Eineltisóperan

Ósköp er þetta fjas sjálfstæðismanna um einelti í þeirra garð hjákátlegt. Nú hefur Björn Bjarnason blandað sér í þann söng, enda lagið tamt.

Mörgum er í fersku minni þegar flokksfélagi Björns "lenti í" þeim "tæknilegu mistökum" að upp komst um þjófnað hans. Þá lét Björn hafa eftir sér að árásir fjölmiðla í garð hins ólánsama flokksfélaga minnti á það þegar vargar ráðast að særðu dýri.

Það vantar ekki líkingarnar.

Davíð segist aldrei hafa hlaupið frá verki sem hann hafi tekið af sér. Hvernig var það annars, fór hann ekki úr borginni á þing án þess að klára kjörtímabilið og skildi eftir sig hóp smælingja sem ekki fylltu út í borgarstjórastólinn?


mbl.is Davíð segir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært framtíðarþing!

Var að koma heim af framtíðarþingi Samfylkingarinnar á Hressó í dag. Þar sat grasrótin ekki undir ræðum kjörinna fulltrúa heldur var skipulagið með þeim hætti að fundarmenn tóku fyrir brýnustu málefni líðandi stundar, krufu þau til mergjar og bentu á leiðir til lausna.

Það var frábært að sjá að í bland við hinn góða og öfluga kjarna flokksins kom margt nýtt og kraftmikið fólk inn af götunni til að leggja gott til málanna. Margir með sérþekkingu á viðkomandi sviðum og fulltrúar allra hópa og allra kynslóða.

Í upphafi fundar var kynning á könnun Capacent sem gerð var fyrir ári og sýnir viðhorf þjóðarinnar til ýmissa mála. Þessi könnun er gerð á sama hátt í mörgum löndum og segir til um hvaða viðhorf og gildi eru ríkjandi í þjóðfélaginu.

Niðurstaðan var sú að á Íslandi (fyrir ári) var einstaklings- og gróðahyggja hátt yfir önnur gildi hafin s.s. samfélagsvitund, ábyrgð gagnvart umhverfi og öðrum þjóðum. Við vorum þar í félagsskap Litháa og Bandaríkjamanna en þær þjóðir hafa einmitt líka orðið fyrir miklum áföllum - e.t.v. vegna óheppilegra ríkjandi viðhorfa.

Það er huggun að vita til þess að í Bandaríkjunum snéri fólk blaðinu við og þvert á öll líkindi kaus það sér sem forseta svartan mann, með millinafnið Hussein, sem sagði að það væri hægt að breyta heiminum.

Á framtíðarþinginu í dag komu fram margar hugmyndir sem geta breytt miklu ef þær komast í verk og ég held að flokkurinn búi að mörgu hæfileikafólki sem er fært um að hrinda slíkum málum í framkvæmd.


mbl.is Landsfundur Samfylkingar í lok mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi undir hæl framkvæmdavaldsins

Það er óheppilegt fyrir þrískiptingu ríkisvaldsins hvernig málum er háttað á Alþingi.

Þegar náðst hefur að mynda meirihluta á Alþingi er byrjað að raða í ráðherrasæti og af því hefði er fyrir því að þingmenn gegni ráðherraembættum kemur strax upp sú staða að formenn stjórnarflokkanna hafa það í hendi sér hver af þingmönnunum verður ráðherra.

Enn verra er þó að þessi stemning helst út kjörtímabilið því alltaf hangir yfir sá möguleiki að stokkað verði upp í ráðherraliðinu og að þá fái aðrir í þingflokknum tækifæri. Það segir sig sjálft að þetta dregur úr sjálfstæði þingflokksins.

Við þetta bætist svo sú venja að þegar þingflokkurinn kýs sér formann, varaformann og ritara þá er það gjarnan gert samkvæmt uppástungu formanns. Stjórn þingflokksins ákveður síðan hvaða þingmenn verða formenn nefnda og hver verður forseti Alþingis.

Með beinum eða óbeinum hætti þiggja sem sagt allir þingmenn stjórnarflokkanna upphefðir sínar og áhrif frá formanni flokksins sem jafnframt er oddviti flokksins í ríkisstjórn. Það er því mikið til í því sem oft heyrist að hér sé ekki þingbundin stjórn heldur stjórnbundið þing.

Það myndi bæta mikið úr þessari stöðu ef þingmenn sem taka sæti í ríkisstjórn segðu af sér þingmennsku. Þetta ætti að vera einfalt mál að setja í lög og manni finnst að ef þeim þingmönnum sem nú verma bekki á Alþingi væri full alvara í því að styrkja stöðu þingsins gætu þeir flutt um þetta litla þingsályktunartillögu og fengið hana samþykkta fyrir vorið.


mbl.is Guðbjartur kjörinn þingforseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er heppinn

Leið 6 stoppar beint fyrir utan Ráðhúsið og fer því sem næst beina leið upp í Grafarvog, rétt framhjá götunni þar sem ég bý.

Í gær var borgarstjórnarfundur búinn kl. rétt rúmlega 9 um kvöld. Ég sá í tölvunni minni að leið 6 yrði næst við Ráðhúsið 17 mínútur yfir svo ég tók saman dótið mitt, spjallaði aðeins á leiðinni út og þurfti svo ekki að bíða lengi þar til vagninn kom.

Það hefði verið allt í lagi að bíða hálftíma en ég er svo heppinn að leið 6 gengur einmitt á hálftíma fresti á kvöldin. Það hefði hins vegar verið fúlt að þurfa að bíða í klukkutíma.

Strætó er í raun gata fyrir fólk sem ekki notar einkabíl. Það myndi enginn láta bjóða sér að það væri bara hægt að keyra einkabílinn á klukkustundar fresti eftir kl 18 á daginn.

Í borg hinna grænu skrefa ætti ekki að þurfa heppni til að geta notað almenningssamgöngur.
Strætó á klukkustundar fresti er ekki boðleg þjónusta við borgarana.


Hvaða sprotafyrirtæki hafa myndast?

Samtök sprotafyrirtækja eru samtök innan Samtaka iðnaðarins. Þessi samtök og sprotafyrirtæki yfirleitt hafa verið mjög mikið í sviðsljósinu núna eftir bankahrunið t.d. af því þau hafa ráðið til sín talsverðan fjölda fólks í ný störf sem fyrirtækin hafa skapast. Líklega eru þau að verða á fjórða hundrað talsins.

Skilgreining sprotafyrirtækja felur í sér að 10% eða meira af veltu fyrirtækisins rennur í rannsóknir og þróunarstarf. Ég hef skoðað talsvert af sprotafyrirtækjum undanfarin misseri en ekki rekist á eitt einasta sem hefur sprottið af þjónustu við álverin.

Er nokkuð til of mikils mælst að hagfræðingur Samtaka Iðnaðarins (og þar með Samtaka sprotafyrirtækja) nefni þessi sprotafyrirtæki sem hann telur hafa sprottið af þjónustu við álverin? Þó ekki væri nema eitt!

Ég lá yfir grein Indriða í gær og get tekið undir með hagfræðingi SI að þar er ekki marga snögga bletti að finna. Röksemdafærslan er þétt, einnig á bak við það sem sagt er um afleidd störf. Afleidd störf myndast af öllu sem gert er í flóknu hagkerfi. Álver hafa þar enga sérstöðu.


mbl.is Vanmetur mikilvægið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færri störf og meiri áhætta

Þessi samningur er tímaskekkja og mistök. Með honum er verið að festa alla orku Orkuveitunnar sem sátt er um að virkja í enn einu álverinu. Með því að binda orkuna í samningum um álbræðslu er verið að skapa eitt starf á hvert MW í stað þess að vinna í samningum við aðra stórnotendur sem margir hverjir skapa 2,5-4 störf á hvert MW.

Með þessum samningi er verið að velja að auka þá áhættu borgarbúa sem felst í því að öll orkusala Orkuveitunnar til stórnotenda er nú háð sveiflum á álverði. Með þessum samningum er verið að varpa fyrir róða ágætum fyrirheitum að nota umhverfisvæna orku til að auka fjölbreytni, skapa fleiri störf og styrkja ímynd Reykjavíkur sem borgar þar sem græn orka er nýtt í þágu græns iðnaðar.

Samfylkingin flutti tillögu um að frestir yrðu lengdir svo skapa mætti tækifæri til að ná hingað fjölbreyttari og umhverfisvænni iðnaði og svo dreifa mætti áhættu af orkusölunni. Þeirri tillögu hafnaði meirihlutinn og nú bendir flest til þess að borgarbúar fari á mis við það tækifæri að byggja hér upp græna iðjustarfsemi s.s. sólarkísilhreinsun á Grundartanga o.fl.

Samfylkingin lýsir fullri ábyrgð á hendur meirihlutanum að svo skuli vera komið málum að öll orka Orkuveitu Reykjavíkur hefur nú verið fest í loforðum um að knýja álver í Helguvík sem reyndar verður að teljast afar ólíklegt að nokkurn tímann komist í gang.


mbl.is Orkusölusamningur staðfestur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppnám á borgarstjórnarfundi

Nú rétt í þessu var gert hlé á fundi borgarstjórnar til að úrskurða um það hvort framsóknarflokknum hafi verið heimilt að taka 16. mann á lista flokksins inn sem varamann án vitundar og samþykkis 1. varamanns framsóknarflokksins í borgarstjórn sem er Marsibil Sæmundardóttir.

16. maður á lista framsóknar er jafnframt formaður stjórnar Orkuveitunnar. Hann mætti á fund borgarstjórnar til að flytja ræðu um ágæti samngings OR við Norðurál um sölu á 175 MW (sem jafngildir allri virkjanlegri orku sem sátt er um að virkja) til álversins í Helguvík.

Margt bendir til að vera formanns stjórnar OR sé ólögleg og að ræða hans verði strikuð út.


Rökvilla hvalveiðisinna

Það eru tvær merkilegar rökvillur sem aftur og aftur skjóta upp kollinum í kolli hvalveiðisinna.

  1. Að heildarfjölda starfa fjölgi ef 200 manns fara að drepa og verka hval. Þetta er merkileg rökvilla því það er ljóst að hvalveiðar hafa neikvæð áhrif á sölu afurða landsins, orðspor þess og dregur úr fjölgun ferðamanna.
  2. Að það verði að veiða hval af því hann borðar svo mikið af fiski. Í fyrsta lagi borða ekki allar tegundir hvals fisk og í öðru lagi þyrfti að veiða tugi þúsunda hvala til að heildarmagn af fiski í hvalsmaga minnki svo nokkru nemi.

En það virðist vera mikið til tilgangslaust að leiðrétta þessar rökvillur - sömu einstaklingarnir kyrja þennan kór aftur og aftur þrátt fyrir að hafa fengið og meðtekið leiðsögn.


mbl.is 200 störf slegin út af borðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegt!

Eflaust þykir mörgum merkileg sú afstaða sem kemur fram í orðum nýja umhverfisráðherrans. Samningurinn sem hún nefnir er í raun viljayfirlýsing sem bíður staðfestingar Alþingis. Ætli hún hafi hugsað sér að greiða atkvæði með samningnum?

Hún er ekki síður merkileg greinin eftir Indriða H Þorláksson fyrrverandi ríkisskattstjóra þar sem raktar eru furðulegar skattabreytingar stóriðjuríkisstjórna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins. Lokaniðurstaða hans er þessi:

  • Efnahagslegur ávinningur Íslands af starfsemi stóriðjuvera er lítill og hefur farið minnkandi fyrir tilverknað stjórnvalda. Hann er nú vart meira en 0,1 – 0,2% af þjóðarframleiðslu fyrir hvert álver.
  • Arður af íslenskum auðlindum, virðist að mestu koma fram hjá iðjuverunum og rennur vegna lágra skatta að mestu ósnertur í vasa hinna erlendu eigenda.

Í pólitískri umræðum, m.a. um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu, eru allir sammála um að náttúruauðlindirnar séu eign þjóðarinnar og að tryggja beri yfirráð yfir þeim. Það er holur hljómur í þeirri umræðu á sama tíma og náttúruauðlindunum er ráðstafað í þágu útlendinga og þeim gefinn arðurinn af þeim?

Ætli stjórnmálamenn á Alþingi sér framhald á störfum þar ættu þeir í ljósi þessara upplýsinga að endurskoða alvarlega hug sinn þegar kemur að því að greiða atkvæði með eða á móti samningi um allra handa afslætti á sköttum og skyldum gagnvart álverinu í Helguvík.


mbl.is Álver í Helguvík en ekki á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott framtak hjá Dorrit

Ég sé það á bloggi um þessa frétt að það eru álíka margir sem vilja gera lítið úr viðleitni Dorritar og hinir sem eru ánægðir með hana. Líklega er það svo um allar góðar hugmyndir. Hver hefði trúað því þegar byrjað var að sýna útlendingum hvali að árið 2007 myndu á annað hundrað þúsund ferðamenn kaupa svoleiðis ferðir og stór hluti útlendinga koma hingað gagngert til að sjá hvali?

Þær hugmyndir sem Dorrit reifar hér eru ágætar. Ég hef ekki áður heyrt af þessari viðskiptahugmynd að leigja út geymslur fyrir listasöfn með leyfi til að sýna eitthvað af gripunum. Ef hún gengur upp er það frábært því eins og margir vita hafa listaverk mikið aðdráttarafl. Sýningarsvæði á Vellinum - við hliðina á gömlum flugvelli er því skemmtileg hugmynd sem gæti ásamt öðru s.s. eldfjallaþjóðgarði á Reykjaneshrygg lagt grunn að öflugri starfsemi í ferðaþjónustu.

Sama má segja um heilsulindir. Ég hef nýlega séð magnaðar hugmyndir fólks sem vill á næstu árum byggja Ísland upp sem heilsulindaparadís. Þetta eru raunhæf áform sem ætlunin er að ráðast í á næstu 10-15 árum í samvinnu við sveitarfélög, ferðaþjónustuaðila og heilbrigðisgeirann vítt og breitt um landið.

Dorrit hefur gert kraftaverk fyrir Ísland t.d. með því að tengja íslenskt listafólk við lykilaðila í listheiminum úti í London og víðar. Hvað ætli ímynd landsins hafi grætt mikið á sýningum Vesturports og öðrum sýningum Íslendinga erlendis sem Dorrit hefur með einhverjum hætti komið að?


mbl.is Dorrit: Ísland verði svalari útgáfa af Dubai
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband