Alþingi undir hæl framkvæmdavaldsins

Það er óheppilegt fyrir þrískiptingu ríkisvaldsins hvernig málum er háttað á Alþingi.

Þegar náðst hefur að mynda meirihluta á Alþingi er byrjað að raða í ráðherrasæti og af því hefði er fyrir því að þingmenn gegni ráðherraembættum kemur strax upp sú staða að formenn stjórnarflokkanna hafa það í hendi sér hver af þingmönnunum verður ráðherra.

Enn verra er þó að þessi stemning helst út kjörtímabilið því alltaf hangir yfir sá möguleiki að stokkað verði upp í ráðherraliðinu og að þá fái aðrir í þingflokknum tækifæri. Það segir sig sjálft að þetta dregur úr sjálfstæði þingflokksins.

Við þetta bætist svo sú venja að þegar þingflokkurinn kýs sér formann, varaformann og ritara þá er það gjarnan gert samkvæmt uppástungu formanns. Stjórn þingflokksins ákveður síðan hvaða þingmenn verða formenn nefnda og hver verður forseti Alþingis.

Með beinum eða óbeinum hætti þiggja sem sagt allir þingmenn stjórnarflokkanna upphefðir sínar og áhrif frá formanni flokksins sem jafnframt er oddviti flokksins í ríkisstjórn. Það er því mikið til í því sem oft heyrist að hér sé ekki þingbundin stjórn heldur stjórnbundið þing.

Það myndi bæta mikið úr þessari stöðu ef þingmenn sem taka sæti í ríkisstjórn segðu af sér þingmennsku. Þetta ætti að vera einfalt mál að setja í lög og manni finnst að ef þeim þingmönnum sem nú verma bekki á Alþingi væri full alvara í því að styrkja stöðu þingsins gætu þeir flutt um þetta litla þingsályktunartillögu og fengið hana samþykkta fyrir vorið.


mbl.is Guðbjartur kjörinn þingforseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þú segir  að venjan sé formaður stingi upp á formanni þingflokks. Er nokkuð sem kemur í veg fyrir að venju sé breytt, nema sjálfur vaninn. Það er sama hvað borið er niður í stjórnskipan okkar, við erum með eldgamlar reglur, siði og venjur frá þeim tíma þegar öll völd voru í pýramídaformi, allt kom ofanfrá. Nú viljum við ákvarðanir frá fjöldanum, hópnum, grasrótinni.

Krafan um breytingar kom frá einum manni, Niðri P Njarðvík í Silfrinu 11. jan. sl. Auðvitað hefur umræðan verið í samfélaginu á ýmsum stöðum í samfélaginu áratugum saman. En 11. jan. kom óháður aðili sem allir bera mikla virðingu fyrir, fram með kröfuna um nýja stjórnarskrá og kosningalög. Það hófst um leið "jökulhlaup" í þjóðarsálinni sem æddi yfir firði og flóa, borg og sveit. Nú eru tæp 7.000 íslendingar búnir að skrifa undir áskorun ánetinu, stjórnmálaflokkar fylgjandi málinu og Björg Thorarensen að vinna við breytingar fyrirkosningar og undirbúning Stjórnlagaþings.

Við stöndum á tímamótum og viljum nýtt upphaf og ég er viss um að við fáum nýtt upphaf.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 4.2.2009 kl. 17:30

2 Smámynd: Sævar Helgason

Við Íslendinar höfum sennilega ekki búið við lýðræði í landinu síðan í upphafi landnáms.

Frá´"Lýðveldisstofnun" hefur ríkt hér flokksræði lengst af og nú síðustu 15-20 árin hefur þetta stjórnarfar okkar þróast yfir í leiðtogaræði. 

Skýrast kom það í ljós þegar "Íslendingar " lýstu stríði á hendur Íraq . Þá ákvörðun tóku tveir leiðtogar einir og sér (sennilega þó einn) 

Þjóðin var ekki spurð. Flokkarnir voru ekki spurðir. Það litla sem þjóðin fær náðsamlegast að gera  er að setja X framan við flokkslistabókstaf á fjögurra ára fresti. 

Fyrirfram er búið að negla frambjóðendur í först sæti og óbifanleg.  Auðvitað erum við komin í órafjarlægð frá öllu sem heitir lýðræði.  Þetta leiðtogaræði birtist einkar skýrt í fráfarandi ríkisstjórn- leiðtogar töluðust við um helstu mál - aðrir ekki .

Gott dæmi þar um er viðskiptaráðherra- hafður úti á túni - einn og sér í hrunadansinum.

Nú er að breyta kosningalögunum og efla lýðræðið smávegir og setja lokahnykkinn á stjórnlagaþinginu... 

Ljóst er að þeir sem ábyrgðina bera á hruni efnahags og þjóðlífs á Íslandi eru stjórnmálaöflin... allt hitt fylgir í kjölfar þeirra...

Sævar Helgason, 4.2.2009 kl. 17:31

3 identicon

Mikið er ég sammála þér. Svo má benda á að þegar ráðherra segir t.d. að hann leggi einhverja óvinsæla ákvörðun í dóm kjósenda þá er það ekki hann sem þarf að gjalda fyrir það persónulega í næstu kosningum, heldur sá sem er neðstur á litanum. Það er nefnilega staðreynd að það eru aðeins 15% þingmanna sem róterast við hverjar kosningar, og það eru auðvitað þeir sem eru í neðstu sætunum og eru neðstir á framboðslistum flokkanna. Þannig þurfa þeir sem eru í fyrstu sætunum aldrei að bera ábyrgð á neinu sem þeir gera, þeir eru alltaf öruggir með sín þingsæti. Þessu þarf að breyta, það á enginn að eiga þingsætið eins og einkaeign. Sjá suma af þessum þingmönnum sem eru búnir að vera áratug eftir áratug og geta hreinlega ákveðið sjálfir hvenær þeir ætli að hætta. Þetta þarf líka að ræða.

Valsól (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 22:48

4 Smámynd: Pétur Henry Petersen

Þetta eru ekki nýjar hugmyndir og eru alltaf í umræðunni. En nú er kominn tími til að gera eitthvað?  Nýja stjórnarskrá og ný kosningalög strax! Auðvitað eiga ráðherra ekki að sitja á þingi, það segir sig sjálft. Ein rök í viðbót eru að þeir draga kraft úr þingflokknum og eru eflaust fyrirferðarmiklir innan hans. Það hefur líka þær afleiðingar að þeir flokkar sem að gekk best í kosningum koma fleirrum að stjórn landsins, sem er jú bara sanngjarnt.

Pétur Henry Petersen, 5.2.2009 kl. 16:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband