Til umhverfisráðherra - umsókn um rannsóknarleyfi

Samkvæmt lögum um auðlindir í jörðu er hægt að sækja um leyfi til iðnaðarráðherra til rannsókna á hvers konar auðlindum sem vinna má úr jörðu s.s. jarðefnum, orku sem vinna má úr jarðhita og virkjanlegu rennandi vatni. Sá aðili sem fær leyfi til orkurannsókna hefur samkvæmt lögum þessum jafnframt forgöngu um einkarétt á nýtingu auðlindarinnar komi í ljós að nýting hennar sé arðbær.  

Hins vegar virðist sem auðlindalögin líti ekki á náttúruperlur landsins sem auðlind. Þar skýtur skökku við því færa má fyrir því góð rök að á mörgum náttúrufarslega verðmætum svæðum sem jafnframt eru nýtanleg til orkuframleiðslu, sé verndun þeirra og nýting sem samræmist henni besta nýting svæðisins.  

Því sæki ég undirritaður hér með um leyfi til umhverfisráðherra til rannsókna á þeirri auðlind sem felst í núverandi náttúruverðmætum á eftirtöldum svæðum: Í Brennisteinsfjöllum, á Torfajökulssvæðinu, í Grændal, á Ölkelduhálsi, í Kerlingarfjöllum, á vatnasvæði jökulánna í Skagafirði, á vatnasviði Skjálfandafljóts, á Langasjó, á vatnasviði Jökulsár á Fjöllum og í Þjórsárverum.  

Rannsóknir, ef leyfi fást, munu beinast að þrennu:

1. Verndargildi svæðanna sjálfra, óháð nýtingu þeirra

2. Gildi þess að eiga svæðin með óskertri náttúru sinni fyrir a) ímynd Íslands og b) sjálfsmynd þjóðarinnar

3. Þeim möguleikum sem felast í nýtingu svæðanna samhliða verndun þeirra  

Sum þeirra svæða sem hér er getið eru lítt þekkt á meðal almennings og því er nauðsynlegt að meta einnig gildi þeirra og möguleika til framtíðar. Það á reyndar við um öll svæðin því nauðsynlegt er að varpa ljósi á hvort hér er um vaxandi eða minnkandi verðmæti að ræða í fyrirsjáanlegri framtíð.  Með vísan í jafnræðisreglur og hvernig leyfisveitingum er háttað til orkufyrirtækja fer ég fram á að fá forgöngu um einkarétt á nýtingu ofantaldra svæða með hverjum þeim hætti sem samræmist verndun þeirra.  

Virðingarfyllst, Dofri Hermannsson  

Greinargerð  

1. Verndargildi.

Margar helstu náttúruperlur Íslands eru í uppnámi vegna áforma um virkjanir, lagningu hálendisvega og byggingu hálendishótela sem skorið geta í sundur svæði sem vert væri að vernda sem heild. Því er nauðsynlegt að byrja á að rannsaka verndargildi allra helstu náttúrusvæða Íslands, óháð því hvort þar má finna orku eða hentugt vegastæði. Þegar búið er að rannsaka landið með tilliti til verndargildis og tryggja verndun verðmætra svæða – þá fyrst ætti að leggja drög að framkvæmdum utan verndarsvæða.

Hér er sótt um rannsóknarleyfi með verndun í huga. Þar sem eignarréttur er að margra mati heppilegasta leiðin til að varðveita slík svæði fer undirritaður fram á forgangi um eignarrétt á náttúruverðmætum ofangreindra svæða.

 

2. Ímynd og sjálfsmynd

Ef skoðað er kynningarefni fyrirtækja og stofnana er ljóst að náttúra Íslands er snar þáttur í ímynd margra slíkra aðila. Sama má sjá í ræðum stjórnmálamanna, ritverkum, myndlist og kvikmyndum. Undirritaður vill rannsaka hve stórt hlutverk ofangreind svæði leika í ímynd lands og fyrirtækja og meta hvers virði það er í peningum. Leiði rannsókn i ljós að þar sé um vannýtta auðlind að ræða óskar hann forgangs um einkarétt á nýtingu hennar.

Ýmsir telja að náttúra landsins sé ásamt íslenskunni og bókmenntaarfinum sá þáttur sem mest mótar sjálfsmynd okkar sem þjóðar. Ættu Íslendingar engan foss, engan jökul, ekkert ósnortið hverasvæði, engin ósnortin öræfi – værum við hinir sömu eða hefði það áhrif á sjálfsmynd okkar? Leiði rannsóknir í ljós að verndun ofangreindra svæða hafi jákvæð áhrif á sjálfsmynd þjóðarinnar þykir undirrituðum eðlilegt að ríkissjóður greiði sanngjarnt gjald fyrir þessi afnot af ofangreindum náttúrusvæðum, enda sjái undirritaður um verndun þeirra.

 

3. Aðrir nýtingarmöguleikar.

Til eru ótal aðferðir við að nýta það sem hin mörgu ólíku svæði hafa upp á að bjóða án þess að raska verðmætri náttúru viðkomandi svæða. Útivist og náttúruskoðun nýtur vaxandi vinsælda og bátsferðir niður jökulár og ísgöngur um jökla landsins eru dæmi um frumlega nýtingu tilkomumikillar náttúru án þess að hún skerðist hið minnsta. Hér telur undirritaður að um vannýtta auðlind sé að ræða og leiði rannsóknir það í ljós óskar undirritaður, með fyrrgreindri vísan í jafnræðisreglur, eftir einkarétti á að nýta ofangreind svæði á þann hátt sem samrýmist náttúruvernd.   

Brennisteinsfjöll eru ein af helstu náttúruperlum landsins, nánast ósnortið háhitasvæði og eldstöð þar sem finna má einstakar gosminjar. Svæðið þykir hafa afar mikla þýðingu fyrir ferðaþjónustu og sem útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlisins. Í Rammaáætlun lenda Brennisteinsfjöll í umhverfisflokki B en tekið er fram að Brennisteinsfjöll fá næst hæstu einkunn háhitasvæða fyrir landslag. Hitaveita Suðurnesja hefur sótt um rannsóknarleyfi til orkurannsókna í Brennisteinsfjöllum og þrýstir á um svör.  

Torfajökulssvæðið er af mörgum er talið fegursta háhitasvæði landsins en í Rammaáætlun fékk það hæsta einkunn allra háhitasvæða fyrir landslag. Virkjanakostir á Torfajökulssvæðinu fá D í einkunn fyrir umhverfisáhrif. Landsvirkjun hefur sótt um leyfi til orkurannsókna á nokkrum stöðum á Torfajökulssvæðinu.  

Grændalur. Í Rammaáætlun segir orðrétt: "Grændalur fær hæsta einkunn af jarðhitasvæðum í jarðminjum og vatnafari og í vistgerðum og liggur vel við til náttúruskoðunar, t.d. frá heilsudvöl í Hveragerði. Ef varðveita ætti eitthvert jarðhitasvæðanna á Hengilssvæði ósnortið kæmi Grændalur þar einna fyrst til greina." Landsvirkjun ásælast orkuna undir dalnum og rannsakar nú hvernig koma megi nýtingu hennar við.  

Ölkelduháls er eitt fjölbreyttasta hverasvæði landsins og staðsetning þess gerir það afar verðmætt fyrir borgarbúa og ferðaþjónustuaðila. Um svæðið liggur háspennulína eftir hálsinum og þrjár rannsóknarborholur hafa verið boraðar þar án umhverfismats. Væri línan flutt mætti endurheimta mikið af upprunaleika svæðisins og gera það að einni af helstu náttúruperlum landsins. Orkuveita Reykjavíkur leggur núna drög að háhitavirkjun á svæðinu.  

Langisjór. Með Skaftárveitu er fyrirhugað að veita vesturkvísl Skaftár um Langasjó í Tungnaá. Það myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á ásýnd Langasjós sem af mörgum er talið eitt af fegurstu og sérstæðustu náttúrufyrirbærum landsins. Auk fegurðargildis er þarna hægt að fylgjast með nýju vatni í mótun sem hefur mikið náttúrufræðilegt gildi. Landsvirkjun er umhugað að fá heimild til þessarar framkvæmdar en hún myndi mjög auka á hagkvæmni virkjana í Tungnaá og Þjórsá.  

Skjálfandafljót og vatnasvið þess hefur að geyma fjölmörg svæði og náttúrufyrirbæri á náttúruminjaskrá s.s. Goðafoss og Aldeyjarfoss en mörg fleiri mætti nefna. Víða eru vinsælar gönguleiðir meðfram fljótinu en náttúrufegurð þar er við brugðið. Í Skjálfandafljóti hefur verið rætt um tvo virkjunarkosti, Hrafnabjargavirkjun a og b. Þær raðast hvor við sína hlið Grændals í umhverfiseinkunn, sú fyrri fær umhverfiseinunn B en sú síðari einkunnina C.  

Jökulsár Skagafjarðar eru afar verðmæt náttúrusvæði og bjóða upp á marga spennandi möguleika til nýtingar sem samrýmast náttúruvernd. Hægt er að sigla allt frá Laugarfelli norðan Hofsjökuls og til sjávar í Skagafirði en bæði Austari og Vestari jökulsár eru svo vel fallnar til slíkra fljótasiglinga að leitun þykir að jafn spennandi ám í heiminum. Fegurð dalanna er mikil, einkum Austurdals. Landsvirkjun hefur sótt um rannsóknarleyfi vegna virkjunar við Skatastaði og Héraðsvötn ehf. vilja virkja við Villinganes. Báðir kostir myndu spilla mjög náttúru jökulánna.  

Jökulsá á Fjöllum á upptök sín í Vatnajökli og rennur til sjávar í Öxarfjörð. Jökulsárgljúfur eru stærstu og hrikalegustu árgljúfur á Íslandi og Dettifoss er talinn einn voldugasti foss í Evrópu. Dettifoss, Selfoss og Hafragilsfoss mynda einstaka fossaröð í Jökulsá á Fjöllum en gljúfrin og umhverfi þeirra bjóða upp á fjölbreytilega möguleika til útivistar og náttúruskoðunar.  

Kerlingarfjöll eru einstök að fegurð og afar vinsælt útivistarsvæði. Ráðgjafi við heimsminjaskrá UNESCO hefur látið í ljós þá skoðun að fegurð þess landslags sem afmarkast af Kerlingarfjöllum, Hofsjökli og Þjórárverum sé einstök í heiminum. Orkuveita Reykjavíkur hefur sótt um leyfi til orkurannsókna í Kerlingarfjöllum en ljóst er að rannsóknarboranir myndu skerða umtalsvert verndargildi svæðisins.  thjors_1

Þjórsárver eru ein víðáttumesta gróðurvinin á miðhálendinu og geymir mestu varpstöðvar heiðargæsa í heimi. Gróskumiklar og fjölskrúðugar flæðilendur með afar fjölskrúðugu gróðurfari stinga í stúf við harðneskjulegt umhverfið. Landsvirkjun hefur nú horfið frá fyrri áformum sínum um Norðlingaölduveitu í Þjórsárverum en leggur í stað þess á ráðin um minni veitu rétt utan núverandi friðlandsmarka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

FRAMÚRSKARANDI FRÁBÆR UMSÓKN!

Og nú er að sjá hvort gefið verður rannsóknarleyfi fyrir annars konar nýtingu náttúrunnar en boðið hefur verið upp á hingað til. Takk fyrir frábæra umsókn og greinargerð. Áfram Dofri!

Andrea J. Ólafsdóttir, 16.12.2006 kl. 08:45

2 identicon

Flott framtak Dofri.

Vonandi tekst að skerpa framtíðarsýnina þannig að umhverfisvernd til alnds og sjávar og atvinnustefna Samfylkingarinnar harmóneri saman - þannig að "Framtíðarlandið" verði okkar.  Hin breiða miðja og félagshyggjan til vinstri þurfa að verða eitt - þannig að almannaheill séu höfð í fyrirrúmi.  

Á 90 ára afmæli Framsóknarflokksins virðist félagshyggja hans endanlega dauð - og ekkert tekur við annað en sérhagsmunir hinna örfáu sjálfskipuðu erfðaprinsa "samvinnuarfsins."    Þaðan er ólíklega að fá liðsinni - og vafasamt að það verði úr herbúðum þeirra sem hafa vanið sig á að vera neikvæðir í öllu.

Benedikt Sigurðar; www.bensi.is

Benedikt Sigurðarson (IP-tala skráð) 16.12.2006 kl. 22:38

3 identicon

Skrýtið að hið opinbera skuli ekki hafa lokið megninu af þeim rannsóknum sem hér er sótt um. Er þetta ekki eitthvað sem Náttúrufræðistofnun ætti að annast. Það er a.m.k. mikilvægt að þeirra gagna rannsókninni er ætlað af afla verði aflað áður en svæðunum sem um ræðir verður raskað.

Kveðja,
Bergur Sigurðsson,
Landvernd.

Bergur (IP-tala skráð) 18.12.2006 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband