Frábært framtíðarþing!

Var að koma heim af framtíðarþingi Samfylkingarinnar á Hressó í dag. Þar sat grasrótin ekki undir ræðum kjörinna fulltrúa heldur var skipulagið með þeim hætti að fundarmenn tóku fyrir brýnustu málefni líðandi stundar, krufu þau til mergjar og bentu á leiðir til lausna.

Það var frábært að sjá að í bland við hinn góða og öfluga kjarna flokksins kom margt nýtt og kraftmikið fólk inn af götunni til að leggja gott til málanna. Margir með sérþekkingu á viðkomandi sviðum og fulltrúar allra hópa og allra kynslóða.

Í upphafi fundar var kynning á könnun Capacent sem gerð var fyrir ári og sýnir viðhorf þjóðarinnar til ýmissa mála. Þessi könnun er gerð á sama hátt í mörgum löndum og segir til um hvaða viðhorf og gildi eru ríkjandi í þjóðfélaginu.

Niðurstaðan var sú að á Íslandi (fyrir ári) var einstaklings- og gróðahyggja hátt yfir önnur gildi hafin s.s. samfélagsvitund, ábyrgð gagnvart umhverfi og öðrum þjóðum. Við vorum þar í félagsskap Litháa og Bandaríkjamanna en þær þjóðir hafa einmitt líka orðið fyrir miklum áföllum - e.t.v. vegna óheppilegra ríkjandi viðhorfa.

Það er huggun að vita til þess að í Bandaríkjunum snéri fólk blaðinu við og þvert á öll líkindi kaus það sér sem forseta svartan mann, með millinafnið Hussein, sem sagði að það væri hægt að breyta heiminum.

Á framtíðarþinginu í dag komu fram margar hugmyndir sem geta breytt miklu ef þær komast í verk og ég held að flokkurinn búi að mörgu hæfileikafólki sem er fært um að hrinda slíkum málum í framkvæmd.


mbl.is Landsfundur Samfylkingar í lok mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Mikið er gott að heyra frá Framtíðarþinginu Dofri. Ég er svo samfærð um það núna að við erum að snúa við blaðinu. Fara frá þessum Bandaríska hugsunarhætti til jafnaðar og velferðarstefnu. Ég hef unnið hjá verkalýðshreyfingunni undafarin 18 ár og þeim tíma ef ég skynjað hvað íslenskt launafólk er í raun heppið að hafa þann góða og sterka lagabakgrunn sem jafnaðarmenn á Íslandi hafa knúið í gegn á síðustu öld. Þrátt fyrir að lögfræðingaher vinnuveitanda sé á hverjum degi með stækkunarglerið fyrir augunum að leita að glufum, þá hefur tekist að halda sjó á þessum vettvangi. Auðvitað hefur molnað úr bjarginu, en það stendur þó uppi og er í heildina traust. Áfram Jafnaðarmenn, okkar er framtíðin.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 7.2.2009 kl. 17:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband