Mogginn vekur upp Grýlu

Það er undarlegt að þrátt fyrir nýjan og betri ritstjóra skuli Morgunblaðið ekki vanda betur til fréttaflutnings af þessum mikilvægu málum. Hafa ritstjórinn og blaðamenn ekki lesið nýútkomna skýrslu vinnumálastofnunar um stöðu og horfur á vinnumarkaði?

Á meðan Morgunblaðið slær því upp á forsíðu að þúsundir verði án atvinnu segir Vinnumálastofnun í skýrslu sinni að erlendum starfsmönnum muni fækka um þúsundir. Morgunblaðið gæti haft gagn af því að lesa eftirfarandi úr skýrslu Vinnumálastofnunar (feitletranir mínar):

Erlent starfsfólk á íslenskum vinnumarkaði var skv. áætlun Vinnumálastofnunar komið í um eða yfir 17.000 árið 2007, eða rúmlega 9% af vinnuaflinu og hefur hlutfallið aukist mikið síðustu ár.

Útgáfa vottorða um staðfestingu á atvinnu (E-301), sem erlendir ríkisborgarar sækja sér þegar þeir fara af íslenskum vinnumarkaði hefur fjölgað mikið undanfarin misseri, voru um 500 árið 2006, um 1.200 árið 2007 og á fyrstu 5 mánuðum ársins 2008 hafa verið gefin út tæplega 1.200 slík vottorð, þannig að búast má við allavega tvöföldun á útgáfu slíkra vottorða milli áranna 2007 og 2008.

Aukinn brottflutningur útlendinga frá Íslandi er því greinilegur. Hins vegar er þó enn töluvert streymi erlends starfsfólks inn á íslenskan vinnumarkað. Nýskráningar fólks frá Póllandi og öðrum "nýju" ríkjum ESB hafa verið um 400 á mánuði fyrstu mánuði þessa árs og orðnar um 2500 nú þegar árið er um hálfnað. Er þetta lítið minna en á sama tíma í fyrra og bendir til að enn sé töluverður skortur á starfsfólki í ákveðin verkefni. Í ljósi samdráttar í efnahagslífinu verður þó að telja líklegt að verulega hægi á innflutningi erlends vinnuafls á næstu mánuðum og að brottflutningur aukist að sama skapi.

Miðað við þessar tölur um innflutning og brottflutning vinnuafls virðist sem erlendum ríkisborgurum á vinnumarkaði hafi aðeins fækkað lítillega síðustu mánuði og séu nú nálægt 16.000, en líklegt má telja að þeim fækki hraðar seinni hluta árs og verði komnir niður í 13-14.000 í árslok og verði nálægt 8,5% af vinnuaflinu á jafnaði á árinu 2008.

Nú þegar miklu þensluskeiði í íslensku efnahagslífi er að ljúka er eðlilegt að störfum fækki. Þá er líka ósköp eðlilegt að það evrópska farandverkafólk sem hingað kom til að vinna hverfi til annarra starfa. Ekki síst þegar krónan hefur lækkað umtalsvert og mun færri Evrur fást fyrir mánaðarlaunin.

Kannski munu börnin okkar líka fara að einbeita sér að náminu og þegar mann vantar aðstoð í matvöruversluninni getur maður kannski átt von á að finna íslenskumælandi starfsmann yfir fermingaraldri. Er það alveg grábölvað?

Atvinnuleysi er alvörumál. Það má vel vera að það sé söluvænlegt að skella atvinnuleysisgrýlunni á forsíðu Morgunblaðsins með þessum hætti en það er ekki ábyrgt. Ég mæli með því að ritstjórinn nýi og blaðamenn bæti fyrir syndir sínar í Morgunblaði morgundagsins.


mbl.is Þúsundir án atvinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda

Sammála, ég trúi því líka að svartsýni ali af sér svartar afleiðingar, stundum þurfum við að ákveða að horfa fram á við með jákvæðni og neita að taka undir endalaust böltal, slíkt er slítandi fyrir sálina.

kv.

Linda, 8.7.2008 kl. 11:21

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta hefur allt sinn tilgang. Áróðursstríðið er í fullum gangi og nú á að hræða úr almenningi líftóruna svo hann snúist á sveif með bönkum, verktökum og öðrum þeim sem vilja "mannaflsfrekar framkvæmdir" (lesist: virkjanir og álver).

En eins og þú bendir á er þetta blekking, til þess eins að slá ryki augu fólks. Ég heyrði viðtal við Gissur Pétursson um eða fyrir helgi og ekki gat ég heyrt að hann hefði nokkrar áhyggjur af atvinnuleysi.

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.7.2008 kl. 11:51

3 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Vinnubrögðin hjá blaðamönnum Moggans hafa snarversnað undanfarið, ég hélt að það væri nóg að hafa 24 stundir og Fréttablaðið í niðurrifsáróðrinum, en að blað sem fólk þarf að borga fyrir 3000 kall á mánuði geti hagað sér svona er algjört dómgreindarleysi.

Guðrún Sæmundsdóttir, 8.7.2008 kl. 14:18

4 Smámynd: Helgi Kristinn Jakobsson

Fjölmiðlar hafa og munu alltaf slá ryki í augu fólks með stórum og villandi fyrirsögnum, sem eru illa ígrundaðar og engan veginn til þess fallin að flytja fréttir, þær eru eingöngu til að selja.  Ég man eftir frétt sem birtist í DV í júlí 2005 þar sem fyrirsögnin var eitthvað á þessa leið "Hrun á fasteignamarkaði" það þekkja allir að fasteignaverð hækkaði mjög mikið það árið og árin þar á eftir.  Og núna er húsnæðisverð fyrst að lækka vegna allt annarra aðstæðna en voru þá árið 2005.  Það er eins og það fari af stað einhver óskhyggja, sem geti studd þessa svartsýnisspár og að menn geti sagt. "ég sagði það!"  Þó svo að ég sé markaðsþenkjandi, er ég fyrir löngu komin með upp í kok á þessari múgæsingu sem grípur fjölmiðla þar sem blaðamenn éta upp eftir hvern annan vitleysuna og uppsögn á tveimur starfsmönnum í Sindrastáli kemst í aðalfréttatíma.

Helgi Kristinn Jakobsson, 8.7.2008 kl. 14:32

5 identicon

Djöfull er þetta slöpp setning Dofri.  Hef lesið þig með áhuga hingað til og mun gera áfram.  En þetta er slappt að mínu mati, afsakaðu ef gagnrýnin hittir þig illa fyrir.

"....og þegar mann vantar aðstoð í matvöruversluninni getur maður kannski átt von á að finna íslenskumælandi starfsmann yfir fermingaraldri. Er það alveg grábölvað?"

Aumt að mínu mati.  Yfirgnæfandi meirihluti innflytjenda á Íslandi, rétt eins og í mínu landi, reyna að læra tungumálið.  Það að þeir geti það ekki samkvæmt hraðakröfum þínum, segir nákvæmlega ekkert um efni ágæts pistils.
Muntu næst snúa gagnrýninni að Íslendingum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð?

KV,
Baldur McQueen

Baldur McQueen (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 21:36

6 Smámynd: Dofri Hermannsson

Slæmt ef þessi setning hittir þig illa fyrir Baldur. Það er hins vegar líka slæmt þegar einu starfsmenn stórmarkaða sem fólk getur talað við "á gólfinu" eru börn og útlendingar sem hvorki tala íslensku eða ensku. Hér er ekki um neinar hraðakröfur af minni hálfu að ræða og held ég verði seint sakaður um að hafa eitthvað á móti því að útlendingar starfi hér - eða Íslendingar erlendis.

Það hefur verið mikið þensluskeið í landinu undanfarin misseri og það hefur haft ýmis neikvæð áhrif rétt eins og jákvæð. Neikvæðu áhrifin hafa t.d. verið þau að ekki hefur tekist að fullmanna kennslu grunnskólanna, leikskólann eða á frístundaheimilin, hjúkrunarheimilin og aðra umönnun. Um leið hefur misskipting í samfélaginu aukist til muna. Nú er þessu skeiði að ljúka og strax er orðið auðveldara að ráða fólk í þessi störf.

Jafnvel þótt það virkaði finndist mér engin þörf á að ráðast í stóriðjuframkvæmdir til að koma í veg fyrir það.

Dofri Hermannsson, 9.7.2008 kl. 09:14

7 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Það hlýtur að vera okkar aðal kappsmál að viðhalda atvinnu/menntun og þjónustu fyrir íslendinga. ESB getur séð sínum þjóðum fyrir atvinnu/menntun og þjónustu. ekki er hægt að búast við því að 300 þúsund manna þjóð bjargi heiminum.

Dofri og Baldur, það er margbúið að benda á það í fjölmiðlum sem og á blogginu að afgreiðslufólk í mörgum verslunum er alltof ungt og með takmarkaða vöruþekkingu eða talar ekki íslensku og sáralitla ensku. Er til of mikils mælst að fá almennilega þjónustu?

Guðrún Sæmundsdóttir, 9.7.2008 kl. 19:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband