When the going gets tough...

Allir eru sammála um að halda uppi góðu atvinnustigi í landinu. Enn er þó ekki ástæða til að hafa áhyggjur því samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Vinnumálastofnun er atvinnuleysi ekki nema 1.1% og er nánast hvergi minna á byggðu bóli.

Allt dómsdagstal í atvinnumálum er því ótímabært. Enn er hátt á annan tug þúsunda farandverkamanna í byggingarvinnu og öðrum verkamannastörfum í landinu. Nú þegar um hægist er búist við að stór hluti þeirra hverfi aftur til síns heima. Það er eðlilegt. Uppgripunum er lokið í bili og nú þarf að ná jafnvægi. Það er gott að stjórnvöld vilji styðja við bakið á atvinnulífinu. Ég vona hins vegar að þær aðgerðir einskorðist ekki við byggingaiðaðinn, það væri einföldun og skammsýni.

Undanfarin misseri höfum við horft upp á heilu árgangana af verkfræðingum hverfa inn í bankana að telja peninga. Nú eru blikur á lofti í þeim geira og þá eiga stjórnvöld að vera framsýn og auka fé til rannsókna og nýsköpunar. Við þurfum að efla hátækni- og þekkingariðnaðinn sem í nágrannalöndum okkar er helsti vaxtarsprotinn í atvinnulífinu, sá sem flest störf skapar og sá sem mestan virðisauka gefur.

Við eigum líka að horfa til upplifunariðnaðarins sem er vex gríðarlega með hverju árinu sem líður. Latabæjarævintýri Magnúsar Scheving ætti að blása okkur kjarki í brjóst. Fréttir af því hvernig erlendir aðilar hópast inn í landið til að taka upp og framleiða hér auglýsingar og kvikmyndir ættu líka að vera okkur hvatning til góðra verka og nýrra hugmynda.

Nú er tíminn til að veðja á íslenska frumkvöðla. Það er einmitt þegar um hægist sem slíkir aðilar blómstra.


mbl.is Forgangsverkefni að tryggja fulla atvinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður punktur hjá þér að tala um að auka nýsköpun, því mér finnst svo margir tala um að auka atvinnu í atvinnuleysi og að lausnin sé þá að láta fólk fara út og moka skurð. Fyrirgefðu en ég eyddi ekki mörgum árum í háskólanám til þess að fara út að grafa skurð, nýsköpun er miklu frekar lausnin fyrir þá hámenntuðu sem eru að missa vinnuna í þrengingunum (svo sem verkfræðingar og fleiri). 

Kveðja Andrea.

Andrea (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 15:28

2 identicon

Ekki heyrist mér á Geir að hann vilji efla hátækni- og þekkingariðnaðinn. vill hann ekki bara virkja í djöfulmóð og reisa álver? Einhvernveginn fæ ég það á tilfinningua að það sé það sem hann á við. Það væri gaman að vita hvar hann er með hausinn.

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 20:43

3 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Það virðist hafa farið framhjá mörgum að áliðnaðurinn er bæði hátækni- og þekkingariðnaður.

Einnig virðist það töluvert útbreiddur misskilningur að það henti best greindarskertum og lítt menntuðum að bera þann iðnað uppi.

Tryggvi L. Skjaldarson, 3.9.2008 kl. 10:24

4 Smámynd: Dofri Hermannsson

Tryggvi. Hátækniiðaður er skilgreindur sem sá iðnaður sem setur 4% eða meira af veltu sinni í rannsóknir og þróun. Það gerir áliðnaðurinn ekki og getur því ekki kallað sig hátækniiðnað.

Ég hef aldrei heyrt neinn segja að það henti best greindarskertum að vinna í álveri. Það væri ósatt, ósanngjarnt og dónalegt að halda slíku fram. Álver hafa hins vegar, með réttu, verið talin góður vinnustaður fyrir fólk með stutta formlega menntun. Það er nauðsynlegt að slíkir vinnustaðir séu til en hitt er þó ekki minna áríðandi að það sé til nóg vinna fyrir fólk sem hefur varið miklum tíma og fjármunum í að verða sér út um menntun. Við höfum ekki efni á að missa það fólk úr landi. Það er fólkið sem við treystum á að komi fram með nýjar lausnir, nýjar hugmyndir og ný atvinnutækifæri í framtíðinni. Ekki satt?

Dofri Hermannsson, 3.9.2008 kl. 11:20

5 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Í Straumsvík erum við með rannsóknarstofur og sérhæft fólk sem þar vinnur.  Í allri verksmiðjunni er stöðugt verið að þróa reksturinn. 

Allt kostar þetta, en þar sem peningaflæðið er mikið í áliðnaði þá er mögulegt að það sé eitthvað undir 4% af heildarveltu.  Eigum við þá skilgreina álver sem lágtækniiðnað og nýta það síðan til að sverta og snúa út úr því sem fram fer í álverum?

Ýkt dæmi: Hænsnabú leggur 4% af veltu í að rækta hraðvaxta kjúklinga og í að þróa skilvirkari aflífun hænsnfugla  og er þá samkvæmt skilgreiningunni hátækniiðnaður.

Nei auðvitað segir enginn berum orðum að það henti greindarskertum að vinna í álverum, en margir fara ansi nærri því að bjóða uppá þá ímynd.

Má jafnvel sjá ágætt dæmi hér hjá þér:" Álver hafa hins vegar, með réttu, verið talin góður vinnustaður fyrir fólk með stutta formlega menntun. Það er nauðsynlegt að slíkir vinnustaðir séu til en hitt er þó ekki minna áríðandi að það sé til nóg vinna fyrir fólk sem hefur varið miklum tíma og fjármunum í að verða sér út um menntun."

Það tekur t.d. 3-4 ár að verða góður alhliða starfsmaður í kerskálum í Straumsvík. Þeir sem hefja störf í álverinu hefja í raun nám í leiðinni. Það er ekki á allra færi að bera uppi vinnuna í álverum.  Það er bara þannig.

Ég er alveg sammála þar sem þú segir:"hitt er þó ekki minna áríðandi að það sé til nóg vinna fyrir fólk sem hefur varið miklum tíma og fjármunum í að verða sér út um menntun. Við höfum ekki efni á að missa það fólk úr landi. Það er fólkið sem við treystum á að komi fram með nýjar lausnir, nýjar hugmyndir og ný atvinnutækifæri í framtíðinni."

Þetta fer allt ágætlega saman.

Tryggvi L. Skjaldarson, 3.9.2008 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband