Vasaþjófnaður

Fór í lágvöruverslun rétt fyrir kvöldmat um daginn. Þurfti að kaupa kartöflur, brauð, klósettpappír, banana og sitthvað fleira. Bananarnir og brauðið var búið, verð að kaupa það annars staðar, hugsaði ég og gekk yfir að kartöflunum. Ég er orðinn áhugamaður um vöruverð svo ég kíkti á verðmerkinguna áður en ég skellti kartöflupokanum í körfuna. Þær kostuðu 345 kr. kg! Tveggja kg. poki kostaði 690 kr! Ég missti lyst á kartöflum, setti pokann aftur á sinn stað og gekk út.

Þótt ég hafi misst lyst á kartöflum í bili fannst mér brauð enn vera nauðsynjavara svo þegar ég gekk inn í klukkubúð hverfisins gladdist ég yfir því að sjá heimilisbrauð á 215 kr. Skellti því í körfuna og sá þá mér til enn meiri gleði að 8 rúllur af klósettpappír kostuðu eitthvað svipað. Smellti banönum og einhverju fleiru í körfuna ánægður en hissa á að klukkubúð hverfisins stæði sig betur en lágvöruverðsverslunin.

Svo kom ég á kassann. Þetta voru bara fimm eða sex hlutir svo ég var búinn að leggja saman í huganum hvað þetta myndi kosta og var tilbúinn með péníng - ekki kort. Strimillinn sagði hins vegar allt annað og meira en ég hafði reiknað út og í mínus yfir vondri frammistöðu í hugarreikningi dró ég vandræðalegur upp kortið og borgaði.

Vestfirskur þrái kom hins vegar í veg fyrir að ég setti dótið ofan í pokann fyrr en ég var búinn að skoða strimilinn. Þar stemmdu tölurnar ekki við verðmerkingar í búðinni svo ég tók upp penna og stikaði milli vörurekkanna og skrifaði rétt verð á strimilinn. Ég hafði t.d. verið látinn borga 360 kr. fyrir brauðið sem átti að kosta 215 kr. og tæpar 400 kr. fyrir aftanblöðin sem áttu að kosta eitthvað svipað. Ég bað um að fá mismuninn endurgreiddan versogú. Það var auðsótt mál.

Hvað ætli maður hafi oft látið hnupla úr vösum sínum með þessari aðferð?
Pössum okkur á nútíma vasaþjófum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Því miður held ég að verið sé að ræna okkur alla daga.  Hvað finnst þér um að þú borgir 215 fyrir brauðið eða 360 hvort sem það er nýtt eða þriggja daga gamalt?

Rósa Harðardóttir, 9.7.2008 kl. 16:10

2 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Maður verður að vera á stöðugu varðbergi.

Ég fékk bréf um daginn sem minnti mig á útistandandi skuld og bætti við hana dráttarvöxtum upp á rúmar 19þúsund krónur. Þar sem ég kannaðist ekki við þessa skuldseiglu í sjálfum mér fór ég til bréfritara og bað um skýringu. Reyndist ég þá skulda 240,- krónur í dráttarvexti og var beðinn afsökunar um leið og upphæðin var snarlega leiðrétt. Hvað ætli það hafi samt verið margir sem hafa bara sopið hveljur, skammast sín og greitt upp í topp?

Emil Örn Kristjánsson, 9.7.2008 kl. 16:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband