekkjaleyfi á dekkjaverkstæðinu og þeir sem koma utan af landi gætu keypt dagsmiða.

Hvað naglana, saltið og Akureyri varðar þá er svifrykið enn alvarlegra vandamál á Akureyri. Það uppgötvaðist bara ekki fyrr en var farið að mæla! 

Dofri Hermannsson, 3.1.2008 kl. 22:08

20 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Er sammála því að best væri að vera bara með glæsilegar flugeldasýningar sem Björgunarsveitirnar fengu veglega greitt fyrir, í stað þess að fólk fari algerlega hamförum eins og hefur verið sífellt að vinda upp á sig undanfarin ár. Fólk gleymir því að það er ekki bara verið að skjóta upp flugeldum allan gamlársdag. Þetta mun standa yfir meira og minna út janúar. Var að reyna að horfa á heimildarmyndina um Breiðarvíkurmálið og missti út heilu kaflana út af djöfulgangi við blokkina mína. Sonur minn var veikur og átti bágt með svefn út af látunum sem héldu áfram langt yfir miðnætti og þá er ég ekki að tala um gamlárskvöld.

Ég hef búið víða um heim og séð margar stórkostlegar flugeldasýningar og allar eru þær miklu mun skemmtilegri en þessi séríslenska geðveiki sem á sér stað hér um hver áramót. Hún er farin úr böndunum og gott betur en það. Annars þá hafa komið hér fram margir skemmtilegir punktar og áhugaverðar sögulegar heimildir sem gaman er að vita. Takk fyrir það.

Birgitta Jónsdóttir, 4.1.2008 kl. 06:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband