Sjávarútvegsráðherrann síkáti

Einari Kr. Guðfinnssyni var svo skemmt í þinginu í liðinni viku yfir útúrsnúningum á ræðu formanns Samfylkingarinnar að hann átti bágt með að hafa stjórn á sér ef marka má orð hans í Blaðinu í gær. Glaðværð sjávarútvegsráðherrans ber að fagna því fátt er ánægjulegra en að sjá fólk gleðjast. Því meira sem tilefnið er minna. ekg

Þó er ekki víst að allir sjái ástæðu til að gleðjast – einmitt vegna sjávarútvegsráðherrans síkáta. Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er t.d. greint frá því að matvörukeðjan Whole Foods hefur ákveðið að hætta að kynna íslenskar vörur vegna afstöðu Íslendinga til hvalveiða í atvinnuskyni. Þetta er einmitt matvörukeðjan sem sérstakur markaðsmaður landbúnaðarráðherra hefur verið að vinna með að markaðssetningu á íslenskum landbúnaðarafurðum undanfarin ár. Nú er sú vinna ónýt vegna ákvarðana sem sjávarútvegsráðherra tók án nokkurs samráðs við hagsmunaaðila. Hvað skyldi miklum peningum hafa verið varið til markaðsátaksins? Hvað ætli töpuð viðskipti séu mikil? Nú hljóta bændur að skella upp úr. Og Guðni. Fyndið!

Nýjasta afrek hins glaðbeitta ráðherra er að ónýta fyrir þingi Sameinuðu þjóðanna samkomulag um tímabundið bann á botnvörpuveiðum á úthafsmiðum utan lögsögu þjóðríkja. Hið tímabundna bann átti að nota til að rannsaka áhrif botnvöruveiða á viðkvæman botngróður s.s. hverastrýtur og kóralla sem eru afar viðkvæm vistkerfi en að sama skapi afar mikilvæg fyrir lífríki hafsins. Samkomulagið hefði á engan hátt skert rétt Íslands til veiða.

Ráðherrann hristist af hlátri yfir þeirri heimsku alþjóðasamfélagsins að banna tímabundið allar botnvörpuveiðar á þessum svæðum. Hann veit að sums staðar eru þær skaðlausar og telur því rétt að fela hverju þjóðríki fyrir sig að hafa eftirlit með sínum skipum. Gallinn við þá afstöðu er að enginn hefur umboð til að fylgjast með því að hentifánaskipin dragi bara botnvörpur þar sem það er óhætt. Einfaldara er að fylgja eftir tímabundnu banni á öllu svæðinu. Hentifánaskip hafa oftlega angrað okkur Íslendinga t.d. með ólöglegum karfaveiðum á Reykjaneshrygg. Ekki minnist ég þess að hafa séð freigátur ríkja á borð við Georgíu eða Líberíu bruna hingað og taka lögbrjótana.

Sjávarútvegsráðherra virðist sannfærður um að hið tímabundna bann hafi verið útsmogið herbragð Grænfriðunga sem er vísu dálítið langsótt þar sem engin frjáls félagasamtök eiga aðild að þessu þingi Sameinuðu þjóðanna. Engu að síður er ráðherrann kampakátur yfir varnarsigri sínum gegn alþjóðasamfélaginu sem vill vernda lífríki sjávarbotnsins og slær sér á lær. Algjör brandari!

Að vísu hefur enginn séð umhverfisráðherra taka undir fyndnina. Efast líka um að utanríkisráðherra hafi skellt upp úr þegar hún las Washington Post um daginn. Eða þeir sem vilja að við fáum sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Eða ferðaþjónustuaðilar sem óttast þau skörð sem hinn glaðlyndi sjávarútvegsráðherra hefur undanfarið höggvið í ímynd Íslands. Húmorslaust lið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband