8.2.2008 | 17:54
Það er svo erfitt að skrökva
Eitt af því sem gerir það svo erfitt að skrökva er að það krefst svo góðs minnis. Ef maður hefur ekki algjört stálminni er eins víst að maður lendi í ógöngum.
Annað sem gerir þetta erfitt er að þegar er byrjað á einni skröksögu er eins víst að maður þurfi að búa til aðra til að staðfesta þá fyrri.
Dæmi:
Lögreglan: Hvar varst þú umrætt kvöld?
Skrökvari: Ég var heima hjá konunni minni.
Lögreglan: Hún vill nú ekki kannast við það. Varstu að segja ósatt?
Skrökvari: Nei alls ekki, þegar ég sagði þetta var ég með fyrrverandi konuna mína í huga.
Skrökið hleður utan á sig eins og snjókúla á leið niður brekku. Áður en skrökvarinn veit af er hann kominn á kaf í hálfsannleika og hrein ósannindi. Það er þess vegna best að segja bara satt. Þó það geti stundum verið erfitt er enn erfiðara að skrökva.
![]() |
Yfirlýsing frá Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.2.2008 | 11:52
Kjósendur dæma
Það er ljóst að fólk vill að þeir axli ábyrgð sem báru ábyrgð á REI klúðrinu. Það er ósköp eðlilegt. Spurningin er bara hvernig.
Gamli góði Villi vill ekki segja af sér, honum finnst nóg að biðja bara afsökunar á öllu saman og setjast svo aftur í sama stólinn. Hann veit sem er að það verður ekki kosið aftur fyrr en eftir rúm 2 ár og treystir á lélegt minni kjósenda.
Samflokksmenn Villa eru miður sín yfir því að karlinn ætlar að sitja áfram því hann dregur þau öll niður með sér. Hins vegar er staðan erfið því ef Villi fer stefnir allt í harða baráttu um oddvitasætið - baráttu sem ekki sér fyrir endann á og mun kosta flokkinn stuðning margra kjósenda ekki síður en að hafa Villa á toppnum.
Sumir nefna Hönnu Birnu og aðrir Gísla Martein. Enn aðrir segja að aldrei verði sátt um þau innan borgarstjórnarflokksins og að líklega yrði Júlíus Vífill fyrir valinu. Ekki gott að segja.
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er svolítið eins og maður sem er með ör á kafi í bakhlutanum. Þetta er honum verulega óþægilegt, hann kemst ekki úr sporunum en ef örinni verður kippt út veit enginn hvort það verður hægt að stoppa blæðinguna og loka sárinu. Niðurstaðan er því að skrölta bara áfram með örina í rassinum.
Ef það væri hægt að efna til kosninga gætu kjósendur beitt valdi sínu. Það er ekki í boði. Hvað gera kjósendur - hinir réttu valdhafar - í stöðu sem þessari? Mæta þeir aftur á pallana? Heimta þeir afsögn Vilhjálms?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.2.2008 | 21:16
Stýrihópurinn ekki dómstóll
Það var auðséð á Kastljósi í kvöld að fjölmiðlum er, fyrir hönd almennings, mikið í mun að einhver axli ábyrgð á REI klúðrinu. Það er mjög eðlilegt. Það var hins vegar skrýtið að sjá spyril Kastljóss ganga svo hart að Svandísi Svavarsdóttur sem hefur stjórnað vinnu stýrihópsins af miklum myndarskap.
Stýrihópurinn var settur á til að skoða allt málið ofan í kjölinn og velta við hverjum steini. Það var gert. Stýrihópurinn er þannig eins konar rannsóknarnefnd. Það er morgunljóst að sömu aðilar og rannsaka málið geta ekki gerst dómarar í því. Það væri óeðlilegt.
Í tilviki þeirra embættismanna sem hafa starfað án umboðs hljóta kjörnir fulltrúar í stjórnum OR og REI að þurfa að meta það hvort þeir verði látnir starfa áfram eða axla sín skinn. Nú liggur skýrslan fyrir og sjálfsagt að taka afstöðu til þess.
Hvað varðar störf Vilhjálms, fyrrverandi og verðandi borgarstjóra, án umboðs þá er það kjósenda að ákveða hvort þeim finnst hann traustsins verður. Það geta ekki pólitískir andstæðingar tekið að sér þótt þeir eigi að sjálfsögðu að hafa á því skoðun.
Þótt það séu ekki kosningar á næsta leyti sýna skoðanakannanir svo ekki verður um villst að fólk treystir borgarstjórnarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins ekki vel. Núna þegar liggur fyrir að 6 menningarnir ætla fyrir hönd borgarbúa að "fyrirgefa" Vilhjálmi afglöpin eru þeir um leið að gera sig samsek honum.
Spurningin er hvað kjósendum finnst um það. Mun traust kjósenda á borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna þverra enn frekar?
![]() |
Efast um umboð borgarstjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
7.2.2008 | 12:24
Full sátt um gamla góða Villa
Það er full sátt í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna um Vilhjálm, verk hans í REI málinu og hann sjálfan sem borgarstjóraefni Sjálfstæðismanna þegar Ólafur F stígur af stalli.
Unga fólkið í hópnum fylkir sér að baki reynsluboltanum, fullt stolts yfir fortíðinni og tilhlökkunar yfir framtíðinni!
Var kannski Jón Viðar að fara húsavillt þegar hann talaði um nálykt?
![]() |
Segir fátt nýtt í skýrslunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.2.2008 | 09:52
Átakanleg upprifjun
Það var átakanlegt að horfa á fyrrum borgarstjóra og núverandi borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins tala í hringi og kross við sjálfan sig í samantekt Kastljóssins um REI málið í gær.
Er þetta maður sem borgarbúar eiga að treysta? Er þetta maður sem Ólafur F ætti að treysta? Er þetta maður sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins treysta?
Í frétt mbl.is segir:
Mikil vinna fór í það í gær og fyrradag hjá sjálfstæðismönnum að tryggja að allir borgarfulltrúar innan raða borgarstjórnarflokksins væru sáttir við niðurstöðuna, enda höfðu þeir ólíka aðkomu að málinu.
Það er trúlega ekki ofsagt.
![]() |
Sameiginleg niðurstaða stýrihópsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.2.2008 | 10:25
Að bresta í söng
Stundum er lífið lyginni líkast og eftir atburði síðustu vikna í borgarmálunum kemur manni fátt á óvart. Atburður þessa morguns fannst mér þess vegna í fullu samræmi við lífið og tilveruna.
Ég var á gangi yfir Arnarhól til vinnu minnar þegar ég sá hárprúðan sjálfstæðismann á sjötugsaldri á leið til sinnar vinnu koma á móti mér. Rétt í þá mund sem við mætumst við styttuna af Ingólfi stoppar maðurinn og ræskir sig. Ég hélt að hann vildi hafa af mér tal og stoppaði líka en það reyndist misskilningur af minni hálfu.
Maðurinn breiddi þess í stað út faðminn á móti borginni og brast í söng. Lagið var hið hugljúfa lag Þorsteins Guðmundssonar við ljóð Reykjavíkurskáldsins Tómasar um Hönnu litlu, lag sem margir hafa sungið og ef til vill best okkar ástsæli söngvari Vilhjálmur Vilhjálmsson.
Í söngleikjum brestur fólk í söng þegar venjuleg orð eru ekki nægilega sterk til að lýsa tilfinningum manna. Svo virtist einnig vera í þessu tilviki. Söngurinn kom frá dýpstu hjartans rótum og stundin var svo mögnuð að mig langar til að deila henni og ljóðinu með lesendum síðunnar.
Hanna litla
Hanna litla! Hanna litla!
Heyrirðu ekki vorið kalla?
Sérðu ekki sólskinshafið
Silfurtært um bæinn falla?
Það er líkt og ljúfur söngur
Líði enn um hjarta mitt,
ljúfur söngur æsku og ástar,
er ég heyri nafnið þitt!
Hanna litla! Hanna litla!
Hjartans barnið glaðra óma.
Ástarljóð á vorsins vörum.
Vorsins álfur meðal blóma.
Þín er borgin björt af gleði.
Borgin heit af vori og sól.
Strætin syngja. Gatan glóir.
Grasið vex á Arnarhól.
Hanna litla! Hanna litla!
Herskarar af ungum mönnum
Ganga sérhvern dag í draumi,
Dreyma þig í prófsins önnum.
Og þeir koma og yrkja til þín
Ódauðlegu kvæðin sín.
Taka núll í fimm, sex fögum
Og falla - af tómri ást til þín.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.2.2008 | 19:04
Hvað verður um hverfisráðin?
Þegar sjálfstæðismenn tóku við borginni eftir kosningar 2006 var það litla fé sem hverfisráðin höfðu til styrkjaveitinga tekið af þeim. Þetta kom illa við marga, t.d. hverfablöð og fleiri sem höfðu fengið styrki hjá hverfaráðum en fengu ekki á síðasta ári.
Þegar þeir sprungu á REI málinu og nýr meirihluti tók við undir forystu Dags B Eggertssonar var sérstök áhersla lögð á að efla hverfisráðin á ný, þeim fengið aukið fé til styrkja á hverfisvísu, fé sett í forvarnar- og framfarasjóð og lagt af stað í stórt samráðsverkefni um forgangsröðun framkvæmda í hverfum borgarinnar. Þessi verkefni voru öll komin af stað þegar núverandi meirihluti tók völdin í borginni.
Á fundi borgarstjórnar í dag var því umræða um framtíð hverfaráðanna að beiðni minnihlutans. Borgarstjóri sagði að engin ákvörðun hefði verið tekin um að draga úr styrkjum til hverfisráanna. Það var gott að vita að ekki ætti að taka þá peninga af hverfisráðum sem fyrri meirihluti var búinn að skammta þeim á fjárhagsáætlun 2008 en vissulega vorum við að vonast eftir svörum um framtíðina lengra fram í tímann.
Þráspurðir um stefnu nýs meirihluta í þessu máli svöruðu núverandi borgarstjóri og borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins því til að þeir vildu stuðla að auknu íbúalýðræði og samvinnu við íbúa borgarinnar og að til standi að ræða árangurinn af starfi hverfisráðanna við formenn þeirra og ákveða svo hvernig þessu starfi verði best komið í framtíðinni.
Nú er 3ja ára áætlun í undirbúningi - átti reyndar að leggja fram á þessum fundi borgarstjórnar - og því er að styttast sá tími sem meirihlutinn hefur til að ræða við formenn hverfisráðanna um framhald verkefna þeirra. Hvað mun meirihlutinn skammta hverfisráðum borgarinnar á 3ja ára áætlun?
5.2.2008 | 17:27
Sjóðurinn tómur
Loks fékkst svar upp úr meirihlutanum í borgarstjórn um hvaðan á að taka peningana til að borga húsin á Laugavegi 4 og 6. Þá á að taka af sérstökum eignakaupalið Eignasjóðs en á þann lið voru settar 600 milljónir á fjárhagsáætlun 2008.
Það er 5. febrúar og nýr meirihluti er búinn að nota 580 milljónir af þeim 600 milljónum sem Eignasjóður hefur til að kaupa upp eignir út árið 2008. Eins gott að það þurfi ekki að kaupa neitt meira.
Hvað ætli Sirkus kosti?
5.2.2008 | 15:27
Hvað á að skera niður?
Borgarstjóri segir að kaup borgarinnar á húsunum á Laugavegi 4 og 6 langt yfir markaðsverði hafi ekki skapað fordæmi og muni því ekki hafa áhrif á verðmyndun annarra gamalla húsa. Þetta er rangt.
Þegar hús eru friðuð með lögum er markaðsverð greitt fyrir húsin skv. eignarnámsákvæðum. Með því að kaupa hús sem metin voru á um 350 milljónir á 580 milljónir hefur borgarstjórn breytt markaðsverði slíkra húsa.
Þremur dögum áður en Laugavegur 4 og 6 hefðu verið friðuð af ráðherra og fyrir þau greitt markaðsverð (um 350 milljónir) úr ríkissjóði ákvað nýr meirihluti að kaupa þau á 580 milljónir af skattfé Reykvíkinga. Það eru miklir peningar og ekki hefur verið gefin skýring á hvaðan þeir eiga að koma. Hvað á að skera niður?
Það er furðulegt að nýr borgarstjóri skuli reyna að verja svona meðferð á peningum Reykvíkinga og er ekki líklegt til að auka traust almennings á honum.
Hvað ætlar hann að gera við Sirkus? Eða hin 10-20 húsin sem eru í svipaðri stöðu?
5.2.2008 | 14:15